Sviðinn akur sameiningar

Það mætti ætla sem svo að flestir fögnuðu því að komast aftur heim með því að vera áfram heima, líkast því að komast í himnaríki án þess að að geispa golunni. En nú stendur til að sameina minn fyrrum heimabæ Djúpavog við minn núverandi heimabæ, Egilsstaði. Reyndar á að kjósa um sameiningu fjögurra sveitarfélaga þann 26. október næstkomandi, Borgafjörð-eystri, Seyðisgjörð, Fljótsdalshérað og Djúpavog. Sveitarfélagið verður það langstærsta á landinu að flatarmáli verði sameining samþykkt. Reyndar hefur Fljótsdalshérað verið það víðfeðmasta til skamms tíma og hin eru víðfeðm líka nema þá helst Seyðisfjörður.

Ég hef ekki hugsað mér að kjósa um þessa sameiningu af þeirri einföldu ástæðu að mér er hlýtt til minna nágranna. Sjálfur bý ég á Fljótsdalshéraði sem er lang fjölmennast, og þykist þar að auki vita að þar munu völdin verða. Mér hefur reyndar aðeins dottið í huga að flytja á Djúpavog til að geta greitt atkvæði gegn sameiningu, svo hlýtt er mér til Djúpavogsbúa. Það hefur einfaldlega allstaðar sýnt sig að minni sveitarfélögin hafa lítið upp úr sameiningu og hingað til hefur þeim mörgum hverjum nánast blætt út og það á ekki síður við um þau sem hafa sameinast í Fljótsdalshérað.

Nú er það svo að markmið allra sveitarfélaga sem hafa sameinast undanfarin 30 ár er að efla búsetu og helst auka íbúafjölda á svæði sveitarfélagsins og efla samfélag svæðisins í heild. Fá markmið hafa misfarist eins hrapalega og í sameiningum á Austurlandi undanfarna áratugi. Það má segja að þessi sameininga bylgja hefjist upp úr 1990. Árið 1992 sameinast syðstu hreppar S-Múlasýslu, Geithellahreppur, Búlandshreppur og Beruneshreppur. Upp úr þeirri sameiningu varð til Djúpavogshreppur. Í fyrstu tveimur sveitarstjórnum Djúpavogshrepps átti ég sæti.

Þess er skemmst að minnast að sveitahrepparnir tveir Geithellna- og Beruneshreppur fóru fljótlega mjög svo halloka við þessa sameiningu. Skólar voru lagðir niður og samkomuhús seld. Fólksfjöldi í sameinuðu sveitarfélagi var þá um 600 manns, síðan þá hefur orðið um 20% fækkun og þá mest í sveitahreppunum. Djúpavogshreppur fór reyndar allur halloka fyrsta áratuginn eftir sameiningu sem best má sjá á því að börnum á grunnskóla aldri fækkaði frá því að vera yfir 100 í tæp 50.

Árið 1992 skrifaði ég tvær greinar í Austra um fólksfjölda- og sameiningamál. Þar var m.a. þetta um íbúaþróun; "Ef litið er til síðustu 20 ára hefur fólki fjölgað um 12% á Austurlandi á meðan fólksfjölgun á Íslandi hefur verið um 20% á sama tímabili. Þegar sama tímabil er skoðað má sjá að á Austurlandi eru nokkrir bæir sem hafa hlutfallslega vaxið hvað örast á landsbyggðinni og jafnvel þó litið sé til landsins alls. Höfn með fólksfjölgun upp á um 55%, Djúpivogur 35%, Egilsstaðir 78% og Fellabær 98%."

Séu þetta 20 ára tímabil borðið saman við þau 27 ár sem á eftir hafa komið er útkoman skelfileg. Fólki á Austurlandi hefur fækkað u.þ.b. 20% á meðan fjölgað hefur um u.þ.b. 30% á Íslandi. Þetta hefur gerst þrátt fyrir "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar". Austurland er í raun ekki lengur til sem heild eins og það var fyrir 30 árum.

Hornfirðingar hafa forðað sér suður og Vopnfirðingar eru leiðinni norður. Austurlandskjördæmi hefur verið sameinað Suðurkjördæmi og Norðurlandskjördæmi-eystra. Fjórðungurinn er nánast rjúkandi rúst þrátt fyrir endalausar sameiningar. Og núna tala menn fjálglega um heimastjórnir í stóru sameinuðu sveitarfélagi fyrir minni sveitarfélögin, á svipaðan hátt og lofað var að halda úti skólum og annarri grunnþjónustu í þeim minni í upphafi sameiningaæðisins.

Svo skýtur annað slagið upp hugmyndum um að sameina bara allt Austurland í eitt sveitarfélag. Sú hugmynd er í raun ekki ný, þetta er það sem valið stóð um áður en sameininga ósköpin riðu yfir. Byggðahreyfingin Útvörður benti á þessa leið og urðu nokkrar umræður um hana níunda ártugnum, við lítinn fögnuð sveitarstjórnarmanna. Ég benti á þessa leið í Austragrein 1992 þegar mér var mikið niðri fyrir vegna sameiningarinnar á Djúpavogi. 

"Til er önnur leið sem sveitarstjórnarmenn og stjórnvöld virðast hafa komið sér saman um að þegja í hel. Það er þrískipting valdsins og héraðastjórnir. Þessa leið hefur byggðahreyfingin Útvörður útfært mjög nákvæmlega. Ef hún yrði farin myndi hún færa vald og fjárráð út í landshlutana án þess að stórkostleg sameining sveitarfélaga þyrfti að koma til. Einnig myndi ef þessi leið yrði farin, hægt að verða við óskum stærsta hluta þjóðarinnar um sjálfsögð mannréttindi, það er jöfnun atkvæðisréttar."

Nú er svo komið að Egilsstaðir sem tilheyra Fljótsdalshéraði hefur verð til skamms tíma eitt skuldugasta sveitarfélag landsins, af er sem áður var þegar Héraðs-hreppar voru með þeim betur reknu á landinu. Djúpivogur er með tiltölulega litlar skuldir á hvern íbúa í stóra samhenginu og meira en helmingi minni en eru á Fljótsdalshéraði. Skuldir á hvern Djúpavogsbúa munu meira en tvöfaldast við sameiningu. Þá er því haldið fram sem rökum fyrir sameiningu að Djúpivogur skuldi innviðum sínum viðhald sem hafi farið fram í öðrum sveitarfélögum með skuldsetningu. 

Sennileg er þar átt við fimleikahöll og körfuboltavöll sem hafist var handa við á Egilsstöðum þegar ljóst var að sameining stæði fyrir dyrum. Þessum framkvæmdum hefði því sem næst verið hægt að sleppa ef íþróttamannvirkin á Egilsstöðum væru notuð eins og til stóð þegar þau voru byggð fyrir börn í upphafi. En ekki til að halda úti körfuboltaliði rígfullorðinna manna sem er þar að auki oft mannað fjórum útlendingum af þeim fimm sem eru á samtímis inn á vellinum. Þessi mannvirki blasa öll við fyrir utan stofugluggann minn og kárungarnir segja að annað varamannaskýlið við nýja körfuboltavöllinn sé fyrir Seyðfirðinga hitt er væntanleg fyrir Borgfirðinga og Djúpavogsbúa.

Samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra hefur lagt út sín tromp varðandi sameininguna. Þau eru að mestu leiti veggjöld í anda Vaðlaheiðarvitleysunnar. Hann virðist halda að  fjallvegurinn yfir Öxi styttist við það eitt að malbika hann og leggja á veggjöld. Verður fólk tilbúið til að greiða 3000 krónur aukalega í hvert skipti sem farið er yfir Öxi í miðbæinn í skiptum fyrir það að losna við að þvo bílinn í rigningatíð? 

Þó hver mógúllinn á fætur öðrum mæri sameiningu sveitarfélaga hefur áratuga reynsla einungis skilið eftir sviðinn akur. Þó svo að hvert grásprengda sveitarstjórnarséníið á fætur öðru komi nú fram með gamla frasa á við að sameining gefi "at­vinnu­líf­i og íbúaþró­un­ gríðarleg tækifæri og  með því gæt­um við orðið raun­veru­leg­ur val­kost­ur við höfuðborg­ar­svæðið". Þetta eru í raun frasar sem þessir gömlu menn lærðu um svipað leiti og þeir gengu til fermingafræðslu fyrir 50 árum síðan. Stingandi nú sem fyrr höfðinu í sandinn þegar við blasir sviðinn akur.

Ég skora á mína fyrr um heimabyggð að treysta á sjálfa sig sem hingað til og sameinast ekki minni heimabyggð því þá gæti orðið um bónbjargarleið að fara með veggjöldum í varamannaskýlið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Liggur ekki beinna við að Djúpavogshreppur sameinist Fjarðabyggð, komist hann ekki hjá sameiningu?

Annars er ég fullkomlega sammála þér Magnús, sameining er ekki endilega ávísun á bættan hag íbúa. Sjálfsagt má finna einhverjar slíkar sameiningar sveitarfélaga þar sem hagur íbúa hefur ekki versnað og hugsanlega rekstur að einhverju leyti batnað. En slík dæmi eru sjaldgæf, mun algengara að mál hafa þróast á hinn veginn, einkum fyrir þau sveitarfélög sem eru á jaðrinum, landfræðilega eða efnahagslega.

Þá er nokkuð undarlegt að ætíð sé miðað við höfðatölu, að landfræðilegur möguleiki eða ómöguleiki skuli aldrei vera með í umræðunni.

Gunnar Heiðarsson, 23.10.2019 kl. 17:48

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar og takk fyrir innleggið. Þú spyrð hvort ekki liggi beinna við að Djúpavogshreppur sameinist Fjarðabyggð, komist hann ekki hjá sameiningu.

Djúpavogshreppur liggur að Fjarðabyggð eftir að Breiðdalshreppur sameinaðist Fjarðabyggð fyrir ári síðan. Djúpavogshreppur liggur líka að Fljótsdalshéraði.

Stjórnsýsla Fjarðarbyggðar fer að mestu fram frá Reyðarfirði og þangað eru yfir 120 km frá Djúpavogi, um þjóðveg eitt að fara.

Stjórnsýsla Fljótsdalshéraðs er á Egilsstöðum og þangað eru tæpir 90 km frá Djúpavogi, þ.a. um 20 yfir fjallveginn Öxi. Vegur um Öxi hefur verið sameiginlegt hagsmunamál Djúpavogsbúa og Fljótsdalshéraðs, eins munu Seyðfirðingar og Borgfirðingar hafa verulegan hag af Axarvegi.

Í Berufirði er laxeldi og laxasláturhús á Djúpavogi sem slátrar einnig fyrir laxeldið í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði, þannig að samvinna er talsverð milli fyrirtækja í Fjarðabyggð og Djúpavogi.

Ferðaþjónusta er mikil í Djúpavogshreppi enda svæðið bæði einstakt og vinsælt af ferðamönnum. Mörg skemmtiferðaskip koma til Djúpavogs m.a. til að fara með farþega í Hornafjörð og að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi.

Fyrir skemmstu könnuðu sveitarfélögin Skaftárhreppur, Hornafjörður og Djúpavogshreppur sameiningarkosti sveitarfélags sem hefði náð frá sunnanverðum Austfjörðum allt suður til Kirkjubæjarklausturs á Suðurlandi. Fallið var frá þeim hugmyndum, enda vegalengdir miklar t.d. eru 110 km á milli Hafnar og Djúpavogs.

Djúpavogshreppur að mínu mati, er þannig í sveit settur að hann mun alltaf plumma sig best sjálfstæður. Það ætti allavega ekkert að liggja á því að sameinast sameiningarinnar vegna því aftur verður tæplega snúið. Eins hafa Djúpavogsbúar blómstrað síðustu ár og þurfa ekki að hafa  minnimáttarkennd fyrir neinum á nokkurn hátt.

Sjálfur var ég spenntur fyrir sameiningu míns gamla heimabæjar við Hérað þegar þreifingar fóru af stað, ef á annað borð þyrfti að sameinast. En þegar forsendurnar liggja fyrir þá held ég að það væri glapræði fyrir Djúpavogsbúa að sameinast inn í skuldahít. Íbúar á Djúpavogi standa skuldalega vel með um 30% skuldahlutfall á íbúa.

Það sýnir kannski best hve sameining sveitarfélaga er undarlegur bisniss að Fljótsdalshérað skuli vera með skuldugustu sveitarfélögum landsins og stutt síðan það var á gjörgæslu, þegar haft er í huga að fyrir 20-30 árum þá voru Héraðshrepparnir með skuldminnstu sveitarfélögum landsins.

Nú er Fljótsdalshreppur sá eini sem ekki tilheyrir Fljótsdalshéraði og hefur aldrei sameinast. Hann verður skuld minnsta og best setta sveitarfélag á Austurlandi ef til þessarar sameiningar kemur.

En Djúpavogsbúar ákveða sína framtíð sjálfir á laugardaginn og ekki fer ég á kjörstað til að hafna þeim frekar en öðrum góðum grönnum.

Magnús Sigurðsson, 23.10.2019 kl. 19:31

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér varða það á í þessum pistli að gæta ekki nógu vel að því þegar ég kannaði núverandi íbúafjölda á Austurlandi að Hornafjörður telst ekki lengur til Austurlands það sama á við Bakkafjörð.

Þegar tekið er tillit til þessa þá hefur fækkun íbúa á því svæði, sem taldist áður til Austurlands, frá því 1992 orðið um 2%.

Er það amt nógu skelfilegt þó svo ekki sé bætt við 0 aftan við 2% fækkun, miðað við þá 30 % fjölgun sem hefur orðið á landsvísu. 

Magnús Sigurðsson, 27.10.2019 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband