Steypa

heilinn

Það er ljótt að ljúga að blessuðum börnunum, en þess hafa sést merki í þeim tilgangi að fá þau til að afla sér starfsmenntunar í byggingaiðnaði. Stundum er talað um tæknimenntun til að fegra sements gráan veruleikann og því hefur jafnvel verið haldið fram af hámenntuðu latínu liði að störfum iðnaðarmanna fylgi ekki óhreinindi, hávaði og kuldi, í þeim tilgangi að fegra ímynd bóklegs iðnnáms.

Enn sannleikurinn er sá að byggingavinna er fyrir hetjur, sem kalla ekki allt ömmu sína, þ.m.t. óhreinindi, hávaða og kulda. Vilji ungt fólk aftur á móti halda sér í góðu formi og reisa minnisvarða sem standa um ókomin ár, þá er byggingavinna betri en bókhald. En hetjur verða sjaldnast langlífar, þó svo að lengi sé hægt að jamla áfram í starfi sem krefst álíka líkamsburða og t.d. bókhald. Því mættu launin vera betri þar sem hetjunnar er þörf.

Það finnst kannski ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá. Og virðist æ algengara að samfélagsgerðin slíti alfarið á milli staðar og stundar, eða kannski réttara sagt ánægju- og vinnustunda. Þetta hefur orðið til þess að ný fíkn hefur fæðst sem má með réttu kalla fjarverufíkn, -í snjallsímanum sínum með svokallaðri fjarvinnu án mætingaskildu.

Um þessar mundir eru þau orðin 45 árin síðan ég byrjaði steypunni, Þó ekki sé samt svo að ég hafi ekki verið viðloðandi hana lengur, enda uppalinn á byggingarstað. Þegar foreldrar mínir byggðu sér hús þá var ca 40m2 skúr hlaðinn fyrst úr Mývatns-vikurholsteini. Þar var mamma með okkur systkinin á meðan pabbi vann í burtu og safnaði fyrir húsi, milli þess sem hann kom heim til að slá upp og steypa í tommu sex.

Fyrstu minningar af steypu voru samt þegar múrari, sem pabbi þekkti, kom við á heimleið og múraði skúrinn að utan á 2 dögum. Ég var rétt að verða 4 ára þá og var alveg hugfanginn og límdur við hann til að læra handtökin. Þegar fór að dimma seint um kvöldið bað hann mig að fari inn og ná í ljósahundinn og var ég snöggur til, hann hafði þá líka haft með sér hund án þess að ég hefði tekið eftir.

Því var það svo þegar pabbi byggði húsið úr tommu sex og steypu þá kunni ég þá þegar að múra og stakk undan sementspoka 7 ára gamall. Safnaði síðan félögunum saman til múrverks. Pabbi koma að þar sem við vorum bak við hús í óða önn að draga upp á vegg. Hann sló á fingurna á mér, sagði að þetta væri bara fúsk sem kæmi í veg fyrir að eitthvað festist á veggnum þegar múrarar kæmu til að múra húsið að utan.

Ég snerti ekki á sementi í fjölda ára á eftir. Lét mér nægja frá 12 ára aldri að naglhreinsa og skafa spýtur hjá Trésmiðju Kaupfélagins á sumrin, á milli þess sem ég var til ama í skólanum. Ég var alltaf hálf týndur í einhverjum vitleysisgangi þangað til veturinn 1978 að ég var beðin óvænt um að vera tímabundið handlangari hjá múrurum. Eftir það var ekki aftur snúið og ég hef ljómað í vinnunni óður og uppvægur svo að segja hvern einasta dag síðan.

Þó svo mikil áhersla hafi verið lögð á að koma vitinu fyrir mig í uppeldinu, til að forða mér frá steypu, þá hefur hún nú verið mín kjölfesta og sálarheill í 45 ár. Þó svo að í æsku hafi verið reynt að telja mér trú um að ég hefði ekki skrokk til erfiðisvinnu, meir að segja látið að því liggja að ég kastaði gáfum á glæ, þá hefur steypan verið mitt lifibrauð.

Alla mína barnaskólagöngu fannst mér margt það sem þar var á borð borðið vera á skjön við meðfædda skinsemina, en lét mig samt hafa það því þeir sem bæru spekina á borð hlytu að vita betur hvað mér væri fyrir bestu en ég sjálfur. En á endanum var það blessað brennivínið sem bjargaði mér frá bókhaldinu.

Einn kollegi minn spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvers vegna svona erfitt væri að hætta sem múrari. Hann hafði haft fyrir því að tæknimennta sig með ærnum tilkostnaði til að losna við erfiðisvinnu en allt kæmi fyrir ekki í steypuna væri hann kominn jafnharðan aftur; -Já veistu ekki út af hverju þetta er, -sagði ég, og svaraði honum svo að bragði; -það er vegna þess að menn eins og við eru með steypu í hausnum.

 Mjólkurstöð steypa

Úr bókinni 100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa. Tomma sex og steypa, við byggingu mjólkurstöðvar KHB sennilega 1975, en sjaldan hefur annað eins samsafn ungra drengja tekið þátt í að byggja stórhýsi og þá. Ég var lengi að finna mig á myndinni, enda alveg týndur á þessum árum, en sá loks að ég er akkúrat á myndinni miðri að bíða eftir að komast að steypubílnum með hjólbörur

 

Múrverk KBF 1985 MS og Kári Óla mynd Dúna

Þeir ausa steypunni sem mega það, ákast á vegg 1985. Múrverk var unnið samkvæmt uppmælingu fram undir 1990, laun borguð eftir máli. Því skipti skipulagning og dugnaður öllu máli ef átti að hafa gott kaup og gera ekki stór mistök, því mistök uppskar maður sjálfur í launum

 

IMG_0065

Steypa er skemmtileg útivinna, gólf hafa verið mín sérgrein eftir því sem á ævina hefur liðið. Steypa er gjörningur sem grjót harðnar, tekur ekki mið af klukkunni og er ekki hægt að vinna í fjarvinnu

 

Berufjarðarbrú steypa

Gamall og lúinn, feykinn og fúinn steypukall með víkingum

 

Austri SR steypa

Það er ekki oft sem gefist hefur tími til að líta upp úr steypunni, -hvað þá brosa

 

Ps. Myndunum með færslunni hef ég flestum stolið héðan og þaðan en tel það í lagi, þar sem ég er myndefnið.


Bloggfærslur 26. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband