Skýjaborgir í skuldafjötrum.

Dome home 

Hús hafa leitað á hugann að undanförnu eins og sjá mátti á þessari síðu um svepp og sjálfstætt fólk. Kannski ekki alveg að ástæðulausu því auk þess að hver manneskja þurfi þak yfir höfuðið þá hefur síðuhöfundur haft atvinnu af áhugmálinu allt frá barnæsku þ.e.a.s. kofabyggginum. Það hafa orðið á undanförnum árum gríðarlegar afturfarir í húsbyggingum þó svo að þær séu skreyttar með orðunum þróun og framfarir. 

Það er svo komið að sá sem ætlar að byggja sér þak yfir höfuðið fær nánast engu um það ráðið nema þá kannski hvar hann hengir upp fjölskyldumyndirnar.  Flest annað hefur verið njörvað niður í reglugerðum réttarríkisins til að gæta öryggis þegnanna þannig að engin fari sér að voða né valdi öðrum tjóni. Þegar aðrir eru svo hugulsamir að skipuleggja svona nokkuð fyrir náungan þá kostar það náttúrulélega sitt þannig að skuldir hafa margfaldast á örstuttum tíma. Fólki er ætluð ævin til að greiða þakið yfir höfuðið.

Leiguverð hefur samfara þessu farið úr öllum böndum án þess að sá sem leigir sitt húsnæði komist nálægt því að hafa upp í lántökukostnaðinn sem húsnæðinu fylgir. Greint var frá því í íslenskum fjölmiðlum á dögunum að ungt fólk byggi alsælt í 20 feta gámum í London fyrir aðeins 60 þúsund á mánuði. Gámur sem er 20 fet er ca. 15 fermetrar og helsta ástæða þess að hægt var að bjóða upp á svona hagstæða leigu var að gámarnir voru fluttir frá Kína.

Tuborg
Tuborg okkar Matthildar á Djúpavogi byggð úr vikursteini frá Mývatni 1985-1987. 
 
Það er af sem áður var þegar það þurfti malarhaug og sement til að byggja hús. Að vísu var farin dýrari leiðina þegar við hjónin byggðum íbúðarhús fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan, kostað var til að nota aðflutta vikursteina. Húsið var teiknað með aðstoð kennara míns úr iðnskóla. Þetta var hægt á þeim tíma m.a. vegna þess að þá máttu byggingameistarar í undatekningatilfellum teikna sín hús sjálfir.
 
Flatasel
 
Við Flatarsel á Egilsstöðum byggðum við kollegarnir í múrarastétt þrjú tæplega 200 fermetra hús á árunum 2006-2007. 
 
Tuttugu árum seinna var sami vikursteina leikurinn endurtekinn en þá var kostnaðurinn orðinn talsvert meiri en á Djúpavogi í denn. Auk hærri hönnunarkostnaðar hafði bæst við allskyns kostnaður m.a. hvernig hita í gólfum skildi vera háttað. En þar vilja verkfræðingar meina að hitinn leiti niður þvert á náttúrulögmálið. Sem dæmi þá þurfti á milli hæða í sömu íbúð að koma fyrir magnaðri einangrun í gólfplötu með tilheyrandi aukamagni á steypu, járnbendingu og ómældri vinnu. Þetta er samt ekkert miðað við það sem er uppi í dag samkvæmt samræmdi reglugerð ESB sem ætlar að það þurfi 25 cm einangrun í gólfplötur þar sem 5 cm þóttu nánast bruðl áður fyrr, allt til að koma í veg fyrir að það hitni í neðra.
 
Hús að svipaðri stærðargráðu og við félagarnir byggðum úr íslensku hráefni á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum og kostuðu um 27 milljónir fullbúin samsvarar svona ca. 40 ára leigu í 20 feta gám frá Kína.  Hér í Noregi kostar reyndar svipað hús nú yfir 100 milljónir en þá er líka búið að einangra hálfa lóðina svo ekki frjósi undir ruslatunnunni. 
 
Hérna á síðunni hef ég hugsað mér að birta á næstunni nokkur blogg tengd skýjaborgum og draumahöllum. Fara þar ekki út í nýjustu "framfarir" heldur lengra aftur í tímann og minnast þess hvernig þau hús sem eru heimafengin hafa verið gerð ólögleg á altari hagvaxtarins.
 
Þó svo að við félagarnir á Djúpavogi höfum ekki beinlínis verið að byggja torbæi á síðustu áratugum 20. aldarinnar þá var það að því leitinu áþekkt að við notuðumst mikið við heimafengið hráefni í sinni tærust mynd. En við vorum orðnir lokaðir inniá verndarsvæði eins og síðustu Móhíkanarnir, öfugt við það þar sem starfsleyfi steypustöðva í boði vinnu-, heilbrigðis og nefndu það eftirlits gerðu afdalmennsku óhætt um vik.
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband