Fjósið

Það voru mistök þegar Íslendingar yfirgáfu torbæina og tóku steypuna í þjónustu sína að sameina ekki kosti þessara tveggja innlendu byggingarefna, -byggja steinsteypt hús og einangra þau að utan með torfi. Þannig hefðu orðið til umhverfisvæn, hlý og viðhaldslítil hús, einstök á heimsvísu rétt eins og torfbærinn.

Fyrir stuttu var auglýst til sölu eitt af stórvirkjum til sveita frá árdaga síðustu aldar, byggt úr steinsteypu fyrir rúmum hundrað árum síðan. Um þessa framkvæmd skrifaði ég pistil og setti hér inn fyrir tæpu ári síðan undir heitinu Herragarðurinn.

Mér var húsið hugleikið vegna þess að þarna bjuggu amma mín og afi lungann úr sinni ævi. Þegar hús og jörð var auglýst til sölu fyrir stuttu sá ég á meðfylgjandi myndum gamla fjósið þeirra afa og ömmu frá nýju sjónarhorni.

Það var ekki hluti af upphaflegum byggingum. Fjósið hafði verið byggt við stríðasárabragga í skyndi eftir að foktjón varð á upphaflegu fjósi. Myndin af fjósinu er tekin með dróna og sést vel á henni hvernig fólk bjargaði sér til sveita þegar mikið lá við að koma bústofninum í skjól.

Þetta fjós stendur enn rúmri hálfri öld eftir að afi og amma hættu að nota það og um 70 árum eftir að það var byggt. Ég á bara góðar minningar úr þessu fjósi, af vinkonum sem höfðu þar sitt skjól.

Ein minning, sem lifir betur en aðrar, er sú þegar ég sótti beljurnar í haga, en þær voru yfirleitt ekki langt út á nesi. Einn morgunn sem oftar var ég sendur til að sækja kýrnar, þó ekki væri langt að fara, gat vegalengdin verið strembin í mýrlendum þúfnagangi fyrir 5-6 ára dreng.

Það var þá sem ein vinkonan tók það til bragðs að leggjast niður á framfæturna og bjóða snáðanum far. Þegar ég kom heim að fjósi hjá afa sat ég eins og höfðingi á hesti fyrir framan herðar einnar beljunnar. Þessi minning segir mér enn þann dag í dag hvað sterk tengsl geta myndast á milli barns og dýrs.

Búskapur afa og ömmu samanstóð af 7-8 kúm og einum tarfi, 150-200 kindum og hænum í hænsnakofa austan við fjósið. Tveir hestar voru þegar ég man, þau Gola og Tvistur, hundurinn hét Sámur. Stærri var nú bústofninn ekki og ég minnist ekki annars en allsnægta hjá ömmu og afa.

Jaðar 13

Fjósið, -dyrnar t.v. eru fjósdyrnar, t.h. er dyr í mjólkurhúsið þar sem brúsarnir voru í vatnsþró þangað til þeim var keyrt í veg fyrir mjólkurbílinn, -á brúsapallinn. Torf var upp að veggnum til vinstri en framhliðin var ekki klædd torfi. Myndin er fengin af vef fasteignasölu


Bloggfærslur 22. ágúst 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband