Penigana eða lífið

Var vinsæll frasi í bófaleiknum í denn. Auðvitað vildi maður halda lífi, og ef maður afhenti ekki peningana þá var maður úr leik hvort eð var. Stundum var formáli frasans "upp með hendur niður með brækur" og svo "peningana eða lífið". Þá vandaðist málið því sjálfsvirðingin leyfði ekki að maður tæki niðrum sig áður en maður afhenti peningana fyrir það eitt að fá að halda lífi í þykjustuleik. Það má segja að frasinn hafi með þeim formála verið á svipuðu kalíberi fyrir heilabúið og spurningin um það hvað væri líkt með krókódíl.

En þegar til alvöru lífsins kemur, hvort verður þá fyrir valinu peningarnir eða lífið? Svarið vill oft verða nokkuð snúið, en ætti auðvitað að vera núið. Rétt eins og maður vildi ekki rífa niður um sig brækurnar í þykjustuleik. Það er bara í núinu sem maður hefur lífið og ef maður ætlar að geyma sjálfsvirðinguna þangað til á morgunn gæti maður allt eins hafa tapað bæði lífinu og peningunum þegar sá dagur birtist, með allt niðrum sig.

Hvað þá ef maður bara rífur niður um sig brækurnar og afhendir peningana? Það er nú reyndar einmitt það sem margir gera með því að vanda t.d. val á menntun burt séð frá hvar áhugamálið liggur. Telja sig gera það í skiptum fyrir fjárhagslegt öryggi í framtíðinni, áhyggjulaust ævikvöld og allan þann pakka. Eru jafnvel á ævilöngum harðahlaupum eftir framtíðar gulrótinni. Koma sér upp bókhaldslegu talnaverki í banka til síðari nota, eða það sem ekki er síður í móð að koma upp kretid bókhaldi sem kemur peningum í framtíðar lóg.

Þó það sé erfitt að skulda peninga þá hafa margir bent á að það sé enn erfiðar að eiga þá. Heimsspekingurinn Gunnar Dal sagði í viðtalsbók að hann þekkti engan sem ætti peninga. Hann þekkti einungis örfáa menn sem ættu einhverjar milljónir um stund, yfirleitt færi það svo að þegar þær stoppuðu við hjá einhverjum þá ættu milljónirnar manninn. Dæmi væru um að svo rammt kvæði að eignarhaldinu, eftir því sem á ævina liði, að fólk sem talið var forríkt dó úr hungri af því að það hélt að það gæti eignast örlítið meiri pening rétt áður en það lenti í gröfina.

Einn ónefndur nafni minn, sem var bóndi upp í sveit, var talinn eiga aura. Þegar hann fékk sölumann landbúnaðarvéla í heimsókn hafði hann unnið hörðum höndum langa ævi og vildi sölumaðurinn létta honum erfiðið í ellinni með því að selja honum skítadreifara. Nafni taldi að sú fjárfesting borgaði sig ekki úr því sem komið væri. Sölumaðurinn benti honum góðfúslega á að ekki færi hann með peningana með sér yfir um, "og hvað þá skítadreifarann" ansaði gamli maðurinn.

Það er því spurning hvort að formálinn upp með hendur niður með brækur auðveldar ekki ákvarðanatökuna um peningana eða lífið þegar öll kurl koma til grafar. Og varðandi það, hvað sé líkt með krókódíl þá er fræðilega svarið, að hann getur hvorki hjólað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Það þarf fleiri svona pistla inní umræðu dagsins.

Það er svo auðvelt að skammast, en að vapra ljósi á tilveru okkar, hjómið og annað sem knýr okkur áfram, það er öllu flóknara.

Eitt leiðir að öðru, og svo annað og fleria til, einn daginn upplifum við umræðu sem hreifir við, og jafnvel breytir.

Í því er vonin fólgin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.10.2018 kl. 23:01

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Ómar.

Þeir eru orðnir nokkuð margir sem hafa bent á það í gegnum tíðina hvernig peningar knýja fólk áfram án raunverulegs innihalds.

Einn félagi okkar hér á blogginu hefur ósjaldan reynt að benda á að peningar eru bókhald. Ég held að allir ættu að geta verið sammála um það, alla vega að þeir séu ekki verðmæti í sjálfu sér, heldur einungis ávísun.

Margir falla í þá gryfju að telja sig þurfa meiri peninga en þeir geta notað sér til ánægju, því auðvitað er það svo að þegar maður hefur keypt eitthvað sem mann vantaði ekki þá hefur maður rænt sjálfan sig og ætla að koma umfram bókhaldi á sína nánustu hefur oft endað með fjölskylduharmleik. 

Ungu fólki er samt auðvelt að halda í strektri snöru með kretid færslum. Það er ekki auðvelt að líta fram hjá þeim bókhaldstrixum þegar börn eru annars vegar, og bú er undir.

Það er reyndar fyrir löngu orðið þannig að peningar eru ekki settir í umferð nema sem skuld, með þessháttar gjörningum er fólki óganað burt séð frá hvort árferði er gott eða slæmt, og sárt til þess að vita að að svoleiðis sé í pottinn búið, þegar helsta vandamál okkar samfélags er að of mikið er til af öllu. Þá er gott að menn á við þig Ómar, skerpi línurnar á mannamáli.

Svo er alltaf spurningin hvað er fengið með því að safna debet bókhaldi í formi peninga. Sumir, sem betur fer fáir, telja þannig bókhaldsgögn svo mikils virði að þeir koma því aflands, og er þá betra að ekki upp komist svo æran, sálin og allt það, bíði ekki hnekki.

Hugsaðu þér hvað maður leggur á sig fyrir bókhald sem maður hefur einungis ímynduð not fyrir.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 8.10.2018 kl. 13:59

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, ég held að peningar séu rangur drifkraftur í vestrænum samfélögum.  Þekki ekki mikið til hvernig til hefur tekist, en mér fannst það alltaf dálítið frumlegt þegar einvaldurinn í Bhutan sagði að það ætti að mæla hamingju þegar þjóðarframleiðsla væri metin.

Ég held að ástandið væri öðruvísi í dag ef stjórnvöld hefðu einsett sér að vernda hamingjuvísitölu þjóðarinnar eftir hrun, í stað eignir hrægamma og annarra fjárfesta.  Þá hefðu til dæmis hugmyndir þeirra Jóns Dan og Gylfa Zö um hvernig almenningur gæti haldið húsnæði sínu ekki verið slegnar strax út af borðinu.

Allavega er þörf fyrir öðruvísi hugsun, mannlegri.

Og umræðan er alltof eintóna í dag.  Það er eins og hugmyndafræði andskotans hafi yfirtekið tungutak okkar, og allir ætla að hagræða allt til andskotans.

Enginn minnist á að það þurfi að hlúa að gróandanum, að hafa mannúð og mennsku sem leiðarljós, og að manngildi sé æðra efnislegum gildum.

Blómstri fólk, þá blómstrar samfélagið.

Það er ekki flóknara.

Takk yfir spjallið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.10.2018 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband