Öræfi, Litlahérað og Klofajökull

Sveitin sem hvarf í eldi og ösku, -og síðan undir jökul, er nú á dögum hamfarahlýnunar að koma smá saman aftur í ljós. Þar hóf m.a. birki úr Bæjarstaðaskógi óvænt landnám á örfoka Skeiðarársandi öllum að óvörum fyrir rúmum 20 árum síðan, og er þar talinn nú vaxa stærsti sjálfsáni birkiskógur landsins.

Munnmæli um dapurleg örlög sveitarinnar hafa einnig fengið staðfestu með uppgreftri fornra bæja s.s. Bæ og Gröf. Árið 2020 gaf Bjarni Einarsson út bókina Bærinn sem hvarf í ösku og eldi 1362 um fornleifarannsóknir sínar á Bæ sem grafin var upp við flugbrautarendann á Fagurhólsmýri á árunum 2002 -2009. Aldeilis stórmerkileg lesning.

Annars þurfti birkiskógur og niðurstöður fornleifarannsókna  ekki að koma svo á óvart því munnmæli og sagnir lifðu fram eftir öldum um sveitina sem hvarf, þá sem gekk undir nafninu Litlahérað með Svínafelli sem höfuðbóli hins forna Austfirðingafjórðungs. Hérað sem breyttist í eyðisanda með jökulám á svipstundu og hefur verið kölluð Öræfi fram á okkar daga.

Litlahérað er sagt hafa náð frá Lómagnúpi að Suðursveit. Skeiðará hafi þá nánast verið lækur, -eins og hún er reyndar að verða nú á dögum, eftir að hún flutti sig að mestu í Gígjuhvísl. Enn er nokkuð í að dalir jarðanna Breiðármerkur og Fjalls komi undan jökli, auk þjóleiðar sem á að hafa legið í gegnum Vatnajökul, -um dali hins forna Klofajökuls.

Við upphaf 18. aldar lifðu enn þau munnmæli að fyrrum hefði verið leið milli Skaftafells í Öræfum og Möðrudals á Fjöllum í gegnum miðjan Vatnajökul þar sem hann er hvað breiðastur til beggja handa. Því til sönnunar var m.a. talið að sjá mætti marka fyrir gömlum götum í Miðfelli norðan við Morsárdal, -dals vestan við Skaftafell sem nú er að hluta hulinn skriðjökli. Sagt var að smalinn í Möðrudal ætti víst rúm í Skaftafelli og Skaftafellssmali hið sama í Möðrudal.

Allt þetta kann að virðast aldeilis ótrúlegt í dag, en munnmæli þessi eiga sér stoð m.a. í máldögum frá dögum Gísla biskups Jónsonar (1558-87). Þar er tilgreint að kirkjan í Möðrudal á Fjalli hafi rétt til “XII trogsöðla högg” í Skaftafellsskógi. Sömuleiðis kemur fram í úrdrætti jarðabókar frá 1779, að bærinn Skaftafell eigi beitarrétt fyrir 14 hesta á Möðrudal yfir sumarið, sem sé þó aldrei nýtt vegna jökla.

Af fróðleik fyrri daga um eyðibæina á Breiðamerkursandi og í Öræfum, má einkum nefna samantekt Ísleifs Einarssonar sýslumanns í Austur-Skaftafellssýslu, en hann lét árið 1712 skrá á Hofi í Öræfum allt sem menn þar í sveit vissu þá um eydda bæi af eldgosum og jöklum.

Á fyrstu búskaparárum Ísleifs í upphafi 18. aldar, á Felli vestast í Suðursveit, voru hörðustu ár litlu ísaldar. Eftir þann tíma fór verulega að halla undan fæti hvað varðar aðstæður til búskapar á jörðinni vegna framskriðs jökla og kólnandi veðráttu. Fell fór endanlega í eyði árið 1873 eftir að Breiðamerkurjökull hafði lagt undir sig stóran hluta af undirlendi jarðarinnar með framskriði sínu á 18. og 19. öld.

Sr Sigurður Gunnarsson prófastur á Hallormstað fékk birta grein í Norðanfara árið 1878 þar sem hann tók upp úr handriti fræðimannsins Magnúsar Bjarnasonar frá Hnappavöllum í Öræfum þá punkta sem Ísleifur Einarsson sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu hafði tekið niður eftir munnmælum um forn bæjarnöfn í Öræfum.

„Anno 1712 voru að Hofi í Öræfum upp teiknaðir bæjarstaðir, sem til forna skulu verið hafa í Öræfum og af tekið og eyðilagst hafa af jöklum, vatns- og grjótágangi og eldi. Er frásögn þessi að nokkru byggð á því, sem hjer hefir fundist skrifað, og að nokkru leyti á sögnum og munnmælum, sem gengið hafa mann frá manni.

1. Jökulfell hefir bær heitið að fornu; var hann i norðvestur frá Skaptafelli, þar sem nú er kallað Bæjarstaðir, undir fjalli því, sem enn er kallað Jökulfell. Segja menn að þar hafi verið kirkjustaður og hafi í minni þeirra manna, sem nú lifa, sjezt þar vottur fyrir tóptum. Jökulfells þessa skal vera getið í einum Hofskirkju máldaga, sem gjört hefir einn mikill biskup í Skálholti. Orðin eru þessi: “Og helming allra þeirra fjara er liggja til Jökulfells". Það sem enn er óeyðilagt af landi þessarar jarðar, er leigt frá Skaptafelli fyrir 30 álnir.

2. Freysnes er sagt bær hafi heitið nálægt i suðaustur frá Skaptafelli; sjezt enn til tópta þar nærri, sem fjárhúsin standa, og er enn kallað Freysnes. Er leigt frá Skaptafelli fyrir 30 álnir.

3. Svínanes hefir bær heitið, sem sjezt af áðurnefndum Hofs-máldaga. Þar er kirkjunni að Hofi eignuð hálf sú jörð, en eigi vita menn hvar sá bær staðið hefir. Jón Einarsson og Stefán Ormsson segjast fyrir fáum árum fundið hafa rauðviðisrapt í Neskvíslinni, milli Skaptafells og Svínafells, sem rekíð hafði fram úr jöklinum, hver verið hafði orðinn mjög svartur utan.

4. Rauðilækur hefir bær heitið og verið kirkjustaður sem sjezt af Hofs-máldaga; því það Rauðilækur átti, lagðist til Sandfells; og hefi jeg sjeð í annál eptirskrifuð orð: „Anno 1362 var eldsuppkoma á 6 stöðum í landi hjer. í Austfjörðum sprakk sundur Hnappafellsjökull og hljóp yfir Lómagnúpssand, svo aftók vegu alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann, er Rauðilækur heitir, og braut niður staðinn allan, svo ekkert hús stóð eptir nema kirkjan". Þessi bær halda menn að staðið hafi nærri suður frá Svínafelli, framundan falljöklinum, sem er milli Svínafells og Sandfells, nærri i suðaustur frá Smjörsteini, sem stendur þar í falljöklinum; hefir þar sjezt til tópta fyrir 30 árum, en er nú allt i aura komið. Skammt frá bæjarstaðnum rennur á sú, er Virkisá heitir. Í Sandfells-máldaga getur og um Rauðalækjar eignir lögðust til Sandfells.

5. Berjahólar hefir heitið hjáleiga frá Sandfelli, byggð fyrir 80 árum. Þessi hjáleiga skal hafa staðið í falljöklinum í vestur frá Sandfelli. Hefur þar nýlega sjezt til túns og tópta.

6. Gröf halda menn að bær hafi heitið útnorður frá Hofi, fyrir vestan Skriðulæk, uppundir fjallinu. þar sjezt til tópta og hefir fundist smávegis af eyri og látúni. Á milli Grafar og Hofs er steinker, sem sagt er að taki 18 (átján) tunnur.

7. Gröf heyri jeg sagt að bær heitið hafi. það er nær hestskeið frá áðurnefndri Gröf, og hefir þar nýlega sjezt til tópta. þessir báðir bæir eru í Hofslandi.

8. Hreggás er sagt bær heitið hafi, vestur af Hofsnesstanganum, fyrir vestan götu þá, er liggur til Hofs. Hefir nýlega sjezt til tópta og garðs.

9. Eyrarhorn hefir bær heitið, kirkjustaður, sem sannast af Hofs máldaga. Orðin hljóða svo: „Gjörði sá virðulegi herra og andlegi faðir, bróðir Magnús biskup í Skálholti, með ráði allra þeirra kennimanna, sem þá voru þar samankomnir, að allt það átt hefði kirkjan að Eyrarhorni, lönd, reka og ítök, það sem eptir var óspjallað, þá skyldi það leggjast til kirkjunnar að Hofi eptir þennan dag, etc.". Halda menn bær þessi hafi staðið út af Hofi, þar vestur af Hofsnesi, en fyrir ofan Ingólfshöfða. Það er og í orði, að rauðviðisstólpinn, sem er fyrir utan karlmannastólinn, sunnan fram I Kálfafellsstaðarkirkju, sje úr kirkjunni á Eyrarhorni.

10. Bær er sagt að verið hafi fyrir austan Fagurhólsmýri, nálægt Salthöfða. Sigurður Pálsson, sem nú hefir nokkra um áttrætt, segir, að einn kvenmaður hafi sá verið í Öræfum á sínum unga aldri, að nafni Steinunn Þormóðsdóttir, er sagt hafi sig fundið hafa i þessu bæjarstæði, undir hellu í holu, að sjá sem\ á bitahöfði, klæði, sem af kvenfati, ljósdökkt, og hafi hún haft það í upphlut sem óskemmt var; en sú hola hafi aldrei síðan fundist.

11. Fyrir ofan Fagurhólsmýri, sem nú er hjáleiga frá Hnappavöllum, uppi undir heiðinni fyrir neðan dalina, er haldið bær verið hafi. Þar sjezt til tópta. Jón Sigmundsson, sem nú býr á Hofshjáleigu, segist ungur hafa fundið þar leðurkúlu af reiða. En bæjarnafnið vita menn eigi.

12. Vestur af Hnappavöllum er haldið bær staðið hafi; þar hefir sjezt tál tópta. Halda menn þar hafi staðið Hnappavellir áður Öræfi aftóku.

13. Hólar er sagt bær heitið hafi fyrir austan Hnappavelli, þar sem nú kallast í Hólum. Þar hefir sjezt til tópta í minni Þeirra manna, sem nú lifa. Halda menn að verið hafi kirkjustaður. Hólalands er getið í Hofs-máldaga.

14. Húsavík er haldið bær heitið hafi, fyrir ofan lónið í suðaustur frá Stórasteini, sem stendur á Staðaraurum. Þar sjezt til tópta enn i dag.

15. Bakki er sagt bær heitið hafi fyrir austan Kvíá, þar hún rann að fornu, eða framundan Kambsmýrarkambi; sjezt ekkert til tópta. Um þetta bæjarnafn má bera saman við Hofs-máldaga og Sandfells-máldaga. Þar er nú graslendi allt aftekið, en fjaran liggur undir Sandfell og er nefnd Bakkafjara.

16. Fjall hefir bær heitið fyrir vestan Breiðumörk; Þar girðir nú jökull i kringum. Hofs-máldagi segir, að til Hofs liggi Fjall með 9 hundraða fjöru.

17. Breiðamörk hefir bær heitið og var í byggð fyrir 60 árum; var hálf kóngs-eign en hálf bændaeign, öll jörðin 6 hundruð. Hún er nú af fyrir jökli, vatni og grjóti. Þar hafði verið bænhús, og lá þar milli dyraveggja í bænhússtóptinni stór hella, hálf þriðja alin að lengd, en á breidd undir tvær álnir, vel þverhandarþykkt, en hvítgrá að lit, sem kölluð var Kárahella; sjezt hún nú ekki, en þó kunna menn að sýna hvar hún liggur undir. Er það sagt hún liggi á leiði Kára Sölmundarsonar, og hafði hann sjálfur borið hana inn, fyrir dauða sinn.

18. Krossholt hefir bær heitið, það sjezt af Sandfells- og Hofs-máldögum. Orðin hljóða svo: „Frá Krossholti liggur kýrfóður til Hofs og ábyrgist að öllu", en eygi vita menn hvar sá bær staðið hefir.

19. Í Sandfells-máldaga er getið þessara jarða, og stendur þar svo: „Maríukirkja sú, er stendur á Rauðalæk, á heimaland allt, Hlaðnaholt, Langanes og Bakka með öllum gögnum og gæðum". Ítem er þar getið Skammstaða og Steinsholts og Ness. Er svo sagt, að þessir bæir hafi til verið; en hvar þeir staðið hafa vita menn eigi.

20. Ingólfshöfði. Þar staðnæmdist 1 eða 2 vetur Ingólfur Arnarson. Þess getur í Landnámu. Þar er nú engin byggð, en 3 verhús, eitt frá Hnappavöllum, annað frá Hofi og þriðja frá Sandfelli. Höfðinn sjálfur er til Hofs og Sandfells eignaður. Þó er þar um ágreiningur vegna milliburðar máldaganna. Samt er hann af hvoru tveggju brúkaður.

Það er sögn manna i Öræfum, að svo hafi maður manni sagt, hver fram af öðrum, að tvisvar hafi Öræfi af tekið. Eitt sinn Þá smalinn í Svínafelli, að nafni Hallur, hafi verið búinn að reka fje heim til mjalta og kvenfólk var farið að mjólka, þá hafi stór brestur komið í Öræfajöklana, svo að þau hafði undrað; þar eptir hafi annar brestur komið og hafi smalinn þá sagt: að nú væri eigi ráð að bíða þess þriðja. Síðan hafi hann hlaupið upp í Flosahelli, sem er uppi í fjallinu fyrir austan Svínafell, og þá hafi hinn þriðji brestur komið í hjer sagða jökla, og þeir með það sama sprungið svo í sundur og hleypt úr sjer svo miklu vatni og grjóti fram úr hverju gili, að fólk og gripir hafi farist um öll Öræfi utan þessi smali og einn hestur blesóttur. En um sumarið þá þingmenn úr Austfjörðum áformuðu að ríða til alþingis, hafi hestur þessi staðið á einum kletti fyrir austan og sunnan Fagurhólsmýri, og steypzt þar ofan fyrir, þá þeir vildu höndla hann. Og síðan hafi klettur þessi verið kallaður Blesaklettur, og heitir hann svo enn í dag.

Í annað sinn hafi 8 bæir af tekið á Skeiðarársandi, sumir segja 16, aðrir 19, en ekkert vita menn hvað þeir heitið hafa. Sjezt þar nú ekkert nema nóg af steinum, smáum og stórum".  https://timarit.is/page/2041037#page/n1/mode/2up

Talið hefur verið að 30-40 bæir hafi lagst í auðn við eldgosið í Öræfajökli árið 1362 og allt að 600 íbúar Litlahéraðs hafi farist í þeim hamförum. Áratugir hafi liðið áður en byggð fór að myndast aftur Öræfum. Áhrifa gosins hafi gætt verulega allt  norður í Lónssveit. 

"Eldri munnmæli greina frá tvöfaldri eyðingu vegna Öræfajökuls á 14. öld. Af Vilkingsmáldaga má sjá að Gyrður biskup (1349-60) gaf 12 sauðkindur og kú frá Jökulfelli næstu kirkju í Vestur-Skaftafellssýslu. Ætla má að þessi afhending sé vegna niðurfalls kirkjunnar og þegar afhendingin hefur samkvæmt árum biskups átt sér stað fyrir eldgosið mikla 1362, mætti vera að það væri rökstuðningur fyrir þeirri ætlun, að gos hefði verið fyrr á öldinni eða um 1350 að sumra ætlun." (Íslenskir sögustaðir IV bls 72-E P Kristian Kålund)


Bloggfærslur 9. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband