Viðsjálvert háskakvendi, eða fróm dandikvinna?

Augun

Augun eru eins og stampar,

í þeim sorgarvatnið skvampar,

ofan með nefi kippast kampar,

kjafturinn er eins og á dreka,

mér kemur til hugar kindin mín,

að koma þér niður hjá Leka.

Þannig segir sagan að guðsmaðurinn hafi kveðið vögguvísuna fyrir barnunga dóttur sína. Meir að segja greinir þjóðsagan svo frá að dótturinni hafi verið komið í læri hjá Leka þegar hún hafði aldur til og hafi numið þar fjölkynngi. Hún varð síðar fræg þjóðsagnapersóna, og gekk undir nafninu Galdra-Imba. Sigfús Sigfússon, hinn austfirski þjóðsagnaritari, segir Imbu hafa verið stórgerða og blandna (viðrjálverða, undirförula) en þó höfðingja í lund. Í þjóðsögum Sigfúsar eru margar frásagnir af göldrum hennar, enda um austfirska þjósagnapersónu að ræða og gott betur en það, eina af ættmæðrum austfirðinga.

Þjóðasagan segir að Imba hafi elt mann sinn austur á land, séra Árna Jónsson, eftir að hann hafði flúið hana. Þar hafi presturinn á Skorrastað gengist fram í því að bjarga kolleika sínum undan Imbu með því að sækja hann á báti til Loðmundafjarðar, flutt hann þaðan sjóleiðina á Norðfjörð. Þegar þeir voru staddir ásamt föruneyti á móts við Dalatanga gerði Imba þeim galdur, sendi þeim svo mikinn mótvind að þeim miðaði ekkert, auk þess sem það sóttu að þeim nokkrir hrafnar með járnklær. Þessu áttu guðsmennirnir mótleik við, með bæn á almættið, þannig að til varð lognrönd sem þeir gátu róið frá Dalatanga í Norðfjörð. Eftir að þeir komu á Skorrastað á Imba að hafa sent þeim fimm drauga en þeir prestarnir, ásamt Galdra-Rafni á Hreimsstöðum, eiga að hafa komið þeim fyrir þar sem síðan heitir Draugadý eða Djöfladý. Að endingu eiga þeir félagar að hafa forðað séra Árna á enska duggu sem flutti hann til Englands.

Margar þjóðsagnirnar af Imbu eru um samlindi þeirra mæðgnanna í Loðmundarfirði, Imbu og Þuríðar dóttur þeirra Árna. Samband þeirra á að hafa verið eldfimt og á Imba að hafa drepið tvo eiginmenn fyrir Þuríði með göldrum á meðan þær mæðgur bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þuríður tók við sem húsfreyja á Nesi, en Imba flutt sig um tíma inn á Seljamýri, næstu jörð innan við Nes. Síðar þegar Imba kemur aftur í Nes, eiga Þuríður og maður hennar, Guðmundur Oddson, að hafa komið Imbu fyrir í kofa við túnjaðarinn sem kallaður var Imbukvíar, vegna ósamlyndis Imbu og Guðmundar, sem endaði með því að Imba fyrirfór honum. Síðustu árin flutti Imba að Dallandi í Húsavík fyrir tilstilli dóttur sinnar, en þá jörð höfðu þau átt Þuríður og Guðmundur. Þar dvaldi Imba síðustu árin, eða þar til Þuríður kom henni fyrir kattarnef með eitruðu slátri, samkvæmt þjóðsögunni.

Nokkrar sögur eru til af Imbu þegar hún á að hafa búið að Hurðarbaki við Hreimsstaði í Hjaltastaðaþinghá en ekki er vitað hvort þær eiga að gerast á fyrstu árum hennar á Austurlandi aða síðar. Þó verður líklegt að teljast að þar hafi hún búið einhvern tíma á milli þess sem hún var í Loðmundarfirði og Húsavík, ef eitthvað er hægt að ráða í söguna af því þegar hún seldi smáfættu sauðina á Eskifirði og Þuríður dóttir hennar mætti henni með sauðareksturinn í Eyvindarárdölum og hafði á orði "smáfættir eru sauðir þínir móðir" en þeir reyndust vera mýs þegar Imba hafði fengið þá greidda.

En hver var Galdra-Imba? Á því hef ég haft áhuga frá því ég sá ættartölu afa míns og nafna fyrir rúmum 30 árum síðan. Því þjóðsagna persónan Ingibjörg Jónsdóttir (Galdra-Imba) var formóðir okkar nafnanna, eins og svo margra austfirðinga. Nú á dögum netsins er auðvelt að fletta Galdra-Imbu upp og fá um hana fleiri upplýsingar en finna má í þjóðsagnasöfnunum.

Ingibjörg Jónsdóttir mun hafa verið fædd árið 1630, dóttir ábúendanna á Þverá í Skagafirði, þeirra Helgu Erlendsdóttir, sem var prestdóttir, og séra Jóns Gunnarssonar prests í Hofstaðaþingum í Skagafirði og síðar á Tjörn í Svarfaðardal. Það rann því ómengað prestablóð um æðar Imbu. Litlar heimildir eru af uppvaxtarárum Ingibjargar aðrar en þær að hún á að hafa verið í læri hjá Leodegaríusi, sem mun hafa búið í Eyjafjarðarsýslu og var annað hvort enskur eða þýskur, almennt kallaður Leki. Allavega er ekki vitað til að íslendingur hafi borið þetta nafn. Eiginmaður Ingibjargar varð séra Árni Jónsson, fæddur sama ár og hún, prestsonur úr Svarfaðardal. Árni hafði gengið í Hólaskóla og verið í nokkur ár í læri hjá Gísla Magnússyni sýslumanni (Vísa-Gísla). Ingibjörg er sögð seinni kona Árna (samkv. einstaka heimildum) en fyrri kona hans hét Þórlaug og áttu þau 4 börn. Af því hjónabandi eru engar sagnir.

Árni var prestur í Viðvík árið 1658. Þuríður dóttir Árna og Ingibjargar er fædd 1660, en árið 1661 flytja þau í Fagranes, undir Tindastóli utan við Sauðárkrók, og eru þar presthjón í tólf ár. Árni verður svo prestur að Hofi á Skagaströnd árið 1673. Þau Ingibjörg eru sögð hafa eignast saman 5 börn, Þuríði, Jón, Margréti, Gísla og Gunnar. Athygli vekur að þrjú af elstu börnum þeirra eru sögð fædd 1660 þegar þau hjón standa á þrítugu. Gísli og Gunnar eru svo fæddir 1661 og 1664. Þegar þau eru að Hofi á Skagaströnd er Árni sakaður um galdur og málferlin gegn honum dómtekin árið 1679. Þeir sem sóttu að Árna voru ekki nein smámenni, því þar fóru fyrirmenni og lögréttumenn, sem höfðu undirbúið aðförina vel og vandlega eftir lögformlegum leiðum þess tíma. Strax vorið 1678 hafði prófasturinn í Húnavatnssýslu, séra Þorlákur Halldórsson, tilkynnt Gísla biskupi Þorlákssyni um galdraiðkun Árna. 

Séra Árni var að lokum kallaður fyrir prestastefnu að Spákonufell 5. maí 1679. Jón Egilsson lögréttumaður í Húnavatnssýslu bar það á Árna að hann hefði ónýtt fyrir sér kú og hafði 12 vitni sem svörðu fyrir að hann færi með rétt mál. Þegar Árni var spurður hvað hann hefði sér til varnar kvaðst hann engar varnir hafa aðrar en vitnisburð nokkurra góðra manna um kynni þeirra af sér, sem prestastefnan komst að niðurtöðu um að væru gagnslausar þar sem þær kæmu málinu ekki við.

Næstur sakaði Halldór Jónsson, einnig lögréttumaður Húnvetninga, Árna um "að djöfuls ásókn og ónáðun hafi á sitt heimili komið, með ógn og ofboði á sér og sínu heimilisfólki, að Gunnsteinsstöðum í Laugadal,,," og lagði fram vitnisburð 3 manna, sem höfðu staðfest þá á manntalsþingi í Bólstaðahlíð um vorið, og auk þessa lagði hann fram yfirlýsingu 21 manns um það, að Halldór "segi satt í sínum áburði upp á prestinn síra Árna". Árni kvaðst aðspurður engin gögn hafa gegn þessum áburði Halldórs en lýsti sig sem fyrr saklausan.

Þriðja ákærandinn, sem fram kom í réttinum, var bóndinn Ívar Ormsson. Hann kvað séra Árna vera valdan „að kvinnu sinnar, Ólafar Jónsdóttur, ósjálfræði, veikleika og vitfirringu," og vísaði hann um þetta til þingvitna, sem hefðu verið tekin og eiðfest þessu til sönnunar. Árni neitaði á sömu forsemdum og áður.

Fjórði og síðasti ákærandinn var Sigurður Jónsson ríkur bóndi í Skagafirði og lögréttumaður í Hegranesþingi. Lagði hann fram svohljóðandi ákæru á séra Árna: „Ég, Sigurður Jónsson eftir minni fremstu hyggju, lýsi því, að þú, Árni prestur Jónsson, sért valdur að þeirri neyð, kvöl og pínu, sem sonur minn, Jón, nú 10 vetra að aldri, hefur af þjáður verið, síðan fyrir næstumliðin jól, og nú til þessa tíma. Sömuleiðis lýsi ég þig valdan af vera þeirri veiki, kvöl og pínu, er dóttir mín, Þuríður, hefur af þjáðst, síðan fimmtudaginn í 3. viku góu. Held ég og hygg þú hafir þá neyð, kvöl og pínu mínum báðum áður nefndum börnum gjört eður gjöra látið með fullkominni galdrabrúkun eður öðrum óleyfilegum Djöfulsins meðulum. Segi ég og ber þig, Árni prestur Jónsson, að ofanskrifaðri hér nefndra minna barna kvöl valdan."

Lagði Sigurður svo fram vottaðan vitnisburð fjögurra hemilsmanna að hann hefði þrisvar sinnum synjað Árna bónar sem hann bað áður en veikindi barna hans hófust. Þessi veikindi þeirra hafi síðan "aukist, með kvölum og ofboði í ýmislegan máta", einkum ef guðsorð var lesið eða haft um hönd. Loks var þriðja ásökun Sigurðar á hendur Árna einkennileg. Hann hafði verið í fiskiróðri, lenti í hrakningum, og fékk erfiða lendingu "framar öðrum" sem róið höfðu þennan dag, svo að bátur hans hafði laskast. Þetta hafði skeð sama daginn og kona hans hafði synjað séra Árna bónar. Sannsögli sínu til staðfestu lagði lögréttumaðurinn fram vottorð frá Benedikt Halldórssyni sýslumanni í Hegranesþingi og fimmta lögréttumanns, auk fleiri frómra manna.

Þegar hér var komið snéri biskup sér að Árna og skoraði á hann að leggja fram málsbætur sér til varnar gegn áburði Sigurðar, en prestur kvaðst eins og áður, vera saklaus af öllum galdra áburði og engar vottfestar varnir hafa fram að færa, og myndi hlíta dómi stéttarbræðra sinna, hvort sem hann yrði harður eða vægur. Sumir hafa talið séra Árna hafa verið veikan á geði, jafnvel vitfirrtan, hvað þessa málsvörn varðar. En sennilegra er að hann hafi treyst á réttsýni kolleika sinna. Það þarf ekki að orðlengja það frekar, réttarhöld prestastefnunnar að Spákonufelli komust að þeirri niðurstöðu að séra Árni Jónsson skildi brenndur á báli. Árni átti þó einn möguleika á undankomu með svokölluðum tylftareiði, en það er eiður 12 málsmetandi manna um sakleysi hans á því sem á hann var borði. 

Árni virðist hafa ákveðið þegar í stað eftir dóminn að flýja austur á land, enda vandséð hverjir hefðu verið tilbúnir að sverja honum eið gegn þeim höfðingjum sem eftir lífi hans sóttust. Þjóðsagan segir að Árni hafi flúið einn, en aðrar sagnir segja að hann hafi farið með fjölskylduna alla og þau Ingibjörg hafi sett sig niður á Nesi við Loðmundarfjörð. Austurland hafði áður verið griðastaður þeirra sem sættu galdraofsóknum á Íslandi og er saga Jóns "lærða" Guðmundssonar um það eitt gleggsta dæmið. 

Sumarið 1680 var lýst eftir Árna sem óbótamanni á Alþingi. Lýsingin hljóðaði svo; „Lágur maður, herðamikill, dökkhærður, brúnasíður, dapureygður, svo sem teprandi augun, með ódjarfIegt yfirbragð, hraustlega útlimi, mundi vera um fimmtugsaldur". Þetta ár fer Árni til Englands, sennilega vegna þess að þar hafði bróðir hans, Þorsteinn, sest að og hefur hann sjálfsagt ætlað að leit ásjár hjá honum, en óvíst er hvort fundum bræðranna hefur borið saman. Hann á að hafa skrifað heim, því í Mælifellsannál er ömurlegum árum Árna í Englandi lýst með þessum orðum: "Árið eftir skrifaði séra Árni til Íslands og segist eiga örðugt að fá sér kost og klæði í Englandi, því það tíðkanlega erfiði sé sér ótamt, og andaðist hann þar ári síðar (þ.e.1861)."

Þegar þessar hörmungar dynja á presthjónunum á Hofi standa þau á fimmtugu og börnin eru fimm, öll innan við tvítugt. Það má ljóst vera að hjónin hafa verið dugmikil og hafa átt talsvert undir sér efnalega, því það hefur ekki verið heglum hent að taka sig upp, flytjast þvert yfir landið með stóra fjölskyldu, og koma upp nýju heimili. Hafi einhverjum dottið í hug að Árni hafi verið veikur á geði eða sýnt af sér heigulshátt þegar hann flúði til Englands, þá má benda á hvernig fór fyrir Stefáni Grímssyni, sem fór á bálið 1678, ári áður en Árni hlaut sinn dóm, gefið að sök að hafa borið glímustaf í skó sínum ásamt því að eyðileggja nit í kú. Var sérstaklega til þess tekið við þau réttarhöld að Stefán og Árni þekktust, enda málatilbúnaðurinn gegn Stefáni m.a, komin frá Jóni Egilssyni, sama lögréttumanni og fór fyrir máltilbúnaði á hendur Árna. Hver rótin var að aðförinni að séra Árna er ekki gott að geta til um, en ekki er ólíklegt að hún hafi verið fjárhagslegs eðlis.

Ingibjörg virðist hafa haft bolmagn til að koma sér og börnum sínum vel fyrir á Austurlandi og má því ætla að þau hjón hafi verið vel stæð þegar þau flýðu Norðurland. Þuríður dóttir hennar bjó á Nesi í Loðmundarfirði. "Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar", segir Espólín. "Þótti væn kona og kvenskörungur", segir Einar prófastur. Synir hennar voru Jón og Oddur, sá sem Galdra Imbu ætt er við kennd. Um þau Jón og Margréti er fátt vitað, bæði sögð fædd 1660 eins og Þuríður. Gísli varð bóndi í Geitavíkurhjáleigu, Borgarfirði. "Þótti undarlegur, fáskiptin og dulfróður", segir Einar prófastur. Þjóðsögur Sigfúsar greina frá Jóni "Geiti" Jónssyni sem var galdramaður í Geitavík og á að hafa verið sonarsonur Ingibjargar og Árna gæti þess vegna verið að þeir bræður Gísli og Jón hafi báðir alið manninn í Geitavík, því ekki er vitað til að Gísli hafi átt afkomendur. Gunnar varð prestur á Stafafelli í Lóni, síðar á Austari-Lyngum í V-Skaftfellssýslu. Gunnar var borinn galdri líkt og faðir hans, en bar það af sér með eiði 3. júní árið 1700. Hafði hann þá misst hempuna um tíma bæði vegna þessa og barneignar. Þegar hann hafði hreinsað sig af galdraáburðinum, var honum veitt uppreisn og voru honum veitt Meðallandsþing árið 1700.

Galdra orðið fylgdi Ingibjörgu og afkomendum út yfir gröf og dauða, og lifir enn í þjóðsögunni. Samt er ekki vitað til að Ingibjörg Jónsdóttir hafi nokkru sinni verið ákærð fyrir galdur og fáar þjóðsögur sem greinir frá göldrum hennar á Norðurlandi. Hún leitaðist samt við að hreinsa sig af galdraáburði líkt og sjá má í Alþingisbókum árið 1687. Þar er pistill; "Um frelsiseið Ingibjargar Jónsdóttur úr Múlaþingi. Var upp lesin erleg kynning þeirrar frómu og guðhræddu dandikvinnu Ingibjargar Jónsdóttur, sem henni hefur verið af mörgum góðum manni, bæði norðan og austan lands, út gefin um hennar erlegt framferði. Og eftir því að trúanlega er undirréttað af valdsmanninum Bessa Guðmundssyni, að hér nefnd kvinna beri þunga angursemi, sökum þess henni hafi ei leyft verið að ná frelsiseiði mót því galdraryktis hneykslunar aðkasti, er hún þykist merkt hafa viðvíkjandi fjölkýnngisrykti, þar fyrir, svo sem ráða má af hennar vitnisburða inntaki, að stór nauðsyn til dragi, samþykkja lögþingismenn, að velnefndur sýslumaðurinn Bessi Guðmundsson henni frelsiseiðsins unni, svo sem hann með góðra manna ráði og nauðsynlegu fortaki fyrirsetjandi verður." (Alþingisbækur Íslands, 1912-90: VIII, 154-55).

Dylgjurnar um galdrakukl Ingibjargar virðast ekki eiga sér aðra stoð í opinberum gögnum en í þeim frelsiseið sem hún fær tekin fyrir á Alþingi. Þá er Ingibjörg 57 ára gömul,ekki hef ég rekist á hversu gömul hún varð, og virðist frelsiseiður hennar vera síðustu opinberu heimildir um hana.

Þjóðsagan segir að þegar Galdra-Imba lá banaleguna, bað hún að taka kistil undan höfðalagi sínu og kasta honum í sjóinn, en lagði blátt bann við því að hann væri opnaður. Maður var sendur með hann og var lykillinn í skránni. Hann langaði mikið til þess að forvitnast um hvað væri í kistlinum, og gat ekki á sér setið, og lauk honum upp. En þá kom í ljós, að í honum var selshaus, sem geispaði ámátlega framan í manninn, sem þá varð hræddur og fleygði kistlinum í sjóinn eins fljótt og hann gat. Nokkru síðar dó maddaman.

Samkvæmt þjóðsögunum er því nokkuð ljóst að það hefur gustað af Ingibjörgu og afkomendum hennar á Austurlandi. Sigfús Sigfússon getur þess, að eftir að Imba var öll þá hafi Þuríður látið flytja hana frá Dallandi í Húsavík yfir á kirkjustaðinn Klyppstað í Loðmundarfirði. Hann segir að gamlir menn hafi lengju vitað af leiði Galdra-Imbu með hellu ofan á, sem hún sagði fyrir um að þar skildi látin þegar hún létist. Sigfús endar galdraþátt sinn um Imbu á orðunum "Margt og myndarlegt fólk er komið af þeim mæðgum á Austurlandi".

 

Selshaus 2

 

Heimildir;

Þjóðsagnasafn Sigfúsar Sigfússonar

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar

Íslendingabók

Prestasögur 4 / Oscar Clausen

Galdra-Imba / Indriði Helgason

Galdra-Imba / Wikipedia

Þjóðfræði 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband