14.9.2018 | 19:07
Eru álfar kannski menn?
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er saga af stúlku í Mývatnsveit sem virðist hafa verið komin á samfélagsmiðla löngu áður en tæknin varð til. Hún vissi atburði í öðrum landshlutum svo til um leið og þeir gerðust. Lýsingin á atferli stúlkunnar var samt ekkert sérstaklega geðsleg, sem segir svo sem ekki mikið annað en tíðarandinn hefur breyst. Þar segir m.a.;
En þegar hún þroskaðist meira vitkaðist hún sem aðrir menn að öðru leyti en því að hún var alltaf hjárænuleg og jafnan óglaðvær. Fór þá að bera á því að hún sæi mannafylgjur öðrum framar svo hún gat sagt fyrir gestkomur; en er fram liðu stundir urðu svo mikil brögð að undursjónum hennar að svo virtist sem hún sæi í gegnum holt og hæðir sem síðar mun sýnt verða. Til vinnu var hún næsta ónýt og prjónaskapur var næstum eina verkið hennar. Hún átti vanda til að sitja heilum tímum saman eins og agndofa og hvessa augu í ýmsar áttir innan húss þótt aðrir sæju ekkert er tíðinda þætti vert.
Það má spyrja sig hvort þessi stúlka hafi þá strax haft wi-fi tengingu og snjallsíma auk sjónvarps, sem fólk vissi hreinlega ekki af, tækni sem flestum þykir sjálfsögð í dag. Þannig hafi hún vitað ýmislegt sem öðrum var hulið.
Á öldum áður moraði allt í álfum, ef eitthvað er að marka þjóðsögurnar. Á því hvað um þá varð hefur engin haldbær skýring fengist. Hugsanlega hafa þeir horfið með raflýsingunni, rétt eins og mörg skyggnigáfa mannfólksins, eftir að veröldina fór að fara fram í gegnum upplýstan skjá. Það er t.d. mjög sjaldgæft að álfur náist á mynd, þó segja sumir að það sé meiri möguleiki eftir að digital ljósmyndatæknin hélt innreið sína, sem flestir eru með við höndina í símanum.
Sjálfur er ég svo sérvitur að ég hef ekki ennþá tileinkað mér margt af þessari undra tækni og verð því að nokkru leiti að notast við sömu samfélagsmiðla og fólkið sem umgekkst stúlkuna í Mývatnssveit. Svo forneskjulegur er ég að hvorki er sjónvarp né útvarp í minni nærveru og hefur ekki verið hátt í áratug, hvað þá að ég hafi eignast snjallsíma. Ég þrjóskast samt enn við að halda mig í raunheimum með því að hafa internettengingu og gamla fartölvu svo ég geti fylgst með því sem allir vita.
Þessi þverska mín varðandi framfarir hefur í nútímanum gert mig álíka hjárænulegan og stúlkuna í Mývatnssveit um árið, svo öfugsnúið sem það nú er. Í kaffitímum á mínum vinnustað á ég það t.d. til að rausa við sjálfan mig um bæði forna og framandi atburði, á meðan allir aðrir horfa upplýstir í gaupnir sér og þurfa í mesta lagi vísa lófanum í andlitið á næsta manni og segja sjáðu, til að gera sig skiljanlega.
Hjárænulegastur hef ég samt orðið heima hjá mér. Eftir að hafa gefist upp á því að gera rausið í mér skiljanlegt innan fjölskyldunnar, sat ég þá þegjandi í sófanum líkt og álfur út úr hól. Fjölskyldumeðlimir sátu saman við borðstofuborðið og glugguðu í símunum sínum, á meðan ég starði bara út í bláinn, borandi í nefið. Allt í einu klingdi í hverjum síma og bjarmaði af hverjum skjá upp í andaktug andlitin, allir horfðu kankvísir í sinn síma, án þess að þurfa að segja svo mikið sem sjáðu. Sonur minn hafði náð mynd af sófa-álfi og sent hinum við borðið hana á snapchat.
Flokkur: Goðsagnir og Þjóðsögur | Facebook
Athugasemdir
Vísindamenn hafa lengi leitað að lífi í geimnum og ekkert galið við það.
Þeir leita hins vegar ekki að álfum eða Guði.
Hvorki hefur verið sannað né afsannað að einhverjir guðir eða álfar séu til, enda er um trú að ræða í báðum tilfellum en ekki vísindi.
Og hvorutveggja jafn merkilegt eða ómerkilegt.
Móðurafi minn var bæði kristinn og álfatrúar og í fjölskylduboði þvörguðu hann og dómkirkjupresturinn um álfatrú.
Hef sjaldan skemmt mér betur.
Þorsteinn Briem, 14.9.2018 kl. 21:09
"Ásatrú eða heiðinn siður byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni.
Eitt megininntak siðarins er að hver maður sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og gerðum sínum.
Í Hávamálum er einkum að finna siðareglur Ásatrúarmanna. Heimsmynd ásatrúarmanna er að finna í Völuspá. Þar er sköpunarsögunni lýst, þróun heimsins, endalokum hans og nýju upphafi.
Í trúarlegum efnum hafa ásatrúarmenn aðallega hliðsjón af hinum fornu Eddum.
Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð.
Að kalla siðinn ásatrú er reyndar villandi þar sem átrúnaður er ekki einungis bundinn við æsi, heldur hvaða goð eða vættir sem er innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvættir, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður.
Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar svo framarlega sem iðkunin brýtur ekki á bága við landslög."
Ásatrúarfélagið
Þorsteinn Briem, 14.9.2018 kl. 21:12
"125. gr. Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum."
Almenn hegningarlög nr. 19/1940
Listi yfir skráð trú- og lífsskoðunarfélög hér á Íslandi
Þorsteinn Briem, 14.9.2018 kl. 21:13
Sæll Steini, þakka þér fyrir þessi innlegg. Ég get tekið undir það að goðafræðin hefur mér þótt meira í ætt við lífstíl en trúarbrögð. Þó svo að einhver tilheyri trúfélagi þá þarf það ekki að vera svo að hann sjái ekki ljósið í öðru, nema tekið sé upp á því að halda með ákveðnu trúfélagi líkt og fótboltafélagi eða stjórnmálaflokki. Allavega er það einhvern veginn frekar öfugsnúið að halda með vissum trúarbrögðum rétt eins og vísindum í stað þess að viðurkenna hinn óendanlega möguleika.
Magnús Sigurðsson, 14.9.2018 kl. 21:33
Stjórnsýslan, menntakerfið, virðist trúa á þrívíðan heim og tíma, sem við getum kallað Nústaðreyndatrú dagsins í dag.
Þrívíði heimurinn er hugsaður af þeim, sem hafa ekki einhverja sýn til fleiri vídda.
Sá sem trúir á þrívíða heiminn, sér ekki fjölvíða heiminn, hann trúir að fjölvíddirnar séu ekki til.
Gyðingar, Kristnir, Íslam, Hindúar, Búddasiður og Ásatrú allt byggist það á fjölvíðum heimi, og allir Reiknimeistarar reikna með 10 + víddum, þegar þeir skíra Strengjakenninguna, og Fjölheimakenninguna, Multiverse, Parallel Universes.
Þessir siðir, eru frá þeim, sem hafa einhverja sýn til fleiri vídda.
Þeir sem trúa á þessi trúarbrögð, eru hlynntir fjölheimum, String Theory og Multiverse, Parallel Universes.
Ég er að hugleiða hvort Þór, Thor í Ásatrú og Thora í Gyðingdómi sé runnið frá fortíðar sjáendunum, Guðsfólkinu.
Egilsstaðir, 14.09.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 14.9.2018 kl. 22:42
Sæll Jónas, þetta sem þú kemur inn á er mjög athyglisvert. Sennilega nátengt því að heimarnir síðustu aldirnar hafa verið taldir þrír, samkvæmt vestrænni heimsmynd, þ.e. jarðlífið himnaríki og helvíti.
Gamla goðafræðin gerði að minnsta kosti ráð fyrir níu heimum, þ.m.t. álfheimum. Eins eiga Búddismi og Hindúismi sér marga heima.
Nú á dögum mætti ætla að þeir, sem trúarbragða styrjaldir stunda, vilji að heimurinn helgist einungis af hinum heilaga hagvexti og guðinn sé einn, Mammon.
Magnús Sigurðsson, 14.9.2018 kl. 23:44
Við munum eftir orðtakinu, að vera í sjöunda himni, sem er skýrt svo.
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=61737
Himnarnir sjö eru vel þekktir í trúarritum gyðinga (Talmud) og múslima (Kóraninum). Þeir eru stundum taldir allt að tíu. Á sjöunda himni býr Guð og með honum kerúbar og serafar og aðrir af æðstu stigum.
Himnarnir sjö eru vel þekktir í trúarritum gyðinga og múslima. Á sjöunda himni býr Guð en í þriðja himni átti Paradís að vera ásamt lífsins tré. Myndin sem sést hér er freska eftir ítalska málarann Rafael (1483–1520) og er gerð á árunum 1509 og 1510. Á henni sést bæði himinn og jörð.
Egilsstaðir, 15.09.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 15.9.2018 kl. 13:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.