2.6.2020 | 06:34
Arfleið Bakkabræðra
Það getur verið freistandi að ætla að eitthvað af því sem maður segir hafi áhrif. Fyrir rúmu ári síðan birtist hér á síðunni spurningin um það hvort Bakkabræður væru komnir á Þjóðminjasafnið. Ekki að ég búist beinlínis við því að starfsmenn þjóðminjasafnsins liggi lesandi á blogginu, þá virtist þessi bloggpistill minn um árlega vorferð út í byggingalist náttútunnar hafa haft áhrif.
Stuttu eftir að ég fór vorferðina í fyrra að Galtarstöðum-fram í Hróarstungu þá kom vinur minn og frændi sem býr í Ástralíu óvænt í heimsókn. Hann hafði lesið Bakkabræðra pistilinn og við erum vanir að skoða það sem íslenskast er þegar hann kemur til fósturjarðarinnar, þannig að við fórum að Galtarstöðum-fram, en þann torfbæ hafði hann ekki séð.
Það sem mér þótti merkilegt við ferð okkar frændanna var að þær breytingar höfðu orðið á, að aflóga gluggar úr húsinu með flata þakinu, -og ég hafði látið fara í taugarnar á mér í mörg ár þar sem þeir stóðu við dyrastafn torfbæjarins-, voru horfnir. Ég hafði nefnilega aldrei náð mynd af bænaum án þessara glugga ræfla, en hafði samt bjargað því með því að fá Matthildi mína til að standa fyrir framan þá þannig að hún skyggði á gluggana.
Núna um helgina fórum við Matthildur svo í þessa árlegu vorheimsókn að Galtarstöðum-fram og viti menn að nú hafði sú breyting orðið á að búið var að skera til torfið á stöfnum bæjarins þannig að hann var ekki umvafinn í sinu, en rimlahliðið sem mér varð starsýnt á í fyrra stóð eitt og yfirgefið út í mýri.
Það má kannski virða Þjóðminjasafninu það til vorkunnar hvað erfitt hefur verið að fá mannskap til að hugsa eins sómasamlega um gamla byggingararfleið þjóðarinnar eins og það hefði viljað, bæði hvað verkþekkingu varðar og vegna þess hvað viðhald torfbæja er mannaflsfrekt.
En nú ætla ég að leifa mér að vona að að einhver aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar þar sem "allir vinna" í öllu atvinnuleysinu verði færður Þjóðminjasafninu að gjöf til að varðveita íslensk menningarverðmæti.
Bæjardyrnar sinu- og gluggaræflalausar
Víða þarf að dytta að, hér eru steinar farnir að velta úr vegg
Hér gapir inn undir fjósþakið á norðurhlið, þó svo að steinar hafi verið settir sem farg þarf ekki mikið veður til að þakið fjúki og opnist inn í bæinn
Ferðin var einnig notuð til að kíkja á Borgarfjörð eystra, þar er Lindarbakki, og fyrir u.þ.b. ári síðan hitti ég þar kolleiga úr húsbyggingageiranum sem var að setja torfþak á húsið, en það hafði fokið af í rosa um veturinn. Þetta hús er í einkaeigna og þar af leiðandi mikið afrek að hafa viðhaldið því í gegnum árin. Lindarbakki á Borgarfirði-eystri var upphaflega byggður í formi þurrabúðar. Húsið er að þeirri stærð að það hefur varðveist inn í nútímann og er enn í dag notað sem íbúðarhús. Það má segi að húsið beri íslensk sérkenni á fleiri en einn veg, auk þess að vera úr torfi eru stafnarnir bárujárnsklæddir. Sennilega er þetta það mannvirki sem mest er ljósmyndað af ferðamönnum sem til Borgarfjarðar koma
Flokkur: Hús og híbýli | Breytt 27.9.2020 kl. 19:13 | Facebook
Athugasemdir
Það er til saga um það þegar fljótamenn töldu víst að bakkabræður væru frá Bakka sem er vestasti hluti fljótanna. Þá fóru svarfdælingar upp á háa c-ið og fannst þetta frekja í fljótamönnum að eigna sér bræðurna. Þeir væru frá Bakka í svarfáðardal. Fljótamenn voru fljótir að samþykkja það.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 2.6.2020 kl. 16:07
Þakka þér fyrir þessa sögu Jósef.Það þarf ekki að koma á óvart að Svarfdælingar hafi brugðist ókvæða við ef það hefur átt að stela af þeim sveitar sómanum, menn hafa nú barist í bökkum af minna tilefni.
Annars má gúggla það um þá bræður (Gísla og Eirík) að þeir hafi einnig búið á Bakka í Fljótum, þar heitið Gísli, Eiríkur, Jón og Þorsteinn og hafi einn þeirra kvænst og eignast afkomendur.
Það má segja að sagan af þeim og sólskininu í húfunum sýni vel hvað þeir voru langt á undan sinni samtíð, miðað við hvernig sólarpanelar eru notaðir nú til dags, því ætti engin að þurfa að fyrirverða sig vegna þeirra bræðra.
Nú er bara að leggjast í að lesa íslendingabókina hans Kára og kanna hverra manna maður er og hvort ekki er hægt að eigna sér einkaleyfi. Og hver hefði svo sem trúað því á sínum tíma að Bakkabræður kæmust á gúggúl?
Magnús Sigurðsson, 2.6.2020 kl. 19:12
Mér finnst nú að Bakkabræður séu algjört aukaatriði í þessu samhengi með fullri virðingu fyrir þeim blessuðum. Það sem mestu máli skiptir er varðveisla torfbæjanna eftir því sem tök eru á. Ég veit af eigin reynslu hversu erfitt er að reyna að halda við grjóthleðslum og gömlum þökum svo sómi sé að. Sérstaklega ef maður er fákunnandi en taka ber viljann fyrir verkið. Ég sé nú ekki fyrir mér að opinberar stofnanir sendi her manna um landið til þess vernda og viðhalda þessum fáu heillegu torfbæjum sem eftir standa. Það væru frekar áhugamannahópar í sjálfboðavinnu en þeir fá varla vinnufrið fyrir Minjastofnun.
sigurður bjarklind (IP-tala skráð) 3.6.2020 kl. 06:15
Fróðlegur og skemmtilegur pistill.......
Jóhann Elíasson, 3.6.2020 kl. 06:43
Takk fyrir athugasemdirnar Sigurður og Jóhann. Ég er hjartanlega sammála því að Bakkabræður eru algjört aukaatriði þegar kemur að íslenska torfbænum.
Sigurður, þú lýsir því vel við hvað er að eiga þegar kemur að viðhaldi þessara menningarverðmæta og lýsir því af fengini reynslu sem er meira en ég get.
Nei það kemur sennilega ekki til að flokkar fólks verði sendir til að viðhalda þessum byggingasögulegu verðmætum þjóðarinnar þrátt fyrir aðgerðapakka á við "allir vinna".
Eins og þú kemur inn á þá hafa fáir verkþekkinguna nú til dags, en það væri magnað ef það væri hægt að útvíkka hana í samstarfi við þá sem til þekkja og þá sem þjóðminjarnar eiga að vernda.
Af því að ég hef aðeins komist í að vinna fyrir Minjavernd, þá veit ég að þar á bæ snýst málið meðal annars um að viðhalda þekkingunni á gömlu verklagi.
Vonandi eru ekki allir komnir yfir móðuna miklu sem gamalt verklag við torf kunna,allavega má sjá listilega fallega gerða torfbæi enn þann dag í dag á Íslandi.
Magnús Sigurðsson, 3.6.2020 kl. 07:05
Bakki er ekki bær í fljótunum heldur sveit. Fljótin skiptast í Austur-Fljót, Vestur- Fljót og Bakki vestast. Það er hugsanlegt að það hafi einu sinni verið til bær sem hét Bakki en ég hef aldrei heyrt um hann.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 3.6.2020 kl. 17:42
Þakka þér fyrir innleggið Jósef, ekki hef ég verið neinn sérfræðingur í Bakkabræðrum. En það skemmtilega við bloggið eru athugasemdirnar, líkt og frá þér, þær veita manni upplýsingar um það sem maður hafði ekki hugmynd um. En ég gæti trúað að það sé rétt hjá þér að einhvertíma hafi verið til bær í Fljótum, þar sem nú er talað um Bakkasveit, sem hafi heitið Bakki.
Þegar maður gramsar í gúggúl þá kemur upp heilmikið upp um þá Bakkabræður í Fljótum og hve mikið hitamál þarna hefur verið á ferð á sínum tíma. Það er gaman að hafa getað fræðst svona mikið um Bakkabræður vegna lítillar athugasemdar frá þér, þó þetta sé náttúrulega einskisverður fróðleikur þannig séð.
"Bakkabræður eru þjóðsagnapersónur, frægar fyrir atferli sitt og frábæra heimsku. Sveitfesti þeirra hefur verið nokkurt deilumál því ýmsir hafa viljað eigna sér Bakkabræður, Fljótamenn, Svarfdælingar og jafnvel Öxndælir. Elsta prentaða gerð sagnanna um Bakkabræður er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar sem prentaðar voru árin 1862 og 1864. Handrit þeirra sagna var skrifað af utansveitarmanni, Jóni Borgfirðingi, og lætur hann þá vera frá Bakka í Svarfaðardal. Guðbrandur Vigfússon las hinsvegar prófarkir af sögunum, sem voru prentaðar suður í Leipzig, og hann hefur bætt við neðanmáls; Mun eiga að vera Bakki í Fljótum og vitnar í fyrsta árgang tímaritsins Ármann á Alþingi, prentaðan 1829, sem skrifaður var af Baldvin Einarssyni frá Hraunum í Fljótum. Baldvin segir þar um Sighvat sem er einn sögumanna ritsins: „Enginn getur sagt það um hann Sighvat að hann sé heimskingi og þó er sagt að hann sé ættaður úr Fljótum í Skagafirði sem ætíð hefur verið í munnmælum jafnað saman við Flóa að aulahætti eins og stefið sannar: Tvær eru sveitir, Flói og Fljót/sem flestir saman jafna.
Eftir að þjóðsögurnar komu út 1864 hóf Jón Norðmann prestur á Barði að safna saman og skrá af Bakkabræðrum margar sögur sem lifandi voru í Fljótum um miðbik 19. aldar og tengir prestur þær tvímælalaust við Bakka á Bökkum. Rekur hann ætt frá Gísla Bakkabróður til Guðmundar Bjarnasonar bónda á Miðmói 1864, en eitthvað mun þó vanta í þá ættfærslu. Nefnir Jón 14 sögur (sem eg man víst eftir að eg hafi heyrt um Bakkabræður).
Álitið er að faðir Bakkabræðra hafi búið á Bakka á öndverðri 17. öld og heitið Þorsteinn. Synirnir hétu Eiríkur, Þorsteinn, Gísli og Jón. Þeir bræður voru ákaflega samrýmdir svo að þegar einn ávarpaði annan höfðu þeir jafnan sama formálann; Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón. Þrír þeirra létust af slysförum sem rekja verður til frámunalegrar óaðgæslu og vitsmunaskorts.
Fyrsti bróðirinn slysaðist með þeim hætti að þeir voru á sjó allir saman þegar einn þeirra dró brettingshákarl og urðu þeir ráðalausir með að innbyrða hann. Loks fer einn þeirra til og rekur ofan í hann handlegginn og ætlar að kippa honum inn á tálknunum. En hákarlinn beit þegar af honum handlegginn og rak þá maðurinn upp hljóð. Þá segir einn hinna; Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, hann hljóðar. Hann hljóðar af fögnuði, segir annar. Áður en þeir komust í land var maðurinn dauður, og urðu þetta ævilok fyrsta bróðurins.
Einhvern tímann síðar fara bræðurnir þrír upp í fjall að rífa víði til kolagerðar. Rífa þeir nú í ákafa og binda í stóra byrði sem þeir ætla að velta ofan, en verða þá mjög hugsi hvernig þeir geti látið byrðina velta beint ofan að Bakka. Loks segir einn þeirra; Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, ég sé ráð til þess: Bindiði mig á byrðina, ég skal stýra henni heim að Bakka. Að þessu ráði fengnu bundu þeir hann á byrðina, veltu henni svo ofan og lauk þar ævi hans.
Nú voru þeir Jón og Eiríkur dauðir en Þorsteinn og Gísli bjuggu áfram á Bakka og byrjuðu sem fyrri ræður sínar með orðunum; Eiríkur, Gísli, Þorsteinn, Jón. Þau urðu ævilok Gísla að hann drukknaði í Stafá á mörkum Reykjarhóls og Heiðar. Sú á er að jafnaði hrælítil og hét þar síðan Gíslavað, en Þorsteinn bjó á Bakka til elliára með konu sinni einsýnu Gróu. Ekki kunna menn lengur til víss að benda á Gíslavað.
Árið 1703 bjó á Bakka Þorsteinn Eiríksson 47 ára ásamt Guðrúnu Jónsdóttur konu sinni og þremur börnum þeirra. Þar var þá einnig búandi Þorkell Gíslason 31 árs og systir hans Guðrún Gísladóttir, 36 ára vinnukona bróður síns. Ekkert er kunnugt um ættir þessa fólks. En það er í meira lagi athyglisvert að þessi nöfn, Þorsteinn, Gísli og Eiríkur, skuli saman komin á Bakka árið 1703. Faðir þeirra Bakkabræðra skal hafa heitið Þorsteinn, en þrjár af söguhetjunum Gísli, Eiríkur og Þorsteinn. Ef þetta er helber tilviljun má hún kallast stórundarleg."
(Byggðasaga Skagfirðinga 8. bindi bls. 277)
https://www.feykir.is/is/frettir/bakkabraedur-byggdasogumoli
Magnús Sigurðsson, 3.6.2020 kl. 21:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.