Ástkæra og ylhýra gervigreindar-app ríkisins

Sagt er að á Tene sé talaður rjómi íslenskrar tungu á meðan á fósturjörðinni sé einna helst hægt að bjarga sér á hroða ensku eða pólsku. Þar eigi ekki lengur við - ástkæra, ylhýra málið, og allri rödd fegra, blíð sem að barni kvað móðir á brjósti svanhvítu, móðurmálið mitt góða, hið mjúka og ríka, orð áttu enn eins og forðum mér yndið að veita.

Það var Jónas Hallgrímsson sem kvað fyrstur manna á 19. öld um íslenskuna sem ástkæra og ylhýra móðurmálið þegar danskurinn tröllreið þjóðinni. Megas er landvættur sólseturs síðustu aldar, einn af 20. aldar þjóðskáldum íslenskrar tungu, merkisberi sem fleytti þeirri ástkæru og ylhýru á hyllingum inn í öld glóbalsins, -þursins sem ræður ríkjum fjórhelsisins.

Og veröldin víst er hún flá

þér er fullkunnugt um það

enda fráleitt við öðru að búast úr þeirri átt

en vertu næsta fremstur í fláttskap og vélum

flaggandi smælinu góða við fjandann í sátt.

Þú sem lætur hvunndagsraunirnar ríða þér á slig

ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.

Skáldskapur Megasar er eins og hverjir aðrir Nostradamus spádómar, sem fáir skilja í dag án skýringa upplýsingaóreiðunnar. Enda áhuginn nú orðin mun meiri á metoo Megasi með myllumerki, en því hvort röðull rís við heiðarbrún eða sú ástkæra og ylhýra sé með lafandi tungu.

Nú er íslenskan orðin eins og hver önnur Fata Morgana á flæðiskeri. Stór hluti þjóðarinnar er úr tengslum við tunguna og á í erfiðleikum með að skilja það sem hefðu þótt hinar eðlilegustu setningar fyrir nokkrum áratugum síðan.

Bróðurpartur ungdómsins veit lítið sem ekkert um ljóð þjóðskáldanna, eða hefur heilaburði til að lesa fornbókmenntir og dróttkvæði sér til einhvers skilnings. Það tilheyrir liðinni tíð, og þar með skilningurinn á blæbrigðum þess ástkæra og ylhýra móðurmáls sem kallað er íslenska.

Meðferð Megasar á þjóðskáldinu í Fatamorgan á flæðiskerinu er nú orðin eins spádómur. Textinn er byggður á minninu um Ólaf liljurós, auk þessa sem hann sagðist hafa fengið að láni frá Heinrich Heine í gegnum Jónas Hallgrímsson og var honum þó tjáð að Jónas hefði farið fremur frítt með texta Hinriks.

Megas sagðist leifa sér ýmislegt á hyllingum flæðiskersins, en baðst forláts á ef það særði einhverjar fínar taugar í sambandi við bókmenntasmekk. Það breytti samt ekki því að flestir Íslendingar skildu nokkurn veginn á þeim tíma við hvað hann átti, -rétt eins og að flestir vissu þá að Megas gæti verið bæði klúr og myrkur. Árið 2000 hlaut Megas svo verðlaun Jónasar Hallgrímssona á degi íslenskrar tungu.

Gervigreindar viðræðu app í snjallsímann er nú talin stóra lausnin. Svo hægt verði áfram að tala það ástkæra og ylhýra á landinu bláa í snjallsíma við sjálfan sig. Hvernig á að ræða við snillinginn um huldufólk, álfa og landvætti, -já eða biðja bæna til almættisins í gegnum forrit tengdu gervigreindarmiðstöð rétttrúnaðarins undir regluverki alríkisins, -það verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.

Þar verður sennilegast eins með farið og þennan bloggpistil, -allt vistað í gagnveri ásamt ljósmyndum af löngu liðnum sólsetrum, sem engin hefur lengur áhuga á, nema myllueigendur orða- og orkuskiptanna. -Sem sagt tínt og tröllum gefið, -nema ef vera kynni að hægt sé að ná sér niður á þér með tíð og tíma. Nei, ráðherra má ég þá heldur biðja um Megas og Jónas þó svo Heine hafi veitt innblásturinn.

Og sólin hún skein á skrúði blómanna

og skinnið svo mjúkt á stúlkunum ungu

og fuglarnir á trjátoppana

tylltu sér

þöndu brjóst

og sperrtu stél

og sungu;

skríddu ofan í öskutunnuna,

aftur á bak með lafandi tungu.

Heiðraði ráðherra úr hamrinum þínum

hola massífa úr fljótandi steypu

ég kem ekki á fund þinn

til að fá hjá þér neina fyrirgreiðslu

enda yrði slíkt sneypu för

heldur gefa þér gott ráð ráðherra

við geðfargi,

geðfári,

geðstríði,

geðkrabba,

geðmeini þín þungu –

skríddu ofan í öskutunnuna,

aftur á bak með lafandi tungu.

Árið 1979 kom út eitt af meistaraverkum íslensks skáldskapar, Drög að sjálfsmorði, tónleikaplata Megasar sem átti upphaflega að vera fyrir “konsept albúma elítuna”. Blankheit listamannsins gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka upp í stúdíói og þess vegna var hljóðritað á tónleikum, sem haldnir voru í Menntaskólanum í Hamrahlíð 5. nóv 1978, -við magnaðar undirtektir.

Hljóðfæraleikarar voru, -fyrir utan Megas; -Björgvin Gíslason, Guðmundur Ingólfsson, Lárus Grímsson, Pálmi Gunnarsson og Sigurður Karlsson. Hljóðblöndun í sal annaðist Magnús Kjartansson. Eftir Drög að sjálfsmorði hvarf Megas af sjónarsviðinu langa hríð og uppi voru sögusagnir um tíma að hann hefði stytt sér aldur.

Eins og allt sem er gert án aðkomu auðróna er þetta “konsept albúm” meistaraverk, og gæti allt eins verið minnst, sem eins af því besta sem íslensk menningu hafði upp á að bjóða seinni hluta 20. aldar,,, - -þegar fram í sækir. Hreinasta þjóðargersemi hvað tónlist, skáldskap og íslenska tungu varðar.

Ég keypti Drög að sjálfsmorði um leið og það kom í sölu, líkt og fleiri plötur Megasar fram að því. Þetta var mest spilaða albúmið mitt 1979, -erfiðasta ár sem ég hef lifað. Sú, sem kenndi mér móðurmálið mitt góða, og var minn verndarvættur þrátt fyrir að ég ætti það ekki skilið, hafði látist af slysförum í desember 1978.

Ég var týndur á botni brennivínsflösku svo vikum skipti þetta ár, orðin einn og afskiptur. Fáir vildi þá kannast við kauða, enda vandræða gemlingur löngu fyrr. Undir koddanaum var flaskan og Drög að sjálfsmorði í botni á fóninum. Tappinn náði svo botni rétt eftir áramótin 79-80 á Silungapolli og Sogni.

Fyrir skemmstu lagði ég svo aftur í að hlusta á Drög að sjálfsmorði og upp þyrluðust gamlir draugar. Vonandi verður það samt ekki svo að íslensk tunga, ástkæra og ylhýra móðurmálið, hafi þau áhrif eftir nokkra áratugi að hún verði hvergi skilin án apps og skýringa þess opinbera, því þar munu;

Væla draugar í dalnum gróðursæla

dauðir fuglar tísta á hverri grein

Eva litla sestu hérna hjá mér –

vertu ekki hrædd –

þú veist að ég vil þér ekkert mein.

 

Það er tré,

það er vatn,

það er fiskur í hylnum –

fiskurinn sem var veiddur þar forðum.

 

það er dýr sem sefur vært og veit sig óhult –

menn vöktu það eitt sinn –

og drápu það jafnskjótt með orðum.

 

Eftir skotgröfinni skýst ég eins og krypplingur

og skeyti hvergi um tár eða svita.

Ég vaknaði klukkan níu í niða myrkri

og hélt nötrandi af stað

til að borga rafmagn og hita.

 

Drög að sjálfsmorði - gjörið svo vel. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þér tekst alltaf að komast frábærlega að  orði og tökin sem þú hefur á tungumálinu okkar eru alveg ótrúlega flott og ef þessir sprengærðu "spekingar" uppi í Háskóla Íslands kæmust með tærnar þar sem þú hefur hælana, mættu þeir kallast góðir.....

Jóhann Elíasson, 13.4.2023 kl. 09:11

2 identicon

Sæll Magnús.

Það er svo vart og skart að ekki verður um síðuhafa sagt að hann sé
gnavinn heldur og miklu fremur gneiptur mjög og næsta víst að hleypti hann annarri brúninni ofan á kinnina, en annarri upp í hárrætur.

Þess er nokkur vorkunn þegar fullveldi þjóðar og sjálfstæði
er fótum troðið og træuðar sjá um leiktjöldin..

Sigurður Breiðfjörð þá skáldgáfu sína af Árna presti Böðvarssyni
en þessi höfuðsmiður rímnanna birtist honum í sýn og lagði svo á og mælti um.

Sigurður orti fyrstu vísu sína 6 ára og fyrsta rímnaflokkinn 11 ára.

Ungur maður kvað hann svo:

Lát ei kúgast þanka þinn
þá er efnin vandast
Þú skalt fljúga á forlögin
fella þau og standast

Við lok lífsreisunnar þetta:

Sjálfs míns hata ég sæng og borg
sem ég í má þreyja
Mín er gata gróin sorg
Guð! Mig láttu deyja!

Og sagan endurtekur sig að nokkru því
Magnús H. Magnússon, Skáldið frá Þröm,
kemst í Númarímur Sigurðar Breiðfjörðs
og við það verða kaflaskil í lífi hans
því aukinheldur birtist Sigurður honum í sýn
og draumur hans verður að koma að gröf hans
og nær því takmarki 1912.

Undravert að ekki skyldi gröfin opnast og
moldin þveitast yfir hann uppum og rykið eitt
standa eftir.

Því margt er á huldu í veröldu þessari
og ekki allt rétt sem ritað er aða sagt
því ástmögur Iðunnar er ekki grafinn þar
undir sem legsteinn hans stendur.

Með því að nafnið Magnús kemur svo mjög fyrir
í prýðilegri yfirferð þinni um blindgöturnar Megasar,
þá datt mér í hug að skrifa þetta niður.

Það er rétt að Magnús H. Magnússon eigi
síðasta orðið en hér eru síðustu línurnar
í lofkvæði sem hann orti Sigurði Breiðfjörð til.

---
en víst er vangoldið vísnamæring
lágsett er leiði listamanns
ítak sem átti í allra hjörtum
en ytra sér þess engin merki

Húsari. (IP-tala skráð) 13.4.2023 kl. 18:05

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jóhann, það er huggun harmi gegn að latínulærðir spekingar hafa aldrei dottið niður á áheyrilega íslensku, og sleppurðu þarm með að hafa gefið hundi það sem heilagt er.

Háskóla liðið gæti allt eins þulið upp reglugerðir rétttrúnaðarins fyrir blessuð börnin og fundist þær vera í ætt við ástkæra og ylhýra móðurmálið.

Enda skilst mér að það megi þakka reiknistofu bankanna, blessuð sé minning hennar, fyrir það brúklegasta í gervigreindar appinu.

En þakka þér samt sem áður góð orð í minn garð.

Magnús Sigurðsson, 13.4.2023 kl. 18:59

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Húsari, þú kemur ekki með tóman kofann, -hvert þjóðskáldið um annað þvert.

Það er nú einmitt þetta sem er svo skemmtilegt við bloggið, það er að kynna fyrir manni það sem hulið hefur verið. Hverri perlunni eftir aðra kastað fyrir svín, svo spjátrungar geta eignað sér heiðurinn af Bjarti og Sumarhúsunum.

Þessir vestfirðingar eiga örugglega eftir að auðga vitund mína um þjóðskáldin þó svo Jónas hafi séð sér leik á borði með að hnýta í Ljósvíkinginn fyrir fornan fávitaskap.

Það er reyndar ekki óþekkt að þjóðskáldin nú til dags, og kannski þeir sem síst skildi, skipi sér í flokk með rétttrúnaðinum þegar Megas er annars vegar, með því að maula meetoo.

Drög að sjálfsmorði er samt svo miklu meira en bara þjóðskáldið, þarna fara færustu tónlistamenn fullveldisins á kostum með rokki, blues og jazz, rétt eins og flugeldasýning með þeirri ástkæru og ylhýru.

Takk fyrir að benda á Breiðfjörð og nafna.

Magnús Sigurðsson, 13.4.2023 kl. 19:19

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Ágæti Magnús,

ég tilheyri hópi "háskóla liðs", sem nenni að eyða orðum, og jafnvel "háskóla langloku" með öllu, á vel mæltan frímúrara austur á landi.

Mér er alltaf hlýtt til þess landshluta, enda var ég þar í sveit eitt sumar, þó ég yrði frá að hverfa vegna heiftarlegrar heymæði.  Kannski var það jarðvegsofnæmi, enda jarðvegur þarna eystra einstaklega góður fyrir silfur og jafnvel betri en fægilögur. Ég er hins vegar gull af manni og ætla ekki að fara erfa heymæðina við alla Austfirðinga. Genin í mér þoldu bara ekki einhverja drullu þarna í einni fallegustu sveitum landsins. Kannski var bláklukkan eitruð - hver veit?

Þetta er mjög góð grein hjá þér, en kannski helst fyrir fólk með þráhyggju og innbyggða neikvæðni. Ég er bara  bjartsýnn maður úr einhverju "háskóla liðanna", en sé því miður með svörtu doktorsröntgengleraugunum mínum ljótan steypukraga um hálsinn á þér þegar þú bölsótast yfir örlögum tungumálsins okkar. Þið eruð líklega ekki komin almennilega undan vetri þarna í allri heimshlýjunni fyrir Austan.

Þú hefur greinina með þessum furðulegu orðum: Sagt er að á Tene sé talaður rjómi íslenskrar tungu á meðan á fósturjörðinni sé einna helst hægt að bjarga sér á hroða ensku eða pólsku -  Gæti maður vinsamlegast fengið höfundartengingu á þessa setningu?? ...

... Svo koma ágætar tilvitnanir í Jónas, Megas og Heinrek Heine, en enginn þeirra dvelur lengur á Tene að því er ég held. Jónas hefði líka hrasað þar í bröttum stiganum og bölsótast á dönsku. Nunnan hefði bara sagt "que, senjor Honas" með þremur spurningarmerkjum fyrir framan og aftan. Ég held að þú sért nútímarómantíker, Magnús, en ég meina það ekki illa. Það er líka pláss fyrir ykkur. Þú ert Moggablogginu til sóma, þó svo að Egill Helgason telji það vera samansafn vitleysinga (fyrir utan mig og þig og Björn Bjarnason).

Húsarinn í athugasemdunum fílar vitaskuld svona greinar, enda framliðin persóna sem uppi var á 19. öld, og skrifar gegn miðil á Akranesi. Þegar hann var upp á sitt besta fundust "engin tengsl" ekki á Íslendingabok.is. Gullöld hófst eftir hreingerningarátak "háskóla liðs" í Kaupmannahöfn með herópi gegn dönskum slettum.

En ég er nú ekki á því að einstaka fólk í þjónustustörfum á Íslandi sé að eyðileggja gífurlegt brautryðjendastar Fjölnismanna og annarra framliðinna stórmenna í háskóla liðinu.

En þó þú tilheyrir ekki "háskóla liði", Maggi, er engin ástæða til að atast út í þá sem aðeins geta talað pólsku og ensku. Það er nýi minnihlutinn (sem kannski verður einhvern tíma meirihluti) fólk sem kemur frá löndum, þar sem elítan gleypir allt svo grálúsugur almenningurinn þarf að yfirgefa land sitt til að gera sér vonir um betri kjör en í ræningjabælinu sem það gefst upp á. Þótt málakunnáttan sé ekki upp á marga fiska, gagnstætt því sem er hjá  fjölgáfuðum Íslendingum eins og okkur, er aðeins við íslensk auðvald að sakast ef menn vilja kenna einhverjum um afhroð íslenskrar tungu á okkar tímum. En bjartsýnismenn eins og ég erum ekki vissir um að "saurgun" hinnar heilögu tungu sé aðalvandi Íslendinga.

Við sem sem komust meira eða minna til mennta, áður en ræningjaforysta Íslands ákvað að skera framhaldsnám við nögl, svo það verði eins og í BNA, ættum kannski að rýna í ástæðuna fyrir pólsku og ensku í krambúðum nútímans. Þar er ekki pólsk, litháísk eða enskumælandi elíta sem vinnur þar. Það eru bara þrælar þeirra sem stunda sams konar bisness og ræningjafurstar austur-Evrópu. Þeirra vegna flýðu fjöltyngingar (pólýglottar) íslenskra krambúða fallegar ættjarðir sínar til að komast í feitt smjér á Íslandi. En nú eru þessir "flóttamenn" einnig farnir að sjá, að yfirstéttin á Íslandi er engu betri en ræningjaelítan heima í fyrrv. sósíalistaparadísunum.

Það eru til þjófar og svo STÓRÞJÓFAR. Þeir sem tala framandi tungu við færibönd ofneyslu Íslendinga fremja minnsta glæpinn. Þeir sætta sig enn við lúsalaun sem Íslendingar fúlsa við. En "háskóla lið" með sérmenntun í að fara í kringum lög og með kandígatspróf með gullfyllingu í að græða með svikum og prettum - jafnvel skipulega á erlendri grundu létu dýrka sig sem Guði á Íslandi. Einn góðan veðurdag vöknuðu Íslendingar upp við vondan draum og gerðu sér grein fyrir því að það voru ekki útlendingar sem höfðu snuðað og snúið á okkur líkt og ávallt er ætlað. Það var rjómalið alls kyns stuttbuxnadrengja íslenskra sem voru ræningjarnir. Þeir hlógu að okkur - en fæstir alla leið í fangelsið.

En nú virðast menn vera búnir að gleyma; og mantran "íslenska er málið" er aftur sungið af hreinræktaðri íslenskri smápíku, eða steinsteypuspekúlanti austur á Landi. Jafnvel múrari að Austan, sem vart sést í Sódómunni í Reykjavík, er farinn að kyrja sönginn úr gömlu auglýsingunni með meistara (og það er hann) Megas sem grabbing kórpíu. 

Ertu svo mikið íhald Magnús, að þú sjáir ekki hvar vandinn liggur? Eða ertu ekki búinn að úthugsa málið og brjóta allt til mergjar? -  Um leið og ég biðst afsökunar, get ég viðurkennt að ég tilheyri vitaskuld  einhverju "háskóla liðanna" sem þér er meinilla við. En þau lið eru nokkuð mörg og miklu fjölbreytilegri en þjófaliðið sem fékk gráður úr háskóla. Þau lið eru þéttsetið fólki úr "aðalsættum" Íslands og rasssleikjandi og auðmjúkum þjónum þess. Í því "háskóla liði" er miklu meira um glæpamenn en meðal þeirra útlendinga sem angra þig í krambúð austur á landi.

Útlensku byssukrimmarnir eru svo annar handleggur og við skulum ekki nefna þá í tengslum við tunguna.  Þeir eru bara í samkeppni við eðalíslendinga sem skaffa púlver í nasir brjálaðra landsmanna eða mislitar pillur svo alls kyns liði líði betur ef það verður undir í lífsbaráttunni á hraunóttu dansgólfi íslenskrar stéttarbaráttu - sem okkur er sagt að sé ekki lengur til. Í þeim bransa hefur aldrei verið töluð almennileg íslenska, líkt og það gullaldarmál sem sumir auðsfirðingar á Tene tala niður í glasið sitt. Kapítalisminn er tungumál eiturpésanna, þó þeir tali ekki eins hreina kapítalísku og bankakrimmarnir okkar, sem voru vitaskuld ættarlaukar með óflekkað mannorð. Einn og einn var  ágætur drengur inn við beinið.

Ég kenni mæðrum íslensku nýkapítalistanna um, hvernig fór (og það er ekki kvenhatur) ... en ekki útlendingum sem leita að lukkunni á Bestustu eyju í heimi. Þeir sem tala pólsku, lithaugalensku og ensku við færibönd íslenskrar ofneyslu eru afleiðing íslenskrar græðgi. Það er fólk eins og ég og þú, ágæti Magnús, sem reynir að lifa af í heimi, sem er ekki sérstaklega fágaður.

Þú þarft ekki annað en að líta til þess fólks sem stýrir landinu okkar nú, til að sjá hve ófágaðan heim þeir, er tala kjarnyrta bændapólsku við færiböndin í Bónus, hafa lent í. 

Fyrir fjöltyngda fólkið er orðinn lítill munur á elítunni í Varsjá og á Íslandi.  Reyndu að skilja það næst þegar þú reiðist krambúðaútlendingunum. Þeir eru bara ódýrt vinnuafl verstu málníðinganna sem nú stefna albandarískum háskólum, þar sem maður getur fengið doktorspróf eftir aðeins 4 ár og orðið samsærisheilar, með sérfræðigráður í lygafræðum og bjánalegri trúgirni.  Velbekomme, segi ég bara eins og danskir krambúðarmenn sögðu þegar þeir eitruðu tunguna á 19. öld.

Þetta varð alltof langt. Ég sendi þér reikninginn að sunnan með full speed pósti til þín eftir helgi.

FORNLEIFUR, 14.4.2023 kl. 08:32

6 identicon

Sæll Magnús.

Ég lýt oft að litlu og á það við um Fornleif og skrif hans. Legg til
að hann kynni sér Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum áður en hann tekur til að sletta úr klaufum sér því mér er eftirfarandi samsetningur óskiljanlegur úr smiðju hans: "...og skrifar gegn miðil á Akranesi."

Hafi þarna átt að standa "miðli" þá er mér ókunnugt um að ég hafi nokkru sinni skrifað gegn einhverjum slíkum á Akranesi og gildir einu í hvaða samhengi þetta er sett fram í því sambandi.

Húsari. (IP-tala skráð) 14.4.2023 kl. 12:44

7 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þegar ég les þessa svargrein Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar (Fornleifs) sem sýnir hversu fluggáfaður hann er og vel máli farinn, furða ég mig enn meira á því hvers vegna hann telur að Arnar Sverrisson sé ógn við gyðinga þótt hann hafi birt þessa vafasömu grein nýlega sem flestir þekkja hvort sem er sem hafa kynnt sér eitthvað um seinni heimsstyrjöldina. Þótt menn séu stundum á gráu svæði sem einhverjir telja rautt svæði er það betra en að þjóðfélagið verði of hamlað. Hvað ætli Vilhjálmur Örn segi um haturslagafrumvarpið hennar Katrínar? Kannski hlynntur því?

En ég verð að vera sammála Vilhjálmi Erni (Fornleifi) með það að útlendingarnir sem hingað koma og tala ekki íslenzku eru virðingarverðir fyrir að vinna þessi störf sem innfædda snobbliðið forðast, og eru ekki sekir um hnignun menningarinnar.

Ingólfur Sigurðsson, 14.4.2023 kl. 12:55

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Fornleifur, -og þakka þér fyrir þessa innihaldsríku athugasemd.

Af einhverju undarlegum ástæðum eru við nánast sammála um allt nema Miðhúsasilfrið. Sennilega er rangaur misskilningur þess valdandi, nema þá að þú sért orðinn ryðgaður í því ástkæra og ylhýra af langvarandi latínustagli.

Þetta er feikna ritsmíð hjá þér engu að síður, og góðrar morgunnstundar virði í að rifja upp íslenskuna og mér mikill heiður gerður, þrátt fyrir misskilninginn. Um höfundarréttinn á Tene mállýskunni þori ég ekki að fullyrða en það var hinn steypukallinn hérna fyrir austan sem gaukaði þessu að mér í steypunni einn daginn.

Það er gaman að heyra af því hversu staðkunnugur þú ert og eins af því að þú skulir geta þess að hafa verið hjá frændfólki mínu á Gunnlaugsstöðum og fara ekki nánar út í Miðhúsasilfrið en að minnast á Silfur Egils og hvernig þið kumpánarnir fóruð að því að afla latínumanninum Arnari Sverrissyni lesenda.

Eins og sagði; af einhverju undarlegum ástæðu hefur þú talið mig vera að fjargviðrast út í pólsku og aðra hámenningu heimsins. Hvernig það hefur komist inn í höfuðið á þér er mér hulin ráðgáta, nema eitthvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna eða þá þú sért orðinn ólæs á annað en latínu.

Ekki skal ég samt vera svo ókurteis að endurgjalda viðleitnina með langloku, ef vera kynni að eftir að þú ert búin að stauta þig í gegnum þá lesningu að það leiðrétti þennan ranga misskilning, -en því miður er ég ekki fær um það á latínu.

En í vetur hef ég smásaman verið að gera mér grein fyrir hversu ógnvænlega hraðar breytingar eru að eiga sér stað á Íslandi. Það er að verða of seint fyrir íslendinga að ætla að endurheimta landið sitt, tala tungumálið og verja unga fólkið, þegar að íslenska þjóðin er að verða eins áhrifalaus og minnihluta hópur í eigin landi, sem verður þar að auki að gera sér að góðu að gera sig skiljanlegan á hroða ensku.

Um langt skeið hef ég þó unnið með erlendum iðnaðarmönnum bæði hér á landi, og í Noregi þar sem það er frágangs sök að tala ekki þjóðtunguna. Í vetur finnst mér breytingarnar hafa gengið ískyggilega hratt fyrir sig og þá á ég ekki bara við í vinnunni þar sem ég vinn. En þessa dagana vinn ég með ungum Rúmenum, -öndvegis mönnum, -og einum íslenskum gullmola um tvítugt. Það er heiður fyrir gamlan jálk.

Fyrstu árin hjá þessu fyrirtæki var ég oft einn íslendingur með hóp af Pólverjum. Skiljanlega eru ekki allir sem kæra sig um að vinna með erlendum starfsmönnum, stór hluti vinnunnar er félagslegs eðlis. En þar sem ég er bæði gamall og laskaður félagskítur þá þótti mér sjálfsagt að taka það að mér í sérhlífni.

Það hefur tvisvar gerst í vetur að ég hef keyrt fram á menn frá Úkraínu á förnum vegi og tekið þá upp. Í fyrra skiptið vorum við vinnufélagarnir á ferð í snjómuggu í skammdegismyrkrinu úti í sveit og keyrðum fram á einn í blindbrekku, sem ýtti á undan sér pappakassa með eigum sínum í, og núna í vikunni tók ég einn upp í á Seyðisfirði á leið upp í Hérað.

Sá var á fjarfundi hjá Alcoa í símanum sínum vegna starfsþjálfunar. Fjarfundurinn fór fram á austantjölsku og það litla sem ég náði sambandi við hann var á hroðalegri ensku, s.s. Syðisfjördur verí næs sittí, -Egilsstadir túú. Það sem verra er að við landsmenn erum að tapa tungumálinu okkar í þessa hroða ensku, þar sem standardinn er settur af stórfyrirtækjum og þeim sem kunna ekki ensku.

Tengdasonur minn er frá Hondúras, -já einn af þeim sem kom til að leita sér að betri tekjumöguleikum, en ekki til tekjuauka fyrir lögfræðistóð góða fólksins og Útlendingastofnunnar. Hann hefur unnið frá degi eitt á Íslandi og fær greitt eins hver annar og Íslendingur í sinni vinnu. Enda orðinn íslenskur ríkisborgari, og hefur alla tíð verið harðduglegur. Vöntun er á fólki eins og honum, rétt eins og í öll störf sem þarf að vinna með höndum.

Núna eftir áramótin hefur erlent fólk tvisvar fengið gistingu hjá okkur Matthildi minni, stúlka frá Hondúras í nokkra daga á meðan hún var í ökutímum og ungur maður frá Spáni, sem vinnur á Djúpavogi, í sólahring á meðan hann húkkaði sér far. Flest það erlenda fólk sem ég hef samskipti við býður góðan daginn á lýtalausri íslensku og getur gert sig skiljanlegt með einföldum orðaforða, rétt eins og á ensku.

Dóttir mín og fjölskylda hennar eru ein af unga fólkinu sem mér er mikið niðri fyrir vegna stöðunnar á Íslandi í dag. Hún er í hjúkrunarfræði fjarnámi, í háskólanum Akureyri, Þarf að sækja lotur til Akureyrar og Reykjavíkur, vinnur á hjúkrunarheimili á Egilsstöðum og býr á Djúpavogi. Þau hjónin eru nýlega búin að fjárfesta í húsnæði yfir fjölskylduna á Djúpavogi og mega engar tekjur missa.

Það má segja að fyrir okkur Matthildi sé þetta samt allt til ánægju, við höfum haft mikið meira af 5 ára sólageislanum Ævi að segja en annars, þar sem þær mæðgur eru hjá okkur á meðan vinnutarnir standa yfir á hjúkrunarheimilinu, og gestirnir hvaðan svo sem þeir koma lífgi bara upp á tilveruna.

Ævi getur sagt sögur á þremur tungumálum. Hún hefur meir að segja byrjað sögu á íslensku, sagt miðhlutann á ensku og niðurlagið á spænsku án þess að rugla orðum tungumálanna saman. Hún hefur búið til nokkur íslensk nýyrði sem ekki er hægt að hrekja með rökum.

Eins og önnur börn þá er hún ekki alltaf til í að fara að sofa á kvöldin. Þá segir hún að það sé ekki kominn náttatími, þver neitar að náttatími sé sama og háttatími, og rökstyður muninn með því að þá sé komið myrkur en samt ekki tími til sofa.

Um daginn var Ævi að tala við prinssessudúkkurnar sínar á ensku og mér varð á orði, af hverju talarðu ekki bara við þær á íslensku? -ekkert svar, -svo ég endurtók spurninguna og bætti við; -þú átt að tala við þær íslensku.

Þá svaraði Ævi kankvís á svip, en ákveðið; -Afi þú ræður ekki yfir mér.

ps. ef þú skildir hafa heilaburði til að lesa langlokun alla þá er hún hér tengillinn hér fyrir neðan.

https://magnuss.blog.is/blog/magnuss/entry/2288368/

Magnús Sigurðsson, 14.4.2023 kl. 13:18

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ingólfur og takk fyrir athugasemdina.

Eins og ég sagði Fornleifi þá er öll ritsmíð hans byggð á misskilningi þar sem við erum hjartanlega sammála, nema um Miðhússilfrið.

Sennilegast er að Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson sé bara ósköp venjulegur galgopi sem þú ættir ekki að taka alvarlega.

Magnús Sigurðsson, 14.4.2023 kl. 13:28

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Húsari, nýti mér google translate og kem þessu til Fornleifs á latínu. 

Saepe parvas res attende, et hoc ad Fornleif et eius scripta. Suggest se consuescere cum Inflectionali descriptione linguae Islandicae modernae in loco Stofnur Árna Magnússon fundamenti Studii Islandici, antequam iaculandi incipit, quia incomprehensibilis est mihi sequens coniunctio ex opere suo: "... et contra medium scribit. in Akranes."

Si legeret "media", non sum nescius me unquam scripsisse contra similem in Akranes, neque aliud est quod res est contextus in quo hoc proponitur.

Magnús Sigurðsson, 14.4.2023 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband