13.7.2022 | 21:02
Ísland fyrir íslendinga
Mér rann í brjóst í hádeginu á sunnudaginn var og dreymdi að ég hefði fengið flokkskýrteini Framsóknarflokksins sent í pósti ásamt skrautrituð heiðursskjali. Martröð kann einhver að hugsa, en þá ber þess að geta að ég hef tvisvar sótt skriflega um inngöngu í flokkinn án árangurs.
Það var reyndar á síðustu öld. Grænn á milli eyrnanna hélt ég þá að Framsóknarflokkurinn stæði vörð um hagsmuni landsmanna af því að svo stutt var síðan að hans helsta slagorð var Ísland fyrir íslendinga. Þá látið í skína að markmið slagorðsins væri enn í fullu gildi þó svo það væri ekki lengur haft í hámælum.
Á þessar öld hafa fjölþjóðlegir framsóknarmenn allra flokka unnið grettistak fyrir Uber, auðróna og innflutt matvælaöryggi, í viðleitni sinn við að koma bændum á borgarlínuna, dýralæknunum á veggjalda jötuna og sveitum landsins undir kolefnisjafnaða græna torfu, -eins og engin sé morgunndagurinn.
Fyrir ekki svo löngu vældi einn ráherra flokksins sig til aumingja vikunnar með þeim fádæma árangri að öðlast fjölda atkvæða í borg óttans. Þessi ráðherra hefur nú komið bújörðum sínum í Dölunum í búsældarlegt vindmyllubrask í samstarfi við erlenda kolefnislóða. Sprengjudeild Landhelgisgælunnar verður væntanlega seinna sett á aukafjárlög.
Látið er í veðri vaka að vænkist hagur Dalamanna um leið og innviðavæddar skurðgröfurnar verða ræstar, rétt eins og meðal aust- og vestfirðinga þegar norska laxeldið hélt innreið sína í kvótalausa firði íbúum þeirra til auðskyldrar hagsældar, líkt og eftir þorskastríðin á síðustu öld, -eða þannig.
Þetta er kallað á fínna framsóknarmáli kvíaból og þurfa þau hvorki að þvælast í skipulags eða grenndarkynningar kjaftæði. Heilu vöruskemmurnar eru dregnar að ströndum landsins og fljóta bólfestar um alla firði íbúum til augnayndis. Á meðan hefur Jóni og Gunnu verið haldið heima á mottunni í kotinu, komandi ekki svo mikið sem hænsnakofa í gegnum regluverkið, frekar en að renna færi til fiskjar.
Nú má reikna með að afdalamenn í Dölunum fái í framfarir sjónhverfingar að hætti hússins. Vindmyllu stöplar geti orðið kvíaból þegar fram líða stundir m.a. fyrir dritandi lofthænsnaeldi í helíum loftbelgjum þjónustuðum að utan með Zeppelin loftförum, öllu svífandi upp af kolefnisjöfnuðum vindmyllu skóginum, -alþjóðlegum auðrónum til hagsældar.
Það má því segja að framsóknarmennskan hafi meir en svo fundið sinn farveg og Finn í væli ráðherrans til aumingja vikunnar, í stað gamla góða slagorðsins Ísland fyrir íslendinga. Draumurinn um flokkskírteinið hafi því eftir allt saman verið martröð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)