Vök á vatni

IMG_0379

Núna í vikunni spurði ég verkfræðinginn þegar við stóðum yfir drulluskurðinum; "mikið ert þú hugsandi vinur, ertu nú að hugsa um mold?". Hann svaraði játandi, og bætti við að bragði "og væntanlega ert þú að hugsa um steypu". Ég jánkaði því enda hefur ekki annað komist að í höfðinu á mér frá því fyrst ég man.

Á þessum árstíma hefur steypuhrærivélina venjulega verið komin í gang og ævintýrum sumarsins verið blandað út í hræruna. En nú bregður svo við að yfir mig hefur verið mokað, eða í sannleika sagt mér komið fyrir í rofabarði. Ég hef því hugsað til þess hvernig aldur færist yfir og þrek fer þverrandi.

Eitt af því sem steypan hefur gefið í gegnum tíðina er útivera, og að sumarlagi oft undir sólbjörtum himni. Næstu vikurnar má ég gera mér það að góðu horfa út undan rofabarðinu á merlandi vatnsflötin þar sem nú heitir Vök í Urriðavatni, eða eins og ber að segja samkvæmt tíðarandans toga - Vök-Baths.

Þarna er mér ætlað að rölta á eftir gólfslípivél sem skrapar niður grjót harða steypu frá í vetur, og á að ná fram einhverskonar lúkki sem engin veit hvernig á að vera. Hávaðinn er ærandi og ég langt í frá að vera vinsælasti maðurinn í holunni. Rafvirkinn kemur annað slagið og lítur leiftrandi augnaráði niður á gólfið og öskrar svo upp í fésið á mér "já ég sé að þú ert á góðri leið með að finna gullið".

Vök-Baths er ætlað að trekkja til sín túrista, þessi miljarða framkvæmd mun víst skila múltí miljörðum þegar fram líða stundir. Ég ræddi það við píparann núna í fyrradag að mig rámaði í að þetta væri gamall draumur frá því fyrir 1970. Áður en sólstrandarferðir urðu inn hjá landanum. Þá dreymdi fólk á Héraði um að við Urriðavatn mætti koma upp ylströnd þar sem vakir væru í ísnum og heitt vatn undir.

Hvort túristarnir ala með sér sama draum og gamlir Héraðsbúar, og eigi eftir að kaupa sér bað í Vök til viðbótar við Jarðböðin, Leirböðin, Saltböðin og Bláa Lónið, og guð má vita hvað á eftir að koma í ljós. En í fyrsta skipti er mig farið að dreyma um að komast í sumarfrí, út í íslenska sumarið. Ég satt að segja man ekki til að það hafi gerst áður þegar steypa er annars vegar.

Set hér inn myndband af gamalli steypu, þegar sumarið var tíminn og hjörtun ung.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband