Endalok 2012.

Á morgun er 21.12.2012 dagsetningin sem sögð er vera endalok á tímatali Maya indíána.  Sumir hafa viljað túlka tímatal Mayanna sem heimsendaspá og hefur Hollywood gert sér mat úr því sem hefur dregið athygli frá atburðum líðandi stundar að væntanlegum heimsendi.  Því hafa mörg stórmerki ekki náð eftirtekt af því að það eru væntingar um mun stærri atburði, eða þá að geta sagt; "sagði ég ekki þetta er allt saman vitleysa".  

Svo eru til þeir sem hafa verið að benda á að árið 2012 sé árið sem heimurinn eins og við þekkum hann endi.  Hugsun fólks komist á það stig að hin sameiginlega vitund verði önnur, kærleikurinn taki við af ótta og efnishyggju. Það er nokkuð ljóst að þó 21.12.2012 verði ekki sú dagsetning sem Hollywood hefur teiknað upp í hugum fólks þá hefur árið 2012 og árin fjögur þar á undan gert fjölmörgum ljóst að peningakerfið sem efnishyggja óttans byggir á er komið að fótum fram. Neytandinn sem á að trekkja áfram hagvöxtinn er farin að hugsa meira um kærleikann en óttann við að eiga ekki fyrir nógu af dóti.

Hvað sem þessi dagsetning ber í skauti sér þegar þar að kemur þá er ég sannfærður um að spádómar henni tengdri séu nú þegar fram komnir.  Breytingin á hugarfari fólks sé komin á það stig að heimurinn eins og hann var sé á enda.  Það er ekki lengra síðan en um miðja síðustu öld að hægt var af eigendum fjármagnsins að siga fólki í sjálfboðavinnu til manndrápa í nafni ættjarðarinnar, í dag fer varla nokkur sála út á vígvöllinn nema þá gegn borgun.  Þó svo að fólk sé enn að klekkja á náunganum á launskrá hagvaxtarins er hin sameiginlega vitund komin á það stig að það dettur fæstum í hug að sýna þannig hegðun heima hjá sér eða í nafni þess sem er kærast, aðeins í vinnunni.

Það eru orðin rúm fjögur ár síðan ég opnaði þessa bloggsíðu og sá mig til knúinn að láta ljós mitt skína.  Á þessum fjórum árum hafa borist ótal púsl í gegnum athugasemdir í hina stóru mynd. Eins hefur það sem ég hef látið frá mér fara á þessari síðu orðið til þess að beina athyglinni á staði sem sem er óvíst að ég hefði gert annars.  

Undanfarið hefur það brotist um á milli eyrnanna að nú sé rétt að láta staðar numið með að upplýsa þessar opinberanir. Hvort það eiga eftir að birtast blogg á þessari síðu á komandi ári verður bara að koma í ljós, en þá verða þau ekki með sömu reglu og verið hefur.

Um leið og þakkað er fyrir innsend púsl í mína mynd vil ég óska lesendum þessarar síðu gleði og kærleika í tilefni hátíðar ljóssins með von um að þeir láti ljós sitt skína. Eins vil ég gera kveðjuorðin að mínum sem mikið voru notuð gömlu gufunni í denn; "ég vil þakka þeim sem hlýddu, góðar stundir".

ps. að gefnu tilefni vil ég taka það alveg sérstaklega fram að ég hef aldrei kynnst fábjána persónulega, aðeins þeim sem haga sér þannig  gegn borgun, rétt eins og á stundum við um mig sjálfan. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir öll bloggin Magnús þau hafa verið alveg einstök. og eg mun sakna þeirra

Sólrún (IP-tala skráð) 20.12.2012 kl. 23:34

2 identicon

bloggin hja þer eru búin að vera fræðandi og skemmtileg eg mun líka sakna þeirra. hafðu það gott yfir jólin i faðmi fjölskyldurnar vinur minn

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 21.12.2012 kl. 03:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband