Hvern dreymir ekki um að vera númer?

Þá er aftur setið á 69°N og nú fer snjóskaflinn stig hækkandi, loksins skilur maður hvers vegna Norsararnir ráku niður tveggja metra háar stikur í alla vegkanta seint í september.  Hér snjóar alltaf í logni, enda er það eina ríkandi vindáttin.  Þar af leiðir er bara einn snjóskafl hvert sem augað eygir.  Það er strax orðin vika síðan að ég kom hingað á norðurhjarann eftir að ég sá sólina og naut hátíðar ljóssins með fjölskyldunni heima á Íslandi í þrjár vikur.  Sólin hefur ekki sést hér á 69°N síðan 20. nóvember en það fara sögur af því að hún hafi komið upp úr sjónum fyrir þremur dögum síðan, en upp fyrir fjöllin kemst hún ekki enn sem komið er. 

Ferðalagið hingað að heiman var svipað og að vera fullur í spariskóm á svelli, það tók gott betur lengri tíma en þegar við Matthildur mín skruppum til Ástralíu eftir ein jólin hérna um árið.  Fórum þá út úr dyrunum heima kl.9 og flugum og flugum og flugum í 23 tíma á lofti og 10 tíma á jörðu niðri.  Eina töfin var í London en þar gerði ungur maður athugsemd við að torkennilegur íslenskur stafur væri í eftirnafninu mínu og taldi rétt að gæta fyllsta öryggis enda hryðuverkamenn oft með undarlega stafi í nöfnunum sínum.  Þetta er í eina skiptið sem ég hef verið grunaður um hryðjuverk fyrir utan það þegar annar ungur maður lét mig á leiðin heim fyrir jólin velja um hvort ég henti rakspíranum eða tannkremstúpuni úr handfarangrinum svo tryggt væri að ég væri ekki að möndla sprengju sem grandað gæti flugvélinni á meðan hún væri í loftinu með mig innanborðs.  Ég fann mig strax mun öruggari eftir að hafa orðið vitni af árvekni unga mannsins í Evenes enda allt fullt af grunsamlegu fólki hvert sem ég leit og ekki síst gamla konan fyrir framan mig sem komst í genum rúlluhliðið á miða gömlu konunnar sem stóð fyrir aftan hana og hafði sett miðann sinn í skannann en komst svo hvergi því hliðið vildi ekki bekkenna nema einn á þeim  miða.  Einhvernvegin er samt aldrei vesen þegar Matthildur er með í för þá bara reddast allt. 

Upphaflega hafði ég gert ráð fyrir einum degi í ferðina hingað á 69°N, fannst það temmilegt úr því að mér tókst að komast þessa leið á kvöldstund og degi með gjósandi Vatnajökul og norðan stórhríð seint í maí, en þorði svo ekki annað en að leggja í hann að heiman frá Egilsstöðum degi fyrr vegna ótæpilegra svella og hláku spár. Það kom líka í ljós daginn eftir að þetta hafði verið hárrétt ákvörðun, í morgunnfréttunum var greint frá því að 5 hefðu komið fótbrotnir á slysó, 7 únliðsbrotnir auk þess sem komið hefði verið með nokkra rotaða, innanlandsflug lægi niðri vegna ísingar í lofti.  Þegar ég var að fara um borð í Icelandair vélina í Keflavík, sá ég konu sem ég hef grunaða um að hafa verið völd af því að ég komst á óskiljanlegan hátt fram fyrir tugi farþega með SAS fluginu í maí s.l., þegar Vatnajökull varð þess valdandi að þjónustufulltrúar SAS sögðu að ég gæti gleymt því að ferðast með þeim fyrr en eftir nokkra daga af óviðráðanlegum orsökum.

Ég var svo ánægður með að sjá þessa vinkonu að ég var farin að hugsa um að það væri kannski ekki viðeigandi að faðama blá ókunnuga manneskjuna að sér um leið og maður óskaði henni gleðilegs nýs árs og þaðkkaði fyrir síðast.  Það kom þó ekki til þess að ég þyrfti að halda aftur af mér því að svona manneskjur eru á þönum við að möndla keisið og minna mig óneitanlega á Bigga heitin frænda minn sem datt aldrei í hug að segja annað en "við reddum því" við hvern þann sem leitaði eftir hans aðstoð.  En undanfarin ár hef ég haft það á tilfinningunni að svona fólki fari fækkandi og við hafi tekið fólk sem ekki er hægt að ræða við um sín vandræði nema að hafa tekið númer.  Eins og gefur að skilja er þetta mjög bagalegt fyrir mann eins og mig sem er af "þetta reddast" kynslóðinni.

Mér varð það meir að segja að orði við hana Matthildi mína um sjálf jólin, að ég hefði grun um að á Íslandi væri búið að mennta að minnsta kosti hundrað þúsund hálfvita og það væri varla á nokkurn mann leggjandi að reikna það út hvað væri búið að mennta marga í heiminum öllum.  En það er svo að þegar verið er að heiman í hundrað daga þá er ýmislegt sem bíður úrlausnar þegar heim er komið. 

Þessi verkefni tók ég skipulega.  Fyrst var það að opna póst fram að hádegi, en við að lesa innihald hans var ég komin með svo mikinn höfuðverk að ég lagðist í rúmið.  Daginn eftir fór ég á skattstofuna og spurði hvort það gæti verið að rekstur fyrirtækis míns væri enn í gangi og skilaði myljandi hagnaði, ég hafði nefnilega verið skikkaður til að loka honum haustið 2010 ef ég ætti að eiga séns í atvinnuleysis bætur. 

Til að loka rekstri þarf allt að vera í orden, launatengd gjöld, virðisaukaskattskil og skattaskýrsur.  Að ganga í gegnu það ferli hafði tekið mig þrjá mánuði á sínum tíma þrátt fyrir að ég marg benti á að fyrirtækið hefði aðra kennitölu en ég sjálfur og hlyti að teljast sjálfstæður lögaðili, nei sko Vinnumálastofnun ætlaði ekki að láta iðnaðarmenn svíkja út atvinnuleysisbætur með því að segja sjálfum sér upp með reksturinn reddý.

Hún rýndi í tölvuskjáinn hjá skattinum, já þessi kennitala er með opin rekstur.  Hvernig stendur á því ég lét loka honum til að eiga rétt á atvinnulaysisbótum haustið 2010; spurði ég.  Það er nú sem betur fer búið að taka fyrir svoleiðis óréttlæti enda er þetta sjálfstæður lögaðili en ekki þú sjálfur, sagði hún.  Er þá ekki hægt að loka þessum rekstri svo að sýslumaðurinn sé ekki að senda mér heim milljóna skattaskulda áætlanir vegna veltu sem er ekki til og Matthildi minni stefnuvotta, spurði ég.  Jú, jú, þú þarft bara að fylla út virðsaukaskattskýrslur frá 2010 á núlli, sagði hún. 

Ég hófst handa og var að verða nokkuð ánægður með afraksturinn, á hálftíma var ég að verða búin að koma milljóna skuldum út úr heiminum og útfylla eiðublaðið fyrir lokun rekstrar sem er ekki til í annað sinn á rúmu ári.  Þegar ég skilaði skýrslunum stimplaði hún þær og sagði; þetta er svo sem fínt en, það þarf að greiða 5000 kr sekt fyrir hverja þeirra vegna þess að þú skilaðir þeim of seint, og svo verður þú að skila inn ársskýrsu vegna rekstrarins svo ég geti lokað honum.  Ég fann að höfuð verkurinn var farin að gera vart við sig frá deginum áður og kvaddi.

Næsta var að finna út hver ætti hjólhysi sem hafði verið skilið eftir fyrir utan geymsluhúsnæði sem ég hef með að gera og sá sem sér um það fyrir mig hafði sett inn í góðri trú, enda oft gert þannig viðvik áður.  Ég hafði góða reynslu af því að hringja í Umferðastofu til að fá uppgefið bílnúmer, frá því lögfræðistofan í London hóf innheimtubréfaskrif vegna bíls sem ég átti að hafa verið á ferðinni í vítt og breytt um norðurlöndin án þess að sinna því að greiða vegtolla, enn sönnunargagnið var mynd af bíl með íslensku númeri sem ég kannaðist ekkert við, þá uppflýsti Umferðastofa mig um að þessi bíll væri í eigu íslesnks fyrirtækis sem væri með starfsmann í Danmörku. 

Því mátti ætla að ekki tæki langan tíma að ná upp úr þeim hjá Umferðastofu hver ætti hjólhýsið með Gt númerinu.  Nei þetta var ekki svo einfalt að ég tæki bara upp símann, ég yrði að gera svo vel að mæta á staðinn með persónuskilríki til að fá að vita svona dulkóðaðar upplýsingar.  Ég skýrði út málið og maldaði í móinn að það væri nú ekki svo einfalt að leggja upp í 700 km ferðalag með skilrýki á svona svellum eins og skreyttu Ísland yfir jólahátíðina.  Hvernig á ég að komast að því hver á þetta hjólhýsi; spurði ég.  Þú verður bara að bíða það hlýtur einhver að spyrja um það fyrr eða síðar; sagði sú á Umferðastofu.  En hvernig veit ég að það verður eigandinn; spurði ég.  Þú verður bara að biðja um skilrýki; sagði hún um leið og hún þuldi upp vinnureglur, verkferla og persónuvernd.  Ég kvaddi með alveg dúndrandi höfuðverk.

Svo datt mér í hug að fara stuttan bíltúr á svellinu og spyrja hann nafna minn sem hefur aðgang að ótrúlega viðkvæmum persónuupplýsingum um númer hvort hann gæti hjálpað mér að finna dulkóðaða hjólýsaeigandann.  Nafni var í símanum þegar ég rann inn úr dyrunum og sagði í símann; er alveg vonlaust að koma þessum helvítis bíl út úr heiminum hann er ekki til lengur, sá sem átti hann gaf kunningja sínum hann í varahluti svo er verið að rukka hann endalaust um gjöld.  Hingað til hefur verið nóg að koma með sönnunargögnin til mín þegar bílar eru ekki lengur til...................ég er búin að tala við Umferðastofu það þýðir ekki neitt, þeir segja að hann verði að skila bílnum með verksmiðunúmerum, eru einhver lög fyrir þessu hjá þeim?.........................nú já þetta er semsagt ein af nýju vinnureglunum þeirra.  Nafni hafði spurt mig í miðju símatali hvað hann gæti gert fyrir mig og rennt til mín minnismiða yfir afgreiðsluborðið með nafni og heimilisfangi dulkóðaða hjólhýsaeigandans svo ég losnaði við að heyra meira um verklagsreglur Umferðastofu.

En þessi pistill átti semsagt að verða ferðasaga en eins og áður þá er maður í eintómum útúrdúrum og tjóni.  Í Osló á Gardemóen höfðu heilladýsirnar tekið sér frí, taskan mín sem var reyndar mjög snyrtileg vinnutaska, kom ekki á færibandi nr.6 eftir að slökkt hafði verið á bandinu kom melding um að spesial bagassje væri á færibandi nr.10, ég tók sprettinn. Á færibandi nr.10 var Zurich en engin spesial bagassje.  Ég tók sprettinn í upplýsingar tók númer og beið til að komast að því að Nowegian svaraði engu ef Icelandair ætti í hlut.  Ég tók annað númer og fór í biðröð hjá SAS, ákvað svo að taka sprettin aftur á töskuband nr.10 þar gat ég lesið að spesial bagassje hafði verið settur á band nr.5.  Ég tók sprettinn og viti menn á bandi nr.5 stóð þessi fína verkfæra taska og beið eiganda síns.

Þó stutt væri í tengiflugið þá átti ég leikandi að ná því með því að spretta úr spori.  Þegar ég kom í innritunarvélina kom melding um að ég yrði snúa mér að innritunaborði.  Þar tók brosandi ungur maður á móti mér og spurði hvert ferðinni væri heitið; til Harstad.  Þegar ég setti töskuna á bandið og hann ætlaði að setja tösku miðann á snar stoppaði hann og sagði spesial bagassje, þú ert of seinn og verður að kaupa þér annan flugmiða.  Ég maldaði í móinn en komst fljótlega að því að þessi var ekki af "þetta reddast" kynslóðinni heldur "taktu númer" kynslóðinni því hann benti mér á að tala við þjónustufulltrúa Norwegian.  Þar tók ég númer til að vita að svona væru verklagsreglurnar þó svo að þetta stæðist öll mál venjulegrar tösku þá sæist að þetta væri vinnutaska og það væri spesial bagassje og fyrir þá afgreiðslu væri búið að loka, en ég gæti talað við upplýsingarna niðri til að fá frekari upplýsingar.

Í upplýsingunum niðri tók ég númer til að komast að því að þar væru svona upplýsingar ekki til reyðu en ég gæti reynt að spyrja þá hjá flybus hvort það væri einhver bus á leið þessa 2000 km til Harstad sem tæki að sér að flytja spesial bagassje.  Ég gekk í rólegheitunum upp aftur með mína tösku.  Fór að upplýsingunum hjá Norwegian og tók númer.  Á borði nr.1, 2, 3, 4 var engin bið en á nr.5 var verið að veita þjónustu með upplýsingum.  Þó ég hefði tekið númer þá voru engin merki að sjá á að ég væri viðstaddur og mér fannst ég jafnvel geta greint það að upplýsingafulltrúarnir horfðu í gegnum álfinn í gráu lopapeysunni með fölsuðu ferðatöskuna.  Þá datt mér í hug að taka annað númer því að það klingir við afgreiðsluborðið þegar tekið er númer og svo tók ég annað númer og annað koll af kolli, loksins kom upp númer fyrir ofan einn upplýsingafulltrúan um að hún væri til þjónustu reyðubúin.  Ég fór í gegnum númera bunkann sem ég var með í lófanum og viti menn á neðsta miðanum var númerið fyrir ofan þjónustufulltrúann.  Hún spurði gátu þeir ekkert gert fyrir þig niðri.  Ég reyndi ekki að útskýra málið, keypti nýjan miða til Harstad morguninn eftir enda alveg búin að gera mér grein fyrir því að uppáhalds setningin hans Bigga frænad "við reddum því" myndi ekki heyrast þetta sunnudagskvöld á Gardemoen. 

Það má segja að það sé mikill missir af fólkinu með "við reddum því" mottóið og sitja þess í stað uppi með hundrað þúsund hálfvita sem biðja um númer, en eru samt það vel innréttað fólk að það myndi aldrei detta í hug að haga sér svona heima hjá sér, heldur bara í vinnunni.  Mér varð þetta kvöld hugsað til flugfreyju hjá Icelandair fyrir mörgum árum síðan, en þá hafði flug til Boston orðið fyrir það mikilli töf að það var verulega tvísýnt að það tækist að ná tengiflugi til St. Luois.  Við vorum 5 steypukallar saman á leið á námskeið sem átti að hefjast daginn eftir.  Ég orðaði þessar áhyggur við flugfreyjuna hún sagðist ætla að íhuga hvort eitthvað væri hægt að gera, þetta viðmót komst næst "við reddum því" hjá Bigga frænda.  Þegar við nálguðumst Boston kom flugfreyjan til mín og sagði að við skyldum flytja okkur yfir í Saga Class þannig kæmumst við fyrr frá borði.  Síðan skipulagði hún í örstuttu máli innrás í Bandaríkin, við færum beint á töskubeltið og tækum sprettin í vegabréfa eftirlitið.  Þegar við komum þangað var hún í hrókasamræðum við einn landamæravörðinn, sem kinkaði ákaft kolli.  Hún sagði, segið þið svo bara já við öllu spurningum sem hann spyr ykkur. 

Þannig glönsuðum við í gegn ásamt flugfreyjunni sem fylgdi okkur að innritunarborði Trans World, sagði þar nokkur vel valin orð við innritunarfulltrúann, síðan við okkur ekkert slór og góða ferð.  Ég var fyrstur og tók eitt mest spretthlaup sem ég hef tekið frá því ég var gutti á fjórðungsmóti.  Þegar ég kom að útgönguhliðinu stóð "bording closed" ég ætlaði að reyna að tala við manninn sem stóð við hliðið en kom ekki upp einu einast orði fyrir hlaupasting og mæði, hann klappaði brosandi á öxlina á mér og sagði "I know there are four more vikings on the way".

Eins kom þetta sunnudagskvöld á Gardemoen upp í hugann, sem þarf kannski ekki að koma á óvart, annar spesial bagassje í mínum fórum.  En þá vorum við tveir vinnufélagrnir á leið til Ísrael og ég hafði í handfarangrinum 30 kg íþróttatösku sem hafði að geyma blýþung demantsplön til að slípa steinsteypt gólf, húlkílajárn auk 2400W slípirokks.  Þessi tól eiga það sameiginlegt að vera ótrúlega þung miðað við umfang.  Á þessum árum var vandræðalaust að komast með saklausan handfarangur í gegnum tékkið í Keflavík og við fórum inn á transit í Amsterdam þannig að þar átti ekki að vera um neitt tékk að ræða.  En þegar við komum að bording hliðinu í flugið til Tel Aviv var allt í einu allt fullt af svartklæddum mönnum með M16 hríðskotariffla og tékk á handfarangri inn í vél.  Ég var dauð feginn að geta hvílt mig um stund á því að rogast með íþróttatöskuna og skellti henni á bandið sem snarstoppaði fljótlega og ég beðin að koma og skoða skjáinn, hvað er þetta var spurt. 

Þarna sá ég torkennilegan hlut sem ég komst fljótlega að niðurstöðu með að hlyti að vera slípirokkur.  Ég var beðin um að opna töskuna til að færa sönnur á mál mitt, sem ég gerði.  Svo kom spurningin; hvernig dettur þér í hug að ferðast með svona hluti í handfarangri?  Svarið var einfalt; hún er svo rosalega dýr yfirvigtin.  Þeir litu hver á annan brosandi yfir þessum álfi og sögðu komdu þér með þennan spesial bagassje út í vél, enda voru þeir allir af "þetta reddast kynslóðinni" sem verkferillinn bannaði ekki að segja "við reddum því".

Ekki fékk ég neinar upplýsingar hjá Norwegian hvernig ég kæmist styttstu leið á Hótel, svar við þeirri spurningu var ekki ein af vinnureglunum, upplýsingar um það skildi ég fá á hæðinni fyrir neðan.  Þangað fór ég og tók númer og bevís á næsta Hótel sem var í 3. min göngufæri.  Þegar þangað kom horfði ég niður í gólfið þar til ég kom að gulu línunni og stoppaði, fór svo að líta eftir númera boxinu en sá það hvergi og datt helst í hug að nú væri ég lentur í sömu vandræðum og á lögreglustöðinni í Harstad í sumar.  Þar fann ég ekki númeraboxið og þar sem ég var eini maðurinn í afgreiðslunni, þar sem skýrt var tekið fram að allir yrðu að hafa númer sem bæru upp erindi, þá gat ég engan spurt nema manneskjuna í afgreiðslunni hvar ætti að taka númer.  Fyrirgefðu sagði hún en þú verður að hafa númer.  Ég hélt að sennilegast hefði norskan mín verð bjöguð svo ég endurtók spurninguna á ensku og fékk sama svar hátt og skýrt á lýtalausri ensku, með það fór ég.

En nú brá svo við að ungur maður sagði glaðlega; Hei get ég gert eitthvað fyrir þig?  Já ég þurfti gistingu, hafði nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að það væri kannski ekki rétt að bjóða manni sem kominn er á sextugsaldurinn að sofa á bekk í flugstöð, jafnvel þó það væri Gardemoen.  Ungi maðurinn bað um persónuskilríki og spurði svo hvort heimilsifangið væri "Skarhlí nummer seks", ég hristi hausinn svo rýndi hann í tölvuskjáin og þuldi upp óskiljanleg götuheit.  Mér datt eitt augnablik að segja honum að ég væri skráður til lögheimilis á Gamle Stangnesvei nummer to a, en ákvað að vera ekki að flækja málið því vegabréfið var íslenskt.  Svo koma ungi maðurinn mér virkilega á óvart eftir að hafa farið í gegnum ótrúlegan fjölda hemilsfanga á Íslandi sem ég kannaðist ekkert við.  Hann sagði "de er ok jeg fixe de so du kan gå og sove".  Þegar ég var kominn upp á 6. hæð á Park Inn Gardemoen sá ég yfir flugvöllinn og þotu Norwegina taka sig til flugs í norður, leit á klukkuna jú það stemmdi þetta var flugið mitt.

Eftir að hafa legið andvaka heila nótt á þessu fína Hóteli og hugsað um það hvernig stæði á því að ég gæti ekki sofnað komst ég að þeirri niðurstöðu að til þess hafði ég steingleymt að taka númer.  Morguninn eftir fór ég tímanlega með minn spesial bagassje og tékkaði mig inn í miðamaskínunni fór með töskuna á farangursbandið og fékk að vita að hana setti ég ekki þar þetta væri spesial bagassje og hann ætti að afhenda í hinum endanum.  Þegar ég kom svo til Evenes í Troms fylgdist ég með öllum spesial bagassje koma inn. Þar komu afbrygðilegir bögglar, hundar og kettir en ekki taskan mín, hún kom bara með hinum töskunum.  Það var ekkert spesial við hana lengur frekar en þegar hún hóf ferðalagið í Keflavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband