25.2.2022 | 07:32
Pútín á þrumuvagni líkt og Þór
Það hefur verið ámátlegt að fylgjast með fréttum þessa vikuna. Þar hefur innrás Rússa í Úkraínu verið efst á baugi. Vestræn ríki hafa mokað vopnum í Úkraínuher. Hótað Púltin digurbarkalega og heitið Úkraínu stuðningi, -um leið sigað út á foraðið. Pútín sagðist ætla að taka héruð hliðholl Rússum en brunar svo óvænt beint til Kiev til að berja á hrímþursum sem hann segir vera nasista.
Þegar á reynir virðist það sama vera að gerast í Úkraínu og Afganistan s.l. sumar. Vestræn gildi ná ekki forða sér nógu hratt undan stóru orðunum upp í næstu flugvél áður en allt er um seinan. Við hverju öðru var að búast? Ef Rússar skrúfa fyrir gasið slokkna ljósin í Evrópu.
Það var aldrei raunhæft að loka fyrir viðskipti Rússa með því að beita viðskiptaþvingunum. Hvernig á þá að vera hægt fyrir Evrópu að borga þeim fyrir gasið? Grettir Ásmundsson var aldrei talin gæfumaður en hann hafði þó gáfur til að vita að illt er að eggja óbilgjarna og ódrengjum lið að veita. Nú sitja íbúar Úkraínu eftir með sárt ennið í einsemd sinni og upplifa svikin.
Við Íslendingar ættum að þekkja einmanaleikann sem því fylgir frá því haustið 2008. Megi heilladísirnar verða íbúum Úkraínu jafn hliðhollar og okkur þá. þegar makríll flaut að ströndum landsins, Eyjafjallajökull blés eimyrju yfir þá sem á okkur hryðjuverkalögin settu og ferðamenn komu fljúgandi af himni ofan. Rússar keyptu þá makrílinn svo viðskiptaþvinganir hryðjuverkjaðra vina okkar bitu ekki.
Eins og Grettir sagði; illt er að eggja óbilgjarna og ódrengjum lið að veita.
![]() |
Innrásin geti haft skaðleg áhrif á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)