18.1.2014 | 20:37
Í gegnum nóttina.
Hún farin að láta á sér kræla blessuð sólin hérna á 69°N og ekki laust við að hún ylji hjartaræturnar. Um síðustu helgi hafði hún það af að kíkja upp fyrir hafsbrún og núna er hún farin að skoppa á milli tindana sem eru reyndar ekki nema eins og smá peð í fjarlægð suður við Tjeldsundið séð héðan frá Harstad. Þó svo að hin eiginlega Mörketid þegar sólin kemur ekki einu sinni uppúr hafinu á 69°N vari einungis frá 30. Nóvember til 10. Janúar þá er norðurhjara nóttin búin að vera óvenju löng í þetta skiptið.
Um miðjan október kom snjórinn með dimma éljatíð. Eftir að Matthildur mín yfirgaf 69. gráðuna 20. nóvember hefur verið myrkur þar til núna í vikunni sem leið. Það fór ekki hjá því að það rökkvaði í sálinni við hvarf sólarinnar og hennar Matthildar minnar. Þó svo að ég færi í stutt jólafrí til Íslands varð rökkrið svo drungalegt að maður á sextugs aldri sá sér ekki annað fært en að segja upp föstu starfi í sæluríki olíugróðans. Reyndar blundaði það meira en í hjartanu að fara til baka á landið bláa þegar tækifæri gæfist. En hingað á norðurhjarann hrökklaðist ég eins og útlagi á söguöld nema það var ekki vegna dramatískra hetjudáða heldur skuldar við gjaldþrota banka sem tilkomin var vegna persónulegrar ábyrgðar á byggingafyrirtæki.
Eins og kannski einhverjir muna þá drógu bankarnir margt niður með sér í óhappinu um árið. Eftir að hafa leitað ásjár hjá bankanum með nýju kennitöluna um að hann afskrifaði þó ekki væri nema hluta af dráttar vöxtunum fékk ég hið margfræga 110% tilboð. Eftir að hafa farið leiftursnöggt yfir það í huganum fannst mér það að skrifa upp á 110% verðtryggða skuld á blokkaríbúð jafngilda því að hjálpa innbrotsþjófi að bera allar eigur út og láta hann hafa undirritaðan óútfylltan tékka í kveðjuskini vegna þess að hann bjóst við að hafa meira upp úr krafsinu. Spurði því blessaðan bankastjórann í einfeldni minni hvort hann héldi að ég væri fábjáni. Eftir það spursmál var ekki meira spaugað og ekki um annað að ræða en að halda í útlegð sem nú er farin að nálgast þrjú ár.
Nú sér semsagt fyrir endann á svartnættinu, farið að hilla í landið blá handan við hafið, bara eftir að þreyja Þorrann, umsamin starfslok verða í byrjun Góu. Þegar ég las kveðju Dagbjartar systur minnar um jólin rann upp fyrir mér uppskera þessa fjörbaugsgarðs; þú ert ekki ríkur fyrr en þú átt eitthvað sem þú getur ekki keypt fyrir peninga".
Þegar ég réði mig til norður norsk fyrirtækis á sínum tíma hélt ég að ég væri að fara til að bjástra í steypu með norðmönnum, en félagarnir í vinnunni hafa auk þeirra verið frá Súdan, Afganistan, Burma og Pólandi, nábúarnir á neðri hæðinni frá Pakistan. Það hefur verið ævintýri að fá tækifæri til að kynnast þessu heiðurs fólki. Eins er ég orðinn þaulvanur fjörulalli því í fjörurnar hef ég vanið komur mínar þessi ár til að eiga samræður við fuglana ef það hefði verið nokkur leið til þess að þeir gætu léð mér vængi sem notast hefði mátt við að komast yfir hafið og heim. Sjálfsagt á ég eftir að sakna fjörunnar, fuglanna og fólksins þegar fram líða stundir enda hef ég verið staddur í perlu. En ég veit að allt þetta bíður mín handan við hafið og meira til, því þar kem ég til með að finna hana Matthildi mína í búsældarlegri fjöru.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.