Úlfar og arfleið.


Benjamín Bokarkapur

„Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa".  „Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar".

Þetta má lesa í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937. Þarna er verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Annars vegar til Göngu Hrólfs forföður Normandí Normanna sem unnu orrustuna um Bretland við Hastings árið 1066 og enska konungsættin er rakin til, hins vegar til landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit. Adam Rutherford vildi meina að þessir bræður og allflestir landnámsmenn Íslands hefðu ekki verið dæmigerðrar norskrar ættar heldur hefði þeirra ættbálkur verið aðfluttur í Noregi. Að stofni til verið ein af 12 ættkvíslum Ísraels, hvísl Benjamíns.

Í ljósi þessa uppruna væru Íslendingar, vegna einangrunar í gegnum aldirnar, ekki Norskastir Norðmanna eins og ætla mætti af Landnámu, heldur hreinasta afbrigðið sem fyrir finnist á jörðinni af ætthvísl Benjamíns. Þessu til stuðnings benti hann m.a. á að ýmsir sagnaritarar telji að þegar Normannar réðust inn í England árið 1066, þá hafi úlfur verið í skjaldarmerki Vilhjálms bastarðar. Úlfur var merki Benjamíns og algengt í mannanöfnum þeirrar ættkvíslar. Rutherford vill meina að nafngift sem ber úlfsnafnið í sér hafi verið algeng hjá landnámsfólki Íslands, s.s. Ingólfur sem sagður er fyrsti landnámsmaðurinn, Kveldúlfur, Þórólfur, Herjólfur, Brynjólfur, Hrólfur, Snjólfur osfv., enda megi úlfs örnefni víða finna á Íslandi þó svo aldrei hafi þar verið úlfar.

Vissuna um uppruna Íslendinga taldi Adam Rutherford sig hafa úr píramídanum mikla í Gíza, en hann var einn þeirra sem var þar við fornleifauppgröft og rannsóknir árið 1925, þegar áður ófundinn veggur kom í ljós sem talinn er hafa að geima skýringar hinna ímsu spádóma sögunnar þ.m.t. spádóm um fæðingu frelsarans, sem og um eyjarnar í vestri með eldlandinu sem má finna í enskri þýðingu Biblíunnar í spádómum Jesaja.

Með útreikningum komst hann auk þess að því Ísland er í geisla norðvestur hliðar píramídans, liggur þar í honum miðjum ásamt Suðureyjum Skotlands. Ísland á samkvæmt spádómnum að komast í brennidepil mankynsögunnar með því að vera á ásnum þar sem geislinn er breiðastur, „verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Langt mál er að fara í gegnum þessa útreikninga Rutherford og það sem hann uppgötvaði um Ísland í Gíza píramídanum enda gaf hann út bókina "Hin mikla arfleið Íslands" um þessar rannsóknir sínar auk margra annarra rita.

Benjamín 1 

En hverjir voru Benjamínítar? Samkvæmt hinni helgu bók var Benjamín yngsti sonur Ísraels (Jakobs sonar Ísaks  Abrahamssonar) sem bar beinin í Egyptalandi. Ætthvísl Benjamíns var sú minnsta af Ísrael. Í Dómarabókinni 19-21 segir frá refsidómi Benjamíns ættkvíslarinnar sem kveðinn var upp á þeim tíma þegar allar ættkvíslar Ísraels bjuggu í fyrirheitna landinu. Benjamín skildi eytt úr Ísrael vegna níðingsverksins í Gíbeu, mönnum, konum og börnum.

Ísraelsmenn hófu útrýminguna og sáu ekki að sér fyrr en þeir höfðu eitt svo til öllum kynstofni Benjamíns. En þá tók þá að iðrast og sögðu „Nú er ein ætthvísl upphöggvin úr Ísrael! Hvernig eigum við að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar að vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum". Það urðu því örlög Benjamíns að fara með vopnum á aðrar þjóðir og ræna sér kvonfangi. Síðar fékk Benjamín uppreisn æru í Ísraelsríki og var Sál fyrsti konungur Ísrael af ætt Benjamíns, Davíð konungur sem á eftir kom gerði Jerúsalem að höfuðborg, sonur hans Salómon lét reisa musterið þar sem hin mikla viska á að hafa verið geymd.

Þegar Ísraelsmenn voru herleiddir af Assýríumönnum voru það aðeins tvær ættkvíslar sem snéru aftur til fyrirheitna landsins, Juda og Benjamín. Benjamín hafði áður búið í Jerúsalem en þegar aftur var snúið varð Galílea heimkynni Benjamíns, Jerúsalem tilheyrði þá Juda. Lærisveinar Jesú eru allir taldir hafa verið af ætthvísl Benjamíns, nema Júdas sem var af ætt Juda líkt og Jesú.  Um það bil 100 árum eftir Krist, í kjölfar ofsókna Rómverja, flyst ættkvísl Benjamíns til Litlu Asíu og dreifist þaðan til annarra landi m.a. til Svartahafslanda. Talið er að þeir hafi svo aftur lent á flakk á tímum Atla Húnakonungs skömmu fyrir fall Rómarveldis u.þ.b. árið 400.

 

Fleiri hafa fetað svipaðar slóðir og Rutherford varðandi uppruna þeirra Norðmanna sem námu Ísland. Þar má nefna Barða Guðmundsson (1900-1957) sagnfræðing, þjóðskjalavörð og um tíma Alþingismann. Árið 1959 kom út ritgerðasafn hans um uppruna Íslendinga. Þar leiðir Barði líkum að því að Íslendingar séu ekki komnir út af dæmigerðum Norðmönnum heldur fólki sem var aðflutt, einkum á vesturströnd Noregs.

Þessu til stuðnings bendir hann á að útfararsiðir íslendinga hafi verið allt aðrir en tíðkuðust á meðal norrænna manna. Samkvæmt fornleifarannsóknum á norðurlöndunum hafi bálfarargrafir verið algengastar, á Íslandi finnist engin bálfarargröf frá þessum tíma né sé um þann útfararsið getið í íslenskum bókmenntum. Því sé ljóst af þessum mikla mun á útfararsiðum Norðmanna og Íslendinga í heiðni að meginþorri þeirra sem fluttu til Íslands frá Noregi hafi þar verið af ættum aðkomumanna.

Barði bendir einnig á baráttuna sem var gegn Óðni í Noregi, guði seiðs og skáldskapar. Hann telur hamremmi, Óðinsdýrkun og skáldskap hafa haldist í hendur, sbr. Egils-sögu Skallagrímssonar. Seiðmennska var í litlu uppáhaldi hjá Haraldi hárfagra og lét hann m.a. Eirík blóðöxi gera ferð til Upplanda þar sem hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn ásamt átta tugum seiðmanna.

Einnig vitnar Barði Guðmundsson í  Snorra Sturluson þar sem hann segir að Æsir hafi  komið til Norðurlanda frá Svartahafslöndum, undir forystu tólf hofgoða, er réðu „fyrir blótum og dómum manna á milli." Óðinn er þeirra æðstur. Þykir Barða einkum merkilegt, að Snorri skuli gera ráð fyrir norrænni sérmenningu, sem upptök eigi í hinum fjarlægu Svartahafslöndum við  Donósa, en njóti lítilla vinsælda sem aðflutt í Noregi.

Einn af þeim sem ekki hefur hikað við að umturna hefðbundnum kenningum sögunnar er Thor Hayerdhal. Hann hefur leitað uppruna Óðins á svipuðum slóðum og bent á að við Kasbíhaf, nánar tiltekið í Qobustan héraði í Azjerbaijan séu hellar sem hafi að geima myndir greyptar í stein af bátum sem minni á víkingaskip. Einnig taldi hann að nafngiftina Æsir á guðum norrænnar goðafræði mætti rekja til lands sem bæri það í nafninu s.s. Azer í Azerbaijan.

Við þetta má bæta að rúnaletur var notað á norðurlöndum árhundruðum eftir að latnesk letur náði yfirhöndinni í hinu evrópska Rómarveldi.  Rúnir hafa, af ýmsum fræðimönnum, löngum verið kenndar við þær launhelgar sem stundaðar hafa verið við að varðveita viskuna úr musteri Salómons sem ættuð var úr Egypsku píramídunum. Að öllu þessu athuguðu þá er alls ekki svo ólíklegt að fótur sé fyrir kenningum um að uppruni Íslendinga eigi sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist mega ætla.

Það er í íslenskum bókmenntum sem heimildir um goðafræðina varðveitast og má því segja að fornbókmenntirnar séu hin mikla arfleið. En eins líklegt er að sá spádómur sem Adam Rutherford telur sig hafa fundið í píramídanum Gíza og viðrar í bókinni „Hin mikla arfleið Íslands", þar sem hann gerir ráð fyrir því að landið muni „verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar" hafi komið fram fyrir þúsund árum þegar landnámsmenn opinberuðu siglingaleið á milli Evrópu og Ameríku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband