Bjössi

Þetta er búið að draga sig ótrúleg fljótt hérna í burtu. Einhvern veginn komu þessi orð upp í hugann eftir andvökunótt áður en ég fór út í morgunninn með ríflega fullt fangið af 60 árum, og viðraði þau í þrastarsöng á meðan ég hlustaði á úthafsölduna brotna í grýttri fjöru. Ég hafði verið að lesa barna og unglingasöguna um Bjössa á Tréstöðum eftir Guðmund Friðfinnsson fram eftir nóttu og varð andvaka á eftir þegar við Matthildur mín dvöldum í Sólhólnum úti við ysta haf.

Sáldsagan af Bjössa á Tréstöðum tekur til rúmleg tveggja ára, segir af harðneskju  síðari hluta 19. aldar. Þegar fjölskyldum var enn miskunnarlaust sundrað, börnum komið á sveit og foreldrum í vinnumennsku. Foreldrar Bjössa höfðu misst kúna á útmánuðum svo barnaheimilið varð bjargþrota.

Það kom til af því að kýrin var leigð og kom eigandinn að sækja hana þó svo að leigusamningurinn, sem var munnlegur, rynni ekki út fyrr en að fardögum á sumri. Pabbi Bjössa varði kúna en eigandinn náði þá bæði í liðsauka og hreppstjórann til að ná kúnni, enda hafði beljueigandinn sjálfur misst aðra kúna á sínu heimili og svo hin kýrin misst kálf svo börnin hans voru mjólkurlaus.

Eftir þetta uppgjör var heimili Bjössa skipt og fylgdi eitt barn foreldrum í vinnumennsku á sitthvorum bænum. En Bjössa og einu systkini var komið fyrir hjá vandalausum á sitthvorum bæ. Bjössi var á 12. ári og sprækur til vinnu. Var smali tvö í sumur, úti dag og nótt á eftir kindunum með hundinum Sámi um tveggja mánaða skeið í hvort sumar.

Bjössi sá móður sína aðeins tvisvar eftir þetta. Í fyrra skiptið fékk hún frí til að heimsækja hann þegar hann lá þungt haldinn af lungnabólgu eftir að hafa verið úti um haust við að slá í krapahríð fram í myrkur með Jóni bónda á Tréstöðum.

Sumarið eftir hitti hann móður sína við messu þegar tilhlýðilegt þótti að koma með ómagann til kirkju því að innan við ár var í að hann ætti að fermast. Þá sagði mamma hans honum fréttir af systkinunum og pabba hans og hvað þau myndu vel eftir honum og þætti vænt um hann. Þar skynjaði Bjössi að mamma hans var að kveðja hann í síðast sinn.

Það hefur verið harka í íslensku samfélagi seint á 19. öld. Þess ber sagan af Bjössa á Tréstöðum glöggt vitni og er þetta með betri lýsingum um dagleg störf sem ég hef séð á prenti frá þessum tíma.  Ég ætla að stelast til að birta hérna einn kafla úr bókinni um Bjössa sem á svo sem við á öllum tímum.

Nóttin er orðin löng og dimm og dagarnir fráir og þungbrýndir. Blærinn feykir fölnuðu laufi, og svalur hausvindurinn sveigir trénuð strá allt til jarðar. Með ám og lækjum má sjá hærugrá klakaskegg og mýrarsund eru dökk á að líta. Móar og valllendis grundir eru nokkuð ljósari. En í hlíðum myndar lyngið og fjalldrapinn einkennileg, listræn litbrigði. Myndasafn náttúrunnar enn fagurt og fjölskrúðugt. En allt ber þó svip haustsins, sem er tákn hrörnunar og dauða, en jafnframt fullkomnun þroskans, sem er fyrirheit um framhald lífsins á jörðinni.

Út úr kirkjunni á Stað er borin svört kista. Fámennur hópur vina og ættingja fylgir á eftir. Karlmennirnir ganga berhöfðaðir, en kvenfólkið hefur sveipað ullarklútum um höfuðið til að verjast náköldum andgusti norðannæðingsins.

BjössiÉg geng þarna við hlið föður míns og systkina. Úti í kirkjugarðinum bíður opin gröf. Þar á kista móður minnar að síga niður. Hún mamma mín góða, sem allar mínar björtustu minningar og helgustu hugðir eru bundnar við, liggur nú köld og stirðnuð í þessari svörtu kistu. Með armana krosslagða og passíusálmana opna á brjóstinu. Nú er hjartað hennar ástríka og trausta hætt að slá. Ég veit, að það sló fyrir mig, og okkur börnin, allt til síðustu stundar. Ég veit að bænir hennar fylgja mér allt til æviloka.

Mennirnir láta kistu móður minnar síga hægt niður í þessa dimmu gröf. Presturinn tekur litla reku og kastar ofurlitlu af mold þrem sinnum á kistuna og mælir eitthvað um leið. Ég tek lítið eftir orðunum, en það er eins og hárbeitt hnífsblað smjúgi í gegn um mig, er ég heyri tómahljóðið, þegar þessi dökka, kalda mold fellur á kistuna. Það er eins og þetta ömurlega tómahljóð endurómi einhverstaðar innan í sjálfum mér.

Ást barnsins til móðurinnar er venjulega eigingjörn ást, sem heimtar án endurgjalds. Og þótt endurgjaldið sé í rauninni fólgið í fórninni sjálfri – í móðurgleðinni, er slíkt endurgjald án vitandi tilverknaðar barnsins.

Á dögum aðskilnaðarins breytist viðhorf og hugmyndir oft skyndilega. Í huga mínum renna fram ótal minningar frá liðnum samverustundum. Undanfarna daga hefur svo margt rifjast upp fyrir mér, sem ég ætlaði að gera fyrir mömmu, þegar ég væri orðinn stór. Þá ætlaði ég að endurgjalda allar hennar fórnir og kærleika. Allt, allt mundi ég hafa gert, sem ég hefði getað til að mömmu liði vel og ævikvöld hennar yrði bjart og fagurt.

En nú voru þetta aðeins mjúksárar, andvana fæddar hugmyndir, sem aldrei gátu orðið að veruleika – aldrei.

Sál mín er lömuð og aflvana. Ég er búinn að gráta svo mikið. Og enn græt ég. Gegnum móðu táranna sé ég hvernig moldarskaflarnir flæða yfir kistu móður minnar. Ég sé föður minn, þar sem hann stendur álútur með samanbitnar varir. Andlitsdrættirnir eru stirðir og nærri því hörkulegir. Brjóstið þrútnar og hvelfist eins og það vildi varpa af sér fargi, sem þó er ómögulegt að losna við. Ég sé hvernig systkini mín standa hnípin og grátbólgin. Þau halda sér hvert í annað eða þá í pabba. Nú er hann okkar eina stoð. Öll erum við lítil, umkomulaus smá peð, sem sviptivindar lífsins feykja til og frá eftir duttlungum sínum.

Jarðaför móður minnar er lokið. Ég er kominn heim aftur í Tréstaði og tekinn við mínum vanalegu störfum: Að moka fjósið, bera fjósvatnið, raka hús, taka moð, bera út skólp og ösku, berja fisk og þorskhausa, læra kverið og prjóna sjóvettlinga. – Allt er eins og það var, þó er allt breytt. Einhver sársaukakenndur tómleiki, auðn í sjálfum mér.

Ekki er ég frá því, að ég sé nú oftar kallaður rýjan, greyið eða auminginn, og jafnvel stundum einstæðingsbjálfinn. En ekkert af þessum gæluorðum mýkir sviðann og sorgina. Stundum getur jafnvel komið kökkur í hálsinn á mér, einkum er það “einstæðingsbjálfinn”, sem verkar þannig á mig. Ég er sem nakinn í norðan nepju.

En tíminn líður. Og tíminn græðir öll sár. Smá saman eignast ég aftur mitt hversdaglega jafnvægi, en eftir er minningin, björt og hlý, blandin trega. – Helgur arfur, sem aldrei glatast og aldrei deyr.

Bjössi fór frá Tréstöðum á fardögum fyrir ferminguna sína sem fram fór á Stað. Þar fermdist hann ásamt börnunum í sveitinni. Ein fermingarsystir hans var Sigga sem var frænka prestsins og hjá presthjónunum í fóstri. Bjössi og Sigga höfðu hist sumarið áður þegar Bjössi var smali.

Þá hafði þokan gert það að verkum að Sigga villtist þegar hún átti að sækja nokkrar kindur, og grét í þokunni. Bjössi hélt að hún væri huldumey en komst svo að því að hún var að leita kinda. Frekar en að segja henni að vonlaust væri að finna kindurnar í svarta þoku þá fór hann að leita og bað hana um að bíða. Enda hafði mamma hans kennt honum að almættið sæi um sína, og viti menn sunnan gola feykti þokunni niður í dalinn og við blöstu kindurnar hennar Siggu.

Í fermingafræðslunni færði Sigga Bjössa rósótta íleppa í skóna sem hún hafði prjónað sjálf. Hún hafði tekið eftir því sumarið áður að Bjössi var í stagbættum prjónabuxum og götóttum skinnskóm. Hún afsakaði prjónaskapinn sem hún sagði að væri ekki eins góður og hann. Bjössi varð hugfanginn, greip til Siggu og kyssti hana beint á munninn. Daginn eftir var Bjössi fermdur og kominn í fullorðinna manna tölu.

Þetta var ekki svona harðdrægt, -eins og með beljuna heima hjá Bjössa, seint á 20. öldinni, þegar Matthildur mín saumaði á mig smókinginn í Burda blaðinu og við giftum okkur á sumardaginn fyrsta og skírðum börnin árið eftir sama dag. - Hún bara fór í Kaupfélagið, sem var við hliðina á kirkjunni, og keypti mjólk, Burda og terlín.

í Kaupfélaginu, sem kynslóðin kom á legg sem kom landinu úr árhundraða erlendri áþján og gaf börnum sínum fullveldið í fermingagjöf, sem varð svo kynslóðin sem gaf sínum börnum lýðveldið í skírnargjöf, sem var kynslóðin sem ól okkur upp fyrir 60 árum, sem stöndum nú vaktina á meðan öllu er stolið. Og börnin og barnabörnin sem núna , , , ,já, vel á minnst, meðan ég man, -gleðilegt sumar.


Bloggfærslur 20. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband