17.8.2013 | 05:06
Bátur bíður
Í dag verður Unnur Jónsdóttir í Naust til grafar borin frá Djúpavogskirkju. Hún kvaddi þetta jarðlíf þriðjudaginn 6. ágúst eftir stutta dvöl á líknardeild fjórðungssjúkhússins í Neskaupstað enda erfitt fyrir sjálfstæða manneskju sem Unni að vera upp á aðra komin.
Allt frá því hið hörmulega slysi varð við höfnina í Innri Gleðivík á Djúpavogi í október 2011, þar sem Ægir lét lífið, sást að Unnur gekk ekki heil til skógar. Enda vandséð hvernig Unnur gæti verið án Ægis svo samrýmd voru þau mæðgin. Unnur var félagi Ægis í öllu, tónlist æskufélaganna, jafnt sem hans kæru konu og barnanna þeirra, þannig fylgdust þau að í gegnum tíðina.
Fyrir rétt rúmu ári síðan greindist Unnur svo með hið illvíga mein sem hún barðist við frá þeirri stundu. Þegar fólk hittist sjaldan eins og átti við okkur Unni núna síðari ár, þá var það auðsjáanlegt hversu mikið af henni dró. En í þeim strjálu fríum sem ég hef átt á Íslandi þá hitti ég Unni s.s í hvert sinn. Eitt sinn heyrði ég í henni í síma og spurði hvort hún væri ekki til í að skoða N Noreg, koma í heimsókn með Matthildi systur sinni. Unnur kannaðist við N Noreg eins og hann lagði sig, þó svo að hún kæmi ekki þá ráðlagði hún okkur Matthildi heilt með hvaða staðir væru áhugaverðastir. Suma staðina sem hún hafði séð hér í nágreninu hef ég ekki enn þá haft mig í að skoða eins og t.d. hinn magnaða Trollfjord sem ekki er hægt að komast í nema af hafi eða þá af fótgangandi yfir fjallveg.
Núna í vor hittumst við Unnur þegar við Matthildur mín heimsóttum hana í Naust. Það leyndi sér ekki að baráttan var hörð og ferðirnar til Reykjavíkur höfðu tekið sinn toll. Enn ein ferðin var framundan. Þrátt fyrir það að mikið mæddi á þá gaf hún sér góða stund við eldhúsborðið. Þar sagði Unnur okkur frá siglingu sem hefði verið ógleymanlega falleg sjón, en þar kom við sögu bátur bernskustöðvanna í Núpshjálegu þar sem hann lét úr vör tunglskinsbjarta nótt með merlandi haf og Papeyna fyrir stefni. Það var svo skrítið að þetta stóð mér skýrt fyrir sjónum þegar hún lýsti þessu, eins og ég hefði séð þetta sjálfur.
Við Unnur sammældumst um að ég myndi reyna að koma þessari tunglskins siglingu í mynd. Þarna sátum við svo með blað og blýant og teiknuðum upp voginn í Núpshjálegu, Papeyna og bátinn Þór, sem Jón og Snjófríður fluttu börn og bú á yfir Berufjörðinn árið 1961 í Sólhól á Djúpavogi.
Það er skemmst frá því að segja að ég er fyrir löngu búin að mála bátinn í tunglskininu en beið með að senda Unni myndina vegna þess að ég ætlaði að færa henni hana sjálfur þegar ég kæmi heim í haust. En nú er það of seint Unnur verður ekki í Nausti og Djúpivogur aldrei samur að Unni og Ægi gengnum. Samt er tilhlökkun að koma á Djúpavog næst til að hitta þar þau Emilio Sæ, Hafrúnu Alexiu og Claudiu. En þeim, ásamt Sólhólssystkinum, sem misst hafa svo óendanlega mikið á svo stuttum tíma vil ég í dag með fátæklegri kveðju votta mínu dýpstu samúð yfir hafið og heim.
Hvíl í friði kæra mágkona.
Athugasemdir
Elsku Magnús hvað þetta var fallegt hjá þér, látlaust og án nokkurs málskrúðs. Mig langaði sannarlega til að segja einhver orð um Unni en... þau réttu komu bara ekki. Hún var eina manneskjan hér á Djúpavogi sem ég get kallað vinkonu mína og sem alltaf átti ráð við hverjum vanda, og var eins og klettur. Sem betur fer áttum við margar góðar stundir saman þetta síðasta ár og mörg góð símtöl (oft mjög löng!) Æðruleysið og kjarkurinn virtist óbilandi hjá henni. Eg á erfitt með að sætta mig við að hún sé horfin, en trúi því fastlega að þau mæðgin séu nú saman í sumarlandinu. Þeirra skarð verður ekki fyllt, en minningin lifir.
hrönn jónsdóttir (IP-tala skráð) 20.8.2013 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.