Sólstöður og jól sko

Að skelfast ekki af örlögum sínum, en óttast afdrif sín, er að veltast frá ógn til ógnar en bera sig karlmannlega, allt til þess óhjákvæmilega. Tíminn er líkastur framhaldssögu sem maður á engan þátt í að skrifa. Þó sagan sé á heimsmælikvarða, þá flytur þjóðsagan kjarnann en medían málatilbúnað þeirra sem oft af þekkingu sniðganga sannleikann.

Í dag eru vetrarsólstöður, dimmastur dagur og sólin  stöðvast við krossinn í suðri. Eftir þrjá daga hefst ferðin norður, eitt hænufet, -og má þá fara að greina lengri dag. Enn eitt sólárið er liðið og myrkurtíð gefur tilefni til að líta yfir farin veg, þó svo áramót séu skot út í bláinn á hringekju eilífðarinnar.

Þetta hefur verið ár pesta og stríðsátaka, full ástæða verið til að óttast afdrif sín í lífsins ólgu sjó. Síðuhafi hefur ekki farið varhluta af óttanum og pestunum, bæði fengið kóvít í fyrra vetur og flensu nú í haust, auk þess hland fyrir hjartað, þess á milli steypa. Það má segja að sumarið hafi þetta árið farið forgörðum vegna óttans við afdrifin.

Ég ætla ekki í þetta sinn að spá fyrir um hvað er framundan, síðustu sólstöður var spáin þessi: árið framundan mun einkennast af stríðsbrölti í stökkbreyttri mynd veirunnar og munu efnahagslegar afleiðingar koma í ljós. En kvefið sjálft mun dala með vorinu, eins og venjulega, samfara því að áhuginn minnkar á símanum og sjónvarpinu með hækkandi sól.

Það eru orðin rúm fjórtán ár síðan ég hóf að láta ljós mitt skína á þessari síðu og hafa athugasemdir við pistlana aukið mér víðsýni. Þetta árið hef ég að vana bloggað um þjóðleg gildi, sjálfan mig og tuðað út í tíðarandann, -líkast rispaðri plötu frá því á síðustu öld. Eins og alltaf hafa það verið athugasemdirnar sem hafa gert pistlana frambærilega.

Þau eru farin að staðna bloggin og hef ég hugsað mér, -eins og reyndar svo oft áður, að láta staðar numið í bili. Hvort það tekst og hvað lengi verður tíminn að leiða í ljós. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa enst til að lesa langlokurnar og tuðið á þessari síðu, -sérstakar þakkir eru til þeirra sem hafa gert við þær athugasemdir.

Hér á síðunni hefur mér orðið tíðrætt um Davos dúkkulísur þetta árið, en læt nú hinar einu og sönnu Dúkkulísur míns heimabæjar óma jóla kveðjuna. Ég óska öllum þeim sem hafa náð að lesa þetta langt, gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


Bloggfærslur 21. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband