26.3.2022 | 06:27
Að falla fyrir frösum
Það þurfa einhverjir að keyra skriðdrekana; sagði ég við Pólskan vinnufélaga í vikunni. En við höfum ekki verið sammála um hvað sé rétt að gera í Úkraínu stríðinu. Ég vil ekki gera neitt, en hann sýndi mér myndir í símanum sínum þar sem hann stendur keikur í byssuturninum á prjónandi á T-72 skriðdreka þegar hann var í Pólska hernum og segir; -þú veist ekkert kúturinn minn þú hefur aldrei verið þarna.
Engan þarf að undra þó samræður séu viðsjárverðar í steypunni þessa dagana þegar hver dagur byrjar á fréttum um að Rússar hafi sprengt upp leikskóla og enda að kvöldi á að Zelensky hafi ávarpað Bandaríkjaþing og beðið um meiri vopn í nafni Úkraínu og frelsisins. Næsta morgunn hafa Rússar bætt um betur og sprengt upp barnaspítala og Zelensky ávarpar Breska þingið í hádeginu og biður um meiri vopn í nafni þjóðarinnar. Daginn eftir er vaknað við að Rússar hafa sprengt upp leikhús og leikarinn Zelensky ávarpar heimsbyggðina og biður um meiri vopn til bjargar siðmenningunni.
En hvað myndir þú þá gera Maggi minn ef það kæmi bara einhver útlenskur Kínverji og miðaði byssu á hausinn þinn heima hjá þér og segði þér að koma þér út úr húsinu þínu hann ætti það núna? -Ekkert, halda friðinn, svaraði ég; -kannski koma mér út áður en hann skyti af mér hausinn. -Og hvað svo? sagði félagi minn; -ætli þú myndir ekki sækja byssu og koma aftur til að skjóta hann til að ná húsinu þínu?
Það gerum við Íslendingar aldrei eins og þú veist; sagði ég, -þú manst eftir hinu svo kallaða hruni 2008 þá komu bankamenn og sögðu mörgum að koma sér út úr húsinu sínu af því að bankinn ætti það núna, ég hef ekki heyrt um neinn bankamann sem hefur verið skotinn. Keyptir þú ekki eitt af þessum húsum á góðu verði?
Jú en það var af manninum bankanum; sagði félagi minn særður eftir skotið. -Já einmitt; sagði ég, -eins og ég sagði það þurfa einhverjir að keyra skriðdrekana.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)