14.8.2019 | 21:12
Hundakúnstir á Havarí
Þá hefur þjóðvegur eitt verið formlega opnaður með bundnu slitlagi, allan hringinn. Þetta gerðist þegar samgönguráðherra klippti á borða austur á fjörðum við Berufjarðarbotn. Árið 2017 var þessi rúmlega 4 km vegspotti í Berufjarðarbotni, boðin út með flugeldasýningu og um leið boðuð mikil tímamót í samgöngusögu landsins.
Vegagerðinni, ásamt bændum og búálfum, hafði fundist Berufjarðarleiran álitleg sem vegstæði. Um leið var tilkynnt um þau tímamót að þjóðvegur eitt yrði allur orðinn með bundnu slitlagi 1. september 2018, þ.e. við verklok vegagerðarinnar í Berufirði. Reyndar var þjóðvegur eitt fluttur "um firði" við sama tækifæri, enda var fyrirsjáanlegt að tímamótamarkmiðið í samgöngumálum landsins myndi ekki nást nema með pólitískum skollaleik og sá þjóðvegur eitt sem svo hét til 2017 er reyndar ekki enn frír við holótta malarkafla.
Þessa ákvörðun tók þáverandi samgönguráðherra og lengdi með því þjóðveg eitt um tugi kílómetra. En eitthvað fóru áformin ekki alveg samkvæmt exelskjalinu, hvað þá dagatalinu, og varð ársseinkun vegna þess að vegurinn sökk í botnlausa leiruna. Eftir að hafa keyrt fjallshlíðum á haf út í tæpt ár frá fyrirhuguðum verklokum var nú loks hægt að opna vegspottann af núverandi samgönguráðherra sem plataði sig til samgönguráðherradóms með því að vera á skjön við þann sem hóf verkið hvað veggjöld varðar.
Eftir fánum skrýdda borðaklippingu voru boðnar veitingar á vegan veitingastaðnum Havarí sem er á fyrrum bújörðinni Karlsstöðum við Berufjörð. Þar héldu ráðherrann og forstjóri vegagerðarinnar, sem bæði eru dýralæknar, ræður þar sem rómað var að það takmark hefði náðst að ljúka við bundið slitlag á þjóðveg eitt allan hringinn. Jafnframt meig ráðherrann utan í veggjöld og vegtolla út og suður svo til vegstyttinga geti komið, jarðgangagerðar og almennra samgöngubóta. Enda mátti skilja á máli ráðherra að landsfeðrunum veiti ekki af hverri krónu sem hægt er að snúa út úr landanum.
Það má því segja að tímamótin í Berufjarðarbotni hafi verið vörðuð hundakúnstum og hafarí. Og er það kannski tímanna tákn að þegar hringurinn lokaðist var boðið upp á vegfjöld og vegan af uppgjafa dýralæknum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.