Átján konur og fólkið í Kjólsvík

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar I bindi eru "Sögur af æðstu völdum" þar sagt frá Kjólsvíkurfólkinu undir kaflanum "Refsidómar drottins". Sú frásögn er að miklu leiti tekin upp úr Desjamýrarannál sem séra Halldór Gíslason hafði ritað nokkrum ártugum eftir að þeir atburðir gerðust sem þjóðsaga Sigfúsar greinir frá, sakamáli sem upp komu í byrjun 18. aldar í afskektu vík sunnan undir fjallinu Glettingi. Kannski hefur þessi Þjóðsaga Sigfúsar svo orðið til þess í seinni tíð að farið var að grennslast fyrir um sannleiksgildi hennar af tiltækum heimildum. 

Núna í júlí fórum við hjónin í fyrsta skipti akandi um fjallveginn ofan við víkurnar suður af Borgarfirði eystri, leiðina í Loðmundarfjörð. Áður hafði ég flogið með Stefán Scheving félaga mínum yfir þetta svæði og séð hvað það er torfarið vegna endalausra fjalla og brattlendis. Þegar við flugum þarna með ströndinni seint í vetur rifjaðist upp frásögnin af örlögum fólksins í Kjólsvík, sem var það áhrifamikil að nafnið á víkinni hafði greipst mér í minni frá því ég las um Kjólsvíkurmálin fyrir næstum tveimur áratugum síðan. En víkina þekkti ég um leið og Stebbi sagði þarna er Glettingur.

Kjólsvík

Í Kjólsvík var eitt afskekktasta býli á Íslandi

Svo var það litlu eftir að við Matthildur fórum umrædda ferð um þetta svæði, þó svo að ekki ættum við kost á því að fara í Kjólsvík því þangað kemst enginn nema fótgangandi, að þessi afskekkta vík leitaði aftur á hugann og ég ákvað að lesa frásögnina um fólkið þaðan aftur og kanna bakgrunn hennar. Frásögnin sem ég las var ekki þjóðsagan heldur greindi hún frá því hvað kemur í ljós þegar allar tiltækar heimildir eru skoðaðar. Hún er í tímaritinu Glettingi og ætla ég að leyfa mér að birta hana óstytta hér á eftir.

Ein ástæðan fyrir því að sagan bankaði upp á aftur og aftur núna í júlí var nýlegur diskur Bubba Morthens sem heitir "18 konur" og var í spilaranum í bílnum um tíma. Þar tekur Bubbi upp hanskann fyrir konur í því órétti sem þær hafa verið beittar í gegnum tíðina og syngur um 18 konur sem drekkt var á Þingvöllum í krafti Stóradóms. En konunum sem drekkt var með þessu lagaboði voru mun fleiri þó svo að ekki hafi það alltaf verið gert með viðhöfn á Þingvöllum og ekki voru það síður fátækir karlar sem mátti gjalda fyrir þennan lagabókstaf. Lög stóradóms bitnuð fyrst og fremst á fátæku fólki og um það vitna málaferlin á hendur fólkinu í Kjólsvík.

Drekkingarhylur 

Með Stóradómi voru dauðarefsingar vegna hjúskaparbrota leiddar í lög á Alþingi árið 1564, þar sem karla átti að hálshöggva en drekkja konum, en fyrstu 300-400 árin frá landnámi, þ.e. þjóðveldistímann var ekkert framkvæmdarvald á Íslandi. Fram að þeim tíma höfðu dómar yfir sekum mönnum verið þrenns konar:

Í fyrsta lagi var hægt að dæma hinn seka til að greiða bætur eða fjársekt en þegar féð hafði verið greitt var maðurinn aftur óhultur fyrir þeim sem kröfu áttu á hann.

Næsta stig var kallað fjörbaugsgarður en það fól í sér að hinn seki var dæmdur til þriggja ára brottvísunar úr landi. Þá varð hann að fara úr landi áður en þrjú sumur voru liðin frá dómi og vera í burtu í þrjú ár. Að þremur árum liðnum gat hann komið heim og lifað sem frjáls væri.

Þriðja og þyngsta refsingin kallaðist skóggangur. Sá sem var dæmdur skógargangsmaður mátti ekki vera á Íslandi. Ef hann náðist á Íslandi var hverjum sem er leyfilegt að drepa hann. Sumir skógarmenn gátu verið frjálsir í útlöndum, aðrir voru réttdræpir þar líka. Grettir Ásmundarson hlaut 20 ára skóggangsdóm en var stóran hluta hans sem útlagi á Íslandi.

Það var því ekki fyrr en landið komst undir vald Noregskonunga að refsingar dómstóla ríkisins urðu til, og má segja að kaþólska kirkjan hafi leikið stórt hlutverk sem framkvæmdavald við að framfylgja þeim, allt fram að siðaskiptum. Eftir siðaskiptin var hert mjög á líkamlegum refsingum brotamanna á Íslandi. En stóridómur fjallaði um viðurlög í frændsemi- og sifjaspellsbrotum, hórdómi og frillulífi.

Við gildistöku stóradóms færðist dóms- og framkvæmdarvald í slíkum siðferðismálum frá kirkjunni til veraldlegra yfirvalda. Á 16. og 17. öld var ráðamönnum mikið í mun að refsa fyrir afbrot og syndir almennings, meðal annars til að koma í veg fyrir reiði Guðs sem talin var geta beinst að samfélaginu í heild og um leið orðið til að æsa það illa upp með brotunum. Fyrir utan hert viðurlög var það nýmæli að veraldlegir embættismenn konungs, það er sýslumenn, skyldu nú sjá um framkvæmd refsinganna og innheimtu sekta. Næstu aldir var eftirgrennslan í þessum málum eitt helsta verkefni þeirra allan ársins hring. Fyrir siðaskipti hafði kirkjan annast siðferðisbrot og sett sakamönnum refsingar, misharðar eftir alvöru máls. Dauðadómi bar að skjóta til alþingis.

Hálshöggvinn

Fyrsta konan sem drekkt var á Þingvöllum hét Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Hún var dæmd sek um að bera ljúgvitni um að hún væri ekki ófrísk og hafa svarið sig hreina mey. Þá neitaði hún að segja til föðurins en viðurkenndi að lokum að mágur hennar væri faðirinn, enda þótt það væri aldrei sannað. Játningar voru gjarnan kallaðar fram með pyntingartæki, einskonar fingraklemmu, eins og í tilfelli Þórdísar og oft var húðstrýkingu beitt í sama skyni. Var Þórdís dæmd til drekkingar fyrir áðurnefndar sakir, þrátt fyrir mótmæli bræðra hennar og annarra ættingja. Dómnum var ekki framfylgt fyrr en að tíu árum liðnum. Á sama alþingi voru Guðbjörg Jónsdóttir og Þórarinn Jónsson tekin af lífi eftir að hafa verið dæmd sek vegna ólögmætrar barneignar, bæði voru þau af Austurlandi. Guðbjörg bar að Þórarinn frændi hennar væri faðir að barni hennar en hann svarði af sér faðernið, Guðbjörgu var drekkt og Þórarinn hálshöggvinn.

En þá er komið Kjólsvíkur málum, sem um er skrifað í tímaritinu Glettingi af Magnúsi Helgasyni. Hann leitar heimilda í frásögn sína úr Manntölum, Desjamýrarannál, Alþingisbókum, Setbergsannál, Norskulögum og í Gísla Gunnarsson. Tímaritið Glettingur er ekki til í nettæku formi því ættu allir sem áhuga hafa á Austfirsku málefnum að útvega sér blaðið í áskrift, sjálfur hef ég verið áskrifandi frá upphafi útgáfu þess.

 kjolsvik_viknaslodir_bf 

Kjólsvík

Hinn 18. Júlí 1708 var Hallfríður Magnúsdóttir, vinnukona frá Kjólsvík, leidd að hinum svokallað Drekkingahyl á Þingvöllum. Þar fann hún sitt skapadægur í köldu vatninu – dæmd af alþingi fyrir hórdóm og tilraun til barnsútburðar. Með dauða Hallfríðar var lokið hinu svokallaða Kjólsvíkurmáli, sem hófst þremur árum áður og kostaði þrjár manneskjur lífið. Þær heimildir sem hér er stuðst við, eru alþingisbækur auk frásagna úr annálum.

Kjólsvík er lítil vík sunnan undir fjallinu Glettingi og gengur þar þröngur en grösugur dalur upp milli fjallanna. Neðan undir Glettingi stendur klettur, er Kjóll heitir, og dregur víkin nafn sitt af honum. Á þessum stað var byggt eitt býli frá fornu fari.

Árið 1705 bjuggu í Kjólsvík hjónin Sigmundur Vigfússon og kona hans, Helga Þorvarðardóttir. Sigmundur var þá 46 ára en Helga tíu árum eldri. Áttu þau þrjú börn á aldrinum 8-14 ára. Hjá þeim voru vinnuhjú Hallfríður Magnúsdóttir, 34 ára, og Ólafur Kolbeinsson, ári eldri. Tveimur árum áður höfðu þau Sigmundur og Helga búið á Glettinganesi, skammt norðan Kjólsvíkur, en þangað hafði Hallfríður komið til þeirra. Á þeim tíma var Ólafur vinnumaður í Húsavík.

Á umræddu ári, 1705, fór menn að renna í grun að ekki væri allt með felldu í Kjólsvík. Í Desjamýrarannál segir: Opinberaðist það ljóta mál í Borgarfirði austur, kallað Kjólsvíkurmál. Höfundur annálsins var séra Halldór Gíslason á Desjamýri (1718-1772). Þótt annállinn sé hugsanlega ekki mjög traust heimild fyrir atburðunum, enda ekki skrifaður fyrr en nokkrum áratugum eftir að málinu lauk, ber hann þó sterkt vitni viðhorfum 18. aldar manna til þess verknaðar sem framinn var.

Í annálnum segir: Á þessum mönnum (þ.e. Sigmundi og Ólafi) lá illt orð um það, að eigi mundu umgangast siðsamlega með téðri Hallfríði. Leyfðu margir sér frekt í því að tala, þó lágt fara ætti. Á þessu ári yfir féll óvenjuleg hríða- og bjargarleysistíð. Mæltu margir það mundi standa af illu athæfi í Kjólsvík. Varð það úr þessu, að við kirkju á Mýrarstað þann 9. sunnudag í trinitatis bundu hreppstjórar það fastmælum að fara í Kjólsvík til rannsóknar. En sem heitið var staðfest, gekk veður til batnaðar. Deginum eftir tókst þessi fyrr téða ferð. Fundu þeir fyrir Helgu á smalaferð og spurðu tíðinda, en hún lést engin kunna að segja. Þar eftir fundu þeir Hallfríði að sápuþvotti, hverja þeir tóku og rannsökuðu. Fannst þá mjólk í brjóstum hennar. Þeir spurðu hana, hvað hún hefði gjört af barni sínu, en hún sagðist hafa fengið það Ólafi Kolbeinssyni. Hann, aðspurður um sama efni, sagðist hafa gengið frá því út í Flugum (í Glettingi norðan Kjólsvíkur). Þeir báðu hann sýna sér barnið og sögðust skyldi festi á honum hafa, hvað honum nauðugt var, jafnvel þó þeir réðu meira. Gekk hann svo í Flugin og tók barnið út úr holu innan í tyrju. Síðan voru þau þrjú tekin og færð til sýslumanns.

Hér kemur fram glögg lýsing á atburðum, auk viðhorfs séra Halldórs sjálfs til þess sem gerðist. Hann telur að guðleg forsjón ráði örlögum þeirra Hallfríðar og Ólafs, sem birtist m.a. í veðráttunni, er gefi til kynna vanþóknun Guðs á mannanna verkum í Kjólsvík.

Samkvæmt lögum á þessum tíma máttu vinnuhjú ekki ganga í hjónaband nema þau ættu jarðnæði og fólk utan hjónabands ekki eignast afkvæmi. Var þetta trygging samfélagsins fyrir því, að þeir sem voru eignalausir eða börn þeirra, þyrftu ekki að segja sig til sveitar. Ef fólk átti ekki eigið bú, var skylda þess að verða hjú á heimili bónda þar sem það ætti grið. Vinnuhjú í þessu samfélagi lifðu því ófrjálsu einlífi. Ef þau brutu lög var þeim refsað, þar eð þau hefðu framið svokölluð hórdómsbrot, en við þriðja broti af því tagi var dauðarefsing.

Árið 1706 voru þau Ólafur, Hallfríður og Sigmundur færð til alþingis af sýslumanni Norður-Múlasýslu. Á leið þeirra til þings, sem hefur tekið marga daga frá þessum austustu nesjum landsins, hafa þau Ólafur og Hallfríður haft talsverðan tíma hvort fyrir annað og samskipti þeirra verið mjög náin. Sýslumanni hefur tæpast þótt ástæða til að koma í veg fyrir atlot þeirra, enda hugsanlega talið augljóst að þetta fylgdarfólk sitt væri dauðasekt. Á alþingi kom málið fyrir dóm og var Ólafur dæmdur til lífláts. Á sama þingi var hann hálshöggvinn.

Sigmundur bóndi og Hallfríður vinnukona voru hins vegar dæmd til húðlátsrefsingar fyrir eiðfall og barnsmorðsins meðvitund og samhylli. Í Setbergsannál segir svo um sama mál: Höggvin var maður úr Múlasýslu á alþingi fyrir leynilegan barnsútburð, en móður barnsins vægt um lífstraffið orsaka vegna. Henni refst á alþingi og giftum manni, er vitund hér hafði og hórdómsverknað með henni framið, einnin sá maður, sem höggvinn var og barnið átti, hver að fyrr hafði í hórdóm fallið, markaður fyrir þjófnað.

Ekki er ljóst hvers vegna Hallfríður var ekki líflátin á sama þingi og erfitt að túlka orðin orsaka vegna í þessu samhengi.

Fljótlega að aflokinni Þingvallaferð, þegar Hallfríður var aftur komin heim í sitt hérað, kom í ljós að hún var þunguð í annað sinn. Kenndi hún Ólafi þungann og sagði barnið hafa komið undir á leið þeirra til alþingis. Þetta barn fæddi hún 23. mars á Kóreksstöðum, sem þá var heimili lögréttumannsins, Ólafs Andréssonar. Af fæðingarstað barnsins má vera ljóst að mönnum hefur þótt nauðsynlegt að hafa gætur á Hallfríði, enda kom í ljós, að eftir að barnið var fætt, reyndi hún að leyna því undir klæðum sínum og hugðist bera það út. Komið var í veg fyrir það og lifði barnið.

Þegar hér var komið var Hallfríður orðin sek um þrjú hórdómsbrot, tvö með Ólafi og eitt með Sigmundi, og ásetning um að bera síðara barn sitt út. Mál hennar var tekið fyrir af Bessa Guðmundssyni, þáverandi sýslumanni, á Hjaltastaðamanntalsþingi árið 1707. Sýslumaður sendi alþingi bréf um þetta mál þá um sumarið. Í alþingisbókum segir ....sýnist áðurtéðum valdsmanni með dómsmönnum téð Hallfríður Magnúsdóttir nærri dauðadómsatkvæði standa og setja svo þetta mál til fyllilegrar ályktunar lögmanna og lögréttunnar á þessu Öxarárþingi. Ákváðu þingmenn nú að dæma ekki í þessu máli fyrr en árið síðar, þar sem Hallfríður var fjarverandi.

Málið var tekið fyrir á alþingi 11. júlí 1708, að viðstöddum sakborningi. Í dómsúrskurði segir m.a.: Hallfríður Magnúsdóttir, af sinni eigin meðkenning sannprófuð af þremur hórdómsbrotum, hefur forboðið sitt líf og á að drekkjast í vatni eftir hljóðan lögmálsins, sem almennilega kallast stóridómur, nema kóngur vilji meiri miskunn á gera, segir sama lögmál. En vér álítum hún hafi þá miskunnarvon forboðið með sinni óguðlegu meðferð á sínu síðasta nýfæddu fóstri... Metum því, að þessi vesöl Hallfríður sé þeim líkust, sem láta smábörn á eyðimerkur, þar sem ólíklegt er, að menn bráðlega komi þeim til bjargar, og lögmálið segir, að hafi sitt líf forboðið... .

Viku síðar, 18 júlí, var líflátsdómnum fullnægt. Í hinum norsku lögum, sem dæmt var eftir, er þannig komist að orði, í þýðingu Magnúsar Ketilssonar: Hittist nokkur eður verður nógsamlega yfirbevísaður, að hafa annaðhvort sitt eður annars barn útborið og eftirskilið á eyðimörk, hvar menn ekki eru, eður líklegt er að menn komi, þá skal hann látast sem manndrápari, og hafa fyrirgjört lífinu, jafnvel þó barnið fyrir Guðs forsjón kunni að finnast og halda lífi.

Árið 1703, rétt fyrir atburðina í Kjólsvík var vinnuhjúastéttin fremur fámenn, ef miðað er við 19. öldina. Telur Gísli Gunnarsson sagnfræðingur, sem skrifað hefur um þetta tímabil, að megin skýringin hafi verið sú að þá hafi sveitarómagar verið margir en slíkur fjöldi er skýrt dæmi um að margt vinnufært fólk gat ekki einu sinni fengið vist vegna harðæris. Á þessum tíma hefur vinnukona, sem fæddi barn utan hjónabands, því ekki átt margra kosta völ. Miklar líkur eru til að bæði hún og barnið hefðu endað sem sveitarómagar. Samfélagið viðurkenndi ekki óvelkomin börn. Hugsanlega hafi því samfélagsaðstæður að einhverju leyti ýtt undir fyrrgreindan verknað, sem framin var í Kjólsvík.

Á sama þingi, 1708, var dæmt í máli húsfreyjunnar í Kjólsvík, Helgu Þorvarðardóttir. Hún hafði verið sökuð um yfirhylmingu í fyrra barnsútburðarmálinu. Helga var dæmd í fésekt. Í dómnum yfir henni segir, að ef hún ekki geti greitt féð, líði hún á kroppinn eftir miskunnsamri linkindartempran valdsmannsins monsr. Bessa Guðmundssonar. Í dómsúrskurði í máli hennar var vísað til hinna norsku laga. Í þeim segir: Hvar misklíð og óeining tilfellur millum manna, skal sérhver sem viðstaddur er, vera skyldugur til að hindra og koma í veg fyrir ólukku og manndráp. En ef manndráp skeður, þá að hindra manndráparann að ei uppkomist. En komist hann burtu. Þá skulu þeir allir vera skyldugir að elta hann, og færa tilbaka innan átta daga í hið seinasta.

Það þótt því sannað að húsfreyjan í Kjólsvík hefði vitað meira um útburð barns þeirra Ólafs og Hallfríðar en hún hafði látið uppi.

Heimleið þeirra Kjólsvíkurhjóna Sigmundar og Helgu af alþingi árið 1708 hefur að öllum líkindum verið erfið. Frá því að Ólafur Kolbeinsson hafði fengið vist hjá þeim, um 1704, hafði líf þeirra tekið stakkaskiptum. Dauðinn hafði umlukið tilveru þeirra. Aftökur vinnuhjúa þeirra og vitnisburður um barnsútburð hefur eflaust orðið þeim þung hugraun. Að auki voru þau bæði dæmdar manneskjur. Heima í Kjólsvík biðu þeirra þrjú börn, sjálfsagt milli vonar og ótta, undir hlíðum Glettings.Höf. Magnús Helgason, Glettingur 2.tbl 7.árg 1997

Höfundur kemur inn á að vegna harðæris þessa tíma hafi vinnukona sem eignaðist barn átt fárra kosta völ. En eftir lestur þessarar greinar um Kjólsvíkurmálið vaknar spurningin hvort vinnufólk og efnalítið bændafólk áttu nokkurra ásættanlegra kosta völ, þegar stóridómur var annarsvegar, ef barn kom á annað borð "ólöglega" í heiminn. Að loknum lestri frásagnar Magnúsar Helgasonar í Glettingi verður vart komist hjá því að íhuga hvort þjóðsagan varðveitir ekki betur sannleikann en hin opinbera saga, enda getur sú síðarnefnda yfirleitt ekki alþýðufólks nema þegar það kemst í kast við lögin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ekki er alltaf hægt að vera stoltur af því að vera Íslenskur

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 3.8.2016 kl. 08:43

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er ekki svo langt síðan að dómstólar á Íslandi voru mun verri en við ímyndum okkur að þeir séu í Afganistan.

En athyglivert er þegar sagan er skoðuð hvað þjóðveldið var virðist hafa haft miklu manneskjulegri lög en þegar ríkið tók við og kirkjan virðist hafa framfylgt lögum ríkisins af minni grimmd en ríkið á meðan hún fór með framkvæmdina.

Magnús Sigurðsson, 4.8.2016 kl. 06:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband