22.2.2016 | 18:01
Tíðarandinn er hótel
Þessa dagana stendur yfir stækkun Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði. Verið er að auka herbergjafjöldann úr 26 í 47, sem verða í sjálfstæðri byggingu við hliðina á aðalbyggingunni. Aðalbyggingin er gamli Franski spítalinn, sem byggður var af samtökunum Société des hôpitaux français d'Islande árið 1903, fyrir franska sjómenn sem sóttu Íslandsmið. En þessi samtök létu einnig byggja spítala í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Árið 1939 var húsið flutt að Hafnarnesi sem stendur við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Fyrir tæpum sjö árum var sögu Franka spítalans á Hafnarnesi gerð skil á þessar síðu, sem má sjá hér.
Húsið hefur nú verið reist alls þrisvar sinnum við Fáskrúðsfjörð því það var flutt aftur austur fyrir fjörðinn og fékk hlutverk vorið 2014 sem hótel, veitingastaður og safn. Minjavernd hf tók ákvörðun um að standa að endurbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði árið 2008. Haustið 2011 var hafist handa við að taka niður húsið þar sem það stóð úti á Hafnarnesi, mér er það sérstaklega minnisstætt vegna þess að ég sá hve mikill sjónarsviptir var af því þegar það bar ekki lengur við Skrúðinn. Á árunum 2012, 13 og 14 fór svo endurbyggingin á Fáskrúðsfirði fram ásamt tveim öðrum húsum hinu megin við götuna, því Fosshótel Austfirðir er ekki eitt hús heldur þyrping gamalla húsa.
Við múrarnir höfum verið mikið á Fáskrúðsfirði í vetur og þar á meðal í nýbyggingunni við Franska við að múrhúða veggi, flota gólf og flísaleggja. Nýbyggingin er steinsteypt með nútímalegum hætti en allt útlit og frágangur er í stíl við gamla Franska s.s. bárujárnsklæðning á útveggjum, gamlir gluggar og betrekkslögð herbergi með plankaparketti sem gólfefni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég vinn í félagi við þá í Minjavernd, því á árunum upp úr 2000 vann ég með þeim í gamla Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu sem varð 101 Hótel, gamla Geysishúsinu á horni Aðalstrætis og Vesturgötu, og Gimli í Lækjarbrekku.
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 16.5.2016 kl. 06:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.