Kill Bill

Það má segja að ferðaþjónustan hafi fengið sína opinberu grafskrift þegar ríkisstjórnin ákvað 15.000 kr skimunargjald s.l. föstudag. Svona nokkurskonar Kill Bill. Auðrónar heimsins verða ekki nægilega margir í ferðahug til þess að unnt sé að halda opnum hótelum og veitingastöðum víða um land. 

Þó svo að Ísland hefði verið opnað án nokkurra breytinga, frá því sem var fyrir kóvítið, þá hefði ekki þurft að óttast það að smitaðir ferðamenn flykktust til landsins. Sennilega verða 5.000 kallinn, 15.000 kallin og hlutabætur vitnisburður framtíðarinnar um víðáttuheimsku  sjálftökuliðsins þegar það setti ríkissjóð á hausinn ferðaþjónustunni til verndar. 

Undanfarnar vikur hefur mátt sjá vaxtarsprota atvinnulífsins víða um land sölna rétt fyrir uppskerutímann. Hver smábærinn um annan þveran er líkastur draugabæ. Dreifðar byggðir sem höfðu misst kvótann um síðustu aldamót, og nánast allt bjargræði, höfðu tekið upp á því að blómstra í ferðaþjónustunni, þessir vaxtarbroddar eru nú að visna og deyja.

Það kann að vera að mörgum finnist ekki 15.000 kall mikið þegar kemur að því að ferðast til Íslands. En ef menn ætla að taka hann úr eigin vasa þá getur hann skipt sköpum. Síðuhafi var að velta fyrir sér ferðatilboði með Norrænu til Færeyja yfir há sumarið þar sem boðið er upp á siglingu með bílinn og lúxusklefa um borð á ca. 70.000 á mann, sem er "low seasons" verð. En að viðbættum 15.000 kalli ríkisstjórnarinnar við komuna til Íslands verður tilboð Færeyingana ekkert sérstaklega ákjósanlegt.

Við vinnufélagarnir höfum oft talað um það að undanfarin ár hafi verið þau skemmtilegustu sem við höfum átt sem iðnaðarmenn um ævina. Ferðaþjónustan hafi verið besta bólan, að því leiti að nóg var að gera á veturna við skemmtileg verkefni, en okkar nærveru ekki óskað yfir há sumarið, þannig að við gátum tekið sumarfrí. Fyrir ferðamanna bóluna þurfti að þreyja  þorrann og góuna við verkefnaleysi og ná niður yfirdrætti vetrarins á sumrin.

Það eru miklar breytingar í vændum á Íslandi, nú þegar má aka um draugabyggðir allan hringinn. Í uppsiglingu er að sjálfsþurftabúskapur og augnakropp taka við, og má þá búast við að "Samherji frændi" eigi eftir að ásælast strandveiðina sem hjálpaði mörgum smábænum í síðustu kreppu og margur "Engeyingurinn" telji sig eiga um sárt að binda.


mbl.is „Sumarið meira og minna úti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sá sem hætti við að koma til Íslands út af 15.000 kr. skimunargjaldi var aldrei að fara að færa neitt mikið inn í íslenskt hagkerfi hvort sem er. Þeir sem eru að fara að eyða miklum peningum hérna líta hins vegar á 15.000 kr. sem smáaura og setja það ekki fyrir sig.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2020 kl. 22:24

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Guðmundur, ef þér hefur fundist þessi pistill fjalla um auðróna í íslensku hagkerfi þá verð ég biðja þig um að lesa hann aftur, með það í huga að það var meiningin að hann fjallaði um venjulegt fólk. En þakka þér bæði fyrir spekina og innlitið.

Magnús Sigurðsson, 9.6.2020 kl. 05:36

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Magnús, ég tek undir með Guðmundi.  Í einu orðinu þykjast yfirvöld vilja fá ríka túrista, en í hinu að sturta þeim inn í massavís. 
Nú veit ég auðvitað ekki hvernig þetta gengur á landsbyggðinni, en hér í borg hefur td miðbæjargötum verið lokað svo túristarnir þurfi ekki að nota gangstéttir.  Hvort sem þeir eru þess virði eða ekki.  Borgarbúar eru ekki sáttir, vægast sagt.
Sjálf bý ég í útjaðrinum á svæði 101 og í nágrenninu er mikill bílastæðavandi á hávertíðinni því túristarnir eru býsna margir á bílaleigubílum, þótt annað mætti halda.

Kolbrún Hilmars, 9.6.2020 kl. 12:31

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Kolbrún, hvort yfirvöld geta haft eitthvað um það segja hverskonar túraistar koma til landsins er ekki gott að segja. Það má kannski segja sem svo að ISAVIA ohf hafi átt að þurfa að setja það í umhverfismat þegar ofuráhersla var lögð á að gera KEF að transit flugvelli og fjöldi flugfélaga sem flaug til landsins stórjókst. Þó svo það væri ekki nema vegna umhverfisáhrifa þotuslóðaanna sem strika út himininn fyrir þeim sem búa á jörðu niðri svo sjaldan sem sést til sólar.

Sjálfur hef ég ekki trú á að "ríkir" ferðamenn séu æskilegri en aðrir, mér hefur skilst að meðalhófið sé best í því sem mörgu öðru og bestu ferðamennirnir séu venjulegt fólk sem hefur jafnvel þurft að hafa fyrir því að safna sér fyrir sinni Íslandsferð, því Ísland er ekki ódýrt fyrir neinn, ekki einu sinni íbúa þess þó þeir virðist í alþjóðlegum samanburði vera á ofurlaunum.

Þessi 15.000 kall, og skimunin er byggt á hreinum vúddúvísindum. Og ekki bara það, þetta er blaut tuska framan í fjölda venjulegs fólks sem hefur lífsafkomu sína af ferðaþjónustu og hefur jafnvel lagt allt sitt undir. Og við skulum ekki gleyma því hvað tosaði okkur upp úr "hinu svokallaða hruni" um árið.

Það eru ekki bara erlendir ferðamenn sem eiga að greiða 15000 kallinn það á líka við Íslendinga þegar komið er til landsins úr sínu ferðalagi. En það má kannski segja að sú fjölskylda sem ekki hefur efni á að greiða 15000 kalla á haus í skimunargjald heima hjá sér hafi ekkert út fyrir landsteinana að gera.

Hérna á mínu landshorni höfum við ekki orðið vör við að það þurfi að loka götum túristana vegna, ekki það að ég haldi að þeir séu almennt ríkari sem hingað koma. Við höfum samt reynslu af einum ofurríkum, sá kemur yfirleitt á tveimur einkaþotum annarri fyrir sig hinni fyrir vinina.

Ég hef ekki heyrt að hann hafi skilið mikið eftir sig í vösum venjulegra ferðaþjónustuaðila, því hann kaupir það sem hann hefur áhuga á með húð og hár. Hefur lagt undir sig mest allan Vopnafjörð og er á góðri leið með að þenja sig út í Þistilfirði auk þess að vera búin að kaupa Grímsstaði á fjöllum og heiðarbýlið Háreksstaði.

Þetta er náttúrulega allt í friði og spekt hérna úti á landi því öllum er frjálst að flytja suður, þegar allt er komið auðn, og kemur sennilega hvað best út í íslensku hagkerfi hins frjálsa flæðis. Það er spurning hvort þið Guðmundur ættuð ekki að huga að því að koma ykkur upp svona ríkum túrista í höfuðborginni. 

Magnús Sigurðsson, 9.6.2020 kl. 14:54

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Magnús, það hjálpar landsbyggðinni lítið að milljónum túrista sé sturtað  inní höfuðborgina. En þannig upplifum við íbúar þennan ferðamannabransa.
Þótt einn og einn slæðist svo út á land skiptir það hvorugt okkar Guðmundar miklu máli.
Hvort landsbyggðin gæti gert betur veit ég ekki, en það eru jú alþjóðaflugvellir á Akureyri og Egilsstöðum, og við syðra yrðum jafnkát og þið eystra og nyrðra ef strauminn legði þangað.  :)

Kolbrún Hilmars, 9.6.2020 kl. 15:20

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Kolbrún, nú verð ég að biðja þig, eins og Guðmund, um að lesa pistilinn aftur og fréttina sem hann er tengdur við.

Magnús Sigurðsson, 9.6.2020 kl. 15:37

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Veit hvað þú átt við,Magnús, þe kvótinn/fiskveiðarnar og þar erum við sammála.  En þú lagðir svo mikla áherslu á túrismann í pistlinum að það mál skyggði á hitt. 

Kolbrún Hilmars, 9.6.2020 kl. 17:04

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég á við það að þjónusta við ferðamenn hefur orðið mikil lyftistöng fyrir fjölda byggða úti á landi sem misstu frá sér fiskveiðiheimildir. Flest ferðaþjónustufyrirtækin í þessum byggðum eru lítil og rekin af heimafólki.

Undanfarin ár hefur verið mun fleira fólk í landinu en hér býr, matvælaframleiðslan hefur m.a. smá saman verið að taka mið af því og hún fer að mestu fram í hinum dreifðu byggðum.

Það mun hafa verulega neikvæðar afleiðingar að ferðamenn hverfi ekki bara við göngugöturnar í Reykjavík. En það hefur ríkt hálfgerð "Þórðargleði" gagnvart ferðaþjónustunni á samfélagsmiðlum. 

Enda hefur hún ekki verið sniðinn að landanum undanfarin ár. Það sem íslenskir ferðamenn eiga svo eftir að átta sig á er að þjónustustigið víða um land á eftir að hrapa, það er ekki einu sinn víst að þeir komist á klósett þó þeir séu tilbúnir að borga fyrir það.

Það eru ekki nema þrír mánuðir síðan sóttvarnalæknir sá ekki nokkra ástæðu til að hefta för ferðamanna frekar en skólabarna. En fjöldin hefur kallað eftir fasískum aðgerðum eftirlitsþjóðfélagsins þar sem ferðamenn eiga m.a. að greiða stórfé fyrir skimanir byggðum á vúddúvísindum kommúnistana í Kína.

Magnús Sigurðsson, 9.6.2020 kl. 19:22

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Magnús, það er alveg rétt að byggðirnar úti á landi njóta molanna af túrismanum og eiga það skilið.  Stóra vandamálið er bara að í höfuðborginni er of mikið af ferðamönnum.  Mögulega mætti jafna það með átaki í samvinnu við landsbyggðina.
Danir eru greinilega á þeim nótunum líka, því erlendir ferðamenn mega nú ekki gista í höfuðborginni, Kaupmannahöfn.   

Kolbrún Hilmars, 10.6.2020 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband