Here we go again

Það hefur varla farið fram hjá neinum að fleira en þakið er við það að fjúka af kofanum. Húsnæðisverð í hæstu hæðum, verðbólgan sú mesta í 10 ár og allt útlit er fyrir að vextir verði snarhækkaðir hjá viðundrunum í Seðlabankanum, sem hafa staðið að gengislækkun krónunnar að undaförnu með inngripum af því taginu sem glæðir verðbólgu bálið. Já það styttist óðum í að púkar Sæmundar gæði sér á hverjum bita í helsjúku pestargreninu.

Þegar ég var á leið til vinnu í morgunnmyrkrinu undir lok síðustu viku brá mér í brún þegar ég tók fyrstu beygjuna til vinstri. Þar var bara svarta myrkur, logaði ekki svo mikið sem ein týra til hægri. Búið að rífa elliheimilið, litlar raðhúsaíbúðir sem höfðu aldrei staðið tómar í beygjunni á besta stað í bænum í meira en 50 ár. Ég var reyndar búin að heyra að lóðin væri svo svakalega verðmæt að til stæði að endurnýja húsin, en að það ætti að massa þau endanlega með stórvirkum vinnuvélum, brothömrum og trukkum hafði mér ekki hugkvæmst. En maður býr jú í heimabæ skurðgröfunnar.

Síðast þegar svona gjörningalist í verðmætaaukningu kom til framkvæmda í mínum smáheimabæ var árið 2008. Þá voru tæplega 20 ára gömul, -mörg þúsund fermetra gróðurhús Barra rifin og byggð önnur splunkuný í rokrassgati fyrir norðan Fljót. Raftækjaverslun með áföstu rafmagnsverkstæði sem hafði staðið í rúm 40 ár rifið. Lóðirnar voru víst svo svakalega verðmætar að þar átti hvorki meira né minna en byggja miðbæ, þó svo að hann yrði bæði fyrir utan bæinn og enginn þyrfti sérstaklega á honum að halda.

Núna öllum þessum árum seinna er gras á verðmætu miðbæjarlóðunum. Þær eru notaðar sem tjaldstæði fyrir ferðamenn. Ef ekki hefði orðið hið svokallaða hrun væri ekki svo mikið sem kamar á svæðinu, því hvorki gafst tími né lánsfé til að rífa gamla Tehúsið sem var byggt sem verbúð fyrir sláturhúsið löngu fyrir mína tíð. Það hefur ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug síðan um árið að þessar miðbæjarlóðir séu það verðmætar að það borgi sig að draga upp úr þeim tjaldhælana.

Enda varð stærsta verktakafyrirtæki bæjarins, og rafmagnverkstæðið gjaldþrota í kjölfar verðmætaaukningarinnar. Kaupfélag Héraðsbúa fór sömu leið 2009 á 100 ára afmælinu. Hafði þó selt miðbæjarlandið og keypt kaupanda landsins árið eftir söluna, sem var verktakafyrirtækið, það hafði nefnilega ekki ráð á að borga kaupfélaginu. Sú viðskiptaflétta kom til eftir að í ljós kom að bókhaldslega reyndist hagstæðara fyrir kaupfélagið að kaupa kaupandann, en að afskrifa góðar sölutölur á lóðum úr bókhaldinu. Eftir stóð raðgjaldþrota samfélag og bæjarfélag í gjörgæslu.

Nú virðist allt þetta bix gleymt og grafið, komið yfir móðuna miklu ásamt Barra þrátt fyrir hetjulega baráttu Byggðastofnunnar. Bankarnir aftur orðnir stútfullir af peningum og fólkið brunar flest orðið til vinnu í rauðglóandi smeltiverkið á orkuskiptu bílunum niður í orkuskortinn í neðra. Það eina sem hefur verið byggt í miðbænum er Skattstofa ríkisins rétt norðan og neðan við þar sem rafmagnsbúðin stóð. Og var hart á því um tíma að skattstofan yrði ekki gjaldþrota líka, sælla minninga.

Þegar fólk fær þær frábæru hugmyndir að rífa hús í fullri notkun til verðmætasköpunar á lóðum, sér þær í hyllingum til að selja lífsreyndu eldra fólki hugmyndina af nákvæmlega eins þaki yfir höfuðið á meira en tvöfalt hærra verði, þá er sama hversu skaðmenntað það er, réttast væri að það rifjaði upp tvo plús tvo á fingrum sér. Er nema von að þegar ekkert ljós logar lengur í bestu beygjunni í bænum að upp komi í hugann gamli frasinn, -here we go again.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldarpistill og sorglega sannur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 31.1.2022 kl. 06:10

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þessi pistill væri betur lygi Sigurður, en er það því miður ekki, sex raðhúsaíbúðir af vinsælli stærð fyrir eldri borgara og eftirsóttar hvern einasta dag í 50 ár, voru jafnaðar við jörðu.

Magnús Sigurðsson, 31.1.2022 kl. 13:17

3 identicon

Þetta er saga allt of margra bæja hér á landi.

Þetta er, því miður, Íslandssagan.

Við áttum von, en sundrungin og sturlunin

eira engu; samstöðu þjóðarinnar vantar.

Hér þarf yfirleitt allt að fara til helvítis

áður en þjóðin vaknar og stendur saman,

bæjum og byggðum og sjálfri sér til bjargar.

Kærar þakkir, enn sem fyrr, meistari Magnús

Þetta er snilldarpistill, Hluti Íslandssögunnar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.1.2022 kl. 17:10

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er rétt hjá þér Pétur Örn að rífa niður það sem gamalt er og vanvirða þá sem byggðu upp Ísland er sturlun Íslandssögunnar og lýsir best því þegar smásálir fyllast stórhug.

Þessi minnimáttarkennd hefur farið hæðst í höfuðstaðnum þar sem er búið að rífa því sem næst öll hverfi sem tilheyrðu 19. öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu.

Búið að breyta miðbænum í hvert annað Klaverstraat með H&M höndlurum sem má finn hvar sem er í Evrópu. Þar sem vinnuvélarnar nálgast óðum Tjarnargötuna til að mylja niður það síðasta sem fyrir finnst af sérstæðustu byggingalyst íslendinga eftir að torfbærinn var og hét, glæsihýsi á heimsmælikvarða klædd bárujárni.

Þessi óskapnapur hefur samt ekki náð að tröllríða öðru en litlum bletti ofan við gömlu höfnina í Reykjavík til þessa og öðrum bæjum á Íslandi ekki nema af og til í smáum stíl.

Seyðisfjörður er eitt dæmi um bæ þar sem fólk hefur sýnt arfleið sinni virðingu.

Nú er það svo að byggðin á Seyðisfirði varð fyrir stórtjóni fyrir ári síðan þá mættu ráðherrar á hamfarasvæðið með sveitarstjórnarmönnum og lofaði 6 nýjum íbúðum fyrir síðasta sumar vegna sárasta húsnæðisskotsins.

Því er fljótsvarað að ekki hefur tekist að byrja á að byggja eina einustu íbúð á Seyðisfirði enn sem komið er, vegna svokallaðra skipulagsmála.

Nú vill svo til að Egilsstaðir eru í Múlaþingi, sama sveitarfélagi og Seyðisfjörður, og það er ekki eins og það vanti ekki íbúðir um allt Múlaþing.

Þess vegna skýtur það skökku við að fólk skuli smalað út úr nákvæmlega jafnmörgu íbúðum á Egilsstöðum og lofast var til að væri búið að byggja á Seyðisfirði og þær jafnaðar við jörðu fyrirvaralaust að undirlagi Múlaþings.

Þetta eru asnar Guðjón -hefði einhvertíma verið sagt af minna tilefni.

Magnús Sigurðsson, 31.1.2022 kl. 18:57

5 identicon

Takk fyrir gott svar og athugasemd, Magnús.

Tekur upp það sem ég vildi segja og setur það

í enn víðara og greinarbetra samhengi.

Hér vaða enn og aftur uppi djöfulsins snillingar,

hinnar tæru snilldar viðskiptavildar og þess að græðgi þeirra sé sem guðlegir gjörningar, sem allt stjórnsýsluapparat ríkis og borgar og stofnanir þess bukki sig fyrir og tilbiðji.

Hvernig stendur á því að ekkert taumhald er á þessum andskotum venjulegra borgara þessa lands? 

Minnstu svo ekki ógrátandi á miðborgarhryllinginn

sem kenndur er við Hafnartorg. Þar er hvorki höfn né torg að finna   Gamla hafnarsvæðið orðið að grásvörtum hryllingi.  En í þeirri spastísku borg sem rykkist áfram af græðginni einni eiga víst allir að hjóla, spastískir, hreyfihamlaðir sem aðrir.  Svo blind eru borgaryfirvöld að þau telja sig geta gert lamaða fullfríska á ný og vafalaust að hjóla á vatni.  Bjálkarnir byrgja, sem ætíð, sýn hinna skinheilögu hræsnara.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.1.2022 kl. 19:25

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Stórhuga smásálir eru búnar að eyðileggja gömlu Reykjavík, Pétur Örn. 

Ímyndaðu þér ef djöfuls snillingar hefðu gert Þórshöfn í Færeyjum það sama, eða jafnvel Kaupmannahöfn.

Svona mikilmennska, hvar sem hún er viðhöfð, er smásálarháttur og vanvirðing við fólkið sem kom þessum smásálum á legg.

Magnús Sigurðsson, 31.1.2022 kl. 21:10

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mikið rýkur nú moldin í logninu hefði hún amma mín á Baldursgötunni sagt. cool

Gamla höfnin í Reykjavík er enn og verður á sínum stað og er þar að auki stærsta höfn landsins, þar sem langmestum botnfiskafla er landað hér á Íslandi, ríflega 71 þúsund tonnum í fyrra, um 20 þúsund tonnum meira en í Grindavík.

Landanir í íslenskum höfnum árið 2021

Þar sem nú er Hafnartorg var stórt bílastæði og heljarinnar rampur úr timbri, þannig að hægt var að aka upp á Tollhúsið.

En nú er bílakjallari fyrir um eitt þúsund og tvöhundruð bifreiðar undir Hafnartorgi og neðanjarðar við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu.


Og þar sem nú er íbúðarhúsnæði, hótel og nýtt húsnæði fyrir Landsbankann og fleira var stór vöruskemma og geymslusvæði sem Hafskip hafði til umráða fyrir margt löngu. cool

Gömlu húsin í Skuggahverfinu eru langflest enn á sínum stað, svo og gömlu húsin í Þingholtunum og Gamla vesturbænum.

Þar að auki hefur fjöldinn allur af gömlum húsum á þessu svæði verið gerður upp, til að mynda af Þorsteini Bergssyni í Minjavernd en við erum þremenningar.

Minjavernd

Og íbúðarhúsin á þessu svæði, póstnúmeri 101, þar sem ríflega 16 þúsund manns búa, eru með þeim dýrustu á landinu, bæði nýju húsin og þau gömlu.

Erlendum gjaldeyri er mokað á land í 101 Reykjavík, bæði í gömlu höfninni og fjölmörgum hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum og verslunum. cool

Og ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegur landsins, bæði hvað snertir mannafla og gjaldeyrisöflun.

Nú eru að vísu tímabundnir erfiðleikar vegna Covid-19 en gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hér á Íslandi eru um ein milljón króna að meðaltali af hverri fjögurra manna fjölskyldu.

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða

"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi." cool

Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015

Þorsteinn Briem, 1.2.2022 kl. 04:10

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Velkominn á fætur Steini minn, og þakka þér fyrir þessa upprifjun.

Ég hafði ekki hugmynd um hvernig lognið fór með hana ömmu þina í gömlu Reykjavík, þetta eru mikil vísindi og vandfundin á gúggúl.

Mér var reyndar þetta fullkunnugt um Þorstein Bergsson og Minjavernd, svo oft hef ég gramsað með honum og hans félögum að ég vissi að gömlu hafnargarðarnir í Reykjavík náðu eitt sinn um Grófina og alla leið upp yndir Vesturgötu.

Það er ekkert nýtt að dagur djöfuls snillinga ríði röftum í gömlu Reykjavík þar hefur byggingasagan verið mulin niður í mikið meira en hundrað ár, jafnvel lengur en amma þín og elstu gúgglar muna.

En gúggúl hefur gefið þér sorglega gamlar fréttir varðandi ferðaþjónustuna, ertu alveg viss um að hann hafi nokkuð verið á ferðinni frekar en þú  alla pestina?

Magnús Sigurðsson, 1.2.2022 kl. 06:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband