Þjóðkirkja í þúsund ár

 IMG_5392 

Sumarið 1901 fór Daniel Bruun um Austurland, stundaði fornleifarannsóknir og ferðaðist um öræfin norðan Vatnajökuls. Um ferð sína skrifaði hann ferðasögu "Ved Vatnajökuls Nordland", þar segir m.a. þetta; „Stutt var það tímabil, sem Íslendingar voru grafnir að heiðnum sið, aðeins 125 ár, því eftir kristnitöku á alþingi árið 1000, var enginn lagður skartklæddur í haug með dýrgripum sínum, skrauti, vopnum, hestum og hundum.

Eftir það var aðeins blótað á laun á stöku stað og Þór og Freyr lítt færðar fórnir. Kirkjurnar komu í stað hofanna og klukkur hringdu til tíða, þar sem fjöll höfðu fyrr bergmálað baulan og gnegg blótpeningsins. En jafnvel þótt ásatrúin gamla hefði þannig – af stjórnmálalegum skynsemisástæðum – opinberlega vikið fyrir hinum nýja milda sið, ríkti engu að síður andi víkingatímans meðal þess óstýriláta, stríðaglaða fólks, með blóðhefndina í öndvegi, en lög sæmdarinnar lituðust hugsunarhætti víkinganna.

Þá voru hér hetjur er dáðu göfugan dauðdaga með sverð í hendi og við hlið þeirra og þeim jafnfætis í þjóðfélaginu stóðu frjálsbornar konur. Við þekkjum þetta samfélag nær eingöngu af sögunum, því fáar fornaldarminjar hafa fundist, er varpa ljósi yfir þessa tíð.“ (Múlaþing 7. Bindi bls 173 / Daniel Bruun – Við norðurbrún Vatnajökuls)

Það má álykta sem svo að ekki hafi strax orðið miklar breytingar á Íslandi við það eitt að taka upp hinn "nýja milda sið", eins og Daniel Bruun kallar kristnitökuna. Á eftir fór Sturlungaöld með blóðhefndum fornaldar og að henni lokinni fóru biskupar landsins með völdin svo til óskoruð. Síðustu tveir Hóla biskupar í kaþólskum sið voru þeir Gottskálk Nikulásson og Jón Arason. Gottskálk fékk viðurnefnið "grimmi", af honum fór sú þjóðsaga að hann hafi tekið upp svartan galdur ættaðan aftan úr heiðni til að afla kirkjunni eigna. Um Jón biskup Arason og syni hans var sagt hið forn kveðna; - "öxin og jörðin geyma þá best".

IMG_2816

Mósaík mynd af Jóni biskup Arasyni í Hólakirkju. Jón er stundum talinn síðasti íslenski höfðinginn af gömlum sið

Á eftir siðaskiptin seinni um 1550 má segja sem svo að göfugur dauðdagi hafi endanlega aflagst á Íslandi, en þá tók ríkisvaldið við af kirkjunni að framfylgja siðferðilegri lagatúlkun, og gerði það með sínum Stóradómi og Drekkingahyl. Þá var tekið upp á að drekkja konum sem eignuðust börn utan hjónabands og karlmen hálshöggnir, auk þess sem teknar voru upp galdrabrennur 100 árum eftir að þær fóru hamförum í Evrópu. Danska ríkisvaldinu þótti flest til þess vinnandi að siða landsmenn, og gekk mun lengra en hinn "nýji mildi siður" frá því árið 1000. Nú áttu Íslendingar ekki lengur til neinna innlendra höfðingja með máls sín að leita.

Í skrifum Brunn um Ísland má bæði sjá hvað honum þótti vænt um land og þjóð, auk ómetanlegs fróðleiks sem hann safnaði vítt og breitt um land. Þegar hann ferðaðist um landið í rannsókanaferðum sínum skrifaði hann einnig punkta um það sem honum þótti sérstakt, sem hann birti síðar í blaðagreinum og bókum. Í bókunum Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem bókaútgáfa Arnar og Örlygs gaf út árið 1987 um Íslandsferðir Bruun, er lýsing hans á sunnudegi í Skagfirskri sveit árið 1898.

„Á sunnudögum liggur öll vinna niðri nema bjarga þurfi heyjum. Orf og hrífur eru lögð upp á húsþökin. Fólkið fer í betri fötin, hestar eru sóttir í haga og söðlaðir og síðan er riðið í þeysireið til kirkjunnar. Konurnar reiða minnstu börnin í keltu sinni, þau, sem eru ögn stálpaðri, eru bundin í söðul, en stærri krakkarnir ríða einir, strákarnir stinga tánum í ístaðaólarnar, þegar þeir ná ekki ístöðunum. Hundarnir elta.

Hópar koma ríðandi frá hverjum bæ og farið er yfir stokka og steina, ár og læki, en allir stefna til kirkjunnar. Hestunum er stungið inn í hestarétt, sem er á flestum kirkjustöðum, og þar bíða þeir yfir messutímann. Fólkið kemur yfirleitt snemma til kirkjunnar, því margt þarf að gera áður en guðþjónustan hefst. Um margt er skrafað og skeggrætt, eldra fólkið spyr frétta og ræðir heyskaparhorfurnar, en unga fólkið leitar hvort annað uppi, og eru þar gefin heit, sem binda alla ævi meðan reikað er á milli grasi gróinna leiða og hrörnandi krossa í kirkjugarðinum. Áður en konurnar ganga í kirkju fara þær inn í bæ til að klæða sig úr reiðfötunum og skipta á reiðhattinum og litlu skotthúfunni, sem fest er í hárið, og jafnvel, ef eitthvað mikið er um að vera, að klæðast hátíðarbúningi. - Aðkomumenn eru spurðir spjörunum úr, hvaðan þeir komi, og hvað þeir séu að gera, hvert þeir ætli, hvar þeir hafi fengið hesta o.s.frv. og auðvitað verður að gefa greið svör við öllum spurningunum.

En nú gengur presturinn fram og heilsar kirkjugestunum áður en hann fer og klæðir sig í hempuna, og svo er klukkunum hringt, - Presturinn gengur í kirkju í fylgd meðhjálparans. Karlar sitja hægra megin í kirkjunni en konur til vinstri. Jafnskjótt og konurnar setjast lúta þær höfði og halda hvítum klút fyrir andlitinu og gera bæn sína. Víða er lítið orgel, sem einhver úr söfnuðinum leikur á, en þótt ekkert sé hljóðfærið hljómar söngurinn vel. Oft syngja ungar stúlkur í kór og leiða sönginn, allar eru þær smekklega klæddar í fallegum búningum. Daginn áður hefur maður ef til vill mætt þeim í vinnufötum við rakstur í túninu með flaksandi hár, eða lítinn klút bundinn um það í hnakkanum, í stuttum pilsum og mórauðum, grófgerðum sokkum, sem bundnir eru fyrir neðan hné með ólum. Þær ganga öruggar og djarfar til vinnunnar og hoppa lipurt og létt yfir polla og skurði á skinnskóm sínum.

Stundum er kirkjugestum veitt kaffi, og þá oft drukkið í baðstofunni.

En þegar öllu þessu er lokið, stíga kirkjugestir aftur á hestbak og ríða á brott í smá hópum. Piltarnir láta spretta rösklega úr spori, en ungu stúlkurnar hoppa fimlega í söðulinn og fylgja þeim hiklaust eftir.

Sunnudagskyrrðin hvílir yfir sveitinni. Ekkert brýnsluhljóð heyrist, engar heybandslestir á ferðinni, og engir lestarmenn á leið úr kaupstað, einungis glaðir hópar fólks á heimleið frá kirkju sinni. Varla er hægt að sjá að grasið á þaki gömlu kirkjunnar bærist í golunni og enn síður á leiðunum í kirkjugarðinum, eða á bæjarþakinu, þar sem hundurinn liggur eins og hann sé á verði. Þokuhnoðrar hylja fjallstindana, en sólin ljómar yfir engjunum og ánni, sem bugðast eftir dalnum, og hún skín á bæina, en bláir reykir stíga upp frá þeim, og úti við sjóndeildarhringinn er hafið blátt og vítt.“. (Ísl. Þjóðlíf I bindi bls 36-37)

IMG_2732 

Prédikunarstóll Víðimýrarkirkju og "hið virðulega kirkju inni". Í byrjun 18.aldar bannaði Jón biskup Vídalín prestum að tala blaðalaust úr ræðustól og þess vegna á að vera gluggi á þekjunni ofan við prédikunarstólinn í öllum torfkirkjum svo presturinn geti lesið stólræðuna. Sagt var að einn prestur hafi skrifað biskupi og spurt hann hvað ætti að gera ef hundur kæmi upp á kirkjuþakið, sem ekki var óalgengt á meðan á messu stóð, og settist þar á gluggann. Biskup svararði "sigaðu, blessaður sigaðu, og seppi mun fara"

Til að gefa örlitla innsýn í tíðaranda þess tíma sem Bruun var á ferð er hér gripið niður í bækurnar Íslenskt Þjóðlíf. Í Hruna spurði Bruun séra Steindór Briem um siðferðisástandið og hvort það væri ekki á lágu stigi, þar sem konur og karlar svæfu í sömu baðstofu og afklæddust hvert í annars augsýn, en presturinn sagði að vaninn gerði það að slíkt hvorki vekti hneykslan né æsti kynhvötina. „Í prestakallinu fæðast 12-14 börn árlega, en ekki nema eitt óskilgetið annað hvert ár eða svo“.

Sýnilegt er að Bruun þykir mikið til presthjónanna og heimilisfólks í Hruna koma,,, „Briemsættin er mikils metin og áhrifamikil á Íslandi. En dálítið kemur það einkennilega fyrir sjónir, hvernig fjölskyldan umgengst heimilisfólkið daglega, t.d. sefur dóttirin í baðstofunni, og það þó svo fjölskyldan sé meðal fremstu ætta landsins“. 

Þær athafnir sem fóru fram í kirkjunum voru auk guðþjónusta, - brúðkaup, jarðarfarir og ferming, sem má segi að í þá daga hafi verið nokkurskonar grunnskóla próf ungdómsins sem lauk með að gengið var til spurninga. Sjaldgæft var að ungabörn væru skírð í kirkju því að til þess þurfti að reiða þau á hestbaki langar leiðir, þannig að skírnin fór fram heima í baðstofunni og því voru skírnarfontar óalgengir í torfkirkjunum.

Brúðhjón héldu saman heim í bæinn úr kirkjunni til brúðkaupsveislu í baðstofuna, hið stóra sameiginlega herbergi íslensku bæjanna, þar sem unnið var, sofið og dvalist. Þar var brúðarsængin, jafnvel í sömu röð og önnur rúm baðstofunnar, og í henni fæddust hjónunum börnin. Þar voru hinir látnu sveipaðir laki og sálmabókin lögð yfir brjóstið, fyrir kom að líkið lægi þannig í rúmi sínu yfir nótt í baðstofunni ásamt heimilisfólki, áður en það var flutt í skemmu þar sem það stóð uppi til jarðarfarardags.

Hinsta förin hófst heima við bæ á kviktrjám á milli tveggja hesta þar sem líkkistan var reidd til kirkju í fylgd heimilismann og þeirra sveitunga sem til líkfylgdar mættu þegar hún fór fram hjá. Eftir líkræðu prestsins var kistan borin út og látin síga ofan í gröfina í kirkjugarðinum við kirkjuvegginn. Stundum kraup allt fólkið á kné á meðan mokað var ofan í gröfina. Hver og einn signdi yfir hana áður en gengið var á brott. 

IMG_4713

 Kirkjugarðurinn, sem umlykur Hofskirkju í Öræfum, með öllum sínum upphleyptu leiðum, þannig að garðurinn stendur mun hærra en umhverfið í kring. Engu er líkara en að þar hafi verið jarðsett í gegnum tíðina gröf ofan á gröf, þannig að kirkjan komi til með hverfa á endanum ofan í svörðinn

Daniel Bruun var samála Nóbelskáldinu um það að húsagerðalist torfkirknanna, sem rekja mátti allt aftur á söguöld,  hefði verið mun fegurri og hátíðlegri en kirknanna sem á eftir komu, sem Bruun taldi skorta allan svip byggingarlistar ef miðað var við torfkirkjurnar, jafnvel þó svo að ekki hefði verið hægt að þekkja þær frá öðrum gripahúsum þegar komið var í fyrstu á bæjarhlaðið. En þannig komst Nóbelskáldið að hnitmiðuðu orði, eins og honum einum var lagið, um byggingasögulegt gildi gömlu þjóðkirkjunnar úr torfi; 

„Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús. , , - og þótt vígindin í klömbruhnausunum séu reglulegri í sumum heyhlöðum í Skagafirði, og fjárhúsum, þá hef ég enga kirkjuveggi séð fegurri á Norðurlöndum.“

Enn má finna á Íslandi nokkrar torfkirkjur. Þær sömu og Daniel Bruun rannsakaði þegar hann var í ferðum um Ísland, sem átti hug hans allan um áratuga skeið. Þessar kirkjur hafa verið varðveittar í sinni upprunalegu mynd og eru ómetanleg þjóðargersemi þó svo að stærð þeirra sé ekki mikil, og efniviðurinn langt frá því að slaga í það sem þarf í meðal hesthús, þá er enn þann dag í dag vandfundnir fegurri kirkjuveggur.

 IMG_2728

Víðimýrarkirkja, sú sem Halldór Kiljan Laxness vildi meina að væri eitt merkilegasta hús á Íslandi. Eins má segja að einn frægasti sálmur sem ortur hefur verið á íslenska tungu hafi þar orðið til, en hann er  "Heyr himna smiður" eftir Kolbein Tumason á Víðimýri, héraðshöfðingja Skagfirðinga á Sturlungaöld, sálmurinn er jafnframt talinn elsti varðveitti sálmur Norðurlanda

  

IMG_2833

Saurbæjarkirkja í Eyjafirði er gott dæmi um hvernig kirkjuklukkum var fyrir komið á stafnþili. Eins voru kirkjuklukkur stundum hafðar innandyra, eða í sáluhliðinu og einnig var á einstöku stað sérstakt klukknaport í nágrenni kirkjunnar, einfaldleikinn réði

 

 IMG_4705

Hofskirkja var reist 1884, síðasta torfkirkjan sem var byggð eftir hinu gamla formi, um aldamótin 1900 hafði bygging torfkirkna verið bönnuð á Íslandi. Hún er ein sex torfkirkna, sem enn standa og eru varðveittar sem menningaminjar. Hún er jafnframt sóknarkirkja Öræfinga. Þjóðminjasafnið lét endurbyggja kirkjuna árið 1954

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju

 

Bænahúsið á Núpsstað 1899

Bænhúsið á Núpsstað árið 1899, teikning Daniel Bruun 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Mér finnst viss fegurð í kirkjunum sem á eftir komu, og hef lengi stundað á ferðalögum að skoða kirkjur til sveita, og tek eftir að þó flest annað sé í niðurníðslu og jafnvel í eyði, þá er reynt að sinna viðhaldi á kirkjunni.

Var þetta bara ekki fortíðarrómantík sem hrjáði Nóbelinn þegar hann dásamar einfaldleika hinna horfnu torfkirkja, það er oft þá sem menn telja sig þurfa tala illa um samtímann til að upphefja fortíðina, líkt og þegar menn trúa á eitthvað erlent vald eða ríkjasamband, að þá er allt ómögulegt heima fyrir, en gyllingarnar einkenna lýsingarnar á því ytra.

En takk fyrir að deila skrifum Bruune, glöggt er gestsaugað, og ljóst er að fegurð samtímakvenna okkar er ekki nýtilkomin.

Samt tala menn niður þessa tíma, sjá aðeins harðindin, fámennið, myrkrið og skortinn.

En það var líka ljós, og menning.

Sem okkur bera að virða.

Þar með talið bústofnana sem héldu í okkur lífinu.

Sá sem sker á rætur, hann þyrlast í næsta stormi, sekkur í næstu ágjöf.  Slík verða örlög þjóðar sem aðeins foráttuna sér við þjóðerni sitt, menningu og arfleið.

Takk fyrir fróðlegan pistil sem var mjög gaman að lesa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.1.2020 kl. 19:35

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar og takk fyrir athugasemdina. Ég er alveg sammála þér hvað kirkjur nútímans varðar, og held að skáldið hafi ekki þurft að tala þær niður um leið og hann dásamaði Víðimýrarkirkju, sem er hreint og klárt listaverk og sendur fyllilega fyrir sínu.

Sjálfur set ég mig ekki úr færi að skoða kirkjur þegar ég er á ferð um landið og finnst mér þær rétt eins og þér oftar en ekki bera hirðusemi vitni og reyndar má finna í þeim mörg fögur listaverk.

Satt er það, glöggt er gests augað, og það er gaman að lesa um rannsóknir Daniels Bruun og það sem hann skrifaði um land og þjóð. Hann hafði líka með sér bæði myndavél og málara á ferðum sínum þannig að til eru myndir af því sem fyrir augu bar auk þess sem Bruun var góður teiknari.

Þegar maður les það sem skrifað er um þennan tíma af síðari tíma fræðimönnum er mjög oft vitnað í til rannsókna Bruun. Þannig að við Íslendingar eigum þessum Dana margt að þakka þegar kemur að því að þekkja þær rætur sem sem við spruttum af frá myrkri, kulda og skorti.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 5.1.2020 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband