Ástkæra og ylhýra gervigreindar-app ríkisins

Sagt er að á Tene sé talaður rjómi íslenskrar tungu á meðan á fósturjörðinni sé einna helst hægt að bjarga sér á hroða ensku eða pólsku. Þar eigi ekki lengur við - ástkæra, ylhýra málið, og allri rödd fegra, blíð sem að barni kvað móðir á brjósti svanhvítu, móðurmálið mitt góða, hið mjúka og ríka, orð áttu enn eins og forðum mér yndið að veita.

Það var Jónas Hallgrímsson sem kvað fyrstur manna á 19. öld um íslenskuna sem ástkæra og ylhýra móðurmálið þegar danskurinn tröllreið þjóðinni. Megas er landvættur sólseturs síðustu aldar, einn af 20. aldar þjóðskáldum íslenskrar tungu, merkisberi sem fleytti þeirri ástkæru og ylhýru á hyllingum inn í öld glóbalsins, -þursins sem ræður ríkjum fjórhelsisins.

Og veröldin víst er hún flá

þér er fullkunnugt um það

enda fráleitt við öðru að búast úr þeirri átt

en vertu næsta fremstur í fláttskap og vélum

flaggandi smælinu góða við fjandann í sátt.

Þú sem lætur hvunndagsraunirnar ríða þér á slig

ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.

Skáldskapur Megasar er eins og hverjir aðrir Nostradamus spádómar, sem fáir skilja í dag án skýringa upplýsingaóreiðunnar. Enda áhuginn nú orðin mun meiri á metoo Megasi með myllumerki, en því hvort röðull rís við heiðarbrún eða sú ástkæra og ylhýra sé með lafandi tungu.

Nú er íslenskan orðin eins og hver önnur Fata Morgana á flæðiskeri. Stór hluti þjóðarinnar er úr tengslum við tunguna og á í erfiðleikum með að skilja það sem hefðu þótt hinar eðlilegustu setningar fyrir nokkrum áratugum síðan.

Bróðurpartur ungdómsins veit lítið sem ekkert um ljóð þjóðskáldanna, eða hefur heilaburði til að lesa fornbókmenntir og dróttkvæði sér til einhvers skilnings. Það tilheyrir liðinni tíð, og þar með skilningurinn á blæbrigðum þess ástkæra og ylhýra móðurmáls sem kallað er íslenska.

Meðferð Megasar á þjóðskáldinu í Fatamorgan á flæðiskerinu er nú orðin eins spádómur. Textinn er byggður á minninu um Ólaf liljurós, auk þessa sem hann sagðist hafa fengið að láni frá Heinrich Heine í gegnum Jónas Hallgrímsson og var honum þó tjáð að Jónas hefði farið fremur frítt með texta Hinriks.

Megas sagðist leifa sér ýmislegt á hyllingum flæðiskersins, en baðst forláts á ef það særði einhverjar fínar taugar í sambandi við bókmenntasmekk. Það breytti samt ekki því að flestir Íslendingar skildu nokkurn veginn á þeim tíma við hvað hann átti, -rétt eins og að flestir vissu þá að Megas gæti verið bæði klúr og myrkur. Árið 2000 hlaut Megas svo verðlaun Jónasar Hallgrímssona á degi íslenskrar tungu.

Gervigreindar viðræðu app í snjallsímann er nú talin stóra lausnin. Svo hægt verði áfram að tala það ástkæra og ylhýra á landinu bláa í snjallsíma við sjálfan sig. Hvernig á að ræða við snillinginn um huldufólk, álfa og landvætti, -já eða biðja bæna til almættisins í gegnum forrit tengdu gervigreindarmiðstöð rétttrúnaðarins undir regluverki alríkisins, -það verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.

Þar verður sennilegast eins með farið og þennan bloggpistil, -allt vistað í gagnveri ásamt ljósmyndum af löngu liðnum sólsetrum, sem engin hefur lengur áhuga á, nema myllueigendur orða- og orkuskiptanna. -Sem sagt tínt og tröllum gefið, -nema ef vera kynni að hægt sé að ná sér niður á þér með tíð og tíma. Nei, ráðherra má ég þá heldur biðja um Megas og Jónas þó svo Heine hafi veitt innblásturinn.

Og sólin hún skein á skrúði blómanna

og skinnið svo mjúkt á stúlkunum ungu

og fuglarnir á trjátoppana

tylltu sér

þöndu brjóst

og sperrtu stél

og sungu;

skríddu ofan í öskutunnuna,

aftur á bak með lafandi tungu.

Heiðraði ráðherra úr hamrinum þínum

hola massífa úr fljótandi steypu

ég kem ekki á fund þinn

til að fá hjá þér neina fyrirgreiðslu

enda yrði slíkt sneypu för

heldur gefa þér gott ráð ráðherra

við geðfargi,

geðfári,

geðstríði,

geðkrabba,

geðmeini þín þungu –

skríddu ofan í öskutunnuna,

aftur á bak með lafandi tungu.

Árið 1979 kom út eitt af meistaraverkum íslensks skáldskapar, Drög að sjálfsmorði, tónleikaplata Megasar sem átti upphaflega að vera fyrir “konsept albúma elítuna”. Blankheit listamannsins gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka upp í stúdíói og þess vegna var hljóðritað á tónleikum, sem haldnir voru í Menntaskólanum í Hamrahlíð 5. nóv 1978, -við magnaðar undirtektir.

Hljóðfæraleikarar voru, -fyrir utan Megas; -Björgvin Gíslason, Guðmundur Ingólfsson, Lárus Grímsson, Pálmi Gunnarsson og Sigurður Karlsson. Hljóðblöndun í sal annaðist Magnús Kjartansson. Eftir Drög að sjálfsmorði hvarf Megas af sjónarsviðinu langa hríð og uppi voru sögusagnir um tíma að hann hefði stytt sér aldur.

Eins og allt sem er gert án aðkomu auðróna er þetta “konsept albúm” meistaraverk, og gæti allt eins verið minnst, sem eins af því besta sem íslensk menningu hafði upp á að bjóða seinni hluta 20. aldar,,, - -þegar fram í sækir. Hreinasta þjóðargersemi hvað tónlist, skáldskap og íslenska tungu varðar.

Ég keypti Drög að sjálfsmorði um leið og það kom í sölu, líkt og fleiri plötur Megasar fram að því. Þetta var mest spilaða albúmið mitt 1979, -erfiðasta ár sem ég hef lifað. Sú, sem kenndi mér móðurmálið mitt góða, og var minn verndarvættur þrátt fyrir að ég ætti það ekki skilið, hafði látist af slysförum í desember 1978.

Ég var týndur á botni brennivínsflösku svo vikum skipti þetta ár, orðin einn og afskiptur. Fáir vildi þá kannast við kauða, enda vandræða gemlingur löngu fyrr. Undir koddanaum var flaskan og Drög að sjálfsmorði í botni á fóninum. Tappinn náði svo botni rétt eftir áramótin 79-80 á Silungapolli og Sogni.

Fyrir skemmstu lagði ég svo aftur í að hlusta á Drög að sjálfsmorði og upp þyrluðust gamlir draugar. Vonandi verður það samt ekki svo að íslensk tunga, ástkæra og ylhýra móðurmálið, hafi þau áhrif eftir nokkra áratugi að hún verði hvergi skilin án apps og skýringa þess opinbera, því þar munu;

Væla draugar í dalnum gróðursæla

dauðir fuglar tísta á hverri grein

Eva litla sestu hérna hjá mér –

vertu ekki hrædd –

þú veist að ég vil þér ekkert mein.

 

Það er tré,

það er vatn,

það er fiskur í hylnum –

fiskurinn sem var veiddur þar forðum.

 

það er dýr sem sefur vært og veit sig óhult –

menn vöktu það eitt sinn –

og drápu það jafnskjótt með orðum.

 

Eftir skotgröfinni skýst ég eins og krypplingur

og skeyti hvergi um tár eða svita.

Ég vaknaði klukkan níu í niða myrkri

og hélt nötrandi af stað

til að borga rafmagn og hita.

 

Drög að sjálfsmorði - gjörið svo vel. 


Bloggfærslur 13. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband