Grasa-grautur

Grasagrautur

Í Landnámu er sagt frá Atla graut Þiðrandasyni sem nam austurströnd Lagarfljóts þ.e. frá Atlavík út undir Vallanes. Viðurnefnið grautur segir þjóðsagan að Atli hafi fengið vegna fjallagrasa sem hann sauð í graut eftir að hann hafði verið dæmdur skógarmaður, þ.e. 20 ára útlegð frá Íslandi, réttdræpur ella. Atli vildi ekki yfirgefa landnám sitt og leyndist í Hallormstaðaskógi og lifði á grösum og því sem bóndadóttirin á Hallormstað gaukaði að honum. Þjóðsögurnar greina víða frá því að íslenskir útilegumenn hafi lifað á fjallagösum. Það þarf reyndar ekki þjóðsögur til, því enn í dag eru margir sem tína fjallagrös sér til lífsnauðsynlegrar heilsubótar í seyðið eða grautinn.

Alla okkar búskapartíð höfum við Matthildur mín haft það fyrir sið að fara í berjamó, fyrst barnanna okkar vegna og núna í seinni tíð vegna barnsins í okkur sjálfum. Aðallega er tínt upp í sig og berin étin dag hvern á meðan berjatíminn er og getur hann staðið hátt í tvo mánuði. Ef vel viðrar fara því margir eftirmiðdagarnir út um þúfur ár hvert. Þau bláber sem ekki er torgað á berjatínslutímanum fara svo í frost og eru höfð út á hafragrautinn á morgnanna. Frosnu berin hafa enst stöku sinnum fram yfir áramót og er eftir það sárt saknað fram á næsta haust.

Því fórum við fyrir nokkru síðan að huga að fleiru sem hægt væri að hafa út úr því að fara út um þúfur sem mætti nota í grautinn. Fljótlega lá svarið ljóst fyrir og hafði legið fyrir fótum okkar alla tíð, en það voru fjallgrös. Fjallagrösin má auk þess tína allt árið og hafa þau núna síðustu árin gefið okkur ástæðu til að fara ýmsar fjallabaksleiðir þegar vel viðrar, því hvað er betra fyrir sálina en tína fjallgrös við svanasöng og sól í heiði. Nú er svo komið að þúfna gangurinn er orðinn að fíkn og móinn maulaður við morgunnverðarborðið svo til allt árið því byrgðir af frosnum bláberjum endast núorðið nánast allan veturinn og fjallagrösin má nálgast um leið og snjóa leysir.

IMG_0267

Morgunngrauturinn hefur því þróast í tímans rás úr því að vera venjulegur hafragrautur með smá múslí og rúsínum saman við, í magnaðan grasa-graut með bláberjum og öðru gúmmelaði. Uppistaðan er auðvitað áfram gamli góði hafragrauturinn með ristuðum sesamfræja og hessleyhnetu múslí, en soðin með lúka af fjallgrösum og saltið í grautinn Himalaya. Út á þetta er svo sáldrað hampfræi, grófu kókosmjöli og hnetukurli. Auk þess að vera bragðgóður þá er þessi grasagrautur einstaklega seðjandi, maður finnur ekki til svengdar næstu 5-6 klukkutímana. En það var ekki fyrr en ég fór að kanna það á gúugúl að ég komst að því sem mig grunaði, að þessi grautur er meinhollur.

Rétt eins og á landnámsdögum Graut-Atla þá er á fjallagrösum nánast hægt að lifa enn þann dag í dag. Árið 1972 safnaði þjóðminjasafnið upplýsingum um notkun íslendinga á fjallagrösum í gegnum tíðina. Þau má nota til matar á margvíslegan hátt, auk þess sem þau hafa lækningarmátt og styrkja ónæmiskerfið. Í Læknablaðinu 4. tbl. 2000 er fróðleg grein um fjallagrös eftir Hallgerði Gísladóttur. Hún segir m.a.: "Íslendingar notuðu fjallagrös gríðarmikið á fyrri öldum til að drýgja naumt kornmeti í brauð og grauta. Auk þess voru þau mikill læknisdómur,,," og eru þau þannig  notuð enn í dag, hér á landi og víðar. Sem dæmi þá hafa Þýsk heilbrigðisyfirvöld samþykkt notkun fjallagrasa til að meðhöndla slímhúðarertingu í munni og hálsi, eins eru þau víða seld dýrum dómum í apótekum og heilsubúðum.

Nútímavísindi segja ýmislegt um gagnsemi fjallagrasa t.d. gegn hósta, kvefi, öndunarfærakvillum og magaólgu. Uppistaðan í fjallagrösum - 40-50 % - eru slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út og verður að hlaupkenndum massa þegar það kemst í snertingu við vatn og sefar þannig og verndar viðkvæmar slímhimnur sem verða aumar og bólgnar vegna kvefs, hósta eða þrálátrar barkabólgu. Slímsykrurnar meltast í þörmum og það útskýrir hvers vegna eðlisávísun fólks rak það til þess að leggja sér fjallagrös til munns til að sefa og fylla magann þegar það hafði ekkert annað til að borða.

Varðandi Bláber hefur það lengi verið þekkt að þau eru full af andoxunarefnum sem vinna á móti hrörnun líkamans og einnig hefur verið sýnt fram á með nútíma rannsóknum að bláber geta fyrirbyggt ristilkrabbamein. Bláber eru líka sögð holl hjartanu þar sem þau vinna á slæma kólesterólinu og þau gagnast einnig við þvagfærasýkingum. Bláberin eru einstaklega holl meltingunni þar sem þau bæði verka á niðurgang og harðlífi. Þau minnka einnig bólgur í meltingarvegi og vinna gegn bakteríusýkingum.

Salt er ekki bara salt því gott salt hefur fjölda steinefna sem eru holl líkamanum, en venjulegt borðsalt er í raun iðnaðarframleiðsla því sem næst gjörsneytt steinefnum. Himalaya salt hefur fjölmörg steinefni umfram hefðbundið borðsalt, sem hefur oft á tíðum verið hreinsað af steinefnum um leið og mengunarefni hafa verið aðskilin við vinnslu. Himalaya salt er margra milljóna ára gamlir bergkristallar, því hreint og ósnortið af nútíma mengun. Það inniheldur 84 steinefni sem eru líkamanum nauðsynleg. Himalayasaltið gengur undir nafninu "hvíta gullið" fyrir mannslíkamann.

Hafrar eru uppistaðan í grautnum, og um þá þarf ekki að hafa mörg orð, svo vel þekkja flestir til hafragautsins sem helst hefur haft það óorð á sér að vera tengdur við nánasarhátt og kenjar. Um hollustu hafra hefur aftur á móti enginn þurft að efast. Auk þess að vera lágir í kaloríum innhalda þeir mikið af trefjum og prótíni, eitthvað sem fer fram úr villtustu vonum þeirra sem versla inn dýrindis fæðubótarefni.

Ef dægurflugan hefur farið með rétt mál um árið þegar hún suðaði að það væri "þjóðlegasti siður að koma útsæðinu niður" þá má segja það að svona grautargerð sé hreinasta afdalamennska í sinni tærustu mynd.

29

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband