Hvers vegna Noregur

Það má ætla að nafnið á landi nágranna okkar skýri sig sjálft, og ekki síður á ensku Norway. En er það alveg svo einfalt? Michael Schulte, prófessor við háskólann í Agder, segir að sú túlkun sé alþýðuskýring. Bók Þorvaldar Friðrikssonar, -Keltar, sem kom út fyrir jól, heldur á lofti að nafnið hafi ekki með norður að gera heldur austur. En sennilega er réttu skýringuna að finna í þeim fornbókmenntun sem varðveittust á Íslandi, eins og svo margt annað um gamla landið Noreg.

"Landsheitið Noregur hefur yfirleitt verið talið merkja vegurinn í norður, norð-vegur, og talið vísa til þeirrar leiðar sem menn fóru til að komast norður á bóginn. Þessi hugmynd hefur verið næsta óumdeild lengi vel en nú hefur norskur fræðimaður bent á að þetta sé ekki óyggjandi. Michael Schulte, prófessor við háskólann í Ögðum (Agder), færir rök að því að sennilega sé nafnið alþýðuskýring (folkeetymologi). Uppruni heitisins sé annar en nú lítur út fyrir. Sögulega sé nafnið ekki Norð-vegur heldur Nor-vegur. Sjá grein um þetta á norsku á síðunni forskning.no. Schulte bendir á að í elstu skriflegu heimildum á Norðurlöndum, rúnaristunum, sé nafnið ekki skrifað Norð- heldur aðeins Nor-, og sömu sögu sé að segja í dróttkvæðum.

Nafnið hafi ekkert með áttina norður að gera heldur sé það dregið af orði sem enn er til í íslensku og norsku, nór og nor, og merkir þrönga siglingaleið eða mjóa vík, skylt enska orðinu narrow. Nafnið vísi til siglingaleiðarinnar meðfram ströndum Noregs rétt eins og Norð-vegur var talið gera. Nafnið Noregur dregur því eftir sem áður nafn af leiðinni meðfram ströndinni en viðmiðið er dálítið annað. Þessi hugmynd Schultes er að vísu ekki glæný heldur hafa fræðimenn kastað henni fram öðru hverju og menn deilt um sanngildi hennar. Inn í þessa sögu er líka stundum dreginn forn norrænn sækonungur að nafni Nórr eða Nóri. Á það má líka benda að í íslensku er til samhljóma orðið nór í merkingunni skip eða bátur. Það orð er svo skylt latneska orðinu navis sem einnig merkir skip. Íslenska orðið naust bátsskýli er einnig af sömu rót. Þetta má sjá á vef Árnastofnunar"

Í bókinni Keltar er fyrrihluti nafnsins sagt noir; -austur. Og skýringin er; orðið austmaður var í íslenskum fornsögum haft um menn frá Noregi. Í orðabók Johans Fritzners (Ordbog over det gamle norke sprog, I. bindi, bls 100) er sú skýring við orðið austmaður að það sé notað um menn sem bjuggu í austri og tekur Fritzner fram að Íslendingar hafi með þessu orði átt við Norðmenn.

Alloft eru menn nefndir í Íslendingasögunum sem virðast bera viðurnefnið austmaður, Geir austmaður, Hrafn austmaður, Hávarður austmaður og Þórir austmaður. Fleiri dæmi eru um að menn séu sagðir austmenn án þess að um viðurnefni sé að ræða. Vestur er ír á gelísku og þaðan er Íri, sem þýðir Vestmaður, samanber Vestmannaeyjar. (Þorvaldur Friðriksson - Keltar bls 15)

En eins og ég sagði í upphafi er skýringuna á nafni lands nágranna okkar að finna í fornbókmenntum sem varðveittust á Íslandi. Fornaldarsögur Norðurlanda eru af fræðimönnum taldar þjóðsögur, sem gangi skáldskap næst, en í raun eru þær hin hliðin á mankynssögunni. Þar er sagt frá afkomendum Fornjóts og kemur skýrt fram hvernig Noregur er til kominn, og hefur það hvorki með norður, austur né siglingaleið að gera.

Í Orkneyinga-sögu er einnig útlistun á tilkomu nafns Noregs. Frá Fornjóti ok hans ættmennum, er ættartala Noregskonunga frá Óðni, jafnvel allt aftur til adams, -og þá líka ættartala Íslendinga. Þátturinn hefst á þessum orðum:

-Nú skal segja dæmi til, hversu Noregur byggðist í fyrstu eða hversu konunga ættir hófust þar eða í öðrum löndum eða hví þeir heita Skjöldungar, Buðlungar, Bragningar, Öðlingar, Völsungar eða Niflungar, sem konunga ættirnar eru af komnar.

Fornjótr hét maður. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annar Logi, þriðji Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs voru þau Þorri, Fönn, Drífa og Mjöll. Þorri var konungur ágætur. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði og væri skíðfæri gott. Það er ár þeirra. Það blót skyldi vera at miðjum vetri, og var þaðan af kallaður Þorra mánuður.

Þorri konungur átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, og gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanur at blóta, og kölluðu þeir síðan þann mánuð, er þá hófst, Gói.

Þeir Nórr og Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, og féllu fyrir honum þeir konungar, er svo heita: Véi ok Vei, Hundingur og Hemingur, og lagði Nórr það land undir sig allt til sjóvar. Þeir bræður fundust í þeim firði, er nú er kallaður Nórafjörðr.

Nórr fór þaðan upp á Kjölu og kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali og síðan í Vermaland og með vatni því, er Vænir heitir, og svo til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sig, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallað Noregur.


Bloggfærslur 13. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband