1.5.2018 | 06:17
Hefurðu tíma til að tala?
Sýnist það ekki undarlegt að eftir því sem tækninni fleytir fram við að spara okkur tíma, þeim mun tímastrekktari verðum við. Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að samfara tímasparnaði tækninnar er haldið að okkur fleiri tækifærum til að upplifa eitthvað spennandi s.s. að ferðast til ókunnra staða og ótal margt fleira. Það bætast semsagt við fleiri tækifæri á tímalínuna en sem nemur tímasparnaði tækninnar. Aldrei hefur verið eins mikilvægt að átta sig á þessari staðreynd og vera meðvitaður um það að dvelja í núinu, aðeins þar birtast töfrar augnabliksins.
Síðasta mánuðinn hef ég notað í eitthvað nýtt, sem þó er gamalt. Er komin í facebook föstu til þriggja mánaða. Við það eitt varð til tími sem nýttist fyrstu vikuna við að mála gluggana í íbúðinni, en þann tíma hafði ég ekki gefið mér í allan vetur þrátt fyrir góð áform. Sennilega fer þessi facebook fasta á svipaðan veg og þegar ég ákvað að fara í sjónvarps bindindið um árið, sem upphaflega átti að vara í mánuð en framlengdist síðan í þrjá mánuði og nú er svo komið að segja má að ég hafi ekki kveikt á sjónvarpi í sjö ár, það er ekki einu sinni sjónvarp lengur á heimilinu.
Ég fór að hugsa um þessa tímateppu eftir að hafa hitt gamlan félaga um daginn í byggingavöruverslun, þar sem hann kom vaðandi að mér og sagðist verða að "spaða" mig því það væri svo langt síðan leiðir okkar hefðu legið saman. Við höfðum ekki hitist í næstum tvö ár, en ég vissi samt að hann hafði verið tímabundinn vegna vinnu og hafði frétt að þau hjónin væru nýlega búin að selja húsið sitt sem þau byggðu fyrir meira en 30 árum síðan. Hann sagði að við yrðum að fara að gefa okkur tíma til að fá okkur kaffibolla og í smá spjall. Ég sagði að við skildum bara fá okkur kaffibolla núna, enda kaffihorn fyrir viðskiptavini til staðar í byggingavöruversluninni.
Því miður hafði hann ekki tíma til þess, konan beið eftir honum heima við að pakka niður búslóðinni, auk þess sem hann væri búin að lofa að vera mættur til vinnu fyrir fleiri klukkutímum síðan. Mér varð á að spyrja hvert þau hjónin flyttu eftir að hafa afhent húsið. Þau flyttu nú bara í næsta bæ, sagði hann, en þar ættu þau hús eins og ég vissi, auk þess sem þau ættu hús á Spáni, þau væru nú ekki á hrakhólum hvað húsnæði snerti. En þar fyrir utan væri konan mest nú orðið í Reykjavík þar sem börnin og barnabörnin ættu heima. Ég stillti mig um að tefja þennan gamla vin og félaga með fleiri spurningum, enda sjálfur í vinnunni, en við höfum í gegnum tíðina átt sameiginlega mörg ánægjuleg augnablikin bæði við leik og störf.
Tímaplön fólks hafa breyst mikið á undanförnum áratugum. Fyrir 40-50 árum síðan var ekki óalgengt að kunningjafólk droppaði fyrirvaralaust í kaffisopa og spjall heima hjá hvort öðru, áður en það þótti ókurteisi að kanna ekki aðstæður fyrirfram með símtali. Nú þykir varla boðlegt að stofna til símtals öðruvísi en kanna það í gegnum textaskilaboð hvort viðkomandi hafi tíma til að tala. Þetta er afleiðing þess að fólk hefur orðið sífellt uppteknara á eigin tímalínu, enda betra að hafa plan ef maður ætlar ekki að verða partur í annarra plani. Fyrir 50 árum voru tímarnir aðrir, hvað þá ef farið er 150 ár aftur í tímann þegar þrjár gestanætur voru óskráð lög hvað kurteisi varðaði. En á þeim tímum var heldur hvorki sjónvarp né útvarp til að spara fólki tíma við fréttaöflun, hvað þá facebook eða snapchat. Hvenær ég frétti næst af félaga mínum eða hitti, er vandi um að spá, þar sem ég hef nú skellt aftur facebook á mína fleiri hundruð vini og hann flutt í annað bæjarfélag.
Því er stundum haldið fram að til sé ákveðin tímalína og ævin sé línuleg frá upphafi til enda. Einkventíma las ég að þetta væri vestræn hugmynd um tímann, en t.d. Afríkufólk upplifði tímann á annan hátt, þar snérist tímalínan í hringi líkt og klukka á skífu eða réttara sagt í spíral, maður kæmi alltaf einhvern tíma aftur að tækifærum sem manni væri ætluð. Um það leiti sem ég slökkti á sjónvarpinu um árið fór ég að velta fyrir mér þessum hringtíma. Þetta var ekki sjálfgefið, ég hafði lent í Noregi eins og álfur útúr hól íslensku kreppunnar og hafði ekki nokkurn áhuga á norsku sjónvarpi og hafði því nægan tíma, þó svo norskir vinnufélagar biðu mér þann kostagrip í gríð og erg. Á þessum tíma vann ég með afrískum höfðingja sem kom til Noregs sem flóttamaður. Við vinnufélagarnir af víkingaættum höfðum eitt sinn spjallað um að ákvarðanataka afríska höfðingjans væri um margt undarleg, ég hafði komist svo að orði að það væri ekki að undra, því hann hugsaði í hringi. Þetta fannst norsku víkingunum undarlegt grín.
En málið er að þarna var ekki um grín eða lítilsvirðingu að ræða. Ég hafði átt því láni að fagna að kynnast hringlaga tímaskini Afríkufólks rétt upp úr tvítugt, þegar ég bjó um stund hjá afrískri vinkonu á Spáni. Hjá henni droppuðu margir við, kaffi og gestanætur heyirðu þar enn til almennrar kurteisi. Gestirnir voru fólk frá hennar heimahögum í Afríku, fólk sem nú til dags er kallað flóttamenn, en var á þeim tíma talið ævintýrafólk sem hafði hleypt heimdraganum. Í seinni tíð hef ég oft hugsað til þess hve dýrmætt er að hafa kynnst tímalínu sem fer í hringi. En atvikið sem skýrði dýrmæti þannig tímalínu hringlaði fyrir framan fésið á mér einn daginn í denn.
Tveir gestir höfðu ákveðið með nokkrum fyrirvara að fara í bæjarferð, rétt við blokkina var stopp fyrir strætó. Þeir tóku með sér sambyggt útvarp og kassettutæki með tveimur hátölurum til hlusta á tónlist í bæjarferðinni, enda komu snjallsímar ekki fyrr en 30 árum seinna á tímalínuna. Þegar ég leit fram af svölunum nokkru eftir að þeir kvöddu voru þeir ennþá á stoppistöðinni og hafði þriðji félaginn bæst í hópinn. Mér datt í hug að þeir hefðu misst af strætó, en tók svo eftir að næsti strætó kom og stoppaði án þess að þeir sýndu honum nokkra eftirtekt. Þannig leið tíminn. Strætó kom og fór hring eftir hring án þess að trufla félagana við spjall og góða tónlist. Þegar þeir komu til baka kom í ljós að þeir höfðu hitt vin, sem komið hafði með fyrsta strætó og fór þar út því hann ætlaði niður á strönd. Þarna varð fagnaðarfundur sem eingin þeirra þriggja hafði búist við, og ósvíst hvenær og hvar væri hægt að hittast næst. En mun líklegra var að bærinn og ströndin yrðu á sínum stað daginn eftir með sínum hringsólandi strætó.
Þegar ég set mig með mína vestrænu tímalínu inn í svona óvæntan hitting á strætóstöð rennir mig í grun að deginum hefði ekki verið varið með góðum vini, jafnvel þó svo að báðir hefðu verið að drepa tímann. Maður hefði sennilega rétt gefið sér tíma til að "spaða" vinin og kveðja með þeim orðum að gaman væri að gefa sér stund fyrir spjall við gott tækifæri. En þar sem hann væri á leiðinni niður á strönd og ég í bæinn þá yrði það að bíða betri tíma. Jafnvel þó báðir hafi verið á ferð með þá von í hjarta að eiga notalega nærveru með góðum vini, sem ætti tíma bæði til að tala og anda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.