31.1.2022 | 05:57
Here we go again
Það hefur varla farið fram hjá neinum að fleira en þakið er við það að fjúka af kofanum. Húsnæðisverð í hæstu hæðum, verðbólgan sú mesta í 10 ár og allt útlit er fyrir að vextir verði snarhækkaðir hjá viðundrunum í Seðlabankanum, sem hafa staðið að gengislækkun krónunnar að undaförnu með inngripum af því taginu sem glæðir verðbólgu bálið. Já það styttist óðum í að púkar Sæmundar gæði sér á hverjum bita í helsjúku pestargreninu.
Þegar ég var á leið til vinnu í morgunnmyrkrinu undir lok síðustu viku brá mér í brún þegar ég tók fyrstu beygjuna til vinstri. Þar var bara svarta myrkur, logaði ekki svo mikið sem ein týra til hægri. Búið að rífa elliheimilið, litlar raðhúsaíbúðir sem höfðu aldrei staðið tómar í beygjunni á besta stað í bænum í meira en 50 ár. Ég var reyndar búin að heyra að lóðin væri svo svakalega verðmæt að til stæði að endurnýja húsin, en að það ætti að massa þau endanlega með stórvirkum vinnuvélum, brothömrum og trukkum hafði mér ekki hugkvæmst. En maður býr jú í heimabæ skurðgröfunnar.
Síðast þegar svona gjörningalist í verðmætaaukningu kom til framkvæmda í mínum smáheimabæ var árið 2008. Þá voru tæplega 20 ára gömul, -mörg þúsund fermetra gróðurhús Barra rifin og byggð önnur splunkuný í rokrassgati fyrir norðan Fljót. Raftækjaverslun með áföstu rafmagnsverkstæði sem hafði staðið í rúm 40 ár rifið. Lóðirnar voru víst svo svakalega verðmætar að þar átti hvorki meira né minna en byggja miðbæ, þó svo að hann yrði bæði fyrir utan bæinn og enginn þyrfti sérstaklega á honum að halda.
Núna öllum þessum árum seinna er gras á verðmætu miðbæjarlóðunum. Þær eru notaðar sem tjaldstæði fyrir ferðamenn. Ef ekki hefði orðið hið svokallaða hrun væri ekki svo mikið sem kamar á svæðinu, því hvorki gafst tími né lánsfé til að rífa gamla Tehúsið sem var byggt sem verbúð fyrir sláturhúsið löngu fyrir mína tíð. Það hefur ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug síðan um árið að þessar miðbæjarlóðir séu það verðmætar að það borgi sig að draga upp úr þeim tjaldhælana.
Enda varð stærsta verktakafyrirtæki bæjarins, og rafmagnverkstæðið gjaldþrota í kjölfar verðmætaaukningarinnar. Kaupfélag Héraðsbúa fór sömu leið 2009 á 100 ára afmælinu. Hafði þó selt miðbæjarlandið og keypt kaupanda landsins árið eftir söluna, sem var verktakafyrirtækið, það hafði nefnilega ekki ráð á að borga kaupfélaginu. Sú viðskiptaflétta kom til eftir að í ljós kom að bókhaldslega reyndist hagstæðara fyrir kaupfélagið að kaupa kaupandann, en að afskrifa góðar sölutölur á lóðum úr bókhaldinu. Eftir stóð raðgjaldþrota samfélag og bæjarfélag í gjörgæslu.
Nú virðist allt þetta bix gleymt og grafið, komið yfir móðuna miklu ásamt Barra þrátt fyrir hetjulega baráttu Byggðastofnunnar. Bankarnir aftur orðnir stútfullir af peningum og fólkið brunar flest orðið til vinnu í rauðglóandi smeltiverkið á orkuskiptu bílunum niður í orkuskortinn í neðra. Það eina sem hefur verið byggt í miðbænum er Skattstofa ríkisins rétt norðan og neðan við þar sem rafmagnsbúðin stóð. Og var hart á því um tíma að skattstofan yrði ekki gjaldþrota líka, sælla minninga.
Þegar fólk fær þær frábæru hugmyndir að rífa hús í fullri notkun til verðmætasköpunar á lóðum, sér þær í hyllingum til að selja lífsreyndu eldra fólki hugmyndina af nákvæmlega eins þaki yfir höfuðið á meira en tvöfalt hærra verði, þá er sama hversu skaðmenntað það er, réttast væri að það rifjaði upp tvo plús tvo á fingrum sér. Er nema von að þegar ekkert ljós logar lengur í bestu beygjunni í bænum að upp komi í hugann gamli frasinn, -here we go again.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)