18.7.2023 | 07:10
Þjóðminjar
Greint var frá því hér á síðunni, fyrir nokkrum árum, að Bakkabræður hefðu sett rörahlið á þjóðminjasafnið. Líklega til að halda sauðfé, sem nú er í tísku að kalla ágangsfé, í skefjum. Nokkrum mánuðum síðar baðst síðuhafi afsökunar á orðaleppum þar að lútandi og lofaði að hafa ekki fleiri orð um þær þjóðminjar sem vöktu athygli hans á atferli Bakkabræðra. Nú er samt svo komið að ég get ekki lengur orða bundist og verð að brjóta heit mitt um að hafa ekki fleiri orð um pípuhlið Bakkabræðra.
Það er ekki þannig að ég hafi ekki farið í mínar árlegu ferðir til að njósna um þá bræður, snúast í kringum einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins, þó svo að ég hafi heitið að halda kjafti. þeim hef ég haldið til streitu á hverju ári enda er gamli torfbærinn á Galtastöðum fremri sá eini sem eftir stendur af dæmigerðu torbæjum á Héraði og sérstakur í safni þjóðminjasafnsins sem kotbær með baðstofu yfir fjósi.
Í gær fór ég mína árlegu ferð og vonaðist eftir að hitta á vinnumenn við bæinn, allt eins þá bræður sjálfa. Þegar ég kom að pípuhliðinu, sem er langan veg frá bænum, var strengdur í það spotti með hangandi skilti sem á stóð Vinnusvæði öll óviðkomandi umferð bönnuð. Mér kom til hugar þarna við skiltið að snúa við, en varð þá hugsað til bernsku minnar sem ekki hefði látið svona lítilræði standa í vegi.
Það oft var maður búin að vera staðinn að því að háma í sig rifsber eða annað góðgæti úr runnum í gamladaga að galandi húsmóðir, jafnvel vatnsglas, var engin fyrirstaða við að halda áfram að háma í sig góðgætið á meðan fært var, eða þar til sást til húsfreyjunnar með vatnsfötu. En þá var maður líka fljótur að láta sig hverfa eins og þrautreynd túnrolla. Þannig að láta rörhlið stoppa sig á gamalsaldri hefði verið heldur klént.
Ég losaði því bandið og keyrði á gamla sorry Cherokee frá því á síðustu öld heim að þessum 19. aldar bæ til að verða fyrir vonbrigðu. Því miður eru framkvæmdir Bakkabræðra aftarlega á merinni við Galtastaði fremri og lítil von til þess að ég komi til með að fá að skoða fjósbaðstofuna á minni ævi, þessa einstöku gersemi Þjóðminjasafns Íslands. En bílastæðin eru vegleg innan girðingar, enda ekki annað við hæfi í allri innviðauppbyggingunni á heimaslóðum skurðgröfunnar.
Síðuhafi hvetur alla, sem áhuga hafa á, að gera sér ferð út í Galtastaði fremri og láta ekki girt pípuhliðið standa í vegi. Svo þröngur er vegurinn að hliðinu að engin leið er að snúa þar við. Þannig að eina leiðin er að taka niður vinnusvæðisskiltið og keyra heim á bílastæðin til að snúa, nema þá bakka hálfann kílómetri yfir holt og blindhæðir, með tilheyrandi hálsríg.
Heima við Galtastaði má bregða sér út á bílastæðinu og kanna vegsummerki Bakkabræðra um leið skoða bæinn. Og ef einhver skildi koma og fjargviðrast yfir því að þjóðminjasafnið sé lokað, og öll óviðkomandi umferð bönnuð, má alltaf segja; ekkert mál og vertu svo ekki með neitt djöfulsins helvítis píp, snarst upp í bíl og spóla út fyrir pípuhlið.
Dyrfjöllin njóta sín frá Galtastöðum fremri
Bæjarhlaðið með stafna í austur
Bakhliðin grasi vaxin með gömlu handverki
Austurglugginn, heimsókninni til sönnunar
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)