Beðið eftir fíflunum

Það er kominn miður maí og ég les enn þungbrýnd skammdegis ljóð. Steypa síðustu daga segir til sín í morgunnsárið, brjóstverkur, bjúgur og svefnleysi. Síðuhafi fór af stað með þau frómu áform að blogga um eitthvað lítilræði daglega fyrir tveim vikum síðan, bara einhverjar litlar áminningar svona svipað og dagbók. Þetta fór í vaskinn eftir fjóra daga og endaði í tómri steypu á stangli þar sem góð áform voru hræð saman við langlokur og skæting.

Þriðja daginn í steypu, þegar við félagarnir stóðum á sliskju utan á svölum skammt fá grafarbakkanum bíðandi eftir steypusílói og ég rífandi kjaft á tærri íslensku, horfði Dan -rúmenskur vinnufélagi íbygginn á mig og sagði á lýtalausri ensku; -nú er ég búin að fatta hvað þú ætlar þér Maggi, þú ætlar að láta Trausta taka við keflinu svo þú getir hætt.

Trausti er tvítugur gullmoli í steypaunni, Dan er 36 ára málaliði sem dregur vagninn í byggingariðnaði á Íslandi. Vinnufélagahópurinn samanstendur, sem betur fer af vöskum ungum mönnum víða að, þó svo eitt og eitt gamalmenni þvælist innan um, og er  heiður fyrir gamlan jálk að fá að starfa með ungum og frískum mönnum, þó heilsan leyfi varla hálfan dag.

Matthildur mín spurði mig svo fyrir nokkrum dögum hvort ekki væri rétt að kíkja á starfslokanámskeiði, fólk gerði það stundum á okkar aldri og það væri einmitt verið að auglýsa eitt í Dagskránni. Ég sagðist ekki gera neitt í því, enda ekki nema rétt að verða 63. ára, en hún gæti gert það sem henni sýndist. Matthildur mín hafði svo sitt fram, og eftir steypu gærdagsins fórum við á þetta fjandans námskeið.

Á þessum árstíma er ég vanalega farin að tína fífla, njóla, hundasúrur og hvönn til að halda heilsunni. Fíflar eru t.d. vatnslosandi og vinna vel á bjúg, njólann nota ég í súpu, hundasúrurnar í salat og hvönnin gefur kraft. Þetta fóður hefur endurnýjað heilsuna að vorlagi undanfarin ár, en ég er með skaddað hjarta, þess vegna orkulaus. Bjúgur og brjóstvekur er því fljótur að láta á sér kræla við áreynslu þrátt fyrir viðvarandi sprengitöfluát.

Það má segja að undanfarna daga hafi allt gengið meira og minna úr skorðu, steypurnar verið fleiri og erfiðari en ég bjóst við, bloggin andlausari og Matthildur mín hætt að hafa trú á mér og ég beðið of lengi eftir fíflunum sem eru reyndar fyrir nokkrum dögum orðnir ætir. Vonandi hef ég mig í það í dag, -uppstigningardag, að verða mér út um andlegt heilsufóður við niðinn í Eyvindaránni


Bloggfærslur 18. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband