6.1.2010 | 21:38
Stjórnmálamenn allra landa sameinast.
Það hefur verið aumkunarvert að hlusta á stjórnmálamenn í dag tjá sig um hugtakið "ábyrgð" samhliða icesave deilunni. Ráðherrum hefur verið tíðrætt um björgunaraðgerðir og slökkvistörf. Það er sama hvort þeir eru íslenskir eða erlendir greinilegt er að þeir standa ekki með þegnum sínum heldur bankaveldinu.
Þetta hefur mátt sjá í fjölmiðlum heimsins í dag um það sem fólki finnst:
Vefmiðillinn Huffington Post fjallar um Icesave-deiluna í dag þar sem fram kemur að það sem sé að gerast á Íslandi sé forsmekkurinn að því sem muni mögulega gerast um allan hinn þróaða heim. Íslenskir skattborgarar hafi fyrstir allra neitað að axla fjárhagslega ábyrgð á mistökum einkafyrirtækja.
Fram kemur að stjórnvöld víða um heim muni reyna að fá almenning til að borga brúsann, sama hvað reikningurinn sé hár. Nú megi búast við því að skattgreiðendur í öðrum ríkjum muni feta í fótspor Íslendinga og neita að taka þátt í slíku.
Á vef breska dagblaðsins Guardian er nú hægt að taka þátt í skoðanakönnun þar sem lesendum gefst kostur á að tjá skoðun sína á því hvort Íslendingum beri að greiða Icesave-skuldina. Svipuð könnun er á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal. Á báðum vefjunum telur mikill meirihluti að Íslendingum beri ekki að greiða.
Af rúmlega 600 manns, sem tekið hafa þátt í netkönnun Wall Street Journal segja 454 nei, eða 74,7% en 154 eða 25,3% já.
Munurinn er enn meiri í samskonar könnun netútgáfu breska blaðsins Guardian. Þar hafa 79,9% svarenda sagt nei við sömu spurningu en 20,1% já.
Jóhanna ræddi við Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stjórnmálamenn eru sem fyrr við sama heygarðshornið. Keppast við að staðfesta ábyrgð íslensks almennings á skulum gjaldþrot einkafyrirtækja.
Íslendingar ætla sér að standa við skuldbindingar sínar í Icesave málinu. Þetta var aðalinntakið í máli Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands sem í gærkvöldi var í viðtali í þættinum Newsnight á Breska ríkisútvaropinu BBC í gærkvöldi.
Í dag eru samt fjölmiðlar Bretlands farnir að efast um réttmæti yfirlýsinga stjórnmálamanna á takmarkalausri ábyrgð fámennrar þjóðar á skuldum einkafyrirtækja.
Breska viðskiptablaðið Financial Times segir í leiðara í dag, að Landsbankamálið hafi sýnt fram á, að Evrópa verði að styrkja sameiginlegt regluverk sitt. Það verði ekki gert með því að setja Ísland í skuldafangelsi.
Í leiðaranum segir, að forseti Íslands hafi ekki átt annars úrkosti en að vísa Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi þess hve margir kjósendur óskuðu eftir því. Líklega verði lögunum síðan hafnað þar og það kunni að kenna Bretum og Hollendingum þá lexíu, að það sé takmörk fyrir því hverju hægt sé að ná fram með þvingunum. Hins vegar sé tíminn jafnframt of naumur.
Blaðið segir, að Landsbankinn hafi boðið Icesave-reikninga í samræmi við Evrópureglur, sem geri bönkum kleift að opna útibú hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu uppfylli þeir reglur í heimalandi sínu og taki þátt í innistæðutryggingakerfi. En þegar bankinn hrundi í október 2008 hafi skuldbindingar bankans verið íslenska tryggingasjóðnum ofviða.
Í leiðaranum eru síðan raktir Icesave-samningar Breta og Hollendinga og sagt að erfitt sé að skilja hvers vegna ganga þurfi svona hart að Íslandi. Þessi lán séu smámunir í augum kröfuhafanna, 1% af lántökum Breta á þessu og næsta ári. Það myndi kosta stjórnvöld í Lundúnum og Amsterdam nánast ekkert að sýna örlæti.
Þá hafi breskir og hollenskir bankar einnig hagnast verulega á Evrópureglunum. Hefðu þeir hrunið eins og þeir íslensku hefðu viðkomandi stjórnvöld aldrei tekið á sig hundruð milljarða punda skuldir til að bjarga erlendum innistæðueigendum og því sé andstyggilegt að neyða veikburða nágranna til slíks.
Það á ekki að kúga Ísland
Blaðið Independent skrifar einnig leiðara um Icesave-málið í dag og segir að bresk stjórnvöld hafi hagað sér eins og kúgari gagnvart Íslandi. Fyrst hafi eignir Íslands verið frystar með hryðjuverkalögum og þegar íslenska þingið samþykkti lánasamning í sumar hafi breska ríkisstjórnin hafnað skilmálum, sem sett voru.
Síðan þá hafi Bretland notað nánast allar mögulegar leiðir til beita Ísland þrýstingi. Ljóst sé að ríkisstjórnin hafi beitt áhrifum sínum innan Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tll þess. „Það er hægt að kalla þetta fjárkúgun," segir blaðið.
Independent segir, að í þessari viku hafi breska ríkisstjórnin á ný gripið til hrekkjusvínabragðanna og vísar m.a. til ummæla Myners lávarðar sem sagði að ákvörðun forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar þýddi að Ísland vildi ekki taka þátt í alþjóðlega stjórnmálakerfinu. „Þetta er hótun um einangrun, sem Bretland hefur til þessa aðeins beitt gegn alþjóðlegum úrhökum á borð við Simbabve og Norður-Kóreu," segir Independent.
Blaðið segir síðan, að svona framkoma sæmi ekki Bretlandi og virðist raunar hafa haft þveröfug áhrif. Ljóst sé að Bretar fái lítið sem ekkert til baka af því fé, sem þeir vörðu til að bæta breskum sparifjáreigendum tjónið af falli íslensku bankanna nema einhverskonar málamiðlun náist.
Ljóst sé, að Ísland muni á endanum ekki eiga annars úrkosti en að greiða Bretum bætur. En hægt hefði verið að koma í veg fyrir allan þennan sársauka hefðu Bretar gripið til fyrirbyggjandi aðgerða áður en fjármálakreppan skall á.
Leiðari Financial Times
Hvernig þessir bjánar í Lundúnum létu sjómennina gera grín af okkur, er heitið á pistli sem birtist á vef breska dagblaðsins Daily Mail í dag. (How idiots in London let the cod fishers make fools of us).
Í pistlinum er bent á það hvernig íbúum Leicester liði ef þeir vöknuðu einn daginn við þá fregn að börn þeirra og barnabörn bæru ábyrgð á 35 milljarða punda skuld, það gæti eyðilagt matarlystina fyrir einhverjum. Segist pistlahöfundur nota íbúa Leicester sem dæmi þar sem þeir séu álíka margir og Íslendingar.
Ekki það sama og fá háan kortareikning eftir jólin
Pistlahöfundur bendir á að það sé eitt að fá háan kreditkortareikning eftir jólin eða verða aðeins á eftir með afborganir af fasteign, en 35 milljarðar punda sé dálítið meira og annað.
Fall íslenska bankakerfisins, sem var allt of þanið, hefur skilið þetta litla land eftir með timburmenn sem eru miklu verri heldur en þeir sem Bretar þurfa að glíma við. Gengi krónunnar hefur hrundið, laun hafa lækkað og fólk hefur misst vinnuna. Framtíð efnahagsmála er svört og engin leið að fá fé að láni nema á okurvöxtum.
Íslendingar eru brjálaðir yfir því sem gerðist. Í landi þar sem glæpir eru fátíðir, hafa bílar og hús útrásarvíkinganna - sem keyrðu bankana í þrot, verið skemmdir. Íslendingar kalla sig nú ísþrælana, „Icesalves" vegna þeirra byrða sem þeir þurfa að bera.
Í þessari beindist kastljós umheimisins að Íslandi. Forseti landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, skrifaði ekki undir Icesave-lögin. Á morgun mun íslenska þingið koma saman og ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu og er fastlega gert ráð fyrir að þjóðin hafni setningu laganna. Flestir Íslendingar láta það ekki hafa áhrif á sig að þetta geti haft áhrif á lán þeirra hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Né heldur aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Staða þeirra í alþjóðasamfélaginu er í hundakofanum.
Þeir neita því einfaldlega að bera ábyrgð á glæpum útrásarvíkinganna, skrifar pistlahöfundurinn Max Hastings. Hann segir Íslendinga telja þau kjör sem þeim standi til boða hjá Bretum og Hollendingum óásættanleg.
Hefur samúð með Íslendingum
Hann segir jafnframt að tæknilega sé ljóst að íslensku bankarnir báru ábyrgð á því fé sem lagt var inn hjá þeim. En samt sem áður hafi hann og fleiri ákveðna samúð með Íslendingum. Hvað var alþjóðlega fjármálakerfið og fjármálaeftirlitin að gera? Með því að heimila eldfjallaeyríki, sem Warren Buffett gæti auðveldlega keypt sér sem jólagjöf, að þykjast verða alþjóðleg fjármálamiðstöð.
Sparifjáreigendur sem trúðu á jólasveininn
Breskir sparifjáreigendur, sveitarfélög og fleiri lögðu inn á reikninga bankanna sem buðu miklu hærri vexti en aðrir. Þeir ákváðu að trúa á jólasveininn vegna þess að Moodys gaf Íslandi AAA einkunn á sama tíma og ESB og Englandsbanki kinkuðu kolli og ákváðu að óhætt væri að leggja inn fé á reikningana.
Pistlahöfundur segist hafa komið til Íslands í nokkur skipti og lýsir landi og þjóð frekar. Hann segir einu verðmæti Íslands séu fiskurinn, Björk og fallegar peysur. Það hafi hins vegar ekki stöðvað regluverkið og bankamenn heimsins í að koma fram við íslensku bankana á annan hátt en þeir skiptu miklu máli. Nú þurfi hins vegar þessi litla þjóð að bera þær byrðar.
Hann segir að lagalega þá standi Íslendingar illa. Hann ætli hins vegar að geyma reiðina fyrir fíflin í New York, Lundúnum og öðrum höfuðborgum Evrópu sem leyfðu fiskimönnunum að gera grín af þeim sem og þeim sjálfum.
Greinin í heild
Magnús Sigurðsson, 7.1.2010 kl. 08:36
Meira af því sem hefur verið að birtast í erlendum fjölmiðlum í dag, og muninn á því sem hinn almenni álitsgjafi og stjórnmálamenn láta hafa eftir sér. Stjórnmálamönnum þykir nær undantekningalaust við hæfi að koma inná að Íslendingar standi við allar sínar skuldbindingar, sem eru í þessu tilfelli skuldir gjaldþrota einkafyrirtækis.
Maris Riekstins segir framgöngu Breta og Hollendinga óhugnanlega
Utanríkisráðherra Lettlands, Maris Riekstins, hefur tekið upp hanskann fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Í viðtali á Reuters segir hann viðbrögð ríkja gagnvart ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að vísa Icesave-lögum í þjóðaatkvæðagreiðslu, óhugnanlega enda var Ísland að fylgja sínum lýðræðisreglum.
Hann bendir á að það sé stjórnskrárvarinn réttur forseta Íslands að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Riekstins segir hörð viðbrögð Hollands og Bretlands, meðal annars hótun um pólitíska einangrun Íslands, óhugnanlega og vekja upp spurningar varðandi rétt lýðræðisríkja til þess að framfylgja eigin lögum og stjórnarskrá.
„Eru þessi viðbrögð tilkominn vegna þess að Ísland er lítið ríki?" spyr Riekstins og bætir við: „Það er erfitt að ímynda sér að þessi sömu ríki hefðu hagað sér eins og þau gerðu gagnvart franska forsetanum."
Þá sagði hann að lokum að íslenska þjóðin myndi standa við sínar skuldbindingar, það væri skýrt.
Robert Peston segir við erum allir Íslendingar
Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, segir á bloggi sínu að ef kjósendur í Bretland eða Bandaríkjunum hefðu fengið að greiða atkvæði um hvort ríkisstjórnir þeirra ættu að veita billjónum dala til banka í formi lána, trygginga og fjárfestinga, er líklegt að því hefði verið hafnað.
Flestar skoðanakannanir bendi til þess, að almenningur hafi verið afar reiður bönkunum sínum en verið sannfærðir um að ekki væri rétt að leyfa þeim að falla því það myndi valda efnahagslegri upplausn.
Flestir hagfræðingar, seðlabankastjórar og fjármálaráðherrar myndu því sennilega segja, að þakka ætti fyrir að almenningur í Bandaríkjunum og Bretlandi er ekki eins sjálfstæður og á Íslandi.
Flestir eru sjálfsagt sammála meirihluta Íslendinga, sem skilja ekki hvers vegna refsa eigi þeim fyrir græðgi og heimsku nokkurra bankamanna. Samt leiki enginn vafi á að Íslendingum hefur þegar verið harðlega refsað fyrir hrun bankakerfisins. Kaupmáttur Íslendinga hari lækkað um 20% á síðasta ári og muni væntanlega lækka um tæp 16% á þessu ári.
Peston segir, að Íslendingar viti nú, betur en nokkur önnur þjóð, að þegar bankar lenda í vandræðum þurfa skattgreiðendur að borga. Þetta hafi Bretar einnig lært en ekki gert sér næga grein fyrir því áður en fjármálakreppan hófst.
„Í ljósi hins efnahagslega gjalds sem við höfum þurft að greiða vegna ábyrgðarlausrar hegðunar bankanna kemur það ef til vill á óvart að við erum ekki öll eins reið og Íslendingar," segir Peston.
Blogg Pestons
Magnús Sigurðsson, 7.1.2010 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.