Þarf þjóf til?

 

Þau fara stórum tryggingafélögin í að verjast þjófum á landinu blá þessa vikuna.  VÍS með svikhnappinn Sjóvá með nágrannavörsluna í samstarfi við Securitas, Símann og raðgjaldþrota 365.  Svolítið sérkennilegt af þessum fyrirtækjum, ef litið er til þess hvaða hlutverk þau léku í hruni sem rændi íslensk heimili um 185 milljarða.  En nú eru bjartir tímar framundan skattgreiðendur búnir að endurreisa Sjóvá og rétt að hafa allan varan á gagnvart þjófum og svikahröppum.

Eitt af því sem hefur vakið athygli mína undanfarin ár er sístækkandi skógur eftirlitsmyndavéla.  Í sumar ákváðum við hjónin ásamt vinafólki að fara á bræðsluna á Borgarfirði.  Áður en við lögðum af stað þurftum við að koma við á bensínstöð til að kaupa batterí.  Á meðan konurnar fóru inn fórum við að telja eftirlitsmyndavélarnar á horni hússins, þær voru fjórar.  Þar sem ekki fengust batterí á þessari Shell stöð var farið á N1. Áhugi okkar á eftirlitsmyndavélum var vakinn og á N1 töldum við átta vélar, bara yfir dælunum. 

Bræðslan er ein af vinsælustu sumarhátíðum landsins, í litlu sjávarplássi koma saman þúsundir manna allstaðar af landinu eina helgi í júlí þar sem vinsælustu tónlistarmenn landsins troða upp, auk þess sem yfirleitt er boðið upp á eitt heimsþekkt númer.  Þegar við kíktum inn á Álfakaffi var löng bið eftir afgreiðslu.  Svo við höfðum nægan tíma til að skoða gersemar sem voru í hillum upp um alla veggi.  Hver slípaði demanturinn um annan, steinar úr ríki Borgafjarðar, verðlagðir frá þúsund og upp í tugir þúsunda. Félagi minn hnippti í mig og sagði "sjáðu það er engin eftirlitsmyndavél hérna inni, það er stappað af allskonar fólki og það er ekki hægt að sjá að neinu hafi verið stolið". 

Það sem mér datt í hug við þessa athugasemd var "þarf  þjóf til að setja upp eftirlitsmyndavél". 

Það hafa fáir forsvarsmenn fyrirtækja verið staðnir af eins grófri markaðsmisnotkun gagnvart viðskiptavinum sínum og hjá olíufélögum og bönkum þar sem frumskógur eftirlitsmyndavéla er hvað þéttastur.  Það sem undarlegra er að myndavélunum í þessum fyrirtækjum er beint að viðskiptavinunum.  Þegar í raun þeim hefði betur verið beint að forsvarsmönnum þessara fyrirtækja svo viðskiptavinirnir hefðu getað fylgst með hvaða launráð væri verið að brugga í bakherbergunum.

Eitt átakanlegast dæmið, þar sem eftirliti hefur verið snúið á haus þegar kemur til blekkinga gagnvart viðskiptavinum, er nágrannavörslu auglýsingaherferð Sjóvá.  Eftir að bótasjóðir félagsins höfðu verið tæmdir innan frá, hver skúffa þurrausin af peningum svo ekki var til fyrir útborgun launa, voru skattgreiðendur látnir leggja fyrirtækinu til milljarða svo ekki þyrfti að setja starfsemina í þrot. Einum manni  var skipt út, forstjóranum.  Síðan farið út í umfangsmikla auglýsinga herferð sem gengur út á nágrannavörslu.  Þar sem starfsfólk þessa fyrirtækis er boðið og búið til að aðstoða fólk við að finna þjófana í sínu nánasta umhverfi.  Og helst má skilja á auglýsingunum að þeir leynist í hverju garðshorni.

Þegar ég lít út um stofugluggann hjá mér, sem er með frábæru útsýni, sé ég tvo skóla.  Gamla barnaskólann minn og menntaskóla.  Á þessu byggingum get ég talið fjölda eftirlitsmyndavéla bara þar sem ég stend við gluggann.  Það væri t.d. útilokað að fara á bak við skóla og reykja í frímínútum eins og við gerðum í gamla daga án þess að athæfið næðist á myndavél.  En er þetta það þjóðfélag sem við viljum láta börnin okkar alast upp við?  Gera það að glæp að prófa að reykja á bak við skóla, en leyfa djöflunum að ganga af göflunum inn á kennarastofunni.

 


mbl.is Svikahnappur andstæður lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þetta eru gömul sannindi og ný.  Mestu dólgarnir og fyllibytturnar voru valdir í lögguna til að halda friðinn.  Perrarnir koma sér fyrir þar sem unnið er með börn.  Tölvuhakkararnir eru ráðnir af tölvufyrirtækjum til að verja þau.  Þjófarnir passa fyrir okkur verðmætin og svona mætti áfram telja.  Góður pakki hjá þér .

Benedikt V. Warén, 12.11.2010 kl. 17:47

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Pelli, veistu um góðan bílaþjóf.  Mig vantar mann sem getur náð ræsivörninni af Crysler fyrir ESB markað.  Bíllinn er ekki keyrður nema 100 þús km, en er ónýtur vegna þess að hann fer ekki í gang.  Byrjaði að garfa í þessu fyrir 3 árum búin að eiða í þetta stórfé, Jöfur, Ræsir og Chrysler búnir að fara á hausinn millitíðinni þannig að enginn erábyrgur. 

Magnús Sigurðsson, 12.11.2010 kl. 18:30

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ef ég hjálpa þér, verð ég ásakaður um að vera bílaþjófur.  

En það fyrsta sem mér dettur í hug, er að aftengja rafgeyminn í sólahring og tengja síðan aftur og prufa. 

Þetta tölvudrasl er ekkert öðruvísi en heimilistölvan, - restart = OK. 

Benedikt V. Warén, 12.11.2010 kl. 18:56

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Miðað við hversu algengur bensínþjófnaður er, þá er ekki skrýtið þó það séu myndavélar við hverja einustu dælu. Það er svoleiðis á öllum bensínstöðvum hjá öllum söluaðilum, sama hvort þú sérð þær eða ekki. Það er einfaldlega ódýr leið til að tryggja innheimtu því þá er alltaf hægt að hafa uppi á eigandum viðkomandi bifreiða.

Hinsvegar er ég fullkomlega þeirrar skoðunar að það sé almennt orðið og mikið af eftirlitsbúnaði á stöðum sem flokkast undir "almannafæri". Þetta var kannski snjallræði fyrst þegar það voru nógu fáar myndavélar til þess að húsvörðurinn á löggustöðinni gat haft auga með hlutunum. En um leið og myndavélunum fór að fjölga kom fljótlega í ljós hversu gagnslausar þær eru þegar enginn er ráðinn í vinnu við að horfa á allt myndefnið í beinni útsendingu. Því eftir að skaðinn er skeður gagnast það engum nema til að rannsaka glæpi sem þegar er búið að fremja, og eins og ég fékk að reyna nýlega, ekki einu sinni þá. Ég var staddur ásamt tveimur vinum mínum á líklega einhverjum mest vélmyndaða stað á Íslandi (í miðju Austurstræti fyrir framan Landsbankann) þegar við urðum fyrir árás nokkurra ungra manna sem voru líklega búnir að fá sér eitthvað sterkara en áfengi það kvöldið. Ég slapp ómeiddur og tilkynnti þetta strax til neyðarlínu en vinur minn fékk gat á hausinn eftir bjórflösku og þurfti að fara upp á slysó. Hann fór svo eftir þessa helgi á lögreglustöðina til að kæra árásarmennina og varð fyrir miklum vonbrigðum. Lögreglan sagði einfaldlega að ef hann gæti ekki sagt þeim nein deili á árásarmönnunum þá kæmu myndirnar úr öryggismyndavélunum ekki að neinu gagni einar og sér, því þeir hefðu ekki mannskap til að leggjast sjálfir í djúpar rannsóknir á þessu. Ég þori samt að veðja að þessir gaurar voru í hópi "góðkunningja" lögreglunnar, kannski einum of góðir kunningjar, ég veit ekki? En ég velti því líka fyrir mér hvað hefði þá þurft til svo að lögreglan drattaðist upp af skrifborðsstólnum og færi af stað að rannsaka málið, eins og mér skilst að hafi verið þeirra raunverulega hlutverk fyrir tíma öryggismyndavélanna... ætli það hefði einhver þurft að örkumlast til þess að armur réttvísinnar tæki sig til og gerði eitthvað gagn? Ef svo er þá mun grafskrift réttarríkisins verða: "dauði þess var órannsakaður sökum vanhæfis löggæslunnar".

Guðmundur Ásgeirsson, 13.11.2010 kl. 02:03

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

P.S. Magnús: Prófaðu að hafa samband við Neyðarþjónustuna, þar eru menn sem vinna við innbrot í bíla o.þ.h. (að beiðni eigenda bílanna auðvitað).

Guðmundur Ásgeirsson, 13.11.2010 kl. 02:06

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðmundur, skil vel hvað þú átt við. Það var stolið frá mér bíl á Öldugötu fyrir nokkrum árum.   Þá viku sem það tók mig að endurheimta bílinn gerði ég mér fulla grein fyrir því að lögreglan hafði engan áhuga á málinu. Þegar ég fann bílinn í götu þar sem honum hafði verið ýtt rafmagnslausum úr innkeyrslu svo hann findist ekki við útidyr þjófsins hafði lögreglan ekki tíma til að koma á staðinn.  Vildi aðeins fá uppgefið bílnúmerið hjá mér svo hægt væri að taka hann af skrá yfir "óskilamuni".

Ég fór sjálfur og heilsaði upp á íbúa og spurði út í hvað bíllinn hefði verið lengi í götunni, því þeir sem fóru um hana þurftu að sveigja framhjá bílnum, það undarlega var að þeir sem ég spurði þóttust ekki hafa tekið eftir bílnum.  Seinna var greiðslukortunum mínum og ökuskírteini, sem voru í bílnum, skilað til lögreglu.  Ég gat sótt það í óskilamuni hjá lögreglunni, þegar ég spurði hvar þetta hefði fundist fékk ég engin svör, var sagt að vera ekki að blanda mér í slíkt, skýrt loka svar.

Með þeim rökum að eftirlitsmyndavélar gagnist við rannsókn glæpa sem þegar er búið að fremja er þeim beint í ranga átt, þeim ætti að vera beint inn í bakherbergi þeirra sem véla með okkar mál og eru á launum við að vinna í þágu almennings.  Af því svæði kemur stærsti þjófnaður Íslandssögunnar, heimilin rænd opinberlega um 185 milljarða.  Kannski verður sá þjófnaður til þess að það opinbera setji eftirlitsmyndavél inn á hvert heimili þegar tilsjónarmaðurinn með skuldaaðlöguninni  þykir vera orðin of dýr.

Magnús Sigurðsson, 13.11.2010 kl. 07:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband