7.6.2020 | 06:16
Blítt við voginn
Sjómannadagsins er minnst víða um land í dag. Þessi dagur er þó tæplega eins afgerandi hátíðisdagur nú og hann var á árum áður, þó svo að tilhneig hafi verið í seinni tíð að láta hátíðarhöldin ná yfir heila helgi. Jafnvel tala um hátíð hafsins eins og hefur verið til siðs í höfuðborginni síðustu ár, sem nú er aflýst eins og svo mörgu öðru í béfuðu kóvítinu og svo er sennilega víðar um land með hátíð til heiðurs sjómönnum.
Það má segja að síðuhafi hafi minnst sjómannadagsins í gær og horft með söknuði til fyrri ára þó svo að depurðin hafi síður en svo verið til staðar. En í gær fór ég með henni Ævi tveggja og hálfs árs dóttur dóttur minni til að skoða bátana í hennar heimabæ, Djúpavogi. Þar hlupum við eftir trébryggjunni og tíndum svo upp í okkur hundasúrur á eftir við Faktorshúsið neðan við Löngubúð í sumarsól og norðangolu.
Matthildur mín og Systa höfðu farið til jarðafarar, en við Ævi að skoða báta. Þarna rifjuðust upp fyrir mér sjómannadagar fyrir 30 árum síðan eða svo, þá með börnunum okkar á svipuðum aldri og Ævi er nú að sýna afa báta niður á bryggju. Þar sem hún fékk bæði að hlaupa eftir bryggjunni og hundasúrur, í bónus hjá afa sínum.
Systa dóttir mín hafði séð til bryggjuferðarinnar og komið til móts við okkur, og Matthildur spurði hvort hún hefði ekki sett ofan í mig vegna bryggju hlaupa barnsins. En það hafði hún Systa ekki gert, sennilega munað eftir því á leiðinni að hafa komist alla leið niður í bát til afa síns á svipuðum aldri og Ævi, alveg athugasemda laust.
Þeir voru hátíðlegir sjómanndagarnir í minningunni þó svo að mínum sjómannsferli væri ekki merkilegum fyrir að fara, enda landkrabbi af landkröbbum kominn, og er enn að velta fyrir mér svari sem ég fékk við að óska hetjum hafsins til hamingju með daginn einn sjómannadag í denn; "til hamingju með daginn sjálfur".
Einn sjómannadaginn á Djúpavogi var ákveðið að heiðra þrjá aldna sægarpa, þá Sigurð Jónsson (Sigga Bessa í Dagsbrún), Stefán Aðalsteinsson (Stebba Svala í Sæbóli), og Jón Antoníusson tengdaföður minn í Sólhól. Þessi fyrirhugaða heiðursathöfn lagðist þungt í Jón, hann sagðist ekki kæra sig um að honum væri gert hærra undir höfði en öðrum sjómönnum fyrir að hafa stundað vinnu sína, hvað þá að það væri verið að segja af honum hálfgerðar grobbsögur með viðhöfn.
Þar sem það hafði þegar spurst út hverja ætti að heiðra var ekki aftur snúið hjá sjómanndagsnefnd Djúpavogs. Þegar athöfnin fór fram, þar sem bæjarbúar voru saman komnir á einum mesta hátíðisdegi þorpsins, var enginn Jón til að taka á móti sinni viðurkenningu hvað þá til að hlusta á erindin sem voru flutt þessum sægörpum til heiðurs. Eftir smá vandræðagang var Systu ýtt farm til að veita móttöku viðurkenningu afa síns. Sennilega vegna þess að hún ber nafn Snjófríðar ömmu sinnar, fyrrum húsmóður í Sólhól.
Þegar við nálguðumst Sólhól eftir dagskrána á þessum sólskinsbjarta sjómannadegi er ég ekki frá því að við Matthildur mín höfum hugsað með dálitlum kvíða það sama. Það hafði verið tekið fram fyrir hendurnar á hinum 73. ára sægarpi í Sólhól, medalíu veitt viðtaka og skrautrituðu viðurkenningarskjali, sem hann hafði lýst skýrt og skorinort yfir að hann kærði sig ekkert um að honum yrði veitt umfram aðra.
Það hafði ekki verið að okkar frumkvæði að Systu var í skyndingu falið móttökuhlutverkið. Aftur þennan sjómannadag var börnum falið að leysa vandræði. Jón var að setja niður kartöflur þegar við komum heim, en sjómannadagurinn var einn af fáum dögum ársins sem hann réri ekki til fiskjar ef gaf. Í ráðaleysi okkar sögðum við Sigga og Systu að færa afa sínum herlegheitin út í kartöflugarð.
Þegar þau komu til afa síns sagði Systa; "afi sjáðu hvað við komum með handa þér". Jón beygði sig niður til þeirra til að skoða það sem þau færðu honum, klappaði þeim svo á kollana, reisti sig upp og sagði "kom það þá samt", og aldrei orð um þær medalíur meir. Mér er ekki kunnugt um annað en sjómannadagurinn 1991 hafi verið sá eini þar sem sjómenn voru nafngreindir sérstaklega í heiðursskini á Djúpavogi, svo kannski var hlustað á Jón í Sólhól eftir allt saman.
Ég ætla samt að leifa mér að óska hetjum hafsins til hamingju með daginn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.