Hjaðningavíg femínismans

Íslenskan á orð yfir margt sem geymir hulda sögu. Má þar t.d. nefna Kænugarð og Garðaríki sem hátt fara í fréttum þessa dagana. Samkvæmt íslenskum sagnaarfi var Kænugarður eitt af höfuðbólum Ruzía. Það er fleira forvitnilegt í fornsögunum sem á skírskotun til nútímans. Til dæmis má ætla að staða konunnar hafi verið allt önnur í heimi heiðninnar en kristninnar.

Völsungasaga hefur frá æsku verið síðuhöfundi hugleikinn, og ekki hefur áhugin minnkað með árunum. Sagan segir frá heimsmynd, sem var á hverfanda hveli, og frá atburðum sem ekki fyrirfinnast í hinni opinberu mankynssögu. Hægt er að átta sig á því að sögusviðið nær frá Asíu til V-Evrópu. Sagt er frá orrustum þar sem liðsöfnuðurinn kom um Njörvasund og náði allt til Héðinseyjar. Ljóst er við lestur sögunnar að þarna hafa farið fram mikil og stór uppgjör.

Það er einnig ljóst að með Njörvasundum er átt við Gílbraltar. En hvar var Héðinsey og hvers vegna hafði hún það nafn? Í Göngu-Hrólfs sögu má finna þennan texta; Menelaus er konungr nefndr. Hann réð fyrir Tattararíki. Hann var ríkr konungr ok mikill fyrir sér. Tattararíki er eitt kallat mest ok gullauðgast í Austrríki. Þar eru menn stórir ok sterkir ok harðir til bardaga. Undir Menelaus konung lágu margir konungar ok mikils háttar menn.

Svá er sagt, at milli Garðaríkis ok Tattararíkis liggr ey ein, er Heðinsey heitir. Hún er eitt jarlsríki. Þat er fróðra manna sögn, at Heðinn konungr Hjarrandason tæki fyrst land við þá ey, er hann sigldi til Danmerkr af Indíalandi, ok þaðan tók eyin af honum nafn síðan. Um þessa ey stríddi jafnan Tattarakonungr ok Garðakonungr, ok þó lá hún undir Tattarakrúnu.(Göngu-Hrólfs saga 17. kafli)

Wikipedia segir um Menelaus konung; In Greek mythology, Menelaus was a king of Mycenaean Sparta, the husband of Helen of Troy, and the son of Atreus and Aerope. Trója var á vesturströnd Tyrklands þannig má ætla að Tattararíki sé þar sem nú er Grikkland / Tyrkland. Upp frá Svartahafi lá svo Garðaríki, -siglingaleið upp í Eystrasalt, -Mikligarður kallast Istanbul í dag, Kænugarður þar sem nú heitir Kiev og Hólmgaður þar sem nú er Novgorod upp undir St Pétursborg.

Á milli Tattararíkis og Garðaríkis er Svartahaf með Krímskaga, sem samkvæmt sögunum hefur þá heitið Héðinsey ef marka er textann í Göngu-Hrólfs sögu. En hver var þá þessi Héðinn Hjarrandason? Um þann Sýrlenska sjóræningja má lesa í Sörla þætti eða Héðins sögu og Högna. Þar er engin smá saga sögð, því þar má finna hupphafið af látlausu stríði milli þeirra sem helst af öllu ættu að standa saman, -svokallaðra hjaðningavíga, -Héðinsvíga.

Sörla þáttur hefst á þesssum orðum: Fyrir austan Vanakvísl í Asía var kallat Asíaland eða Asíaheimr, en þat fólk var kallat Æsir, er þar byggðu, en höfuðborgina kölluðu þeir Ásgarð. Óðinn var þar nefndr konungr yfir. Þar var blótstaðr mikill. Njörð ok Frey setti Óðinn blótgoða. Dóttir Njarðar hét Freyja. Hún fylgdi Óðni ok var friðla hans. Menn hafa getið sér þess til að Vanakvísl sé það fljót sem nú er kallað Don í suður Rússlandi og Ásgarður hafi því verið austan við Krímskaga og Don c.a. þar sem Rostov-on-Don er nú, en þar lék íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í lokakeppni HM 2018.

Sörlaþáttur segir frá því hvernig Freyja eignaðist Brísingamenið, sem dvergarnir smíðuðu, með því að sofa eina nótt hjá hverjum þeirra. Óðinn fékk Loka til að rannsaka málið og ná af henni meninu. Þegar Freyja kom til að endurheimta það sagði Óðinn; at hún skal þat aldri fá, svá at eins hefir hún at því komist, - "nema þú orkir því, at þeir konungar tveir, at tuttugu konungar þjóna hvárum, verði missáttir ok berist nieð þeim álögum ok atkvæðum, at þeir skulu jafnskjótt upp standa ok berjast sem þeir áðr falla, utan nokkurr maðr kristinn verði svá röskr ok honum fylgi svá mikil gifta síns lánardrottins, at hann þori at ganga í bardaga þeira ok vega með vápnum þessa menn. Þá it fyrsta skal þeira þraut lyktast, hverjum höfðingja sem þat verðr lagit at leysa þá svá ór ánauð ok erfiði sinna fárligra framferða." -Freyja játtaði því ok tók við meninu.

Um þann kristna mann, sem lauk tímum Hjaðningavíga Freyju, má lesa í lok Sörlaþáttar. Nú má segja sem svo að öld kristninnar með sínum hrútaskýringum og feðraveldi sé runnin sitt skeið og öld feminsismans sé runnin í garð. Vonandi auðnast mannkyninu að beita öðrum meðulum en Freyju þegar hún endurheimti sitt Brisingamen.


Bloggfærslur 18. febrúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband