Sumarmál - voru Íslendingar Gyðingar?

Það er margt sem íslenskan geymir af sögu heimsins, sem óvíða er skráð annarsstaðar, og er þó sumt af því heimsþekkt orðið í dag án þess að nútíma Íslendingar hafi mikla hugmynd um hvers vegna. Má þar t.d. nefna fornaldasögur Norðurlanda og tímatal. En þaðan kemur t.d. hugmyndin af The lord of the rings og The vikings.

Nú eru Sumarmál, en síðustu fimm dagar vetrar voru kallaðir sumarmál í gamla íslenska tímatalinu. Á eftir kom sumardagurinn fyrsti sem var fyrsti dagur hörpu, -fyrsta mánaðar í sumri. Þetta tímatal er ævafornt og hafa fræðimenn velt vöngum yfir hvaðan það kom, því þar er ekki bein samsvörun í norræn tímatöl.

Tolkein lá ekki á því að hugmyndin af Hringadrottins-sögu væri sótt í Völsunga-sögu og það dylst engum að sjónvarpþáttaserían Vikingarnir er byggð á Ragnars-sögu loðbrókar, sem segir m.a. frá konu hans Áslaugu kráku og sonum, þeim Ívari beinlausa, Birni blásíðu og Sigurði ormi í auga. Báðar þessar sögur varðveittust á Íslandi og hafa verið kallaðar Fornaldarsögur Norðurlanda.

Símon Dalaskáld skrifaði skáldsöguna Árni á Arnarfelli og dætur hans skömmu eftir 1900 og var hún útgefin árið 1951. Tími sögunnar virðist vera frá því skömmu fyrir 1880 til aldamóta. Höfundur lætur söguna gerast í Skaftafellssýslu þar sem bændur versluðu á Djúpavogi. Fjöldi fólks kemur við sögu og gerir höfundur grein fyrir ætt sögupersóna í samtölum.

Í skáldsögu Dalaskáldsins má finna kafla sem heitir Deila Halldórs og Hallfríðar. Þar rökræða Halldór Lambertsen stúdent og Hallfríður Árnadóttir heimasæta á Arnarfelli um persónur Íslendingasagna. Síðar berst tal þeirra að ættum Íslendinga. Það samtal fer hér á eftir:

Halldór: Á ég að segja þér af hverjum flestir Íslendingar eru komnir?

Hallfríður: Já það væri fróðlegt að heyra.

Halldór: Þeir eru fjölmargir komnir af írskum þrælum. Svo mæla Danir og mun mikið hæft í því.

Hallfríður: Hvaða vitleysu ferð þú með maður. Þeir eru heldur margir komnir af írskum konungum. Í Landnámu er ekki getið um aðra írska þræla en þá sem drápu Hjörleif við Hjörleifshöfða og menn hans, en Ingólfur hefndi fóstbróður síns og drap þá skömmu seinna, svo varla hefir komið mikil ætt frá þeim. Reyndar voru það írskir þrælar, sem brenndu inni Þórð Lambason, en þeir voru ráðnir af dögum skjótlega. Hingað fóru fáir Írar, heldur norrænir víkingar, sem herjuðu vestur um haf og komust í mægðir við konunga Englands og önnur stórmenni; vegna hreysti sinnar fluttust margir hingað, og má heita, að helmingur Íslands sé numinn af þeim.

Halldór: Ég hefi gaman, ef þú telur mér nokkra upp.

Hallfríður: Það get ég gjört að telja nokkra: Þórður skeggi, bróðursonur Ketils flatnefs; hann átti Vilborgu, dóttur Ósvalds konungs. Helgu dóttur þeirra átti Ketilbjörn hinn gamli, afi Gissurar hvíta. Eyvindur austmaður átti Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, þeirra son Helgi hinn magri er nam Eyjafjörð. Höfða-Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs. Erpur, leysingi Auðar djúpúðgu, var son Melduns jarls af Skotlandi og Mýrgjólar, dóttur Gljómals Írakonungs, hann nam Sauðafellsströnd. Auðunn stoti, er nam Hraunsfjörð, átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs. Án rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og Helgu dóttur Áns bogsveigis, átti Grelöðu dóttur Bjartmars jarls. Af þeirra börnum kom hið mesta stórmenni í Orkneyjum, Færeyjum og Íslandi, enda var Þorsteinn rauður kominn af Ragnari loðbrók, er frægastur hefir verið konunga í fornöld, og Sigurði Fáfnisbana. Helga hin fagra var af þessari ætt.

Halldór: Ég hefði gaman, ef þú gætir rakið þá ættarþulu.

Hallfríður: Það get ég vel, byrja þá í niðurstígandi línu. Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir. Þeirra dóttur Áslaugu átti Ragnar loðbrók Danakonungur. Þeirra synir Ívar beinlausi, konungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð. Sigurður ormur-í-auga, átti Blæju dóttur Ella konungs. Af Hörða-Knúti syni þeirra voru Danakonungar komnir í fornöld, en af Áslaugu dóttur þeirra var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar, afkomendur hans. En Þóru dóttur Sigurðar orms í auga átti Ingjaldur konungur Helgason. Þeirra son, Ólafur hvíti, konungur á Írlandi, átti Auði hina djúpúðgu, dóttur Ketils flatnefs. Þeirra son Þorsteinn rauður átti Helgu, dóttur Eyvindar austmanns. Hann var konungur á Skotlandi; var svikinn af Skotum og drepinn. Ólafur feilan, þeirra son, fór þá barn til Íslands með Auði djúpúðgu, ömmu sinni. Hann giftist á Íslandi Álfdísi hinn barreysku. Þeirra börn: Þórður gellir, mestur höfðingi á Íslandi á sinni tíð, og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða, og Helga, er átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttur Jófríði átti Þorsteinn Egilsson á Borg. Þeirra dóttir Helga fagra. Ólafur pá var af þessari ætt og næstum því öll stórmenni Vesturlands. Mikil fremd þótti fyrrum að vera kominn af Ragnari loðbrók og Sigurði Fáfnisbana, eins og sjá má af sögunum, en ekki gátu hrósað sér af því nema Breiðfirðingar og Skagfirðingar. Breiðfirðingar voru komnir af börnum Þorsteins rauðs en Skagfirðingar af Höfða-Þórði, sem kominn var af Birni blásíðu Svíakonungi, syni Ragnars loðbrókar, enda hafa í þessum fögru og tignarlegu héruðum verið mestir höfðingjar og skáld. Víðdælir voru og komnir af Ragnari loðbrók og fyrri konu hans, Þóra dóttur Herrauðs Gautajarls, og ég er búin að rekja þetta út í æsar, en hvort þið trúið því eða ekki, get ég ekki gjört að. Ég ætla að sýna ykkur það svart á hvítu, hvort ég hef ekki rétt fyrir mér og væri gott, ef þið vilduð gefa ykkur tíma til að rannsaka það.

Um öll þessi fjölskyldutengsl má lesa svart á hvítu í Íslendingasögum og Fornaldarsögum Norðurlanda, m.a Völsunga-sögu og Ragnars-sögu loðbrókar. Fornaldarsögurnar teiga sig í austur veg um Garðaríki suður til Svartahafs. Gamla tímatal Íslendinga á sér samsvörun í fornum tímatölum enn austar, og má rekja til Babýlon, -jafnvel Persíu.

Á fyrri hluta 20. aldar taldi enski rithöfundurinn Adam Ruthedford Íslendinga vera hreinasta afbrygði Benjamíns, ættkvíslar Ísraels, -yngsta sonar Jakobs. Hluti ættar Benjamíns fóru Garðaríki upp í Eystrasalt, og voru þá kallaðir Herúlar. En úlfur var Benjamín að sögn Jakobs faðir hans og úlfur einkenni Benjamíníta. Samsettur úlfur er algengt mannsnafn á Íslandi s.s. Ingólfur, Brynjólfur, Herjólfur, Þorólfur, Hrólfur, Snólfur o.s.fv. Ættforeldrar þessara Herúla voru þau Óðinn, Frigg, Njörður, -Freyja, Freyr og allt það goðsögulega slekti sem Snorri gerði góð skil í Heimskringlu.

Landnámsfólk Íslands kom flest frá vesturströnd Noregs og Bretlandseyjum samkvæmt Landnámu og Íslendingasögunum. Samkvæmt Biblíusögunum voru Júda og Benjamín herleiddir til Babýlon ásamt öðrum Ísraelsmönnum, þær ættkvíslar fylgdust svo einar aftur að í fyrirheitna landið. Benjamín settist þá í Galíleu, en hafði áður búið í Jerúsalem og Júda settist þá í Jerúsalem. Fjölmennigarsvæðið Samaría var þá orðið til og var á milli þessar ættkvísla Ísraels, sem lentu svo aftur á flakk í kringum Krist og jafnvel nokkru fyrr.

Íslendingasögurnar og Fornaldarsögurnar segja frá miklum þjóðflutningum fólks, sem að endingu nam Ísland og setti þar upp einstakt þjóðveldi, allt vandlega skrásett rétt eins og testamennin. Völsungasaga gerist í Evrópu allt frá Njörfasundum til Héðinseyjar, -Gíbraltar til Krím.

Sagan segir frá Völsungi og hverjir forfeður hans voru; -Reri sonur Siga, sonar Óðins. -Og svo Sigmundi syni Völsungs og sonum hans m.a. Sigurði Sigmundssyni Fáfnisbana. Í sögunni má finna mörg þau minni sem goðafræðin byggir á. Hluti Völsungasögu gerist í Dacia í Rúmeníu og segir frá þegar Sigmundur og Sinfjötli, eftirlætssonur Sigmundar, lögðust út sem varúlfar.

Svo eru til fornar írskar sagnir og annálar sem herma, -þessu tengt, -að löngu fyrir Krists daga hafi komið til Írlands austan úr löndum skip, sem á var gamall spámaður, Allamh Fodlha, skrifari hans og konungsdóttirin Tamar Tephi. Um þetta sagði sögugrúskarinn Árna Óla í titgerð: Í fornum írskum þjóðsögur og þjóðkvæðum er það beinlínis sagt, að Allamh Fodlha hafi verið Jeremía spámaður og Tamar Tephi hafi verið dóttir Zedekia konungs (Júda í Jerúsalem). Skömmu eftir komu þeirra Jeremía til Írlands giftist Tamar Tephi konunginum þar. Hann hét Heremon og var líka af Ísraelsætt. Og til þeirra er rakin ætt núverandi Bretakonunga.

Það er nokkuð ljóst að fyrri tíma Íslendingar kunnu vel að meta, -og lesa í sagnaarf þjóðarinnar og þurftu hvorki latínulærðan millilínulestur né Hollywood útgáfur á borð við The lord of the rings, eða The vikings á Netflix til á átta sig á um hverskonar bókmenntir er að ræða, -þeir skildu einfaldlega tungumálið.

Lýstur sól

ljósum sprota

læðing lífs;

lásar hrökkva.

Svella hugir.

Syngur í hlíð.

Vaki þú, vaki þú

Völsungakyn!

 

Sól er á fjöllum,

sól í dölum,

sól í bæjum;

söngur í hlíð.

Hreifir vor

hörpustrengi.

Fellur ryð

af fornu stáli.

 

Sefur í hörpu

Sigurðardóttir

Áslaug - arfuni

afreksverka.

Þrútnar Heimis brjóst,

er harpan lætur.

Glóir gull

gegnum tötra.

 

Lýstur sól

ljósum sprota

ævintýraheim

unglings hugar.

Gnótt er ennþá gulls

á Gnítheiði.

Gangvarinn góði

gneggjar og rís.

 

Sér yfir Gnítheiði:

Situr á gulli

óframgjarn ormur

eigin hægðar,

hálfur dýr,

hálfur maður.

Vaki þú, vaki þú

Völsungakyn!

 

Vek ég þig að vígi

vanræningja

vetrar langs

og vanafestu.

Vek ég þig til styrks

hinum stóru þrám,

hlýleika hugarins

og hvassrar sjónar. –

 

Lýstur sól

ljósum sprota

ævintýraheim;

ómar hlíð:

Handan við Gnítheiði

glóa laukar.

Vaki þú, vaki þú

Völsungakyn!

(Sumarmál / Ljóðmæli bls 8 SF)

Allur verðmætur skáldskapur hefur tvö aðaleinkenni, annaðhvort eða bæði. Í venjulegu máli talar skynsemi mannsins beint til skilnings, vit til vits. En í skáldskap tekur vitið sér til aðstoðar ímyndunarafl og tilfinningu. (Litlu-Laugum í apríl 1927 - Sigurjón Friðjónsson).

Ægishjálmur


Bloggfærslur 16. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband