Bakkabræður komnir með rörahlið á Þjóðminjasafnið

IMG_3644

Það verður ekki betur séð en Bakkabræður ráði orðið lögum og lofum á Þjóðminjasafninu og séu farnir að safna rörahliðum og girðingastaurum. Síðuhöfundur hefur nú um tveggja ára skeið gert grein fyrir vorheimsókn að einu fjósbaðstofu landsins í eigu þjóðminjasafnsins hér á blogginu. Eftir vorheimsóknina 2019 var lögð fram spurningin; eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið? Eftir vorheimsóknina þessa árs var velt vöngum yfir arfleið Bakkabræðra.

Bæði árin kom rörahlið við sögu. En þannig er að á Galtastöðum fram er gamall torfbær að hruni kominn þó svo að hver innviðauppbyggingafjárveitingin af annarri fari til viðhalds á bænum ár eftir ár stendur þar varla orðið steinn yfir steini. En aftur á móti hefur forláta rörahlið verið flutt út í mýri hátt í kílómeter frá bænum og vegurinn orðinn því sem næst tvíbreiður að rörahliðinu. Þeir sem til þekkja vita að Galtastaðir er eini bærinn við þennan vegafleggjar og að þar býr ekki nokkur hræða.

Um helgina fékk ég hugboð um að fara út í Galtastaði og kanna hvort og hvernig framkvæmdum sumarsins miðaði því mér til ánægju tók ég eftir því í vor að sinan hafði verið reitt af bæjarstöfnunum og átti því allt eins von á að til stæði að koma steinum sem oltið hafa úr veggjum aftur á sinn stað. Þegar ég beygði inn á afleggjarann heim að bænum jókst ánægjulegur spenningurinn því að mikil umferð vinnuvéla hafði greinilega farið um veginn og ég sá á færi hylla í skurðgröfu ofan við bæ og að heimatúnið hafði verið slegið í sumar.

Til að gera langa sögu stutta þá er nákvæmlega ekkert búið að gera í gamla bænum frá því sinan var reitt af bæjarstafninum, en það er búið að tengja rörahliðið við girðingu sem liggur út og suður mýrarnar, langt inn fyrir bæ, þar vinkilbeygir hún í vestur klesst upp í hæðstu klettabrúnir, þaðan norður og niður að norðurenda rörahliðsins. Nú er gamla girðingin, sem girt var fyrir örfáum árum síðan, í kringum bæinn og heimatúnið, með fínum hengilás á hliðinu, orðin eins og krækiber í helvíti inni í nýju girðingunni.

Fjósveggurinn norðan undir baðstofunni er að hruni kominn sem fyrr og flaksandi bárujárnsplötur brosa upp í norðanáttina þar sem torfið hefur sópast af þakinu. Það er ekki ólíklegt að Þjóðminjasafnið þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur af fjósbaðstofunni sinni eftir veturinn ef fer sem horfir. Kæmi ekki á óvart að safnið myndi eftirláta Skórækt ríkisins girðinguna og rörahliðið svo að fela megi öll verksummerki í órækt Síberíulerkis og Alaskaaspar.

Einhvertíma var metnaður fyrir þessari fjósbaðstofu á Galtastöðum, ef eitthvað er að marka þjóðminjavörð. Í Morgunnblaðsgrein sumarið 2010 fer hún yfir byggingasögulegar perlur og forgangsröðun þeirra. Þar segir að á Galtastöðum fram í Hróarstungu sé varðveitt einstakt alþýðubýli af Galtastaðagerð og unnið sé að viðgerð torfhúsanna. Nú eru liðin rúm tíu ár og ennþá er unnið að því að hægt sé að vinna að viðgerð, sennilega meiningin að girða rollurnar það rækilega frá bænum að þær éti ekki viðgerðirnar áður en næst að reita af þeim sinuna.

En af hverju er torfhús með fjósbaðstofu svona merkilegt? Þjóðminjasafnið segir sjálft á heimasíðu sinni: Á Galtastöðum fram er lítill torfbær frá 19. öld af svokallaðri Galtastaðagerð, sem hvorki telst til sunnlenskrar né norðlenskrar gerðar torfbæja, heldur á rætur í fornugerð og í stað þess að baðstofa liggi samsíða öðrum framhúsum, snýr hún, torfklædd, samsíða hlaði. Í bænum er fjósbaðstofa, reist 1882 af Jóni Magnússyni snikkara, þar sem niðri er fjós en baðstofa er uppi yfir og nýttist ylurinn frá kúnum til húshitunar. Bærinn er lokaður fyrir almenning.

Það má ætla að þjóðminjasafnið hafi tekið við bænum 1976 vegna varðveilugildis hans, og til að sýna almenningi, sem var samviskusamlega gert fram á þessa öld á meðan ábúendur voru á Galtastöðum. Árið 1978 var bærinn lagfærður og endurhlaðin þar sem þess þurfti af hleðslu meistaranum Sveini Einarssyni frá Hrjót. Síðan hafa veggir og innviðið bæjarins fengið sáralítið viðhald. Til þess að fólk geti gert sér grein fyrir hvernig var að búa við fjósbaðstofu er gott að bærinn væri áfram til sýnis, því hann er einstakur á Íslandi.

 Fjósbaðstofa Skaftafellssýslu

Þegar Daniel Bruun ferðaðist um Suðausturland upp úr aldamótunum 1900 vakti Austur-Skaftafellssýsla sérstaka athygli hans vegna húsakosts íbúanna og þá sér í lagi fjósbaðstofurnar, sem eru nú flestar endanlega horfnar:

„Þegar farið er um Skaftafellssýslur, einkum þó Austursýsluna, tökum vér brátt eftir að byggingarlagið er með miklu fornlegri svip en annars staðar á landinu. –Fyrrum bjó fólk á vetrum á fjósloftinu, og sums staðar er það svo enn. Fjósloftið var baðstofan og rúmin í röðum meðfram veggjum. Sums staðar var rúmaröðin aðeins ein og þá á miðju gólfi. Svo lágt var undir loft hjá kúnum, og er kannski enn, að þær ráku hausana oftsinnis upp í baðstofugólfið.

Stundum var þilgólfið aðeins í miðri baðstofunni þar sem rúmin stóðu, en opið meðfram veggjum. Þar leitaði hlýja loftið óhindrað upp frá fjósinu, og kýrnar gátu reist höfuðin dálítið. –Hlýtt var í baðstofunni á vetrum af kúnum í fjósinu, en á sumrum voru kýrnar úti. Dæmi voru til þess að bændur, sem reist höfðu nýja baðstofu í sérstöku húsi, fluttu aftur inn í fjósbaðstofuna. –Það var títt í Skaftafellssýslum að búa í öðru húsi á sumrum en vetrum (sumarhús og veturhús). Slíkur siður þekktist raunar víðar.“ (Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár)

Helst er nú að finna frásagnir um daglegt líf í fjósbaðstofum frá gamalli tíð í þjóðsögunum. Hér eru brot frásagna af draugnum Eyjasels-Móra frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð ca 1805: „Það var einn dag, að Þóra Hálfdanardóttir var niðri í fjósi að lesa í lærdómskverinu, því að hún átti að fermast á vori komanda. Sá var þá siður víðast, að börn lærðu kverið í fjósi sökum þess, að þar nutu þau bæði næðis og hlýju. Er Þóra hafði verið þar um stund, heyrði fólkið uppi í baðstofunni angistaróp, og er að var komið, var Þóra örend. Ekki virtist nokkur vafi á því, að barnið hafði verið kyrkt til bana.“

Önnur frásögn frá Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðaþinghá ca 1830: „Ásmundur hét maður ,Ísleifsson. Hann bjó á Ásgrímsstöðum, en á móti honum á hálflendunni bjó Sigurður, sonur Jóns í Eyjaseli. Katrín hét kona Ámundar, greind kona og skörungur mikill. Eins og margar konur og ekki síst á þeim tímum bar hún mikla umhyggju fyrir kúnum. Eitt kvöld er hún að hlusta eftir, hvort hún heyri nokkurn óróa í fjósinu, en kýr voru þar um slóðir tíðast undir palli. Undrast hún, að ekkert heyrist, að þær jórtri, sem þeirra var vani. Snarast hún þá niður og svipast um í fjósinu. Saknar hún vina í stað, því kýrnar eru horfnar. Vekur hún nú Ásmund, og þau fara að svipast um í bænum eftir beljunum. Innangengt var úr eldhúsi í töðu heyið. Fara þau þangað, og stóð þá eldri kýrin við stálið og kvígan við hjágjöfina.“ (Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar)

Til eru lýsingar frá seinni tíma á því hvernig fjósbaðstofa var innréttuð. Lýsing Hrólfs Kristbjörnssonar er í bókinni Skriðdælu, á bænum að Þuríðarstöðum þegar hann var þar sem ársmaður 1899 þá 13 ára gamall:

„Baðstofan var lítil, á efri hæð hennar var búið, en kýr undir palli, þ.e. á neðri hæð hennar. Lengd hennar voru tvö rúmstæði með austurhlið, og eitt rúmstæði þvert fyrir stafni í innri enda baðstofunnar, en með hinni hlið sem sneri ofan að ánni og kölluð var suðurhlið, voru tvö rúm, og uppganga fyrir aftan rúmið í ytri endanum, sem aldrei var notaður nema þegar gestir komu þangað hraktir eða illa til reika. Á suðurhlið voru tveir gluggar, tveggja rúðu. Hæð baðstofunnar var ekki meiri en það, að háir menn gátu vel staðið uppréttir undir mæni. Eftir þessu að dæma hefur baðstofan verið 7-8 álna löng og 4-5 álna breið í innenda. Þegar ég var þarna var nýbúið að endurnýja gólfið í baðstofunni, en um ytri enda þurfti að ganga með varsemi, og voru því lögð nokkur laus borð eftir miðju.“

Árbók Þingeyinga 2012 hefur að geima einstaklega ítarlega og hlýja frásögn eftir Kristínu Helgadóttur af gamla torfbænum að Gvendarstöðum í Kinn. Kristín ólst upp í gamla bænum og gengur umhverfis hann og í gegnum með lesendum, þegar hún lýsir bæði húsaskipan og lífinu innandyra. Á Gvendarstöðum var fjósbaðstofa fram undir 1948 og leifi ég mér að grípa hér og þar niður í frásögnina þar sem Kristín minnist á fjósið og baðstofuna:

„Í fjósi voru fjórir básar og ævinlega einn eða tveir kálfar á tröðinni. Pínulítil gluggabora var til hliðar við innsta básinn og snéri í austur. Básarnir voru með hellum aftast og flórinn var hellulagður. Þennan flór þurfti að moka daglega, þá var mokað upp í fjósbörurnar sem voru kassi með kjálkum á báðum endum. Bræður mínir báru þær á milli sín, út úr fjósi og gegnum gamla eldhús, fram öll göng og bæjardyr, út og niður fyrir varpann. Þar var fjóshaugurinn og ekki aldeilis sama hvernig hann var borinn upp. Þetta var löng leið og erfitt. Þessa sömu leið fóru kýrnar kvölds og morgna þegar farið var að láta þær út þar til þær fóru í sumarfjósið sem var lítið fjárhús úti á túni ofan við götuna.

Næst held ég að við komum inn í baðstofu. Baðstofuinngangurinn var þykktin á veggnum, síðan komu sex tröppur, tvær þær neðstu voru steintröppur, síðan fjórar trétröppur. Baðstofu hurðin var miðja vegu, þrjár tröppur ofan við og þrjár neðan við hurð. Skarsúð var í baðstofu og tveir bitar þvert yfir en vel manngengt undir þá. Þrír fjögurra rúðu gluggar sneru austur og tveir í vestur. Þegar upp var komið var rúm hægra megin við uppgönguna, það sneri öðrum gafli í uppgöngu en hinn nam við þilið. Síðan komu þrjú rúm enda við enda undir austurhliðinni. Bil var á milli þessara þriggja rúma og þess sem var við stafninn.

Á veturna var vatn handa kúnum borið í gegnum eldhúsið og gamla eldhúsið inn í fjósið sem var undir baðstofunni. Það voru fjórar kýr í fjósi og þeim þurfti að brynna kvölds og morgna og nýborinni kú oftar. -, , , , maður kveið fyrir haustrigningunum. Svo var gott þegar snjórinn kom og setti vel að húsunum, þá hlýnaði líka inni, samt man ég ekki eftir að væri mjög kalt í baðstofu, kýrnar hafa bjargað því , , ,“

Hvernig varðveisla einu fjósbaðstofu þjóðminjasafnsins varð að rörahliði og tvöfaldri girðingu utan um hálfhruninn torfbæ er verðugt rannsóknar efni. Ef skyggnst er um á gúggul má finna ýmislegt um verkefnið. Í stjórnartíðindum 2018 eru 8.250.000 eyrnamerktar til varðveislu bæjarins, árið sem rörahliðið birtist. Og stóð síðan í tvö sumur eitt og yfirgefið ásamt tvíbreiðum malarvegi úti í mýri. Árið 2019 má sjá að 9.250.000 eru eyrnamerktar Galtastöðum en ekki lengur vegna viðhalds bæjarins heldur deiliskipulags bílastæða, göngustíga og girðinga. Það er helst að manni detti í hug að Bakkabræður séu komnir í nútímann og loksins búnir að læra hvernig á að fylla út umsóknir um fjárframlög með exel.

IMG_6685


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Magnús.

Það er leitt að sjá hvernig gamlir torfbæir verða að þúfum einum í landslagi. Auðvitað er ekki hægt að varðveita allt en fátt er nú eftir sem minnir á gamla tíma. Gaman að þú skulir nefna Gvendarstaði í Kinn. Það er næsti bær norðan við gamla Þinghúsið mitt og þangað er alltaf hlýlegt heim að líta. Kristínu kannast ég við og bróður hennar Jónas þekkti ég allvel. Ekki er lengur búið á Gvendarstöðum en húsum er haldið við og tún nytjuð. Þar mallar heimarafstöðin dag og nótt eins og á flestum bæjum í Kinninni. En mig sárvantar pípuhlið. Skyldi það vera á lausu?

Með kveðju.

sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 29.9.2020 kl. 08:27

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Sigurður og þakka þér fyrir innlitið og athugasemdina.

Já þetta það er frekar sorglegt að sjá framvinduna á Galtarstöðum. Maður var kannski að vonast eftir að þessi bær yrði hafin til vegs og virðingar í túristabólunni úr því að það hafðist ekki fyrir hana.

Það vantar alltaf eitthvað til að trekkja túristann annað en gisting og matur hér á Héraðinu. Hengifoss, böðin í Vök og óvænt Stuðlagil komust á kortið og fjósbaðstofan hefði örugglega hjálpað.

Frásögnin hennar Kristínar á Gvendarstöðum er perla með mikið upplýsingagildi.

Það var svona á bak við eyrað að fara Kinnina í sumar og upp allan Bárðardal og yfir í Mývatnsveit en þá heltist gamli Cherokee og ekki hægt að fá nokkurn mann til að járna hann fyrr en seint og síðar meir.

Ég er ekki viss um að rörahlið liggi á lausu eftir að Þjóðminjasafnið fór að ásælast þau, en ég skal láta þig vita ef ég rekst á eitthvað.

Með kveðju af Héraði. 

Magnús Sigurðsson, 29.9.2020 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband