Ódáinsakur á hvítasunnu

Núna í vikunni birti Guðjón Hreinberg pistil sem hann kallaði Af norninni Gullveigu, og lét þess getið innan sviga að hann væri eingöngu ætlað Fjölæringum og Aldingjum. Gullveig er ein af nornum Völuspár og sagði Guðjón hana líka grámunni , , ,sem virkar að sumu leiti þannig að þegar þú ert framliðinn en þorir ekki yfir eða villist, þá getur þú eigrað um hérnamegin en þú sérð allt í gráma og þú sérð ekki venjulegt fólk, utan suma þeirra sem eru ófreskir, að þú ýmist sérð þá berum augum eða eins og þokukenndar verur er bregður fyrir.

Þar sem pistill Guðjóns var langur, margslunginn og torræður þá setti ég inn athugasemd það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn til að fiska eftir því hvað hann meinti, eins til að sýnast gáfaður Fjölæringur eða Aldingi, -og skrifaði; þokukenndur ertu Guðjón, -í grámósku dagsins, en mér sýnist þú samt vera staddur á ódáinsakri. Síðan sendi ég honum tengil og nokkrar ljóðlínur úr Skíðarímu og þakkaði honum fyrir uppljómun dagsins.

Ódáinsakur er torræður og ekki gott að átta sig á hvað orðið merkir annað en eilífðarakur, hvað þá að nokkur viti nákvæmlega hvar sá akur er staðsettur. Ég fór því að grúska í hvar helst væri að finna ódáinsakur en ekki eru til magar skilgreiningar á fyrirbærinu nema þá í ævintýri eða ljóði. Í Eiríkssögu víðförla er talað um ódáinsakur og fann ég hana á netinu á gamalli norsku og þar kemur þetta fram um ódáinsakur þegar Eiríkur leitaði upplýsinga norræns konungs um það hvernig heimurinn væri byggður og þar koma þetta m.a. fram.

Eiríkur mælti; -hvar er sá akur er Ódáinsakur heitir. –Konungur svarar; -Paradís köllum vér hann eða jörð lifenda. – Eiríkur spyr; -en hvar er sá staður. – Konungur segir; -í austur frá Indíalandi hinu ysta. – Eiríkur mælti; -er hægt að komast þangað. – Víst er það; -segir konungur, -allavega fyrir þá er sem öruggir eru með að komast til himna.

Þegar þetta og margt fleira hafði konungur sagt honum, lét Eiríkur sig falla til fóta konungi og mælti; -ég bið þig þess innilega að með fulltingi yðar greiðist ferð mín. Því mér er sú skylda á höndum að efna heitstrengingu mína, þá sem ég strengdi um að fara suður í heim að leita Ódáinsakurs. Konungur sagði Eiríki að til þess þyrfti hann og menn hans að fara að hans ráðum í einu og öllu og láta skírast.

Einn staður á Íslandi er þó sagður hafa heitið Ódáinsakur. Það er í Hvanndölum, en þar segja munnmælin að flytja hafi þurft bæinn vestur fyrir Hvanndalaána vegna þess að á meðan hann var fyrir austan hana hafi engin þar getað dáið, og hafi þurft að flytja fólk vestur fyrir á til að þess að sálast. Eftir það hafi gamla bæjarstæðið fyrir austan á verið kallað Ódáinsakur og síðar bara Akur.

Hvanndalir eru á milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar þykja nú óbyggilegir, enda er einungis fært þangað af sjó. Samt var búið í Hvanndölum fram eftir öldum, en byggð lagðist þar af eftir að Hvanneyrarhreppur í Siglufirði keypti jörðina í þeim eina tilgangi að afleggja búsetu þar endanlega.

Hvanndalabræður eru einir af merkilegustu vísindamönnum Íslandssögunnar. Ef ekki væri fyrir þeirra svaðilför þá væru upplýsingar um Kolbeinsey, ysta grunnpunkt landhelginnar í norðri, harla fátæklegar. Hetjudáð Hvanndalabræðra var gerð skil hér á síðunni í pistli fyrir rúmu ári síðan.

Það hefur vakið furðu, að í Landnámu er sagt að deilur um Hvanndali hafi kostað 16 menn lífið. Þar deildu landnámsmennirnir Ólafur bekkur úr Bjarkey í Hálogalandi landnámsmaður í Ólafsfirði og Þormóður rammi landnámsmaður Siglufjarðar er bjó á Siglunesi um Hvanndali, og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa. Þessi verðmæti Hvanndala þurfa ekki að koma á óvart á víkingaöld þegar gulls í gildi var að komast viðstöðulaust í góðan byr.

Til að gera langa sögu stutta þá svaraði Guðjón mér eftir að ég hafði plægt Ódáinsakur í netheimum með þessum orðum: Ef þú gengur upp hálsinn ofan við Seltún í Krísuvík, kemurðu í lítinn dal með tjörn. Þar eru tveir vættir dáinn og ódáinn. Þess virði að ganga þar um og þannig vita af þeim af eigin reynslu. Það sést greinilega á dalverpinu hver er hvorumegin. Eins og margir vita er Krísuvík (eða Krýsuvík) (stórsvæðið) eins og málverk reginna, eins og allar dulsögur "vors siðar" lifna þar við. Guðjón E. Hreinberg, 24.5.2023 kl. 21:12

 

Ég heyrði frá Ódáinsakri

óma í þögulli nótt.

Ég hafði setið og sungið fátt,

í sál mér var orðið hljótt.

Að augum mér viku þær vordagasýnir,

er vetur að síðustu máir og týnir.

Öll sumarsins óræktu áform

og ósungnu fagnaðarljóð

að hug mínum hljóðlát sóttu

og hurfu – sem andvana jóð.

 

Mig dreymdi yfir dánum vonum

og djúpri þögulli sorg,

er streymdi til mín úr allri átt

frá órótt sofandi borg.

Þrá mína ég svæft hafði á sorgararmi,

minn sársauka leyst upp í tár á hvarmi.

Ég hafði setið og sungið fátt,

í sál mér var orðið hljótt.

Þá heyrði ég frá Ódáinsakri

óma í þögulli nótt. ---(Sigurjón Friðjónsson)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Gat verið :)

Ég fæ strax tvennar hugmyndir - tja, kannski þá þriðju - með hvaða þráð við erum að rekja hér. Gaman væri að vita hvað önnur Evrópsk mál nota fyrir hugtakið Ódáinsakur.

Ein er kenning sem ég hef sjálfur mikið dálæti á, en hún er sú að Móseríkið sem stofnsett var 2448 AM (1312 BC (f.kr)) hafi náð að spanna mestalla jörðina þau 434 ár sem það var til sem ríki. Ef marka má kennslu margra s.s. Jósúa Maríusonar, lifðu menn lengi við góða heilsu sem bjuggu við það. Önnur er sú að hér sé vísað í þekkingu sem hefur verið langlíf gegnum aldirnar, að til sé fólk sem auðveldlega slær í þriggja alda ævilengd - og sumir gætu talið vera Nephilim risana - , sumt sem einstaklingar á stjá, en aðrir sem hópar er gæti þess að vera ekki áberandi, en sumir klúbbar s.s. launhelgafélög viti af þeim. Sú þriðja að hér sé á ferðinni vísan einmitt í launhelgar s.s. meitlara en vitað er að þeir hafa glórulausa ástríðu til að finna veigar (holy grail) og efni (philosopher stone) sem þeir geti notað í launhelgum til að lengja lífaldur síns eigin, og sú kenning að sumir hátt settir í þeirra hóp (óháð félagsheiti) geti og hafi náð (þeirra frægastur er líklega St. Germain greifi). Loks má nefna að margar kristnar greinar s.s. Vottar J. og Réttrúnaðar (Orthodox) trúa því að elífa lífið sem kristnum er lofað sé hér á jörð, í holdi og blóði eins og við þekkjum, og að sumir geti náð með trúrækni sinni að efla svo heilsu sína og langlífi að furðu gætir. Loks má velta fyrir sér, hvort til séu upphafin svæði sem fólk geti ekki séð eða lifað á nema hafa ræktað sinn innri mann og sína innri sýn að a) þeir geti séð, og b) geti gengið um eða lifað á - átt er þá við að eitraður (Toxic) hugsunarháttur eða lifnaðarhættir geri menn veiklaða gagnvart hinu hreina. Þetta síðasta þykir mér áhugavert, því ég veit ekki hvað efnið er, enda er öll okkar reynsla og þekking á því túlkuð af skilningarviti og heilabú og því vitum við í raun ekkert um hvað það er sem við höfum reynslu eða mælingu af. Loks má geta þess að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að "dulfræði" "vors siðar" - rétt eins og með Bibbuna og aðra frumspekilega heimspeki (sem marxistar uppnefna vísindi) þarf að skilja í þrem lögum í.þ.m. og það er hvergi kennt; þannig séð má skilja allar okkar fornsögur sem þrívíddarkort af veröldinni eða veruleikanum. Beri maður það saman við fornu sögurnar af konungum Shambala, og undirgöng þeirra um heiminn, má velta fyrir sér hvort "rétt" þekking á fornum sögum geri "þeim er höndlar" kleyft að ferðast um allan heiminn sér að meinalausu og svo til fyrirhafnarlaust.

Afsakið lengdina á athugaemdinni - færslan bauð upp á það; og ég hef gaman af að henda mörgum atriðum saman í eina kássu, það sigtar einæringana frá.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 27.5.2023 kl. 12:51

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Guðjón, -þú verður seint of langdreginn.

Það er reyndar sagt að Les Champs-Élysées hafi ekki ólíka merkingu, en þá er  talað um Ódáins-velli, nokkurskonar Eden eða Valhöll. Eða eins og Dr Google orðar það: Í grískri goðafræði var ríki hinna dauðu (grískir undirheimar) skipt í mismunandi garða þar sem sálir lifðu í samræmi við jarðneska líf sitt. Champs-Elysees var notalegur staður, frátekinn fyrir hetjur og dyggðugar sálir.

Ég rakst einhverstaðar á það á rambli mínu um daginn, man ekki hvar í augnablikinu, að á Marshhall eyjum hafi fólk orðið 2-300 ára gamalt áður en kaninn hóf þar tilraunir sínar með sveppinn. Það er alls ekki ólíklegt að þar hafi fólk lifað einföldu lífi í friði og spekt, nokkurskonar Paradís eða á Ódáinsakri.

Magnús Sigurðsson, 27.5.2023 kl. 13:47

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er alveg ómótstæðilegt að segja fáein orð þegar þið eruð í djúpri speki, félagar. Ódáinsakur er eitt af þessum dularfullu orðum sem maður skilur ekki alveg. En það gæti verið þýðing norrænnna manna á Paradís, sögunni um Eden. Jafnvel Gimlé Völuspár gæti verið slíkt fyrirbæri, en orðið Gimlé mun þýða eld-hlé, svo ekki þýða orðin það sama.

Þetta með Marshall eyjarnar er mjög merkilegt. Held að ég hafi horft á sama myndband og Magnús, en ég held að þar hafi verið sagt að fólk hafi náð 200 ára aldri eða nálægt því, en ekki 300 ára aldri, ef ég tók ekki vitlaust eftir, get ekki verið alveg viss um það.

Sem bendir manni á það, að þessar kjarnorkutilraunir sem eyðilögðu kóralrif, drápu túnfiska í stórum stíl og eitruðu hafið víða, þær voru ekkert annað en glæpur gegn mannkyninu og þurfa að vera skilgreindar þannig.

En að því sem Guðjón fjallar um. Já, ég kannast við þessar sögur, og ég held að eitthvað sé satt í svona mýtum, og þetta er stórmerkilegt. Þegar svona mýtur eru til hjá mörgum þjóðum er hægt að taka mark á því.

En með ódáinsakur og álfaheima, getur ekki verið að menn hafi farið inní ódáinsakur þegar menn fóru inní álfaheima til forna? 

Þjóðleg fræði geyma svona frásagnir, dularfullar, en hér er eitthvað svipað á ferðinni.

Ingólfur Sigurðsson, 27.5.2023 kl. 15:01

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdina Ingólfur, -hún gefur heilmiklið í.

Ég held að þetta sé rétt munað hjá þér með Marshall-eyjar og ég hafi ýkt þegar ég hugsa til baka og sennilega var þetta myndband.

Varðandi Gimlé þá bætir það heilmiklu við þessa ódáinsakra pælingu. -Ódáinsakur, Champs-Élysées, Valhöll, Eden, Pardís.

Spurning hvort þessu má finna stað í kenningum Grísku goðafræðinnar um ódána dánumenn í hinum ýmsu görðum.

Magnús Sigurðsson, 27.5.2023 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband