Tími og peningar

Hvað er það sem fær fólk til að lesa bloggpistil? Eins og með flesta texta eru það líklega fyrirsagnir. Það sem er efst á baugi gefst vel í fyrirsagnir eða formála. Nú um stundir virðist það vera Rússar, Úkraína, Pútín og Selinskí. Fréttatengd blogg eru einnig vel til fallin að lesendur eiga auðveldara með að komast inn í hugrenningar bloggarans.

Þessar síðu ritstýrir sérvitringur sem hefur ekki mikinn áhuga á heimsmálunum, -forðast fréttir fjölmiðlanna og horfir ekki á sjónvarp. Í sem stystu máli má segja að þetta sé vegna þess að á heimsmálunum eru oftast fleiri en tvær hliðar og lítil áhrif hægt að hafa á lygina. Málefni einstaklingsins á sinni sérvitru gönguför skipta síðuhafa meira máli.

Þess vegna eru flest bloggin hérna um eigin sérvisku. Stundum gríp ég þó til þess að ausa úr skálum reiði minnar og gefa gildisdóma úr vogaskálum visku minnar um menn og málefni í fréttum, og þá aðallega vegna þarfarinnar fyrir að láta ljós mitt skína.

Hér á blogginu held ég úti annarri síðu með þeim hjartans málum sem mér finnst skipta meira máli en dægurþras medíunnar. Þar læt ég aðra um það að fara með spekina, en reyni að koma því á framfæri að það sé svo skrýtið að eftir því sem fólk ráði meira sínum hugsunum hafi það meiri tíma og þurfi minni pening.

Efnishyggja og glötun sálar lesa meira


Bloggfærslur 20. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband