3.8.2013 | 19:42
Camping með sól, skútu og fýr úr flís
Nú er langt liðið á þriðja sumarið hérna 69°N, en hingað kom ég í maí 2011 þjakaður af atvinnuleysi og verðbættum stefnuvottum, með þær hugmyndir að hugsanlega yrði veran hér sem sumarfrí sem gæfi þar að auki smá salt í grautinn. En upphaflega réði ég mig í þrjá mánuði til reynslu hjá norsku múrarafyrirtæki. Bankinn var fljótur að skrifa mér rándýrt bréf eftir að það kom í ljós að ég hefði tekjur, ykkur að segja þá kostar staðlað bréf frá innheimtudeild banka um 300 þúsund og þar á bæ er nóg af lögfræðingum tilbúin að fjölfalda svoleiðis póst gegn þóknun.
En núna að áliðnum sólríkum sumarfríum var ekki meiningin að fara að básúna leiðindi á öldum alheimsnetsins, heldur hvernig útilega getur orðið til þess að sumri er varið við leik á tjaldstæði þó ekki sé það beinlínis sumarfrí. Í fyrra sumar var það tjaldstæðið í Finnsnesi, en þar dvöldum við vinnufélagarnir frá Afganistan og Súdan við að múra og pússa veggi í hvæsandi málmbræðslu. Sem betur fer dvaldi Matthildur mín með okkur bróðurpartinn úr sumrinu við sefandi prjónaglamur. Undraveröld eyjunnar Senja var svo hinumegin við Finnsnessundið, þannig að einn og einn eftirmiðdagur fór í sólríka bíltúra um spegilslétta firði Senja.
Sumrinu núna var svo eftir vinnu að stórum hluta eytt á tjaldstæðinu í Harstad. Þar var reyndar meiningin að dvelja síðasta sumar en vegna Finnsnesferðarinnar datt það upp fyrir. Tjaldstæðið í Harstad stendur við Kanebogen sem er mikil náttúruperla inn í miðjum bæ. Fjörurnar í Kanebogen voru þær fyrstu sem ég lallaði um eftir að ég skyndilega datt niður úr skýjunum í annan heim eftir að hafa flogið yfir himin og haf í öskugosinu mikla vorið 2011. Í einmanaeika mínum hafði ég ráfað út um útidyrnar einn sunnudagsmorguninn í austurátt til móts við sólarupprásina og viti menn allt í einu var ég staddur í kríuskýi.
Fjörurnar í Kanebogen, þar sem Harstad Camping er staðsett, urðu strax uppáhalds fjörurnar, þarna gat ég setið tímunum saman og fylgst með kríunum. Sennilega hafa eigendur Tjaldstæðisins, sem er í einkaeign og rekið af stórfjölskyldu, verið farnir að taka eftir gráa kallinum sem þvældist um fjörborðið fleytandi kerlingar inna um kríuskýið. Svo gerðist það veturinn eftir að óskað var eftir múrara til flísalagna í þjónustuhúsi tjaldstæðisins. Mette framkvæmdastýra Murbygg taldi rétt að senda mig þar sem þarna gæti ég stofnað til kunningsskapar við fólk sem vissi upp á hár ef íslendingar væru á flækingi um norðurhjarann.
Þegar verkinu var að ljúka í apríl 2012 vorum við Ívar einn af eigendum tjaldstæðisins orðnir vel málkunnugir. Hann spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að gera við sprungur á veggjum mótöku tjaldstæðisins, sagðist hafa fengið þá hugmynd að líma flísar yfir sprungurnar og það mættu þess vegna vera marglitir afgangar sem ég réði sjálfur hvernig raðað yrði saman. Þegar minnst var á liti fór eins og vanalega allt á flug í höfðinu á mér, að íslenskum hætti varð svarið "ok ekkert mál" frístundum sumarsins 2012 yrði ráðstafað á Harstad Camping.
Í lok ágúst í fyrra kom Ívar eina helgina sem ég var í fríi frá Finnsnesi og bankaði upp á í loftkastalanum mínum til að grennslast fyrir um það hvers vegna að ég hefði ekkert látið sjá mig allt heila sumarið. Ég sagði honum að ég hefði verið sendur norður í nes Finnanna en spurði svo hvernig stæði á því að það hefðu ekki verið neinar kríur í skerinu þetta sumarið. Ívar sagðist hafa veitt þessu athygli en myndi ekki eftir að þetta hefði gerst áður. Spurði svo hvort ég væri til í að fara í sprunguviðgerðina næsta sumar. Hann fékk staðlað svar "ekkert mál".
Núna í júní kom einn vinnufélaginn með skilaboð frá Ívari hvort ég væri ekki til í að svara símanum, hann væri búin að reyna að ná í mig dögum saman. En þannig er að ég svara ekki norskum númerum sem ég þekki ekki eftir að ég svaraði óvart skoðanakönnun sem ég nennti ekki að taka þátt í. Tveimur dögum seinna var bréf í póstkassanum sem tilgreindi að það varðaði við kóngsins lög frá 1989 að svara ekki skoðanakönnuninni. Þegar ég spurði norska vinnufélaga út í þetta urðu þeir forviða og spurðu hvort ég svaraði virkilega símhringingum úr ókunnugum númerum, þetta gæti varðað háum fjársektum.
En eftir að ég vissi símanúmeri hjá Ívari svaraði ég honum og við mæltum okkur mót á tjaldstæðinu. Hann byrjaði á því að tilkynna mér að krían hefði komið þetta vorið, sem ég reyndar var búin að komast að, hann hafði drepið tvo minka í skerinu í vetur og fundið þar að auki einn sem otur hefði drepið. En hann taldi að oturinn gerði kríunni ekkert mein. Þannig að nú væri ekkert að vanbúnaði með að láta hendur standa fram úr ermum.
Fljótlega eftir að ég byrjaði flísalögnina yfir sprungurnar missti ég mig í mósaík og smá veggur varð að ótal flísa verki út og suður. Svo komst ég fljótlega að því að ég tímdi þar að auki ekki að klára verkið því þarna hafði ég afsökun fyrir því að hanga tímunum saman innan um kríur og túrista.
Tjaldstæðið í Harstad er friðsæl ævintýra veröld þar sem hægt er að leigja kajaka, fiskibáta eða bara að dorga fram af kæjanum. Þarna komst ég að því að það eru fleiri en ég sem líkar að hanga á Harstad Camping, því fólk kom til að spjalla með það að yfirskini að það væri búið að fatta hvaða mynd ætti að vera á veggnum. Margir koma um langan veg til að dvelja þarna sumar eftir sumar. Það voru samt ekki allir sem áttuðu sig á því að þarna væri ekki verið að gera mynd af því sem fyrir augu bar úti á Vogsfirðinum heldur væri um að ræða sprunguviðgerðir eftir norskum staðli.
Eins fékk ég við sprunginn vegginn tilsögn í Nostradamusi, fræðslu um lækningamátt kvarssteina, hvernig olían hefur eyðilagt norskt samfélag og margar fleiri áhugaverðar upplýsingar. Útsýnið frá veggnum er stórfenglegt, yfir tjaldstæðið, eyjar og sker merlandi Vogsfjarðarins. Það ætti ekki að fara fram hjá neinum sem sér þetta kennslu myndband um norska sprunguviðgerð að svona eiga sumarfrí að vera.
Meginflokkur: kreppan | Aukaflokkur: Hús og híbýli | Breytt 27.2.2019 kl. 19:54 | Facebook
Athugasemdir
Virkilega flott, bæði myndbandið, textinn og veggurinn. Hafðu það sem allra best, liggur við að ég öfundi þig
Ólafía Herborg (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 22:40
Þú ert snillingur Magnús. lífskúnstner, beintengdur við almættið
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 02:32
Algjör snilld þetta kallar maður sko listaverk
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 05:27
Þakka gullhamrana gott fólk. Náttúra norðurhajarns er einstök, lífsreynsla sem ég vildi ekki hafa misst af þó tilefnið komi ekki til af góðu.
Magnús Sigurðsson, 4.8.2013 kl. 07:12
Ja hérna Magnús :) Ja hérna....
Sólrún (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.