Ísland fyrir íslendinga

Mér rann í brjóst í hádeginu á sunnudaginn var og dreymdi að ég hefði fengið flokkskýrteini Framsóknarflokksins sent í pósti ásamt skrautrituð heiðursskjali. Martröð kann einhver að hugsa, en þá ber þess að geta að ég hef tvisvar sótt skriflega um inngöngu í flokkinn án árangurs.

Það var reyndar á síðustu öld. Grænn á milli eyrnanna hélt ég þá að Framsóknarflokkurinn stæði vörð um hagsmuni landsmanna af því að svo stutt var síðan að hans helsta slagorð var Ísland fyrir íslendinga. Þá látið í skína að markmið slagorðsins væri enn í fullu gildi þó svo það væri ekki lengur haft í hámælum.

Á þessar öld hafa fjölþjóðlegir framsóknarmenn allra flokka unnið grettistak fyrir Uber, auðróna og innflutt matvælaöryggi, í viðleitni sinn við að koma bændum á borgarlínuna, dýralæknunum á veggjalda jötuna og sveitum landsins undir kolefnisjafnaða græna torfu, -eins og engin sé morgunndagurinn.

Fyrir ekki svo löngu vældi einn ráherra flokksins sig til aumingja vikunnar með þeim fádæma árangri að öðlast fjölda atkvæða í borg óttans. Þessi ráðherra hefur nú komið bújörðum sínum í Dölunum í búsældarlegt vindmyllubrask í samstarfi við erlenda kolefnislóða. Sprengjudeild Landhelgisgælunnar verður væntanlega seinna sett á aukafjárlög.

Látið er í veðri vaka að vænkist hagur Dalamanna um leið og innviðavæddar skurðgröfurnar verða ræstar, rétt eins og meðal aust- og vestfirðinga þegar norska laxeldið hélt innreið sína í kvótalausa firði íbúum þeirra til auðskyldrar hagsældar, líkt og eftir þorskastríðin á síðustu öld, -eða þannig.

Þetta er kallað á fínna framsóknarmáli kvíaból og þurfa þau hvorki að þvælast í skipulags eða grenndarkynningar kjaftæði. Heilu vöruskemmurnar eru dregnar að ströndum landsins og fljóta bólfestar um alla firði íbúum til augnayndis. Á meðan hefur Jóni og Gunnu verið haldið heima á mottunni í kotinu, komandi ekki svo mikið sem hænsnakofa í gegnum regluverkið, frekar en að renna færi til fiskjar.

Nú má reikna með að afdalamenn í Dölunum fái í framfarir sjónhverfingar að hætti hússins. Vindmyllu stöplar geti orðið kvíaból þegar fram líða stundir m.a. fyrir dritandi lofthænsnaeldi í helíum loftbelgjum þjónustuðum að utan með Zeppelin loftförum, öllu svífandi upp af kolefnisjöfnuðum vindmyllu skóginum, -alþjóðlegum auðrónum til hagsældar.

Það má því segja að framsóknarmennskan hafi meir en svo fundið sinn farveg og Finn í væli ráðherrans til aumingja vikunnar, í stað gamla góða slagorðsins Ísland fyrir íslendinga. Draumurinn um flokkskírteinið hafi því eftir allt saman verið martröð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fallegt lag söngurinn og upptakan,minnir mig á fyrstu árin eftir að Jóhanna varð forseti (vegna ákafa hennar og flokksins,að ganga í ESB). þá vöknaði mér um augun í bíltúr  austur fyrir fjall horfandi á marglita gróður fósturjarðarinnar. Mörgum finnst það bilað að elska land af hug og sálu,ég kæri mig kollótta..en Þakka þér.

Helga Kristjánsdóttir, 14.7.2022 kl. 02:34

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Skarpur og góður að venju.  Skyldu ekki vera farnar að renna tvær eða fleiri grímur á "loftslagshlýnunartrúðana" eða kannski þeir séu svo  sterkir í trúnni að það bítur ekkert á þeim????????

Jóhann Elíasson, 14.7.2022 kl. 10:45

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdina Helga, hún er innihaldsrík og segir margt hjartalagið.

Jóhann, mér kæmi ekki á óvart að loftslagstrúðarnir séu hlaðnir grímum í bak og fyrir, en mér skilst að helsta hittið núna sé Carbfix Icelands, sem er á stórum styrkjum hjá ESB.

Ekki kæmi mér á óvart að Dalamenn fengju carbfix himnasendingu í kaupbæti á milli vindrellanna líkt og er nú að líta dagsins ljós fyrir ofan Reykjavík í endurnýtanlega, náttúruvænu orkuparadísinni.

Eins gott að vindrellurnar verði hannaðar fyrir jarðskjálfta svo Landhelgisgæslan missi ekki af því að sprengja þær niður þegar búið verður að græða á þeim, -eins og í Þykkvabænum sælla minninga.

Magnús Sigurðsson, 14.7.2022 kl. 12:28

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Nafnorðið Íslendingur er með stórum staf. Líka hjá þeim sem ekki eru Framsóknarþönglar.

FORNLEIFUR, 15.7.2022 kl. 07:15

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir leiðréttinga Fornleifur. hún kemur við íslenska Íslendings hjartað.

Ísland er fyrir íslendinga, líkt og Noregur fyrir norðmenn, nema menn vilji troða stórum staf hér og þar. 

Framsóknarþönglar er með litlum staf nema í upphafi setningar svo það sé á hreinu.

Magnús Sigurðsson, 15.7.2022 kl. 07:54

6 identicon

Þakkir Magnús.

Enn einn hressandi pistillinn frá þér.

Já, Dalafíflið er svo sannarlega "Aumingi vikunnar", ásamt dýralæknunum tveimur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 15.7.2022 kl. 09:47

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

En íslenskur skrifast með einföldum staf nema í upphafi  setninga.  

Helga Kristjánsdóttir, 15.7.2022 kl. 19:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband