Aumasti prestur á Íslandi

Þetta sagði biskup um séra Jón, og lét hann einnig hafa það eftir sér að ekki gæti hann ímyndað sér að til væri vesælli og fátækari prestur í veröldinni. Í bréfi biskups kemur fram að séra Jón hafi flosnað upp, flakkað um verganginn, en börn og kona gengið betlandi bæ af bæ. Séra Jón tapaði oftar en einu sinni aleigunni, meir að seigja sænginni sinni. En hann tapaði aldrei fjölskyldunni.

Einu sinni var það svo að ættfræði þóttu mikil alþýðuvísindi. Eftir að Íslendingabók varð öllum aðgengileg hefur farið minna fyrir þessum fræðum enda getur hver sem er flett sjálfum sér upp í einrúmi og komist að því til hvaða höfðingja rætur liggja. Þó svo gagnagrunnur Íslendingabókar sé ekki tæmandi og stundum tínist þráðurinn er hæpið að hægt sé að bæta við þá vitneskju með frekari eftirgrennslan.

Fyrir rúmum 30 árum síðan var ég heilan vetur hjá afa mínum og nafna. Þá sýndi hann mér ættartölu sína sem honum hafði nýlega verið færð og þótti okkur þetta athyglisvert plagg. Það sem mér fannst merkilegast þá í þessari ættartölu var hvað mikið af Jónum var í ætt afa míns, ekki nóg með að hann hafi verið Jónsson þá hét móðir hans Jónbjörg Jónsdóttir. Ættleggur Jónbjargar fór fljótlega út um víðan völl í eintómum Jónum því það var ekki nóg með þeir væru mann fram af manni heldur voru systkinahópar stundum með tveimur og að mig minnir þremur Jónum, ef einhver Jóninn hafði fallið frá í æsku. Það var samt svo með Jón föður Magnúsar afa að hann var Sigvaldason og síðan var hæfilega mikið af Jónum í þeim legg, þannig að halda má þræði langt aftur í aldir.

Þennan vetur sátum við nafnarnir við eldhúsborðið, sem Jón Sigvaldason hafði smíðað, kvöld eftir kvöld og ræddum horfna tíð og sagði hann mér þá oft hvað það hefði verið bagalegt hvað hann hefði haft lítinn áhuga á ættum sínum á yngri árum því þegar hann mundi fyrst eftir sér hefðu gömlu konurnar haft það alveg á hreinu hver var hvaða Jón.

Þjóðsögurnar hans Sigfúsar Sigfússonar voru svo eitt áhugamálið sem kom til umræðu við eldhúsborðið, svona nokkurn veginn um leið og ég las þær. Þar mátti finna mikla þjóðasagnapersónu sem var Jónsdóttir úr ættartölunni, sem ekki verður gerð skil að þessu sinni. En einn var sá Jón sem við afi minn stoppuðum sérstaklega við, hann var Brynjólfsson, sá sem Hannes biskup Finnsson kallaði „aumasta prest á Íslandi“. Nú á dögum er því sem næst hægt er að kalla fram hvaða Jón sem er úr fortíðinni á alheimsnetinu, svo ekki sé talað um séra Jón, þar sem má nánast fá ævisöguna alla.

Þegar forvitnast er um séra Jón Brynjólfsson kemur í ljós að hann var ekki eins aumur og orð biskups gefa til kinna, ef miðað er við þróunarkenninguna, því hann mun nú vera einn af helstu ættfeðrum austfirðinga. Þó svo 225 ár séu á milli mín og séra Jóns, þá er tiltölulega fljótlegt að fletta honum upp á netinu þannig að heillegt æviágrip fáist og ekki er verra að fræðimaðurinn Ármann Halldórsson hafði gefið út bókina Mávabrík fyrir daga netsins þar sem hann hefur tekið saman efni viðkomandi ævi Jóns Brynjólfssonar.

Það er yfirleitt meira vitað um presta en alþýðufólk fyrr á tíð, af þeirri einföldu ástæðu að þeir þurftu að fylla út kirkjubækur og skrifuðu talsvert um sjálfa sig í því málavafstri sem bréflega fór á milli þeirra og yfirvalda. Í þetta efni sökkti Ármann Halldórsson sér í ellinni og sagðist hafa gert það a.m.k. tveimur orsökum. Séra Jón Brynjólfsson og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir, eru einhverjir mestu ættarforeldrar á Austurlandi. Önnur er sú að ævi hans er söguleg, því að líklega er um að ræða átakanlegustu fátækrasögu nokkurs manns í prestastétt. Eins sver Ármann ekki fyrir, að áhugi hans á þessum örsnauðu presthjónum hafi með það að gera að hann á ætt til þeirra að rekja.

Íslendingabók hefur þetta æviágrip að geyma; Jón Brynjólfsson Fæddur um 1735, látinn á Ormsstöðum í Eiðasókn, S-Múl. 15. febrúar 1800. Djákn á Skriðuklaustri 1758-1760. Prestur á Hjaltastað í Útmannasveit 1760-68, Skeggjastöðum á Langanesströnd 1768-76, mun þó hafa flosnað upp þaðan 1775. Kom börnum sínum og konu sinni fyrir á Austurlandi en fór sjálfur suður á land þá strax. Þjónaði Landþingum veturinn 1776-77 og settur prestur í Holtaþingum í Landsveit mestallt árið 1779. Fékk Fjarðarsókn í Mjóafirði, S-Múl. 1780 og var þar í Firði 1780-83, kom þangað sunnan úr Holtum í Rang. Var á Hesteyri í Mjóafirði 1783-84 og Krossi í Mjóafirði 1784-85 er hann fór að Eiðum. Prestur á Eiðum í Eiðaþinghá frá 1785 til dánardags 1800.

Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir fædd í Eyvindarmúla í Fljótshlíð 1744, látin í Dölum í Hjaltastaðaþinghá 4. september 1834. Prestfrú á Eiðum. Vinnukona í Krossavík, Refsstaðarsókn, Múl. 1801. Barnfóstra á Hofi, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1816. Faðir Jóns var kallaður Brynjólfur allstaðar Markússon eða „Tuttugubýla Brynki“.

Eiðavinir hafa tekið þetta saman á vefinn sinn um Jón Brynjólfsson (1735-1800) varð prestur á Eiðum 1785. Kona hana var Ingibjörg, systurdóttir Hans Wium (Bóel). Jón var Sunnlendingur, og hafði gegnt prestþjónustu á ýmsum stöðum, m.a. á Austurlandi, en hafði lengst af búið við sára fátækt og ómegð, svo mjög að Hannes biskup kallar hann „aumasta prest á Íslandi“ í bréfi 1792, enda hafði hann oftar en einu sinni komist á vonarvöl. Hans Wium aumkar sig yfir þennan, tengdamann sinn, og byggir honum Eiða 1785, og þar kallast hann bóndi næstu árin.

Nokkru áður en Hans lést (1788) hafði hann selt Þórði Árnasyni mági sínum Eiðastól. Flutti Þórður í Eiða 1789 og hrökklaðist séra Jón þá í Gilsárteig og síðan í Ormsstaði, sem þá voru í eyði, bjó þar til æviloka árið 1800, og virðist hafa búnast sæmilega. Þau hjón áttu fjölda barna; af þeim komust 10 á legg og 9 eignuðust afkomendur. Er mikill ættbogi af þeim kominn. Þar á meðal eru nokkrir helstu fræðimenn og rithöfundar Austurlands, svo sem Jón Sigurðsson í Njarðvík, Halldór Pétursson frá Geirastöðum, Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson, en hann ritaði þátt um forföður sinn og birti í bók sinni Mávabrík (1992).

Það má kannski segja að litlu væri við þetta að bæta ef ekki kæmi til Mávabrík Ármanns Halldórssonar. En þar kemur fram rétt eins og hjá Eiðavinum að Ingibjörg Sigurðardóttir kona Jóns var dóttir Bóelar, dóttur Jens Wium sýslumanns, sem var systir Hans Wium sýslumanns á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Jón var sunnlenskur að ætt og ekki gott að sjá hvort hann var fæddur í Rangárvalla eða Árnessýslu því eins og kemur fram í viðurnefnum föður hans, tuttugubýla Brynka eða Brynjólfur allstaðar, bjó hann víða.

Það er á Skriðuklaustri undir verndarvæng Hans Wium sýslumanns sem Jón Brynjólfsson hefur sinn starfsferil, sem djákni því þó svo að hann hafi þá verið búin læra til prests hafði hann ekki aldur til vígslu. Ingibjörg sem átti eftir að verða kona hans er fædd á Suðurlandi en hefur sennilega alist upp á Austurlandi og þau kynnst þar. Sigurður faðir hennar var sunnlenskur og hafði hann farið með klausturumboð á Suðurlandi, en drukknaði í Lagarfljóti og hefur þá sennilegast búið á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð því Bóel kona hans var yfirleitt kennd við Surtsstaði.

Jón hafði útskrifast frá Skálholtsskóla 1755 og var djákni á Skriðuklaustri 1758-1760, þegar hann vígist í Skálholti sem prestur á Hjaltastað. Eldklerkurinn Jón Steingrímsson var vígslubróðir hans og áttu mestu harðindi Íslandssögunnar eftir að marka líf þeirra beggja. Jón og Ingibjörg giftast 1765 en árið áður fæðist elsta barn þeirra. Ingibjörg hefur sennilega talist vera það sem kallað var ættgöfug manneskja því hún var af Wium ætt sem stærði sig af tengslum við dönsku konungsfjölskylduna. Afi hennar Jens Wium var danskur og hafði komið til Íslands sem undirkaupmaður við Reyðarfjörð og varð síðar sýslumaður í Múlaþingi með aðsetur á Skriðuklaustri.

Þau Ingibjörg og Jón eru á Hjaltastað til ársins 1769 og höfðu þau þá eignast þrjú börn, þau Sigurveigu, Elísabetu og Brynjólf. Þá taka þau sig upp og flytjast í Skeggjastaði á Langanesströnd, ekki er vitað hvað varð til þess. Þar er Jón prestur til 1775 en þá flosnar hann upp. Það að flosna upp þýðir á þessum tíma að verða matarlaus, heylaus og jafnvel eldiviðarlaus. Þá höfðu bæst við í barnahópinn Sigurður, Bóel, Níels og Kristín. Í bókinni Árferði á Íslandi í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen, segir að 1774 hafi stórharðindi verið í Múlasýslum og fólk dáið úr hungri, 60 manns í Norður-Múlasýslu „og presturinn á Skeggjastöðum flosnað upp og yfirgefið brauðið.“

Til eru heimildir um hvernig brotthvarfi séra Jóns var háttað, m.a. vegna þess að hann var sakaður um að hafa selt pott sem hann hafði veðsett. Biskup segir í bréfi vegna þess máls að ekki sé rétt að sakfella Jón vegna pottsölunnar þar sem hann hefði selt hann í neyð og kaupandanum hafi verið fullkunnugt um veðböndin sem á pottinum hvíldu. Eins kemur fram í ferðabók Olaviusar, sem kemur í Skeggjastaði nokkrum árum eftir brottför Jóns, að Skeggjastaðir séu eitt lélegasta brauð í öllu landinu.

Sagt er í Íslendingabók að Jón hafi komið fjölskyldunni fyrir á bæjum á Héraði eftir brottförina frá Skeggjastöðum og sjálfur farið suður á land og haldið þar til næstu árin. Ármann Halldórsson telur þó að fjölskyldan hafi verið með honum á Suðurlandi þann tíma, nema þá Sigurður sem hafi verið hjá Bóel ömmu sinni á Surtsstöðum. Það merkir hann m.a. á því að Ólafur sonur þeirra hjóna fæðist fyrir sunnan og þá sennilega Guðrún. Eins það að Bóel dóttir þeirra giftist og staðfestist síðar á Suðurlandi. Bendir það til þess að annaðhvort hafi hún átt þar tengingu frá æskuárum eða orðið þar eftir þegar fjölskyldan flutti aftur austur.

Árin 1776-1780 á Suðurlandi voru Jóni erfið en þar er hann sagður hafa þjónað í Land- og Holtaþingum tímabundið og í afleysingu, þess á milli er hann talin hafa hokrað eða jafnvel verið á vergangi við að framfleyta sér og sínum. Þó að biskup hafi verið honum innanhandar með íhlaupaverkefni þá hafi hest og klæðleysi stundum komið í veg fyrir að hann gæti nýtt sér það. Jón hafði haft von um að komast að sem prestur í Einholti á Mýrum í Hornafirði þegar hann fór frá Skeggjastöðum, en af því varð ekki.

Það var ekki fyrr en 1780 að Jón var aftur settur sem sóknarprestur og þá í Firði í Mjóafirð, en þar var bændakirkja þannig að jörðin var öll í bændaeign en kirkjan hafði hana hálfa fyrir prestinn. Þegar Jón kom með fjölskylduna í Mjóafjörð var fyrrverandi prestfrú í Firði, þannig að fjölskylda Jóns hafði ekki í önnur hús að venda en kirkjuna fyrst um sinn. Skömmu eftir að þau komu í Fjörð keypti Hermann Jónsson Fjörð af gömlu prestfrúnni,sem var tengdamóður hans, og flutti úr Sandvík í Mjóafjörð. Samdist þeim séra Jóni um að Hermann hefði Fjörð allan gegn því að hann greiddi ákveðna upphæð til Jóns fyrir að láta eftir afnot af kirkjuhluta jarðarinnar.

Jón flutti sig síðan út á Hesteyri þar sem kirkjan hafði ítök í henni hálfri og var þar með lítilsháttar búskap auk þess að drýgja preststekjur sínar með smíði. Hermann greiddi honum ekki alla þá umsömdu upphæð fyrir að víkja af Firði, taldi það eiga að ganga upp í viðgerð á kirkjunni, sem hefði látið á sjá í Jóns tíð í Firði. Fjölskyldan flytur síðan út í Kross sem er yst í Mjóafirði og hefur þá verið löng leið fyrir séra Jón að fara til að messa í Fjarðarkirkju inn í fjarðarbotni. Það virðist vera að Hermann hafi fengið Mjófirðinga á sveif með sér í að hrekja Jón og fjölskyldu úr Mjóafirði.

„Haustið 1784 kom Hermann að Krossi, þar sem séra Jón var þá. Sagði hann við konu prestsins að hann ætlaði að láta taka börnin frá þeim og flytja þau upp á Hérað, en hún spurði þá hvort honum þætti það tiltækilegt, þar sem þau lægju í rúmunum klæðlaus og grindhoruð, en þá sagði Hermann að fyrst hún vildi ekki ganga að þessu, þá geti hún húkt yfir þeim og nagað um holdlausar hnúturnar á þeim, en hún svaraði þá, að hann talaði sem þrælmenni eins og hann væri maður til. En daginn eftir á hreppamóti harð bannaði Hermann öllum sóknarmönnum og lagði á reiði sína, ef nokkur dirfðist að rétta börnum séra Jóns hjálparhönd eða honum sjálfum. Hélst Jón við á Krossi þangað til um miðjan vetur 1785, að heimilið leystist upp. Voru Mjófirðingar tregir að hjálpa honum vegna banns Hermanns, en gerðu það þó sumir.“ (Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður-Prestasögur.)

Þau voru tvö stór áföllin sem dundu á séra Jóni og fjölskyldu í Mjóafirði. Annað var koma Hermanns í Fjörð og hin voru móðuharðindin sem gengu yfir landið 1783-1785. Sumarið 1784 reikuðu um sveitir landsins uppflosnað fólk máttvana af hor og hungri. Því auk eiturmóðunnar hafði veturinn á undan verið óhemju harður, firði hafði lagt út til ystu annesja og víða náði frostið hátt í metra ofaní jörðu. Hörmungarnar léku búsmalann jafnvel enn verr en mannfólkið, sem stráféll úr hor og hungri.

Þann 10. júní sumarið 1784 skrifaði, Jón Sveinsson sýslumaður S.Múla sýslu, sem hafði aðsetur á Eskifirði, bréf sem fór með vorskipinu frá Djúpavogi til Kaupmannhafnar þar sem m.a. mátti lesa þetta; „... Engin þinghá í allri sýslunni virðist svo vel sett, að hungursneyð verði þar umflúin jafnvel nú í sumar. Í flestum sóknum eru fleiri eða færri ýmist flúnir af jörðum eða fallnir úr sulti,,, verða því allir að deyja án undantekningar, sælir sem fátækir. Nema yðar Konunglega Hátign allra mildilegast af landsföðurlegri umhyggju líta vildi í náð til þessara yðar þrautpíndu fátæku undirsáta ...“. Það var við þessar aðstæður sem Hermann í Firði átti samtalið við prestfrúna á Krossi.

Það fór svo að séra Jón hrökklaðist úr Mjóafirði, en fram á vor dvelur hann samt í Firði undir verndarvæng Hermanns, eftir að fjölskylda hans hafði verið leyst upp á og send burt úr firðinum. Hermann hafði af manngæsku tekið að sér framfærslu prestsins gegn 16 ríkisdala meðgjöf, sem ekki kemur fram hver átti að greiða. Þegar Jón yfirgefur Mjóafjörð hirðir Hermann af honum smíðaverkfærin og sængina upp í skuld. Innheimtuaðgerðir Hermanns á hendur Jóni stóðu lengi yfir. Rúmum sex árum seinna, árið 1791, kærir Hermann hann fyrir kirkjustjórnarráði, stiftamtmanni og biskupi, að því er virðist vegna vangoldins uppihalds og skuldar við kirkjuna í Firði. Þá eru Jón og fjölskylda búin að búa bæði á Eiðum, Gilsárteigi og komin Ormsstaði.

Eiðavinir segja hér að ofan, að svo virðist sem Jóni hafi búnast sæmilega síðustu árin á Ormsstöðum. Það þó svo að bærinn hafi verið í eyði árin á undan og jafnvel talin óíbúðarhæfur þegar fjölskyldan kom í Ormsstaði. Ályktanir um góðan búskap telur Ármann Halldórsson vera dregnar af gerðabók hreppstjóra Eiðahrepps um tíundarskýrslu. Þar koma fram gjöld frá Ormsstöðum og að eitt árið hafi einungis tveir bæir í hreppnum verið hærri gjaldendur. En þá ber til þess að líta að börn hjónanna voru uppkominn og þeir Brynjólfur og Níels vinnumenn heima á Ormsstöðum.

Séra Jón þjónaði á Eiðum í 15 ár eftir að hann kom upp í Hérað úr Mjóafirði, en hafði sótt um lausn snemma árs 1800, stiftamtmaður synjaði honum viðstöðulaust um lausnina fyrr en á fardögum 1801. Það bréf barst Jóni aldrei því þegar bréfið kom í Ormsstaði "þá hafði séra Jón fengið lausn fyrir fullt og allt eftir armæðusamt líf og átakanlega ævihagi". Ingibjörg átti langt líf fyrir höndum þar sem ekki er alltaf kunnugt um hvar hún dvaldi, en hún lést 91 árs að aldri í Dölum Hjaltastaðþinghá hjá Ólafi syni sínum.

Börn þeirra hjóna eru talin hafa orðið alls 13 og 10 þeirra komust til fullorðinsára, Sigurveig þeirra elst fædd á Hjaltastað og Magnús þeirra yngstur fæddur í Mjóafirði. Er ekki óvarlegt að ætla að einhver barnanna þriggja sem ekki komust til fullorðins ára, hafi látið lífið í móðuharðindunum. Um þau er lítið vitað annað en að ein stúlka mun hafa heitið Bolette. Í Íslenskum æviskrám segir: Mikill kynbálkur er af séra Jón Brynjólfssyni og Ingibjörgu Sigurðardóttir, margt myndarfólk. Í ættum Austfirðinga segir: Margt var efnalítið af afkvæmi hans, en margt vel greint og góðsemdarfólk og ráðvant.

Nú þegar ég hef rakið í Íslendingabók ættartölu til "aumasta prests á Íslandi" og rifjað upp það sem við afi minn ræddum við eldhúsborð Jóns Sigvaldasonar um árið, hef ég m.a. komist að því að Jón Sigvaldason faðir afa míns átti báðir ættir að rekja til séra Jóns og Ingibjargar. Móðir hans Guðrún Jónstóttir var komin af Níels sem var bóndi á Hrollaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Og faðir hans Sigvaldi Einarsson var komin af Sigurveigu elsta barns þeirra presthjónanna, hún var húsfreyja í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá. þau Guðrún og Sigvaldi voru þremenningar.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir stolti yfir því að eiga ættir að rekja til svo þrautseigra og samheldinna hjóna, sem létu ekki erfiðleika sundra fjölskyldunni. Eins fyrrverða ég mig ekki fyrir það að eiga jafnlangt genin að sækja til annars austfirsks ættarhöfðingja, sem var Hermann Jónsson í Firði. En um Hermann er sagt í Íslendingabók; Hár vexti og sæmilega gildur. "Heldur þótti hann eigingjarn en ekki nískur, ráðríkur og ágengur nokkuð". Og í íslenskum æviskrám: "Var héraðshöfðingi í sveit sinni, auðgaðist mjög að jörðum og lausafé, búmaður góður og mikill atorkumaður til sjósóknar, rausnsamur og stórgjöfull við fátæklinga". Þetta fólk varð fyrir þeirri ógæfu að leiðir lágu saman í Mjóafirði, þegar yfir gengu mestu hörmunga ár Íslandssögunnar.

 

Ps. Ofanritað birti ég hér á síðunnu 14. apríl 2017. Við það væri litlu að bæta ef ekki kæmu til Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar. Þar segir í VIII bindi, í þætti um Hermanni Jónsson í Firði, af viðskiptum þeirra Hermanns og presthjónanna í Mjóafirði. Flest er það með blæ þjóðsögunnar. En að auki er haft eftir úr Árbók Espólín um séra Jón Brynjólfsson: "Hann hafði þolað hrakningar fyrri af Hermanni Jónssyni í Firði í Mjóafirði er þar var hreppstjóri og brokkur mikill." Málaferli mynduðust á milli prests og Hermanns af áðurgreindum sökum og fleirum.

Sigfús Sigfússon segir síðan af ferð sem Hermann fór gangandi upp á Hérað um vetrartíma.

Þar með iðraðist hann breytni sinnar við Jón prest og Ingibjörgu og vildi ná sættum af þeim. Víkur nú sögu upp að Eiðum. Það var einn dag að prestur kom út og sá mann koma álengdar. Hann gengur inn og segir við Ingibjörgu: -"Nú kemur Hermann hérna að framan, ég þekki hann af bláu hosunum hans. Mun hann nú vilja ná sættum ef mig grunar rétt. Heldurðu að þú getir fyrirgefið honum?" -"Nei", segir hún, "það er alveg ómögulegt að fyrirgefa honum, ef ég gæti skyldi ég gera það." -"Guð styrki þig, barn". Segir prestur; "ég fyrirgef honum af hjarta" segir hann og gengur í kirkju. Þóttist hún vita að hann baðst fyrir. En svo undarlega brá við að þegar Hermann kom var henni runnin öll reiði við hann og þakkaði hún bæn prests það síðan. Eftir það rippaði Hermann sakir þeirra og bað auðmjúklega þess að þau sættust við sig. Gekk það fyrir sér auðveldlega. Þá bar Hermann fram stórgjafir er hann skenkti þeim. Fór þá allt vel á með þeim og skildust þau vinir og héldu það vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Magnús virkilega skemmtileg lesning og vel skrifað.

Valdimar Samúelsson, 12.10.2018 kl. 23:36

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Valdimar.

Magnús Sigurðsson, 14.10.2018 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband