Eru Bakkabræður komnir á Þjóðminjasafnið?

Galtarstaðir-fram

Það eru til margar sögur af Bakkabræðrum, en sennilega er sú lífseigasta um sólskinið.  Halldór Laxness taldi að birtuskilyrðin í húsum þeirra hefðu lítið lagast þó svo það opinbera hefði sett reglugerð um glugga á þeirra tíð. Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra sagði að þó svo Bakkabræður hefðu stundað mögnuð heimskupör hefði þeim samt aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka. Nóbelskáldið og menntamálráðherrann voru nokkuð samstíga með það að sálin væri heillavænlegri en reglugerðin þegar kæmi að húsum.

"Það er þessi fegurð sálarinnar sem á Íslandi hefur átt heima í torfbyggingarlistinni fornu, einhverri sérstæðustu og merkilegustu náttúrubyggingarlist heimsins." sagði skáldið árið 1939 í ritinu Húsakostur og híbýlaprýði. Síðan þegar torfbærinn leið undir lok eftir 1000 ára þjónustu við þjóðina taldi skáldið að Íslendingar hefðu ekki fundið sálina í neinni stílmenningu þegar byggingalist væri annarsvegar, heldur hafi hún einkennst af handahófskenndum eftiröpunum, flumbrulegum stælingum og skynlausum afbökunum.

Þessar áratuga gömlu hugrenningar þeirra 20. aldar mannanna má sjálfsagt allar til sannsvegar færa. Einnig er hægt að færa rök fyrir því að við nálgumst nú óðfluga ókosti torfbæanna á ný, rakan og mygluna, við byggingu sálarlausra eftirapana byggðum í flumbrugangi með afbökuðum stæl. Þar sem myglan er borin inn samkvæmt ströngustu reglugerðum ásamt innfluttum byggingarefnum. Hvernig sem á því stendur þá virðast handabökin mislagðari eftir því sem reglurnar verða strangari og langt aðkominn efniviðurinn CE vottaðri.

Undanfarin ár hefur verið árviss skoðunarferð að vori út í byggingalist náttúrunnar. En þá hef ég farið að Galtastöðum-fram í Hróarstungu. Aksturinn þangað tekur mig ekki nema um 20 mínútur og er alltaf þess virði. Fyrst þegar ég fór í Galtarstaði fyrir nokkrum árum þá tók ég eftir því að það virtust standa yfir endurbætur á bænum og fór ég því þangað fljótlega aftur til að vita hvernig þeim miðaði. Nú hafa þessar skoðunarferðir staðið á fjórða ár og allt er við það sama, nema tímans tönn.

Galtastaða bærinn er sagður í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1976 og hafi þá þótt merkilegur m.a. vegna þess að þar er fjósbaðstofa. Aðeins ein önnur var til á öllu landinu, og áhugavert væri fyrir nútíma fólk að geta skoðað þannig mannabústað. Hinn merki hleðslumeistari Sveinn Einarsson (1909-1994) frá Hrjót endurbyggði suma torfveggina að Galtarstöðum skömmu eftir að bærinn komst í vörslu Þjóðminjasafnsins en síðan eru liðin mörg ár,,, - áratugir.

Þess vegna var svo ánægjulegt að sjá það fyrir nokkrum árum að framkvæmdir voru við Galtarstaði, kannski kæmi að því aftur að hægt væri að fá að skoða bæinn að utan og innan. Reyndar ber bærinn byggingasögu landsins vitni á margan hátt því við hann var byggt íbúðarhús úr asbesti árið 1960, með tíðarandans flata skúrþaki. Fyrir fjórum árum frétti ég að framkvæmdirnar hefðu verið á vegum Þjóðminjasafnsins og staðið þá í sambandi við asbest húsið með flata þakinu, sem stæði til að gera upp og koma upp í leiðinni loftræstikerfi fyrir gamla bæinn. 

Nú í vetur frétti ég það á förnum vegi að talsverðir fjármunir hefðu komið í Galtastaðabæinn á síðasta ári. Hefðu féð verið notaðir í vegagerð og það að koma fyrir pípuhliði. Hvernig mönnum hefur dottið í hug pípuhlið er ekki gott að átta sig á en sennilegra er að einhver hafi drepið niður fæti í rolluskít, frekar en að eitthvað hafi farið úrskeiðis á milli eyrnanna.

Pípuhliðið stendur eitt og sér langt úti í mýri og því spurning hvað miklar fjárveitingar þarf í girðingar áður en hægt verður að fara í að sinna merkilegustu náttúrubyggingalist heimsins.

 

Hin árlega vorferð í Galtarstaði var farin í gær og eru myndir úr henni hér fyrir neðan.

 

IMG_2276

Upp við þilið á bæjardyrunum hafa staðið aflóga gluggar úr asbestviðbyggingunni s.l. fjögur ár

 

IMG_2271

Fjósbaðstofan: beljurnar voru hafðar niðri og fólkið var upp í ylnum frá beljunum

 

IMG_2280

Að baka til má sjá að einn bær er heil þyrping af húsum, sem líta út eins og grænir hólar að sumarlagi, þarna er m.a. hlóðaeldhús í einum hól, búr í öðrum, heylaða, skemma osfv., alls 7 hús


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er þetta með eyrun Magnús.

En stundum er engum logið uppá kerfiskalla okkar og konur.

"Pípuhliðið stendur eitt og sér langt úti í mýri og því spurning hvað miklar fjárveitingar þarf í girðingar áður en hægt verður að fara í að sinna merkilegustu náttúrubyggingalist heimsins.".

Í þessu tilviki efa ég samt ekki að viljinn sé góður, og vonandi verður framhald á.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.5.2019 kl. 08:58

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér datt nú reyndar líka í hug að skýringin gæti verið skurðgrafa. Svona svipað og var lengi frameftir 20. öldinni þegar jarðýturnar voru látnar varðveita merkilegustu náttúrubyggingalist heimsins.

Ekki það að fólkið á Þjóðminjasafninu hafi ekki góðan vilja, heldur það að það er orðið mikið auðveldara að fá skurðgröfumenn til að koma fjárveitingu í lóg áður en tímarammi hennar rennur út, heldur en náttúrubyggingalistamenn.

Það er búið að skattleggja handverksmenn nánast út af sakramentinu svo að hægt sé að halda uppi fólki "með góðan vilja".

T.d. skilja það fáir sem eru með 2.500 kr á tímann fyrir skatta og gjöld, og þá um 1.500 kr í vasann hvernig standi á því að ef þeir fá handverksmann í vinnu þá þarf að greiða honum 8.000 kr til að dæmið gangi upp í að handverksmaðurinn fái sinn 1500 kall í vasann, já Bakkabræður hvað?

Magnús Sigurðsson, 5.5.2019 kl. 09:36

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Skemmtilegur fróðleikur. Mig minnir að á Torfustöðum í Miðfirði V-Hún hafi verið fjós fyrir neðan baðstofuna. Ég kom þar um 1951/2 en þá var timburbyggt ofan á fjósið. Ég á einhverjar myndir en þetta er áhugavert málefni og ættu menn að hugsa meir um fortíðina sérstaklega þegar byggingalist á í hlut.    

Valdimar Samúelsson, 5.5.2019 kl. 10:56

4 Smámynd: Óskar Kristinsson

Þó að þeir væru nú svolítið skertir blessaðir þeir Bakkabræður, er eg ekki viss um að þeir hefðu samþikkt að moka sandi upp úr holu sem aðrir væru að moka oní,eða allavega ekki að hafa það fyrir atvinnu.

Meira að segja bakkabræður horfandi á landeyjahöfn,skyldu þeir vera góðir í skákinni þessir.

Óskar Kristinsson, 5.5.2019 kl. 10:58

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Magnús lög okkar þ.e. þjóðminja safns lög leifa ekki heilbrigða skinsemi. Ef ég tek dæmi um Austurströnd bandaríkja þé geta áhugamenn hópað sig saman í kring um svona verk og fengið styrk og leifi til að ganga í ýmis verk svosem rannsóknir og verndun á Minjum. Mig minnir að Patricia Sutherland hafi einmitt tekið að sér verk og hlaðið upp gamlar hleðslur af langhúsi við Hudson flóa. Eftir þetta fór hún að rannsaka staðin og fann tvær beinagrindur sem hún sagði bein að voru af íslendingum. hún var reyndar fordæmd fyrir þau vísindi eins með Íslendingabyggðirnar uppi á Baffínseyju. Styrkir í það verk voru ekki til að finna neytt um íslendinga. :-)

Valdimar Samúelsson, 5.5.2019 kl. 11:10

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar Óskar og Valdimar.

Óskar; þetta snýst um jafnvægi. Það er t.d. ekki óvitlaust að moka ofan í gamlan framræslu skurð þó það sé verið að moka upp úr honum á hinum endanum ef það er gert með þarfir manna og vaðfugla í huga. En ekki vísindalega ímyndaðrar loftslagsfræði með verkfræðilegu ívafi til að keyra upp hagvöxtinn.

Þetta hefur allt að gera með að halda jafnvægi á milli "thinker" og "doer" Ef jafnvægið raskast þá er eins víst að eins fari fyrir nýbyggingum og með merkilegustu náttúrbyggingarlist heimsins að báðar verði myglunni og jarðýtunni að bráð engum til gagns nema hagvexti á exelskjali líkt og með Landeyjahöfn. 

Valdimar; það getur verið að aðferðafræðin vestanhafs sé farin að seytla inn í íslensku fornleifafræði lögin, t.d. er fornleifafræðistofan Eldstál ehf með uppgröft og rannsóknir í Stöðvarfirði þar sem Þórhaddur gamli á að hafa numið fyrstur land.

Þar hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að minjarnar séu frá því fyrir landnám en vilja samt meina (sennilega til að styggja ekki opinberu Íslandssöguna) að um veiðistöð hafi verið að ræða, svona nokkurskonar grunnbúðir fyrir landnám Þórhadds. 

Það má segja sem svo að Eldstál ehf ætli að passa sig á því að raska ekki Íslandssögunni svo ekki fari eins fyrir þeim og Patriciu Sutherland þegar hún rústaði opinberu mankynssögunni og var gerð brottræk úr fræðimannasamfélaginu.

Gallinn við kenningu Eldstáls ehf er sá að Þórhaddur gamli var sagður svo mikill náttúruunnandi að hann lét friða allt kvikt í sínu landnámi. Svo það er spurning hvort það þurfi hvorteð er að krukka í Íslandssöguna. Og þá reikna ég með að þeir gætu legið í því líkt Ptricia.

Magnús Sigurðsson, 5.5.2019 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband