Sumarið fyrir EES

Sumar, sól og steypa. Bæjarhátíð, brauð og barnapíur. Lada, Lapplander og leikir. Allt var með öðrum hætti en í dag, þar sem flest hefur verið njörvað niður á sinn bás, -innan sinnar girðingar í skóm með stálstá, klætt í gult með hjálm, heyrnaskjól og öryggisgleraugu.

Mörkin á milli leiks og starfs skilgreind upp á nýtt, vinna er eitthvað sem á helst að vera leiðinlegt og sumarfrí eitthvað annað, helst einhversstaðar langt í burtu. Allt Íslandi skildi lúta markaði fjórfrelsisins, -eða helsisins, eftir því hvernig túlka ber frelsi.

Fyrir tíð EES hafði hvert EFTA-ríki sjálfstæð samskipti við EB (forvera ESB). Árið 1984 var efnt til sameiginlegs ráðherrafundar EFTA og EB í Lúxemborg með það að markmiði að efla viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum á milli bandalaganna.

1989 hófust formlegar samningaviðræður sem stóðu til 1991 en þá var samningsuppkastið sent Evrópudómstólnum til umfjöllunar. Dómstóllinn gerði athugasemd við grein í samningnum sem fjallaði um sérstakan EES-dómstól sem skyldi fjalla um deilumál vegna framkvæmdar samningsins.

Slíkur dómstóll var talinn brjóta á Rómarsamningnum sem kveður á um að Evrópudómstóllinn fer einn með dómsvaldið innan ESB. Niðurstaðan var að stofnaður var sérstakur EFTA-dómstóll til að leysa úr deilumálum frá EFTA-ríkjunum.

Á Íslandi veitti Alþingi stjórnvöldum heimild til að staðfesta EES-samninginn með því að samþykkja lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 þann 12. janúar 1993. Málið var mjög umdeilt og til marks um það var það samþykkt í þinginu með 33 atkvæðum á móti 23 en 6 sátu hjá.

Alþýðuflokkurinn og megnið af Sjálfstæðisflokkinum samþykktu en Alþýðubandalagið, megnið af Kvennalistanum, hálfur Framsóknarflokkurinn og þrír Sjálfstæðismenn voru á móti. Hinn helmingur Framsóknarmanna og einn þingmaður Kvennalistans sátu hjá.

Andstaðan við samningin var að hluta til komin af ótta við afleiðingar aukins viðskiptafrelsis (t.d. að útlendingar myndu kaupa upp jarðir á Íslandi í stórum stíl) en einnig vegna þess að margra mati felur samningurinn í sér óásættanlegt framsal á sjálfstæði þjóðarinnar til alþjóðastofnunar.

Því hefur einnig verið haldið fram að samningurinn kunni að brjóta á stjórnarskrá Íslands sem að gerir ekki ráð fyrir því að löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald sé framselt. Heimild Wikipedia

Já ég er enn í steypunni flesta daga, klæddur sem gulur trúður innan girðingar. Þar eru engar hetjudáðir framkvæmdar, nema ef vera skildi að upp komist eitt og eitt ómyglað hús. Steypuhrærivélinni er ekki lengur plantað niður og steypan blönduð og hrærð þar sem hennar er þörf, allt skal nú framkvæmt samkvæmt regluverki fjórfrelsisins. En þannig var þetta ekki á Íslandi sumarið fyrir EES.


Bloggfærslur 8. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband