Sýndarveruleikinn í hátæknifjósinu

Það voru sagðar fréttir af því fyrir skemmstu að austur í Rússlandi væru bændur farnir að setja sýndarveruleikagleraugu á beljur. Við vinnufélagarnir gáfum okkur tíma til að taka þessi fjósverk til umræðu í kaffitíma á morgunnandaktinni. Benti ég þeim á það sérkennilega sjónarhorn að það virtust vera orðnir fleiri ungir Rússar sem væru orðnir skólaðir í að kóða saman tölvuforrit fyrir beljur í gluggalausum bakherbergjum heldur en að hleypa þeim út úr fjósinu og njóta þess að rölta á eftir þeim út í mýri þegar þyrfti að sækja kýrnar til mjalta.

Við félagarnir á morgunnandaktinni erum um margt sérkennilegt samsafn sérvitringa, sjaldséðra iðnaðarmanna og hverfandi bænda. En eigum þó flestir þann bakgrunn að hafa sem ungir drengir valhoppað á eftir beljum milli þúfna í mýrum Héraðsins. Því erum við í raun tilvalin stýrihópur sérfræðinga um kúasmölun og teljum okkur vita upp á hár hvar í mýrinni beljum finnst best að halda sig innan um flórgoðann. En það var einmitt friðsæll hagi að sumarlagi sem var hafður í sýndarveruleikagleraugunum sem voru múlbundin á beljurnar sem vöfruðu um innilokaðar og kvíðnar á svellhálli steinsteypunni í forugum hátæknifjósunum austur á gresjum Rússíá.

Sá af okkur sem er tæknilegast sinnaður og alltaf fljótastur að sjá víðtæk not fyrir rússneskar tækniframfarir hélt að svona gleraugu gætu komið að góðum notum fyrir fjármálastjórann okkar því hún væri öfugt við okkur múlbundin fyrir framan svartan tölvuskjá allan liðlangan daginn við kvíðavænleg verkefni. Umræðurnar fóru út um þúfur nokkra stund vegna misskilnings sem stafaði af því að ég sá ekki samhengið, og hélt áfram að tala um beljur á meðan hinir veltu fyrir sér hvernig mætti þróa sýndarveruleikagleraugun áfram á þann veg að hægt væri að vinna með tölur auk þess að éta.

Eftir að umræðan komst aftur á beinu brautina þá benti einn af okkur á að ekki væri lengur í boði að hleypa beljunum út á beit því við þann gjörning féllu í þeim nytin, sem er afleitt á tímum hins heilaga hagvaxtar. Þess vegna væru sýndarveruleikagleraugu framtíðin fyrir kýr og menn. Ég móaðist við aftur í fornöld, eins og venjulega við litlar undirtektir. Þannig að ég benti vinnufélögum mínum í nauðvörn á að þeir væru flestir fábjánar sem vöfruðu um í sýndarveruleika og ættu sennilega eftir að fara sér að voða í drullufeni með sýndarveruleikagleraugu á nefinu.

Það er nefnilega ekki nóg með að þeir horfi á sjónvarp og fái sína visku þaðan heldur eiga þeir það til oftar en ekki að stara á símann í gaupnum sér og í mesta lagi reka hann í andlitið á næsta manni og segja "sjáðu", nema þá helst Pólverjarnir en úr þeirra símum glymja pólskar sápuóperur. Sem betur fer hefur ekki gefist tóm á andaktinni til að fara yfir Namibíu skjölin. Það sama á við þann sýndarveruleika unga dómsmálaráðherrans, sem er dúkkulísu líkust, að taka Samherjann á starfslok Ríkislögreglustjórans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Megi móavitið lifa, kýrnar, flórgoðinn og við

sérvitringarnar sem sjáum bara allt sem það er.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.12.2019 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband