27.5.2023 | 10:00
Ódáinsakur á hvítasunnu
Núna í vikunni birti Guðjón Hreinberg pistil sem hann kallaði Af norninni Gullveigu, og lét þess getið innan sviga að hann væri eingöngu ætlað Fjölæringum og Aldingjum. Gullveig er ein af nornum Völuspár og sagði Guðjón hana líka grámunni , , ,sem virkar að sumu leiti þannig að þegar þú ert framliðinn en þorir ekki yfir eða villist, þá getur þú eigrað um hérnamegin en þú sérð allt í gráma og þú sérð ekki venjulegt fólk, utan suma þeirra sem eru ófreskir, að þú ýmist sérð þá berum augum eða eins og þokukenndar verur er bregður fyrir.
Þar sem pistill Guðjóns var langur, margslunginn og torræður þá setti ég inn athugasemd það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn til að fiska eftir því hvað hann meinti, eins til að sýnast gáfaður Fjölæringur eða Aldingi, -og skrifaði; þokukenndur ertu Guðjón, -í grámósku dagsins, en mér sýnist þú samt vera staddur á ódáinsakri. Síðan sendi ég honum tengil og nokkrar ljóðlínur úr Skíðarímu og þakkaði honum fyrir uppljómun dagsins.
Ódáinsakur er torræður og ekki gott að átta sig á hvað orðið merkir annað en eilífðarakur, hvað þá að nokkur viti nákvæmlega hvar sá akur er staðsettur. Ég fór því að grúska í hvar helst væri að finna ódáinsakur en ekki eru til magar skilgreiningar á fyrirbærinu nema þá í ævintýri eða ljóði. Í Eiríkssögu víðförla er talað um ódáinsakur og fann ég hana á netinu á gamalli norsku og þar kemur þetta fram um ódáinsakur þegar Eiríkur leitaði upplýsinga norræns konungs um það hvernig heimurinn væri byggður og þar koma þetta m.a. fram.
Eiríkur mælti; -hvar er sá akur er Ódáinsakur heitir. Konungur svarar; -Paradís köllum vér hann eða jörð lifenda. Eiríkur spyr; -en hvar er sá staður. Konungur segir; -í austur frá Indíalandi hinu ysta. Eiríkur mælti; -er hægt að komast þangað. Víst er það; -segir konungur, -allavega fyrir þá er sem öruggir eru með að komast til himna.
Þegar þetta og margt fleira hafði konungur sagt honum, lét Eiríkur sig falla til fóta konungi og mælti; -ég bið þig þess innilega að með fulltingi yðar greiðist ferð mín. Því mér er sú skylda á höndum að efna heitstrengingu mína, þá sem ég strengdi um að fara suður í heim að leita Ódáinsakurs. Konungur sagði Eiríki að til þess þyrfti hann og menn hans að fara að hans ráðum í einu og öllu og láta skírast.
Einn staður á Íslandi er þó sagður hafa heitið Ódáinsakur. Það er í Hvanndölum, en þar segja munnmælin að flytja hafi þurft bæinn vestur fyrir Hvanndalaána vegna þess að á meðan hann var fyrir austan hana hafi engin þar getað dáið, og hafi þurft að flytja fólk vestur fyrir á til að þess að sálast. Eftir það hafi gamla bæjarstæðið fyrir austan á verið kallað Ódáinsakur og síðar bara Akur.
Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar þykja nú óbyggilegir, enda er einungis fært þangað af sjó. Samt var búið í Hvanndölum fram eftir öldum, en byggð lagðist þar af eftir að Hvanneyrarhreppur í Siglufirði keypti jörðina í þeim eina tilgangi að afleggja búsetu þar endanlega.
Hvanndalabræður eru einir af merkilegustu vísindamönnum Íslandssögunnar. Ef ekki væri fyrir þeirra svaðilför þá væru upplýsingar um Kolbeinsey, ysta grunnpunkt landhelginnar í norðri, harla fátæklegar. Hetjudáð Hvanndalabræðra var gerð skil hér á síðunni í pistli fyrir rúmu ári síðan.
Það hefur vakið furðu, að í Landnámu er sagt að deilur um Hvanndali hafi kostað 16 menn lífið. Þar deildu landnámsmennirnir Ólafur bekkur úr Bjarkey í Hálogalandi landnámsmaður í Ólafsfirði og Þormóður rammi landnámsmaður Siglufjarðar er bjó á Siglunesi um Hvanndali, og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa. Þessi verðmæti Hvanndala þurfa ekki að koma á óvart á víkingaöld þegar gulls í gildi var að komast viðstöðulaust í góðan byr.
Til að gera langa sögu stutta þá svaraði Guðjón mér eftir að ég hafði plægt Ódáinsakur í netheimum með þessum orðum: Ef þú gengur upp hálsinn ofan við Seltún í Krísuvík, kemurðu í lítinn dal með tjörn. Þar eru tveir vættir dáinn og ódáinn. Þess virði að ganga þar um og þannig vita af þeim af eigin reynslu. Það sést greinilega á dalverpinu hver er hvorumegin. Eins og margir vita er Krísuvík (eða Krýsuvík) (stórsvæðið) eins og málverk reginna, eins og allar dulsögur "vors siðar" lifna þar við. Guðjón E. Hreinberg, 24.5.2023 kl. 21:12
Ég heyrði frá Ódáinsakri
óma í þögulli nótt.
Ég hafði setið og sungið fátt,
í sál mér var orðið hljótt.
Að augum mér viku þær vordagasýnir,
er vetur að síðustu máir og týnir.
Öll sumarsins óræktu áform
og ósungnu fagnaðarljóð
að hug mínum hljóðlát sóttu
og hurfu sem andvana jóð.
Mig dreymdi yfir dánum vonum
og djúpri þögulli sorg,
er streymdi til mín úr allri átt
frá órótt sofandi borg.
Þrá mína ég svæft hafði á sorgararmi,
minn sársauka leyst upp í tár á hvarmi.
Ég hafði setið og sungið fátt,
í sál mér var orðið hljótt.
Þá heyrði ég frá Ódáinsakri
óma í þögulli nótt. ---(Sigurjón Friðjónsson)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)