Að austan

Nú er svo komið að nánast hvergi má að stinga niður skóflu án þess að fornminjar blasi við og tefja þar með stórframkvæmdir. Hér fyrir austan hafa verið tveir fornleifauppgreftir í gangi. Annar í Stöð á Stöðvarfirði þar sem Bjarni Einarsson fornleifafræðingur hefur grafið sig aftur fyrir landnám. Hinn við Fjörð í Seyðisfirði þar sem sagan segir að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi búið.

Á Seyðisfirði stóð til að snara upp ofanflóðavörnum vegna skriðuhættu undir Bjólfinum, en rétt þótti sumarið 2020 að skoða minjar frá 17. - 19. öld áður en framkvæmdir hæfust. Nú hefur komið í ljós að fornleyfauppgröfturinn mun standa í þrjú ár í bakgarði húsa við Fjörð. Á Stöð í Stöðvarfirði liggur hins vegar lítið á vegna fjárskorts, enda gæti niðurstaðan þaðan orðið kostnaðarsöm við að breyta Íslandssögunni.

Við Fjörð í Seyðisfirði fannst sumarið 2021 kumlateygur með fleiru en einu bátskumli, og nú í sumar víkingaskáli frá landnámsöld, vel varðveitt undir skriðu sem féll á 11. öld. Þessi fundur staðfestir betur en nokkuð annað hve Íslendingasögur, þjóðsögur og munnmæli fara með nákvæmt mál.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þennan vetur.

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir. (Landnámabók-Sturlubók)

Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari safnaði á sinni ævi miklu af munnmælum um landnám á Austurlandi, sem fátæklega er getið í Íslendingasögum, og hafði í Þjóðsagnasafni sínu. Hann safnaði munnmælum á Seyðisfirði og í VI bindi segir m.a.; Frá Seyðfirðingum.

Bjólfur er heygður í fjallsbrúninni sunnan í tindinum (Bjólfi), upp af Firði, beint á móti Sölva (Ísólfi) í Sölvabotnum, hinumegin sveitarinnar. Það eigi meira en hitt að varna því að hlaupið geti á Fjörð eða ræningjar ræni Seyðisfjörð, sem þeir gera aldrei á meðan haugar þeirra eru órofnir.

Ýmsir af frændum, vinum og venslamönnum Bjólfs byggðu suðurströnd Seyðisfjarðar og bæi þá sem síðan eru við þá kenndir. Hánefur byggði Hánefsstaði og Sörli bróðir hans Sörlastaði. Kolur byggði Kolstaði og Selur segja menn vera bróðir hans og byggði Selstaði. (En aðrir menn segja að sú jörð dragi nafn af því að hún væri selstöð).

Sigfús gefur talsverðar upplýsingar um uppruna Seyðfirðinga í þjóðsagana safni sínu: “Ein eru það munnmæli að til hafi til forna verið þáttur af Seyðfirðingum sem nú er tapaður eins og margar aðrar sögur. Hafa reyndar sögur þær er hér ræðir um á undan verið ritaðar í seinni tíð eftir örnefnasögum og öðrum munnmælum.” Síðan er haldið áfram að skýra örnefni með munnmælum sem þeim fylgja.

Sú sögn fylgir munnmælum þessum að fjörðurinn byggðist seinna en Héraðið og sveitirnar í kring og fyndi smali nokkur þar marga sauði útigengna og héti fjörðurinn því Sauðafjörður. Og enn er sagt að þar áður seiðmenn (sjá Loðmundar þátt). Þriðju segja nafnið dregið af seiðum.

Sigfús er með þátt af Loðmundi í safni sínu, þar er eftirfarandi um nafn Seyðisfjarðar:

Eyvindur hét maður er út hafði komið með Brynjólfi hinum gamla er nam Fljótsdal. Hann var óeirinn og göldróttur mjög. Er við hann kenndur Eyvindardalur því þar hafðist hann við. En síða flutti hann í Seyðisfjörð og voru þeir átján saman, allir fjölkunnugir og seiðmenn miklir. En er Bjólfur nam fjörðinn færðu þeir byggð sína í Mjóafjörð og námu hann; bjó Eyvindur síðan í Firði (Mjóafirði) fyrir innan fjaðrabotn. Þeir fóstbræður (Bjólfur og Loðmundur) nefndu fjörðinn eftir þeim Eyvindi og heitir hann því Seyðisfjörður. (Þjóðs SS VI bindi)

Sigfús safnaði örnefna- og munnmælasögum á Seyðisfirði árum saman, enda dvaldi hann þar langdvölum þegar hann setti saman sitt þjóðsaganasafn, sem er einstakt á íslenska vísu að því leiti að hann lifði sig inn í staðhætti, með því að dvelja á þeim stöðum þar sem hann safnaði sögum.

Hann segir munnmæli segja að til hafi verið sagna þáttur af Seyðfirðingum sem tapast hafi. Ekki er ólíklegt að munnmælin hafi að einhverju leiti geymt þær Íslendingasögur.

Vitað er að til var Íslendingasaga fram á 19. öld sem kallaðist Jökuldæla og má ætla að í forn þjóðsögum Sigfúsar sé mikið af munnmælum ættuðum úr þeirri bók. Síðustu síðurnar af Jökuldælu eru af sumum sögð hafa glatast í höfninni í Glasgow á tímum Vesturfaranna.

Sjónvarpstöðin N4 var nýlega á Seyðisfirði og ræddi við Ragnheiði Traustadóttir fornleifafræðing sem sagði sögu að austan.


Bloggfærslur 20. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband